14.2.2025 | 16:01
Bílar fólks verða óökufærir á vegunum.
Er haft eftir bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar.
Ef það er til betri lýsing á fjórða-heimsríki þá er það þessi staðhæfing trúnaðarmanns almennings fyrir vestan, þar sem hryðjuverk vegagerðarinnar í nafni umhverfisverndar, bitna einna harðast á almenning.
En sem hluti af samfélagi þar sem raunveruleikinn, staðreyndir lífsins hafa fyrir löngu lútið í gras fyrir almennu kjaftæði Rétthugsunarinnar, sem á útlensku er kennt við Vók, þá skortir bæjarstjóranum kjarkinn sem hinn venjulegi hefur, og ég vitnaði í síðasta pistli mínu;
"Það er eitthvað mjög sérstakt í gangi í þessum fræðum hjá Vegagerðinni. Það er ekki hægt að skýla sér endalaust á bak við veðráttu og að efni sem áður voru í notkun white spirit séu ekki lengur í notkun. Það séu lífræn efni sem eru notuð núna í þessar klæðningar. Þetta veldur stórtjóni á stóru bílunum og eiginlega öllum bílum".
En gat engu að síður ekki þagað, orð sem segja eiginlega allt þegar haft er í huga að við lifum í samfélagi þar sem rugl og blaður, almenn vanhæfni og óskilvirkni er norm, ekki fáheyrð undantekning.
"Og það er alveg athugunarefni af hverju það er að gerast".
Já, það má alveg fara að spá í það, er það ekki???
Þessa athugasemd fékk ég við fyrri pistil minn þar sem ég spáði í af hverju er fólk út á landi yfir höfuð að hafa fyrir því að kjósa sér þingmenn, um leið og þeir eru komnir suður þá hverfa þeir í ginningargap forheimskunnar, dansa með vitleysunni sem ógnar tilveru okkar í stað þess að taka hana glímutökum af fornum sið afreksmanna og hetja sem einu sinni riðu um grundu.
"Keyrði nýja veginn um Teigskóg í fyrra og leið eins og væri á gömlum vegi sem var illa viðhaldið, svo margar voru holurnar. ".
Já nýi vegurinn var eins og eldgamall vegur, illa viðhaldið, sem stemmir alveg, þegar hann var nokkra vikna gamall þá þoldi hann ekki umferð gangandi vegfaranda á gönguskóm.
Það sama gildir um nýju klæðninguna sem lögð var á stóran hluta Öxnadalsheiði, ég keyrði hana nýlagða, og sá strax hvað hún var hál vegna matarolíunnar sem leitaði uppá yfirborðið. Ári seinna birti Rúv frétt um erlendan hjólreiðamann sem spændi upp þessa nýlögðu klæðningu á reiðhjóli sínu.
Og hann spurði hvort það væri ekki allt í lagi með okkur.
Hvernig er hægt að verða svona samdauna fávisku og forheimsku??
Að við Íslendingar séum eina þjóðin í heiminum sem getur ekki lagt nýja vegi, eða endurnýjað klæðningu á þeim eldri, án þess að þeir séu ónothæfir rétt á eftir??
Og ef matarolían þó heldur bindingunni, að þá eru þeir slepjuleg olíudrulla, hættulega hálir í bleytu, bílar okkar tjörusvartir á eftir.
Eru hvergi hitabreytingar annars staðar í heiminum nema á Íslandi??
Og afhverju skiptu þessar hitabreytingar ekki máli á árum áður, við sem eldri erum munum alveg eftir því að nýir vegir með nýlagðri klæðningu voru nýir vegir, samgöngubót, sem þoldi bæði bíla, reiðhjól og gönguskó.
Hvaða úrkynjun mannlegrar hugsunar er að afneita þeim staðreyndum??
Þetta er ekki fyrsti pistillinn sem ég skrifa um þessi ónýta vegi Rétthugsunarinnar.
Fyrir nokkrum árum fékk ég athugasemd sem mér þótti fyndin í kaldhæðni sinni. En sá sem hana sendi benti mér á að hann hefði nýverið á ferð um fjalllendi Ítalíu, og þar hefðu heimamenn sums staðar ennþá notað vegi sem hinir fornu Rómverjar lögðu fyrir um 2.000 árum síðan.
Og það sæist varla á þeim.
Eitthvað hefur greinlega farið úrskeiðis í verkkunnáttu síðan, allavega hér á Íslandi.
Það er umhugsunarefni.
Það umhugsunarefni að þetta snýst ekki um tækni, heldur hugarfar.
Hugarfar þeirra sem leggja vegina.
Og hugarfar þeirra sem kaupa vegina.
Kaupi menn ónýta vegi þá hljóta þeir að vera sáttir við þá.
Spurningin er hins vegar; Af hverju erum við sátt??
Við ónýta vegi Rétttrúnaðarins, við skemmdir á bílum okkar, við vanhæfa þingmenn sem gæta ekki hagsmuna okkar.
En ég segi bara eins og blaðamaðurinn sagði í annarri frétt hér á Mbl.is.
Jens, ertu að fara í varaformanninn??!!!
Firring sem segir allt sem segja þarf.
Kveðja að austan.
![]() |
Stórhættulegir vegir og fólk búið að fá nóg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2025 | 07:48
Til hvers kýs fólk á landsbyggðinni þingmenn??
Til að gæta hagsmuna sinna??
Eða til þess að blaðra??
Um allt og ekkert, án innihalds og tilgangs.
Það er vegið að landsbyggðinni, alvarlegra nú en oftast áður.
Vanvit kemst upp með að þrengja að Reykjavíkurflugvell þannig að hann gegnir vart lengur hlutverki sínu, trén í Öskjuhlíðinni eru aðeins síðasti kaleikurinn í þeim beiska bikar.
Og loftslagstrúarbrögðin komast upp með sóa fjármunum almennings með því að leggja ónýt efni á nýja vegi þjóðarinnar.
Með þekktum afleiðingum, nýju vegirnir eru hálfónýtir þegar þeir eru teknir í notkun, endast svo ekkert.
Hvað þarf að segja þessa staðreynd oft, þú blandar ekki matvælum við bik, það er engin binding í repjuolíunni.
Hvað er á milli eyrnanna á fólkinu sem framkvæmdir þessa vitleysu, og heldur að það sé umhverfisvænt og hvað er á milli eyrnanna á fólki sem líður þessa vitleysu??
Morgunblaðið má eiga að það vitnar þó í orð venjulegs manns, lætur sér ekki duga að hringja í skaðvaldinn og fá sama staðlaða svarið; Nei, það er ekkert að vinnubrögðum okkar, og við erum svo umhverfisvæn.
Og þessi orð hins venjulega segja allt; "Það er eitthvað mjög sérstakt í gangi í þessum fræðum hjá Vegagerðinni. Það er ekki hægt að skýla sér endalaust á bak við veðráttu og að efni sem áður voru í notkun white spirit séu ekki lengur í notkun. Það séu lífræn efni sem eru notuð núna í þessar klæðningar. Þetta veldur stórtjóni á stóru bílunum og eiginlega öllum bílum".
Þessi vinnubrögð vegagerðarinnar eru hryðjuverk gagnvart íbúum landsbyggðarinnar og þar með verðmætasköpun þjóðarinnar.
Það er þetta sem hryðjuverkamenn gera; eyðileggja innviði, valda tjóni, trufla samgöngur.
Og þingmenn okkar þegja, eins og hræddar kanínur, skjálfandi á beinunum af ótta við að gáfumennin fyrir sunnan hlæi að þeim, bendandi á þau og segi; hvílíkir sveitamenn, vilja hafa samgöngur í lagi.
Aðförin að flugvellinum okkar, aðför loftslagstrúarbragðanna að vegakerfi okkar.
Það eru ekki brýnni mál sem snerta hagsmuni landsbyggðarinnar, varðandi búsetu og öryggi.
Og menn þegja.
Steinþegja.
Nema jú það á víst að ræða trjágróðurinn í Öskjuhlíðinni á næsta nefndarfundi einhverjar nefndar.
Liðleskjur.
Kveðja að austan.
![]() |
Við komum ekki aflanum í burtu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 14. febrúar 2025
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.2.): 245
- Sl. sólarhring: 1126
- Sl. viku: 4821
- Frá upphafi: 1422879
Annað
- Innlit í dag: 219
- Innlit sl. viku: 4249
- Gestir í dag: 213
- IP-tölur í dag: 212
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar