Þakkað fyrir vel unnin störf.

 

Og þar með er fyrsta færslan komin á þessu bloggi sem ég hef haldið úti í um 15 ár, sem fjallar um eitthvað sem er mér persónulegt því þeim sem er þakkað fyrir vel unnin störf, Mikael Nikulásson, var þjálfari strákanna minna, reyndar þurfti annar að hætta vegna síendurtekinna höfuðmeiðsla en hinn hélt áfram harkinu.

Skrifa þessa færslu því það hvarflar að mér að bakari sé hengdur fyrir smið.

Dreg ekki í efa pirringinn en pirringur stafar af ýmsu.

 

Til dæmis vanfjármögnun þar sem máttarstálpar samfélagsins, auðfyrirtækin sem hafa þegið svo margt frá samfélaginu, aðstöðuna, hafnirnar, orkuna, telja slíkt ekki kalla á skyldur og ábyrgð.

Álverið okkar er ryðguð áldós, margfalt lýti í landslaginu, sýgur til sín en gefur fátt til baka annað en mengun sem má glögglega sjá á kolryðguðum þaki Fjarðabyggðarhallarinnar, nokkrum kílómetrum í burtu.

Það eina sem maður í raun tekur eftir eru kostaðar glansauglýsingar og fréttaumfjöllun í héraðsblaði okkar Austfirðinga, Austurglugganum, þú fæðir höndina sem gæti þó sagt satt um þig.

Síðan er það alltaf sami brandarinn þegar uppsjávarhluti Samherja, Síldarvinnslan kynnir samfélagsstyrki sína, miðað við umfang og hagnað hefði jafnvel Jóakim Aðalönd skammast sín, hann var þó fastheldinn á aurinn. 

 

Samfélag, sem allt er sogið úr, en fáu skilað til baka, er ekki sterkt samfélag.

Samt er sterkt samfélag með öflugum innviðum fyrir fjölskyldufólk, forsenda þess að hægt sé að ráða ungt og vel menntað fólk til starfa í hinum dreifðu byggðum landsins.

Á þetta benti Róbert Guðfinnsson á þegar hann benti sveitarstjórnarfólki í Fjallabyggð á að það væri til lítils að halda úti hátæknifyrirtæki á Siglufirði, ef hugarfar og innviðir væru eins og i þriðja heims samfélagi.

Það þarf nefnilega að hlúa að því sem gerir samfélög byggileg fyrir ungt fólk.

 

Byggðin mín Fjarðabyggð er byggð sem er að daga uppi innan frá.

Samt erum við með þessa flottu skóla, þetta yndislega starfsfólk sem starfar í skólum okkar, á hjúkrunarheimilum, með þann kjarna mennskunnar sem á að vera nægur til að hér sé gott að búa, það er í raunheimi en ekki í sýndarveruleik hinna aðkeyptu auglýsinga.

Og hér er gott að búa og hér er gott að ala upp börn.

Betri stað gat ég ekki fundið til að fóstra strákana sem núna eru að fljúga að heiman.

 

En það eru innanmein sem eru líkt og drepið í kjarna fallegs reynitrés, sem vega að rótum og vexti.

Innanmein sem snúa að stjórnkerfinu sem og því að það hefur ekki tekist að sameina hinar fornu byggðar sem bera upp sveitarfélagið um hið sameiginlega sem við eigum í dag.

Og auðfyrirtækin eru stikkfrí, þau sjúga en skila svo fáu til baka.

 

Í stað þess að feisa vandann er auðvelt að þakka mönnum fyrir vel unnin störf.

Að afleiðing uppdráttarsýkinnar sé þeirra en ekki þar sem ábyrgðin liggur.

 

Fótbolti er jú lífið eftir að salfiskurinn dó drottni sínum gegn ofurþunga tímans.

Fótboltinn endurspeglar líka lífið.

Hann er öflugur í öflugum samfélögum.

 

Í samfélögum þar sem fyrirtæki skila til baka.

Þakka fyrir og kunna að meta.

Eitthvað sem hefur greinilega klikkað í byggðinni minni.

 

Ég þakka samt Mækaranum fyrir góð störf.

Einlæglega.

 

Því maður á að þakka fyrir það sem er þakkarvert.

Kveðja að austan.


mbl.is Eggert stýrir KFA út leiktíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2024

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1373012

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband