Sá hæfasti fær loksins athygli.

 

Er það vel, því það segir að það er ennþá von um framtíð þjóðar okkar í landinu okkar fagra.

Sjálfstæðið hefur gert okkur það sem við erum, án sjálfstæðis verðum við aðeins útnári, verbúð þar sem láglaunavinnuafl yrkir miðin og landið

Vissulega þróun sem er löngu hafin, en þróun sem er hægt að stöðva beri okkur gæfu til að standa saman.

 

Ég vil skora á alla læsa að lesa viðtalið við Arnar Þór í Mogganum, og alla sem heyra, að hlusta á viðtal Spursmála Mbl.is við hann.

Og kjósa svo eftir sinni Innri rödd, ekki eftir einhverri hræðslupólitík að kjósa gegn einhverjum, eða kjósa sakleysi auglýsingastofunnar í þeirri trú að þá sé maður að kjósa gegn valdaelítunni.

Aðeins einn maður býður sig fram gegn valdabandalagi Brussel og stjórnmálastéttarinnar, aðeins einn maður hafði kjarkinn til að segja það sem þarf að segja hvað það valdabandalag er að gera sjálfstæði þjóðarinnar.

 

Þegar ég vissi að Arnar Þór ætlaði að taka slaginn, þennan vonlitla slag um sjálfa tilveru okkar sem þjóðar, þá viss ég hverjum ég myndi greiða atkvæði í komandi forsetakosningum, og af hverju. 

Samdi pistil; Vér Sjálfstæðismenn sem útskýrir val mitt og afstöðu.  Læt hann fylgja með hér fyrir neðan.

 

Vér Sjálfstæðismenn.

Búum að arfleið þeirra áa okkar sem töldu ytra helsi aldrei vera valkost fátækrar þjóðar langt út í ballarhafi, þó í helsinu gæti falist öryggi, og í jafnvel í núinu, meiri velmegun en fyrstu skref frelsisins buðu uppá.

Þjóðskáldið okkar orðaði þessa hugsun, þessa frelsisþrá, svo ekki verður betur gert;

"En þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima".

 

Ég hygg að í þessum orðum hríslist kjarni framboðs Arnar Þórs Jónssonar.

 

Ég veit líka að þó margir áar okkar sem voru Sjálfstæðismenn, þá gengu þeir ekki allir í Sjálfstæðisflokkinn þegar hann var stofnaður, þar réði sá margbreytileiki stjórnmálaanna sem kenndur er við hægri og vinstri, og allt þar á milli.

Samt er þar arfleið Sjálfstæðisflokksins sterk, stofnendur hans voru Sjálfstæðismenn, þeir sem tóku við kefli þeirra voru Sjálfstæðismenn, og sú hugsjón mótaði flokkinn og forystu hans mest alla síðustu öld, og að kjarna í byrjun þessarar.

Það voru Sjálfstæðismenn í Seðlabanka og ríkisstjórn eftir fjármálahrunið 2008 sem vörðu sjálfstæði þjóðarinnar með neyðarlögunum, bara það eitt réttlætti stofnun Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmum 94 árum síðan.

 

Samt er eins og síðasti Sjálfstæðismaðurinn hafi gengið úr flokknum í dag.

Kannski tímanna tákn núna á tímum gervigreindar og óreiðu, þegar mennskan sjálf er á höggstokknum, þá eru forn gildi eins og frelsi og sjálfstæði, jafnt fjöldans sem ríkja, löngu hent fyrir ætternisstapa.

Samt dálítið grætilegt fyrir okkur Hriflunga sem höfum Bjart í Sumarhúsum í frændgarði okkar, og skiljum um hvað Sjálfstætt fólk fjallar, svo ég vitni í aðra skáldsögu Halldórs Laxness.

 

Eitt sinn forni fjandi, dó örendi, ekki að okkar völdum, heldur fyrir þeirri framþróun tímans sem stíft afmáir mennsku á altari tækni og afstæðishyggju.

Maður átti kannski ekki von á þessu, en auðvitað var þetta fyrirséð.

Á tímum þar sem ráðafólk veit ekki einu sinni hvernig lífið verður til.

Hæðir söguna, eyðir henni með síbendandi putta fordæmingarinnar; að "svona erum við ekki, svona gerum við ekki", ekki að rétttrúnaður og fordæming hafi ekki átt sína sögu í Sögunni, en við lifum tíma Talibana sem brjóta niður styttur og minnismerki, brenna bækur, ráðast á allt sem þeim er ekki þóknanlegt.

Fólkið sem gengur taktlaust með mennskuna að höggstokknum.

 

Að berjast við tímann er líkt og að berjast við vindmyllur sagði einhver á Spáni í den, og varð frægur fyrir.

Sem Sjálfstæðismaður þakka ég fyrir að Arnar Þór Jónsson hefur ekki lesið það mæta bókmenntaverk, eða ef hann hafi gert það, þá sé hann betur vopnum búinn en sá síðasti sem reyndi það.

 

Ég óska honum alls hins besta.

Burtséð frá öllum skoðunum eða skoðanaágreining, þá hljótum við Sjálfstæðismenn að styðja einn úr okkar röðum.

Og við hljótum að virða þann kjark sem þorir að heyja vonlítið stríð.

Meiri kjark en við hinir höfum.

 

Við vitum allir að Sjálfstæði þjóðar er forsenda velferðar hennar í dag sem og um ókomna framtíð.

Og við erum það sem við erum í dag, vegna þess að áar okkar skildu þessi einföldu sannindi.

 

Þó þjóð okkar skilji þau ekki í dag, sé lost í tómhyggju nútímans, þá skiljum við þau.

Annars værum við jú ekki Sjálfstæðismenn.

 

Virðum því framboð Arnars.

Styðjum það.

Því sjálft fjöreggið, Sjálfstæðið, er stærra og mikilvægara en allt annað en það sem okkur greinir á um, eða kjósum að þrasa um.

 

Áar okkar börðust fyrir Sjálfstæði þjóðarinnar og uppskáru.

Að verja þá uppskeru er hlutskipti okkar í dag.

 

Þar er ekkert val.

 

Og að sjálfsögðu fylgdi Kveðjan með að austan, og hér með er hún ítrekuð;

Með kveðju að austan.


mbl.is Þroskandi að kynnast breiddinni í mannlífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. maí 2024

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 456
  • Frá upphafi: 1412818

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 395
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband