Rjúkandi rústin.

 

Ástandinu á Íslandi, hvort sem það er í stjórnmálum, eða rekstri þjóðarbúsins, er best lýst með frétt sem var á Rúv fyrir nokkrum dögum síðan, og fjallaði um bágborið ástand vega í Dölunum og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Slitlagið á stórum köflum var ónýtt, engin önnur orð hægt að nota um það, og hið hlálega í fréttinni, eða réttara sagt örvæningarópi starfsmanns Vegagerðarinnar fyrir vestan, var að það kostar nokkra milljarða að gera þá ökufæra á ný, en fjármálaráðuneytið ætlar í verkið nokkur hundruð milljónir.

Skýringarnar á ástandi veganna má rekja til aukinna þungaflutninga, aukins ferðamannastraums sem og frumstæðra vinnubragða vegagerðarinnar sem hefur ekki þróað þetta bráðabirgðaslitlag sitt í áratugi, nema þá til versnunar, í nafni misskilinna umhverfisverndunarsjónarmiða datt einhverjum snillingi vegagerðarinnar í hug að taka bikið úr og setja náttúrolíur í staðinn, með margfalt lélegri endingu.

 

Þessi litla dæmisaga segir allt um hvernig Íslandi hefur verið stjórnað í langan tíma.

Viðhaldi innviða er ekki sinnt eins og þarf að gera, viðhaldi fasteigna er ekki sinnt eins og þarf að gera, eða þar til allt er orðið ónýtt, þá duga ekki milljónirnar sem hefðu dugað, heldur þarf milljarðanna.

 

Og stjórnvöldum virðist vera fyrirmunað að sjá afleiðinga ákvarðanna sinna. Þau gáfu leyfið fyrir stórtæka uppbyggingu laxeldisins á suðurhluta Vestfjarða, og það var vitað að slíkt myndi stórauka álagið á vegakerfið, og það á vegi sem voru ekki byggðir fyrir svona mikla þungaflutninga.

Samt er ekki brugðist við í tíma, hvort sem það er að styrkja vegakerfið eða reyna finna leiðir til að minnka álagið á það

Það er aldrei brugðist við neinu eða tekist á við neitt fyrr en í óefni er komið.

 

Um margt er Ísland á sjálfsstýringu.

Ferðamannaiðnaðurinn hefur fengið að þenjast út án þess að nokkur stefna sé mörkuð í að mæta auknu álagi á innviði með uppbyggingu þeirra.

Það nægir að einhver útlendingurinn vilji byggja hér hóteli, þá er það byggt, starfsfólkið fengið erlendis frá, og svo skilja menn ekkert í hinum síviðvarandi húsnæðisskorti.

Eða þensluáhrifin sem landsmönnum er svo hegnt með sívaxtahækkunum einvaldsins í Seðlabankanum.

 

Flóttamanna og mansalsiðnaðurinn er svo annað dæmi um sjálfstýringu sem þjóðin er hætt að ráða við. 

Landamærin er opin eða því sem næst, yfir 20 milljarða saug þessi angi alþjóðlegra glæpastarfsemi í sig af opinberu fé á síðasta ári, fjármunir sem eru teknir frá lífsnauðsynlegri starfsemi innanlands.

Atvinnugóðmenni og opinber samtök hinna alþjóðlegu glæpasamtaka, stjórna hinni opinberu umræðu, alltaf má týna til eitthvað barn í vanda, venjulega fjölskyldu í neyð, síþrýstingur til að halda landamærunum opnum, eins og við rúmlega 300 þúsund manna þjóð geti tekið við öllum flóttamönnum heimsins.

Sjúklegast er samt að minnst af þessum fjármuni rennur til fólks sem er að flýja heimili sín vegna styrjaldarátaka eða  náttúruhamfara.

 

"Rjúkandi rúst" er ekki vísan í að við Íslendingar höfum það svo slæmt, landið okkar er gjöfult, þjóðin dugleg og vel menntuð, hér er gott að eiga heima og ala upp börn.

Stjórnmálin okkar ráða bara ekki við að stýra landinu, og það sem er viðráðanlegt er að verða illviðráðanlegt, og það sem var illviðráðanlegt er að verða óviðráðanlegt eins og vegirnir fyrir vestan, tími bótarinnar á hinar stagbættu buxur er liðinn.

 

Gjaldþrot stjórnmálanna á tímum loftslagsbreytinga og háleitra markmiða í loftsagsmálum, kristallast í þeirri staðreynd að hér í landi orkunnar hefur lítt eða ekkert verið virkjað á þessari öld.

Við eigum ekki til orku fyrir orkuskiptin, birtingarmynd hláleikans er sú staðreynd að þegar fiskistóriðjan okkar fór 40 ár aftur í tímann og fór að kynda með olíu, þá hvarf á einni nóttu ávinningurinn af rafbílavæðingu þjóðarinnar.

Jafnvel í dæmisögu H.C. Andersen var keisarinn ekki svona nakinn líkt og íslenskir stjórnmálamenn eru í dag, í því eina máli sem þeir virðast vera sammála um, að drífa hagkerfi okkar áfram á umhverfisvænni orku.

Og það er ekki bara að þeir geri ekkert í þessu, að tala kallast ekki að gera, þeir skilja ekkert í þessu.

 

Sem er kjarni málsins, þeir skilja ekki neitt, þess vegna gera þeir ekki neitt.

Nema tala, og upphlaupa í ræðupöllum Alþingis ef þeir eru í stjórnarandstöðu.

 

Það er því við hæfi að mál málanna undanfarna daga sé hvort Katrín Jakobsdóttir ætli að bjóða sig fram til embætti forseta Íslands.

Og núna, þegar hún loksins tilkynnir framboð sitt, þá er ljóst að hún skilur eftir sig sviðna jörð, flokkur hennar er rústin ein, ríkisstjórnin, kannski þegar í andaslitrum, er á eftir stjórnlaust flak, ef hún hangir í einhverja vikur, þá er það vegna ótta viðkomandi flokka við dóm kjósenda.

 

"Rústin ein" er kannski við hæfi sem eftirmæli Katrínar Jakobsdóttur.

Hún hóf jú feril sinn í stjórnmálum sem taglhnýtingur Steingríms Sigfússonar, þess mikla ógæfumanns í íslenskum stjórnmálum.

Hún tók varðstöðu með völdum Steingríms gegn hagsmunum og framtíð vinnandi fólks.

Gekk erinda hins sígráðuga svarta fjármagns í stað þess að höggva á krumlur þess.

 

En frá því, til þessa dags, hefur Katrín um margt reynst þjóðinni vel.

Hún kom saman starfshæfri ríkisstjórn þegar valkosturinn var upplausn leidd af Pírötum og Samfylkingunni.

Og hún hefur verið glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar erlendis, fjölmenntuð, bráðskemmtileg, alþýðleg.

 

Þess vegna er þessi endir svo sorglegur.

Það lýsir ekki manndómi að flýja sökkvandi skip, einhver hefði tekið upp kökukeflið og þrammað til orrustu, tekið slaginn með fólkinu sem treysti henni, sem barðist fyrir hana, sem tók á sig alla ágjöfina hennar vegna.

Það er eins og feigð hafi komið yfir Katrínu, að hún hafi arkað inní dimman dal og ekki séð neina ljósglætu framundan, eða að baki sér.

 

Hvað um það, brotthvarf hennar markar kaflaskil í íslenskum stjórnmálum.

Blaðrið og vitleysan getur ekki versnað, en hvort eitthvað annað sé í boði veit tíminn einn.

 

En þá þarf þjóðin að óska þess.

Kveðja að austan.


mbl.is Katrín býður sig fram til forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2024

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 459
  • Frá upphafi: 1412821

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 398
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband