Offramboð á leiðindum.

 

Það má margt um Jón Gnarr segja en ekki er hann leiðinlegur, og eins og öll alvöru gleðivín, þá batnar hann með aldrinum.

 

Jón Gnarr er líka með heiðarlegri stjórnmálamönnum, þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra á sínum tíma, þá lofaði hann tvennu, að koma með ísbjörn í húsdýragarðinn, sem hann gerði ekki, og að gera ekki neitt sem borgarstjóri, sem hann sannarlega stóð við.

Enda ágætt, maðurinn hafði ekkert vit á rekstri borgar.

Eftir stendur samt að hann stóð við helming kosningaloforða sinna.

 

Fólk spyr sig eðlilega, á svona letingi, það er stjórnmálaletingi, sem grínisti er Jón hörkuduglegur, eitthvað erindi á Bessastaði??

Miðað við þetta viðtal, og frásögnina af þessum borgarafundi, þá kemur Jón Gnarr alveg til greina sem næsti forseti þjóðarinnar, hann er fullur auðmýktar gagnvart embættinu, og gerir sér fulla grein fyrir takmörkum þess.

Forsetinn er ekki gerandi í einu eða neinu, hans hlutverk er ekki að anda ofaní hálsmálið á þingheimi líkt og stjórnmálaprófessorinn ætlar að gera, en hann getur haft áhrif með framkomu sinni, málflutningi og hvernig hann kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar.

 

Eina bullið sem ég hef heyrt Jón Gnarr segja, reyndar lesið því ég hef ekkert heyrt í honum, er þegar hann sagðist ekki sem æðsti fulltrúi þjóðarinnar ætla að taka í höndina á hverjum sem er, sérstaklega væri honum uppsigað við morðingja á forsetastól.

Skensinu líklegast beint að Ísrael, en raunveruleikinn er sá að líklegast í fleiri ríkjum en færri eru morðingjar á forsetastól, aðeins misáberandi.

Því í raunveruleikanum er valdapólitíkin alltaf grimmileg, andstaða við ríkjandi stjórnvöld er brotin á bak aftur án miskunnar, og þó fá forsetaembætti láti beinlínis drepa fólk í öðrum löndum líkt og forsetar Bandaríkjanna gera undir yfirskini stríðs við hryðjuverkaöfl, þá er lítil miskunn innanlands.

Svo drepa vopnasendingar, það er tilgangur þeirra.

 

Þannig að Jón Gnarr getur ekki einu sinni tekið í höndina á sjálfum sér ef hann heldur stíft við prinsipp sitt, ef hann telur að prinsipp sitt gildi aðeins um forseta Ísraels, þá er hann fífl.

Og er í fullum rétti til að vera það en um leið vanhæfur sem forseti þjóðarinnar.

 

Það þarf að gera meira en gott þykir sagði Vigdís forseti, eini forsetinn sem ég hef kosið, og fékk sér tebolla með forseta Kína, sem var nýbúinn að telja líkin á Torgi hins himneska friðar.  Og ég efa ekki í eina mínútu að það samtal hefur verið til góðs fyrir heimsfriðinn og manngæsku almennt í heiminum.

Fordæmið, valkosturinn skiptir jú máli í heimi sem er fullur af bendandi fingrum mis vanheilagra.

 

Þar getur Jón Gnarr haft áhrif, það er ef hann ákveður að vera ekki fífl, heldur Jón Gnarr.

Gleðigjafi, stríðsmaður gleðinnar gegn leiðindum, sérstaklega hinna forpokuðu vandlætara.

 

Ég las nefnilega mjög skemmtilegt viðtal við Jón Gnarr í Smartlandi af öllum löndum.

"Vorið. Eng­inn elsk­ar vorið jafn­mikið og ég. Þá vakn­ar lífið úr dvala og plönt­urn­ar mín­ar byrja að taka við sér. Ég elska plönt­urn­ar mín­ar eins mikið og börn­in mín".  Svona segja bara snillingar.

En ég varð hugsi þegar hann botnaði Minn forseti er; "Minn for­seti er heiðarleg­ur, hug­rakk­ur, góður ræðumaður en frá­bær hlust­andi. Húm­oristi sem kem­ur reglu­lega og skemmti­lega á óvart."

Ég var nefnilega svo innilega sammála Jóni að það hálfa og heila væri nóg.

 

Ég held að Jón Gnarr sé vanmetin forsetaframbjóðandi.

Hann á erindi á Bessastaði.

 

Það eina sem uppá vantar, og hann getur auðveldlega bætt úr með því að spyrja Fóstbróður sinn Sigurjón, stórsöngvara í Metalbandinu Ham; Heyrðu Sigurjón, hvernig var þetta aftur þarna á Eistnaflugi í Neskaupstað?

Og íhuga hans svar.

 

"Ha já, það var bannað að vera fáviti".

Sem er kjarni málsins.

Kveðja að austan.


mbl.is Offramboð á leiðindum í nokkur ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2024

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 459
  • Frá upphafi: 1412821

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 398
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband