19.11.2024 | 10:43
Þegar jólasveinar koma snemma til byggða.
Þá eru kosningar í nóvember.
Öllu lofað eins og enginn sé morgundagurinn.
Og enginn hafi gærdagurinn verið, að allir flokkar komi að kosningum með hreint borð, án fortíðar eða fyrri loforða.
Eftir kosningar heldur lífið svo áfram sinn vanagang, málamiðlanir semja stjórnarsáttmála, og stjórnarsáttmálinn dregur víglínurnar, þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn styðja, þeir sem eru í stjórnarandstöðu, eru á móti.
Svo mallar allt eins og áður, niðurskurður, hagræðingar, regluleg upphlaup stjórnarandstöðu, og kerfið heldur áfram að ráða öllu því sem það vill ráða.
Samt er ekki annað en hægt að dást að þessum snemmbúnu jólasveinum.
Hvernig þeir halda andlitinu, kinnroðalaust lofa þeir öllu sem þeir hafa svikið áður.
Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir að þeir ætla að fjölga í lögreglunni um tvo til þrjúhundruð, að mér skilst helst í gær, allavega strax í desember.
Göfugt, en bíddu við, voru þeir ekki að samþykkja fjárlög með niðurskurði??? Og er flokkurinn ekki búinn að vera með dómsmálaráðuneytið frá því fyrir sem elstu menn muna??
Það er búið að þrengja svo að okkur sagði lögreglumaður á Austurlandi í viðtali nýlega, að þegar eitthvað óvænt kemur uppá, til dæmis að vakta mann í klefa, þá þarf að kalla út aukamannskap.
Sem er kjarni málsins, þessi eilífi niðurskurður og hagræðing andskotans, sem Sjálfstæðisflokkurinn og hugmyndafræði hans ber beina ábyrgð á, hefur gert allt ríkiskerfið rándýrt, það er óskilvirkt og allt rekið á yfirvinnu og veikindagreiðslum.
En framboðsjólasveinarnir muna það ekki, enda dvalið uppá fjöllum síðustu 4 árin eða svo.
Og fyrst maður minnist á kosningaauglýsingar Sjálfstæðisflokksins, gerir flokkurinn hreinlega ráð fyrir því að kjósendur hans séu fífl??
Eða hvernig á að túlka banka/tryggingaauglýsinguna þar sem sjálfstæði og styrkur þjóðarinnar er mærður, svona í ljósi þess að eina þingmál verðandi formanns flokksins, núverandi utanríkisráðherra, er að koma bakdyrameginn í gegnum Alþingi skýru stjórnarskráarbroti um að íslensk þjóð lúti löggjöf Evrópusambandsins í einu og öllu???
Þú mærir ekki sjálfstæði þegar eini metnaðurinn í lífinu er að fela löggjöf og stjórn landsins erlendu valdi.
Meir að segja Pútín og Kimminn í Norður Kóreu hafa mörk á öfugmælum sínum.
Ég minnist á þessar auglýsingar Sjálfstæðisflokksins því þær eru svo vel heppnaðar varðandi öfugmæli og afneitun á raunveruleikanum, auglýsingar Framsóknarflokksins eru ekki eins grípandi í vitleysunni en stórsniðugar engu að síður.
Framsóknarflokkurinn er sko flokkur sem veit ekki að hann hefur verið í ríkisstjórn síðustu 8 ár eða svo. Og flest vandamálin sem hann ætlar núna að leysa, er tilkomin á hans vakt.
Með þeirri undantekningu sem núverandi heilbrigðisráðherra er, hann hefur unnið margt þarfaverkið, þá hafa ráðherrar flokksins aðeins talað, en horft á hnignunina án þess að grípa inní.
Hlálegast er að flokkurinn gat ekki einu sinni staðið við loforð stjórnvalda um að fjármagna hlutdeildarlán, lán sem voru hugsuð til að létta á þrýsting á húsnæðismarkaði og samið var um í síðustu kjarasamningum.
Meint minnisleysi Framsóknarflokksins er samt skömminni skárra en sú kosningabarátta sem VG rekur.
Sá flokkur var sko ekki í ríkisstjórn, það var hún Katrín Jakobsdóttir.
Og núna þegar Katrín er farin, þá getur flokkurinn aftur tekið upp sín gömlu stefnumál og varað við hættunni frá hægri, frá þessum voðaflokki sem Sjálfstæðisflokkurinn á að vera.
Svo Nató, og hvalveiðar, og stjórn á landamærunum og svo, og svo, og svo.
Reyndar ágætis jólasveinatilboð nema jólasveinn Sósíalistaflokksins býður kjósendahóp últra-vinstrisins betur, og sá flokkur býr að því að eiga sannarlega enga fortíð, fyrir utan eigandann, Gunnar Smára. En hvað er það á milli vina.
Stjórnarandstaðan býður svo og býður, allskonar pakkatilboð, afslætti, kjósið mig og þið munuð öll komast í jólasveinalandið þar sem gnótt er af öllu, líkt og þið hafið séð í góðri jólamynd frá Hollywood.
Fjármagna?? Spara, hagræða, skera niður, hækka skatta, eitthvað.
Viðreisn má þó eiga að grímulaust viðurkennir flokkurinn tilgagn sinn í stjórnmálum, sá fyrri er að koma landinu í Evrópusambandið, sá seinni er að selja eigur almennings fjármagnseigendum, og gulrótin er að telja almenningi í trú um að það sé leiðin til að fjármagna heilbrigðiskerfið.
Svona; Já elskan, ég seldi heimilið ofan af börnunum okkar því bankinn neitaði að framlengja yfirdráttinn. Hvað segir þú um Krítarferð??
Samfylkingin ætlar að hækka skatta, Miðflokkurinn ætlar að spara og Viðreisn ætlar að selja eignir almennings.
Miðflokkurinn ætlar meðal annars spara með því að loka landamærunum fyrir sístreymi fólks í leit að betra lífi, Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að þrengja leiðsluna svo streymið minnkar. Framsókn vill hins vegar vera góð við fólk á flótta, líklegast Samfylkingin líka, samt virðist Kristrún skilja að sömu krónunni er ekki eitt tvisvar og er nær hugmyndum Sjálfstæðisflokksins hvað það varðar.
Viðreisn ætlar hins vegar að taka lýðskrum sósíalista á þetta, VG og Sósíalistaflokksins, tökum vel á móti fólki, opin landamæri.
Landið er stórt og fjármunir okkar ótæmandi.
Allir flokkar ætla svo að lækka vexti og verðbólgu, án þess að takast á við hinn raunverulega vanda sem er síþrýstingur á húsnæðismarkað höfuðborgarsvæðisins, það vilja fleiri íbúðir en tekst að byggja.
Hávaxtastefnan býr til íbúðaskort, sístreymi flótta og farandaverkafólks viðheldur eftirspurn sem framboð nær aldrei að uppfylla.
Vítahnútur sem enginn flokkur hefur kjark til að höggva á.
Á meðan blæðir hinn venjulegi, jafnt heimili sem fyrirtæki.
Eins er það með önnur vandamál sem öskra framan í þjóðina.
Í jólasveinalandi eru þau ekki til, eða verða öll leyst með næsta gjafapakka, en í raunveraleikanum er þau ekki rædd.
Dýrt óskilvirkt kerfi, án nokkurrar hæfni til að taka ákvarðanir, kerfi sem tekur mikið inn en skilar litlu út, varð ekki til að sjálfu sér.
Þegar eina stjórnviskan er niðurskurður, flatur niðurskurður, hagræðing, þá smán saman fjölgar stjórnendum, sem þurfa að hafa umsjón með allri vitleysunni, en fólki á gólfi fækkar.
Kemst ekki til að sinna öllum verkefnum sínum, koðnar undan álagi, afköstin minnka, kostnaður við veikindi og fjarvistir er í veldisvexti.
Yfirvinna, aukavaktir á yfirvinnu, greiðslur vegna veikinda, bætum við styttingu vinnuvikunnar, kerfið hefur aldrei fengið eins mikla fjármuni.
Og kerfið hefur aldrei skilað eins litlu frá sér.
Nema myglu og ónýtu húsnæði því viðhaldi hefur ekki verið sinnt.
Eða eigum við að tala um vegina sem eru að gufa upp, hverfa.
Árlega sýnir Ruv frá vegum sem spænast upp á dekkjum bifreiða, heilu klæðningarnar setjast á dekkin, fyrir utan alla tjöruna og viðbjóðin sem sest á bíla okkar landsbyggðarfólks.
Árlega kyngja alþingsmenn okkar, þeir sem setja fjármuni í þessa ónýtu vegagerð, þeim afsökum vegagerðarinnar að sökin liggi hjá hlýnun jarðar, þessari þarna í Suður Evrópu og Norður Afríku, og aukinni umferð, eins og allir vegaspottar landsins séu með sama umferðarþungann.
Og á meðan engin sætir ábyrgð á handvömminni, þá heldur hún bara áfram, á 21. öldinni ræðir vegagerðin ekki lengur við að leggja klæðningu á þjóðvegi landsins.
Eða eigum við að ræða fyrirhuguð orkuskipti sem enginn gerir neitt í.
Nema jú að ætla banna innflutning á bensín og díselbílum, en að byggja virkjanir, endurnýja raflínur, leggja nýtt dreifikerfi fyrir rafmagnsbíla, það hvarflar ekki að nokkrum stjórnmálamanni.
Hvað þá að menn horfist í augun á þeirri staðreynd að íslenskt loftslag og íslenska víðáttan leyfir ekki algjöra yfirtöku rafmagnsbílsins, jafnvel þó efndir hefðu fylgt fyrirætlunum um uppbyggingu raforkukerfisins sem þarf til að hlaða þá.
Þetta er bara svona; Bla, bla. Bla bla bla. Blablabla bla bla.
Í fjögur ár á milli kosninga.
Fjórða hvert ár kemur svo kosningajólasveinn og lofar öllu fögru.
Lofar orðum og ímyndunum.
Við látum bjóða okkur þetta.
Því annars væri annað í boði.
Til dæmis samtal við þjóðina.
Um vandann.
Og lausnir.
Það samtal er ekki tekið í dag.
Kveðja að austan.
Bloggfærslur 19. nóvember 2024
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.11.): 422
- Sl. sólarhring: 829
- Sl. viku: 6599
- Frá upphafi: 1397502
Annað
- Innlit í dag: 372
- Innlit sl. viku: 5620
- Gestir í dag: 350
- IP-tölur í dag: 343
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar