15.11.2024 | 16:24
Viðreisn í mikilli sókn.
Svo segja menn að þolinmæðin sigri ekki flest að lokum.
Þessi flokkur Evrópusinna, með taparann Þorstein Pálsson sem hugmyndafræðing, flokkur stóratvinnurekanda og fjárbraskara, er sigurvegari skoðanakannana, hugsanleg skýring er að ólíkt Sjálfstæðisflokknum er Viðreisn að bjóða fram þroskaðar stjórnmálakonur, ólíkt ekki mjög svo vonarstjörnum Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín og Hanna Katrín verða seint tengdar við Barbie og barnaskap.
Gleymt er að Þorsteinn Pálsson fór í fýlu vegna þess að smáútgerðin innan LÍÚ kom í veg fyrir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu tillögur Þorsteins um gjöreyðingu landsbyggðarinnar, tillögur sem byggðust á Ný-Sjálenska módelinu um smánarkvóta handa sjálfstæðum útgerðum, og leyfi stórútgerða til að kaupa allan kvóta uppí rjáfur. Í dag er engin sjávarbyggð á Nýja Sjálandi, og þessi þrjú stórútgerðarfyrirtæki sem eiga kvótann, eru fyrir löngu hætt að veiða hann, í nafni frjálshyggju Friedmans og Þorsteins, leigja þau hann til útgerðarþrælahaldara Suður og Suðaustur Asíu.
Illmenni frjálshyggjunnar hafa svo sem farið í fýlu af minna tilefni, til dæmis yfir kjöri Trump sem hefur lýst yfir stríði við Nýfrjálshyggjuna og Glóbalauðinn sem fjármagnar hana, það er Nýfrjálshyggjuna.
Svo þarf ekki að taka fram að Þorsteinn Pálsson og hjörð atvinnurekanda í kringum hann voru einörðust stuðningsmenn ICEsave fjárkúgunar breta, þó sú hjörð beitti einfeldningunum í VG fyrir þann svikavagn.
En gott og vel, þetta er fortíðin, þeir sem svíkja þjóð og land gætu alveg hafa skipt um skoðun, auðn og dauði vinnandi fólks á landsbyggðinni þarf ekki lengur að vera í forgrunni stefnu þeirra, svo má ekki gleyma að EFTA dómsstóllinn kom í veg fyrir ICEsave-landráð þeirra.
Forystufólkið er annað í dag, og það er rétt, það er frambærilegt.
Viðreisn þarf allavega ekki að kosta fóstru til að hafa ofan fyrir sumum þingmönnum ólíkt þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Og tómhyggja blaðursins er ekki mjög áberandi hjá Viðreisn þó þingmenn eins og Sigmar hafi á stundum talið sig vera í þingflokki Pírata.
Viðreisn hefur samt fellt grímuna.
Þorgerður Katrín gerði það í löngu mærðarviðtali á Rúv um mikilvægi þess að efla heilbrigðiskerfið, til þess að fjármagna fyrirsjáanlegan halla á fjárlögum, þá ætlaði hún að selja eigur ríkisins.
Í bönkum, sem og lóðir, fasteignir og annað.
Það var eins og maður væri að hlusta á Margréti Thatcher fyrir rúmum 30 árum síðan, seljum bröskurum eignir ríkisins, fjármögnum þannig ríkishalla í 3 ár eða svo, skiljum svo almenning eftir berskjaldaðan á berangri sem mjólkurkýr fyrir einokun auðs og auðmanna.
Rústum, eyðileggjum, skiljum samfélagið eftir sem sviðna jörð.
Og fólkið á móti Nýfrjálshyggjunni kýs þessa atlögu að lífi þess og tilveru.
Sjálfstæðir sjálfstæðismenn kjósa þetta þekkta útibú Brussel á Íslandi.
Allt vegna þess að það telur sig kjósa gegn, því sem það er nákvæmlega að kjósa.
Svona er húmor lífsins í dag.
Á tímum þar sem forheimskt fólk stjórnar opinberri umræðu, veit ekki hvernig börnin verða til, veit ekki hvernig Glóbalauðurinn stjórnar öllu í lífi þess og tilveru.
Loftslagsbreytingar!!, aukum þær með hugmyndafræði Nýfrjálshyggjunnar, að setja loftslagsskatta á einstaklinga og fyrirtæki, það fyrrnefnda meinar fátækari hluta samfélagsins að taka þátt í samfélaginu, það seinna flytur grunnframleiðslu til loftslagssóða Glóbalsins í Kína og öðrum ríkjum sem knýja áfram iðnframleiðslu sína með kolaorkuverum.
Eins og við vakandi lifum martröð þar sem öllu er snúið á hvolf.
Við erum samt ekki sofandi.
Fólkið sem ætlar að kjósa Viðreisn er með fullu viti.
Alveg eins og það trúir því að Glóbalauðurinn sem stýrir vörn mannkyns gegn loftslagsógninni, sé að berjast gegn henni með því að hækka skatta og gjöld í vestrænum löndum, sem óvart flytur megnið af framleiðslu þeirra til loftslagssóða Asíu, og magn gróðurhúslofttegunda eykst í stað þess að dragast saman.
Frá náttúru hendi er fólk ekki svona heimskt.
En það er eins og feigð hafi tekið yfir vitund þess og skynsemi.
Það fljóti sofandi að feigðarósi.
Eins og það eigi ekki börn eða líf sem þarf að vernda.
En það er ekki eins og það sé margt annað skárra í boði.
Það er hins vegar önnur saga.
Kveðja að austan.
![]() |
Viðreisn í mikilli sókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2024 | 07:29
Orkustefna Kristrúnar.
Er orkustefna Sjálfstæðisflokksins.
Það er orkustefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn segist hafa fyrir hverjar kosningar, en gerir svo ekkert í.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn frá 2013 og ber því beina ábyrgð á þeirri stöðnun sem ríkt hefur í bæði orkuöflun og endurnýjun flutningskerfisins á raforku.
Það er rétt hjá Kristrúnu að nútímasamfélag þarf raforku, atvinnuuppbygging okkar er á forsendum þess að nýta raforku.
Það er líka rétt hjá henni að stjórnmálastétt okkar hefur fest þessa lífæð nútímasamfélags í kviksyndi reglugerða þar sem hver einasti kverúlant getur tafið framgang mála út í hið óendanlega.
Og ólíkt sjálfstæðismönnum bendir Kristrún á lausnina;
Pólitíska leiðsögnin er sú að þegar búið er að afgreiða eitthvað í nýtingarflokki rammaáætlunar, það er búið að fara í gegnum þingið. Það þarf að tryggja að því sé fylgt eftir í leyfisveitingaferli sem er skilvirkt. Það sé haldið utan um að þetta taki ekki alltof langan tíma. Pólitíska leiðsögnin er fyrst og fremst að það séu búnir til ferlar, kerfi sem fólk treystir og að þeir séu kláraðir.
Þýtt á mannamál; kverúlantar fá ekki að tefja framkvæmdir sem einu sinni hafa verið ákveðnar.
Það fyndna er að bakland Samfylkingarinnar tengist mjög þessum kverúlöntum.
Málflutningur Samfylkingarinnar undanfarin 10 ár eru málflutningur þeirra.
Samfylkingin þrífst á flækjustigi reglugerða, að koma hlutum ekki í verk.
Þess vegna er orðræða Kristrún ferskur tónn.
Mætti fleiri úr stétt stjórnmálamanna hafa þennan kjark.
Að íslensk stjórnmál snúist um eitthvað annað en auglýsingar og kjaftavaðal.
Að málefni en ekki hönnuð upphlaup ráði umræðunni þessara mikilvægustu kosninga Íslandssögunnar.
En það þarf þá tvo til.
Stjórnmálamennina og þjóðina.
Þetta er nefnilega ekki allt stjórnmálamönnunum að kenna.
Kveðja að austan.
![]() |
Vill auka orkuframleiðsluna um 25% á áratug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 15. nóvember 2024
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 597
- Sl. sólarhring: 630
- Sl. viku: 5060
- Frá upphafi: 1458008
Annað
- Innlit í dag: 517
- Innlit sl. viku: 4376
- Gestir í dag: 448
- IP-tölur í dag: 435
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar