28.10.2024 | 17:06
Víglínur skýrast.
Það er ljóst að mat mitt á slátruninni miklu, sem ég hef fjallað um í nokkrum pistlum, þeim síðasta í gær um Brakabrestina, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki græða á að sækja inn á mið hægri-krata, þar væru fyrir öflugri frambjóðendur en stúlkurnar tvær sem eiga að erfa landið hjá Sjálfstæðisflokknum.
En öruggt væri að hann myndi tapa kjarnafylgi sínu, eldri hægri sinnaða kjósenda.
Eitthvað sem flokksforystan áttaði sig á, eftir slátrunina, og reyndi að berja í bresti með því að smækka Jón Gunnarsson, sem tókst, og hætta við að slátra Brynjari Níelssyni, enda Brynjar meinlaus upp á það að gera, hann mun aldrei leiða andóf íhaldsfólks gegn yfirtöku hægrikrata.
Skoðanakönnun Maskínu sýnir að þetta mat var rétt, það er hægt að blekkja börn og þaðan af eldri, en fólk sem hefur gengið í gegnum herðingu lífsins, það lætur ekki blekkjast af margtuggðum frösum sem reynslan hefur kennt að eru án innihalds, eru aðeins líkt og ilmandi ostur sem notaður er til að veiða mýs í gildrur.
Sem er nákvæmlega álit þeirra, sem slátruðu hægri sinnuðum þingmönnum, á kjarna kjósendahóps Sjálfstæðisflokksins.
Ég ætla ekki að leggja mat á fylgisaukningu Viðreisnar, finnst það aðeins fyndið þegar fólk hlustar á grátið í mönnum eins og Sigmari, sem réttilega bendir á marga brotalömina í velferðarkerfi okkar, núna nýjast um fíkla sem gáfust á biðlistum sínum, og tóku síðasta skammtinn.
Svona í ljósi þess að þingmenn Viðreisnar eru harðastir talsmenn opinna landamæra, þrátt fyrir að vitað er að sú stefna er bein ávísun á botnlaus útgjöld ríkissjóðs.
Þar með fátt eftir handa okkar eigin fólki, sem dagar uppi, þjáist og jafnvel deyr á biðlistum.
En að baki þeirri stefnu er ekki barnaskapur barna, heldur sá blákaldi raunveruleiki að Viðreisn er fjármögnuð af hinu Svarta fjármagni auðs og auðmanna, sem hér líkt og í Evrópu hefur samviskulega fjármagnað upplausn vestrænna samfélaga, sístreymi flótta og farandfólks, niðurbrot og þjóðarskipti.
Svo má ekki gleyma að gróði glæpaiðnaðarins sem kenndur er við mannsal og flóttamenn, er sá mesti fyrir utan framleiðslu og dreifingu á eiturlyfjum, sá gróði leitar út um allt samfélagið, til þeirra sem þekkja hvorki til siðar eða sæmdar.
Sama úr hvaða ranni gróðinn kemur sem fyllir pyngju þeirra.
Breytir því samt ekki að hægri-kratisminn í bandalagi við flokk atvinnurekanda nær meirihluta á Alþingi eftir næstu kosningar, það eina sem rifist verður um hver á leiða þá ríkisstjórn, Þorgerður Katrín, Kristrún eða Þórdís Kolbrún.
Stjórn um valdaafsalið til Brussel kennt við bókun 35, um óbreytt ástand þess samfélags sem lýtur í öllu regluverki ESB og vaxtavaldi Seðlabankans.
Og um þjóðarskiptin þannig að íslensk tunga, íslensk menning, íslensk þjóð verður minningin ein eftir 10 ár eða svo.
Þannig er það bara.
Þeir, sem berjast á móti, hafa hvorki styrk eða trúverðugleik til að standa gegn þessum vélarbrögðum andskotans.
Ekkert í sjónmáli sem fær því breytt.
Við gengum sem sagt ekki götuna til góðs eftir að við urðum sjálfstæð þjóð.
Þar sem ég hef haft lúmskt gaman af því að sjá viðbrögð hægri manna eftir slátrunina miklu, sumir segjast að núna sé komið að Miðflokki Sigmundar og Borgþórs, eins og skip með Borgþór í stafni geti fiskað eitthvað, aðrir sjá vonina í afneitun á því sem hefur átt sér stað í Sjálfstæðisflokknum undanfarin misseri, þá langar mig að vitna í orð fyrrum varaþingmanns flokksins, Arnar Þór Jónssonar.
Lýðræðisflokkur Arnars hefur vissulega ekki náð eyru gamalgróna íhaldsmanna og veldur því sjálfsagt ýmislegt sem ég kann ekki deili á.
En hvaða hægri maður getur rifist við þessi orð Arnars??
"Að sögn Arnars Þórs yrðu áherslur hins nýja flokks væntanlega í grófum dráttum þær að tryggja einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi, sjálfbærni í matvælaframleiðslu, örugg landamæri og að standa vörð um íslenska hagsmuni á alþjóðavettvangi. "Það verður að fara að örva hagvöxtinn, draga úr skattpíningunni og vaxtaokrinu sem er að drepa okkur. Eins þarf að skrúfa fyrir þessa krana sem peningarnir streyma út um. Sem eru loftlagsmál, útlendingamál og stjórnlaus útþensla ríkisins," segir Arnar Þór.".
Án þess að afneita sjálfum sér og lífsskoðunum sínum??
Spyr sá sem ekki veit, því ekki er ég hægri maður.
En með aldrinum hef ég lært að virða þá og lífsskoðanir þeirra.
Sem og ég veit að engir aðrir voru líklegir til að verjast Brussel og hinu Svarta fjármagni sem við kennum oftast við glóbalið.
Hvað þá að ég viti af hverju áður reistnir menn eru gufan ein í dag.
Það er svart maður var einu sinni sagt við mig.
Út af einhverju sem ég man ekki.
Tek samt undir þau orð.
Það er svart maður.
Fátt meira um það að segja.
Kveðja að austan.
Maskína: Viðreisn næststærsti flokkurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2024 | 08:33
Börn og barnaskapur.
Spursmál Morgunblaðsins hefur vakið mikla athygli fyrir beinskeyttar spurningar og fyrir að láta fólk ekki komast upp með að svara í innantómum frösum, eða fullyrða eitthvað sem rífst beint við staðreyndir eða raunveruleikann.
Fyrir mig sem er fæddur þannig séð rétt uppúr miðri síðustu öld, þá rifjast upp fyrir mér þau tímamót í sjónvarpinu þegar menn eins og Vilmundur heitinn Gylfason, Ólafur Ragnar, og svo seinna Ögmundur Jónasson, mættu ráðamönnum, og spurðu, í stað þess að lúta höfði og hlýða í auðmýkt.
Eitthvað sem hefur ekki sést í áratugi hjá Ríkisútvarpinu, vissulega hefur einn og einn spyrill verið hvass en hlutdrægnin út í menn og málefni, þjónkun við þá hagsmuni peninganna að vilja inní Evrópusambandið, svipti þá allan trúverðugleik.
Þegar ég skoðaði alnetið til að fá nafnið á Sönnu Magdalenu, frambjóðanda Sósíalistaflokks Gunnars Smára, þá rakst ég á skítkastumræðu allra þeirra sem fannst hún ekki standa sig vel í viðtalinu, þekkt umræðuhefð meðal skítadreifara Góða fólksins, þar sem vegið var að spyrlinum í Spursmálum.
Mig langar að vitna í svar hans, fannst það gott; "Sanna mætti bara til leiks, svaraði fyrir sínar hugsjónir og ég lét hana hafa fyrir því. Hún stóð sig bara vel. Svo er það kjósenda að leggja mat á flokka og fólk.".
Mikill munur á þessu svari og síröflinu um hvíta miðaldra karlinn sem er vondur við ungar konur, eða konur yfir höfuð.
Tek undir það að Sanna er glæsilegur fulltrúi sinna hugsjóna, fengur fyrir alla flokka.
Annar ungur frambjóðandi sem gustar um er sigurvegari fólksins yfir stuðningsmannahjörð þingmanna Pírata; Lenya Rún Taha Karim.
Lenya mætti líka í hakkavél Spursmála, hnarreist, bar sig vel, þurfti enga silkihanska eða sérmeðferð vegna þess að hún er ung kona.
En eitt svara hennar, sem rifjaði upp fyrir mér annað sem haft var eftir Sönnu, er ástæða fyrra orðs fyrirsagnar minnar, þetta með börnin.
Vitnum í Lenyu þegar hún játar að hún ætli að leggja á stóreignaskatt, enn vissi bara ekki hve hár hann ætti að vera, hvað þá að hún vissi um að í heimi þar sem allt er opið, og það þarf aðeins einn Enter áslátt og fólk er flutt landa á milli, þá hefur stóreignaskattur skotið þá í fótinn sem hafa lagt þessa skatta á. "Við erum ekki að hækka skatta, þessu var bara kastað út í cosmosið í stefnuvinnunni sem er að fara fram akkúrat núna. Bara endurvekja stóreignaskatt, já eða nei.".
Stjórnmálastarf og mótun stefnu stjórnmálaflokka er svona eins og að vera á leikskóla og spyrja krakkana hvaða nammi þau vilja á nammidaginn, eða hvað viljið þið börnin mín.
Eitthvað sem hefur ekkert með raunveruleik lífsins að gera.
Að sama meiði er sú kotroskna fullyrðing Sönnu Magdalenu að hún og flokkurinn hennar vilji þjóðnýta fiskveiðar með því að endurvekja gömlu Bæjarútgerðirnar, líkt og hún væri stödd á kreppuárum síðustu aldar.
Hún hefði alveg eins geta sagt að ætla afnema saltskattinn til að bæta kjör fátækra, eða flytja inn betra torf í húsin.
En meinið er að sá sem fékk Sönnu til að segja þetta, Gunnar Smári, hlær sig máttlausan þegar hann heyrir þetta, en Sanna trúir þessu.
Alveg eins og Lenya trúir að hún sé að vinna að betri heimi með því að kasta hugmyndum inní cosmoið, sama hverjar þær eru.
Jón Gnarr vissi að það vissu allir að hann var að grínast þegar hann sagðist ætla að fá ísbirni í Húsdýragarðinn, en börnin í pólitíkinni í dag, fatta ekki að raunveruleikinn ræður því sem hægt er að gera í stjórnmálum, ekki óskhyggja.
Hvað þá að þær fatti að þegar óánægja fólks með auðinn og auðhyggjuna sem hér ræður öllu, fer að ógna ríkjandi kerfi, þá gerir einmitt sá sami auður út börn eins og þær stöllur til að fanga róttækni ungs fólks, svo sú róttækni ógni ekki einu eða neinu, er aðeins skemmtun fyrir þá sem eru aðeins eldri.
Eru verkfæri þess sem þær vilja knésetja.
Og sjá það ekki í barnaskap sínum.
Barnaskapur er annað orðið í fyrirsögn þessa pistils, og hann tengist ekki þeim stöllum sem ég fjalla um hér að ofan, það orð er til komið eftir að ég las orð Guðlaugs Þórs oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Ekki að Guðlaugur þjáist að barndómi, hann er eldri en það og marga fjöruna sopið í tækifærismennsku sinni í pólitík, en aldrei náð markmiðum sínum, sem er að leiða Sjálfstæðisflokkinn.
Sá metnaður fær hann ekki til að gráta ef flokkurinn býður afhroð í komandi kosningum, því þá veit hann að það er bæði út um Bjarna og krónprinsessuna Þórdísi Kolbrúnu.
Og hver verður þá formaður??, ha!!
Það vita allir hvernig þessi ríkisstjórn hefur starfað síðustu ár, hefur í raun verið óstarfhæf til að takast á við vandamál þjóðarinnar, eða marka nýja stefnu úr forarvaði vitleysu og trúarbragða loftslags og rétttrúnaðar.
Þar er Guðlaugur Þór sekari en sjálf syndin, dansað með loftslagstrúboðinu og í raun haft áhuga á fáu öðru en hagsmunum sínum tengdum vindmylluumhverfisvánni.
En hann treystir á barnaskap, barnaskap þess fólks sem hefur ætíð verið Sjálfstæðisflokknum trúr, eldra íhaldsfólki, sem vill hag lands og þjóðar sem bestan, og er sjálfstætt, það og foreldrar þess börðust ekki fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, til þess að sjá flokk sinn afhenda það sama sjálfstæði skriffinnum Brussel.
Þann barnaskap að orðavaðall fái raunveruleikanum breytt.
Gegn aðgerðaleysinu og undanlátsseminni er þessum orðum stefnt; "Frelsi, ráðdeild og ábyrgð með Sjálfstæðisflokknum eða vinstristjórn í anda Reykjavíkurmeirihlutans".
Og til að lægja reiðöldur hægri manna eftir slátrunina í Suðvestur og Suður kjördæmi, þá var gamall maður, skemmtilegur maður, tekinn út úr skápnum á háalofti, sem er undanfari þess að farið er með það sem hætt er að nota, í Sorpu.
Og rykinu kastað í augu hinna trúföstu sem eiga í raun ekkert sameiginlegt með hægri krötum flokksins; "Auðvitað vitum við að þetta er brekka en það er gríðarlegur styrkur að hafa Brynjar á listanum. Vegna hans starfa og framgöngu þá hefur hann verið í eftirspurn um allt land og ég var mjög ánægður að hann féllst á það að vera með okkur. Markmiðið er auðvitað að koma honum inn og ég hef fulla trú á því að við munum vinna á í kosningabaráttunni,".
Ha, ha, mikil er einfeldni ykkar og trúgirni hefur Guðlaugur Þór örugglega hugsað þegar hann lét þessi orð falla.
Spurningin er.
Hafði hann rétt fyrir sér??
Kveðja að austan.
Guðlaugur segir valkostina vera skýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 28. október 2024
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar