27.10.2024 | 15:13
Barið í brakabresti
Það er óhætt að segja að yfirtaka hægrikrata á Sjálfstæðisflokknum hafi gengið snurðulaust fyrir sig og gefur tóninn fyrir komandi kosningar.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér hægra fylgi Samfylkingarinnar og þurrka upp fylgi Viðreisnar inn að beini.
Auk hefðbundinna krataáhersla, aðlögunina að Evrópusambandinu með samþykkt yfirráða sambandsins á löggjöf þjóðarinnar kennda við bókun 35, boðar flokkurinn harða stefnu í málefnum innflytjenda, það á jafnvel að segja Nei og framfylgja því. Þar sker flokkurinn sig frá Viðreisn sem virðist ennþá tala fyrir hagsmunum þeirra sem græða aurinn á opnum landamærum, eitthvað sem fólk hefur hreinlega fengið nóg af.
Von hægrikratanna er nýtt Tveggja turna tal, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, um samstöðu um óbreytt ástand nema í innflytjendamálum, eitthvað sem Samfylkingin mun samþykkja gegn snurðulausri aðlögun að ESB.
Til að þessi áform gangi upp þarf Kristrúnu Frostadóttur takast að losa sig við bullið úr Samfylkingunni, gera flokkinn stjórntækan um annað en vitleysu. Eitthvað sem hún er að reyna þessa dagana eins og frægt er.
Meinið fyrir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins er að íhaldsmenn, kjarninn í hægra fylgi flokksins, á ekki mikla samleið með þessum kratisma og óvíst hvort dúsan um harðari stefnu í innflytjenda málum dugi til að friða þennan hóp sem er kjarnafylgi flokksins.
Og kurrinn eftir slátrunina um helgina; Nótt hinna löngu hnífa eins og ágætur pistlahöfundur hér á Moggablogginu kallaði þá slátrun, hefur ekki farið framhjá henni.
Það var áhættuleikur að bola Jóni Gunnarssyni burt, á þann ósvífna hátt sem gert var, og sú áhætta var öllum ljóst þegar Sigríður Andersen kunngerði samstarf sitt við Miðflokkinn, sem íhaldsmaður átti hún þar meiri hljómgrunn en hjá hægri krötum Sjálfstæðisflokksins.
Það þarf ekki annað en að lesa viðhorfspistil Björns Bjarnasonar um þau vistaskipti, þar sem Björn sagði allt nema að tala illa um Sigríði, til að skilja þann titring sem greip um sig í ákvörðunartökuherbergi Valhallar.
Í bresti þarf að berja, hvað þá brakabresti, því vandfundnara er gegnheilla íhald en Sigríði Andersen.
Og það liggur í eðli slátrunar að dauða er ekki hægt að endurreisa, hvað flokksforystan hélt þegar hún ákvað framboð Þórdísar Kolbrúnar gegn Jóni Gunnarssyni, að hann myndi með bros á vör, með rýting formannsins í baki, taka atlögunni og þiggja þá mola sem að honum yrði rétt, þá verður því ekki breytt að Jón gekk á dyr.
Hvað síðan gekk á bak við tjöldin veit enginn nema þeir sem voru á bak við þau tjöld. En það er veikt að tilkynna núna, 5 dögum seinna að Jón taki 5. sætið eftir allt sem á undan var gengið.
Trúverðugleiki þess hverfur um leið og Jón snýr baki í myndarvélarnar og rýtingar flokksforystunnar blasa við.
Að halda síðan að Brynjar Níelsson komi í hans stað sem einhver fulltrúi hægri manna í þingflokknum, er djókari og þá ekki bara miðað við að Brynjar er úti í ljósi þess fylgis sem flokkurinn mælist með í skoðanakönnunum.
Brynjar er vissulega rebel, en hann er meðreiðarsveinn, hann leiðir ekki.
Og sem síðasti hægri maðurinn hefur hann engin áhrif til eins eða neins, verður svona líkt og geirfugl á safni.
Að kalla til Jón Magnússon í 6. sætið gerir þá aðeins geirfuglana tvo.
Flokksforystan er nefnilega komin í öngstræti.
Hún þarfnast þeirra sem hún slátraði
Hún er ekki lengur trúverðug gagnvart hægra fólki.
Brakabrestir er yfirleitt merki um að eitthvað sé að gefa sig.
Oft það síðasta sem sjómenn heyrðu áður en báturinn gaf sig í röstinni.
Eða þakið fauk af húsinu.
Framboð Brynjars Níelssonar mun ekki berja í þá bresti.
Þó hann sé ekki leiðinlegur.
Eurokratarnir sjá til þess.
Kveðja að austan.
Brynjar tekur sæti á lista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2024 | 13:59
Klækjakvendið Kristrún.
Það segir allt sem segja þarf um persónu Dags B. Eggertssonar að hann gaf ekki Kristrúnu Frostadóttur andrými til að heyja snarpa kosningabaráttu á sínum forsendum.
Þú boðar einfaldlega ekki nýja tíma með lík fortíðar í framsætinu.
Það má örugglega margt gott segja um borgarstjórnartíð Dags í Reykjavík, en maðurinn sem þekkti ekki sinn vitjunartíma, skilur aðeins tvennt eftir í minningu borgarbúa, umferðarteppu og myglu í skólum.
Degi mátti vera ljóst að það var ekki ákall eftir honum, þó hann léti það heyrast í gjallarhornum vina og vandamanna að hann væri alveg sko klár í að leiða Samfylkinguna eftir Loga, þegar öldungar flokksins kölluðu á unga, klára bankakonu til að leiða flokkinn til vegs á ný og þessi unga bankakona fékk rússneska kosningu, og rúmlega það.
En sá sem sér aðeins sjálfan sig í speglinum, og sjálfan sig speglast í andlitum annarra, heyrir ekki þá þögn sem var um þá hógværa tillögu hans um að hann gæti tekið við Loga, hann vill samt leiða.
Og hafði styrk til að troða sér framarlega á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík, þó öllum ætti að vera ljóst að annað hvort er það Kristrún eða Dagur, þau bæði eru eins og óþokkinn "Two-faces" sem Tommy Lee Jones lék svo eftirminnilega í einni Batman myndinni, vintri hluti andlitsins eðlilegt, hægri afskræmdur.
Kristrúnu og öldungaráðinu skorti styrk til að hindra þessi fáráð, og hvað gera bændur þá, gömul spurning og ný?
Ein mjög gömul var þegar harðstjóri einn sem með harðfylgni náði einráðum yfir grískri borg, að þá sendi hann son sinn til þess harðstjóra eða tyrann sem voldugastur var þá í hinum gríska heimi, Hieron einvalds borgarinnar Syracuse á Sykiley til að spyrja hann ráða hvernig hann ætti að halda völdum sínum. Hieron sagði fátt, bað hinn unga mann að koma með sér í göngutúr út fyrir borgina, þeir fóru að akri einu, þar tók Hieron upp sverð sitt og hóf að höggva niður það kornax sem stóð uppúr.
Flóknara var það ekki og sonurinn fór heim og ríkti lengi eftir daga föður síns.
Eitthvað svipað virðist Baldur Þórhallsson ætla Kristrúnu í þessari frétt.
Hún sé hreinlega að losa sig við samkeppnina frá Degi áður en sól hans skín of skært innan væntanlegs þingflokks Samfylkingarinnar.
Og nýtir til þess hans eigin orð líkt og haft var eftir Kristrúnu í fréttum Rúv, orð sem Dagur mælti af hógværð, hógværð sem enginn tók mark á nema hugsanlega hann sjálfur.
Því Dagur er þannig týpa að hann er alltaf óvart á staðnum og er eiginlega neyddur til að taka að sér trúnað og forystu, svara kalli heitir það eða eitthvað svoleiðis.
Þetta er þvílík snilld að það hálfa væri nóg.
Vekur uppi spurningar um hvort gamli rebbi sé ekki ennþá meðal vor með putta sína og þræði.
Já, það er sko kærleikur á ferli innan Samfylkingarinnar.
Hann blómstrar á fundum og í flokksherbergjum, allir eru vinir.
Og vinir vitna í orð hvors annars, eða þannig.
Vissulega er spurning hvort Kristrún valdi þessum slag.
En hún virðist hafa góðan ráðgjafa.
Í klækjum.
Kveðja að austan.
Úthugsað eða alvarlegt reynsluleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 27. október 2024
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar