9.10.2023 | 10:23
Það er munur á árás og árás.
Þegar maður sá fyrstu myndirnar af flugskeytaárásum Hamas á Ísrael þá hugsaði maður með sér að núna hefði einhverjum vantað aur í kassann, því fátt er betra fyrir ófriðariðnaðinn en svona mögnuð flugskeytaárás sem augljóslega yrði svarað af hörku, síðan kæmist aftur á ógnarfriður þar til næst.
Í millitíðinni myndu harðlínuöfl beggja vegna girðingarinnar styrkja stöðu sína, og á kostnað almennings yrðu keypt vopn, fjárfest í ófriði, ekki friði og framtíð.
Svo varð ljóst að þetta var miklu alvarlegra en það, Hamas steig yfir ósýnilega línu sem ómennskan hefur þó virt beggja megin girðingarinnar, að slátra ekki handahófskennt óbreyttum borgurum án nokkurs hernaðarlegs ávinnings.
Samkvæmt alþjóðlegum lögum er slíkt alltaf stríðsglæpur, þeir sem slík óhæfuverk fremja alltaf stríðsglæpamenn, og þeir sem réttlæta slíkan viðbjóð hafa sagt sig úr lögum við siðmenninguna.
Því það er jú munur á árás og árás.
Þess vegna brá mér þegar ég horfði á fréttatíma Rúv í gærkveldi, fyrsta innslag fréttastofunnar var ekki að greina frá þessum stríðsglæpum, hvað skyldu mörg fréttaskot frá Úkraínu hafa hafist á því að greina frá árásum Rússa á markaði eða járnbrautastöðvar??, heldur var sýnt myndefni frá hefndarárásum Ísraela á Gasasvæðið.
Hver eru skilaboðin, máttu íbúar Gasa búast við að þeir fengju að halda áfram að blístra og fagna morðum á óvopnuðum ungmennum, eða þeir fengju annan daginn í röð að svívirða lík af nöktum ungum konum sem voru keyrða á pallbílum um götur og stræti Gasa, eða hæðast að eða misþyrma gömlu fólki, konum, börnum sem vígamenn Hamas fluttu sem gísla í skjólið á Gasa??
Lengra er vart hægt að ganga í óbeinu samþykki á stríðsglæpum og almennum viðbjóði, það er engin afsökun að þetta fólk er kúgað, og hafi verið kúgað lengi.
Það eru mörk sem þarf að virða, það er ósýnileg lína sem má ekki stíga yfir.
Kúgun Ísraela á íbúum Palestínu er ranglát, líkt og öll önnur kúgun.
En við þurfum samt að virða mörk mennskunnar, annars er bara villidýrið eftir.
Látum það vera þó menn kyngi níði Íslamistanna í Hamas, þó maður skyldi ætla að fólk sem berst hér innanlands gegn kvenníði, kynníði, transníði, þyrfti mjög stórt kok til að kyngja öllum þeim miðaldaviðbjóði sem viðgengst á Gasasvæðinu, þá er ekki hægt að samþykkja að það sé allt í góðu að slátra handahófskennt óbreyttum borgurum með vísan í þá réttlætingu að við erum svo kúguð.
Þetta er grundvallarpróf í mennsku, og á því hafa margir fallið í dag og í gær, og ekkert bendir til annars en þeir munu falla á því á morgun og hinn.
Miklar hörmungar bíða íbúa Gasa og þeirra eina leið til að losna við það helvíti, er að framselja stríðsglæpamennina sem ábyrgðina bera.
Sem mun ekki gerast því íbúar Gasa eru líka gíslar þessara manna, alveg eins og þeir eru gíslar miðaldagyðinganna sem átta sig ekki á að þeir lifa á 21. öldinni, en ekki fyrstu öldinni.
Það er nefnilega miðaldamenn sem stjórna beggja vegna girðingarinnar.
Og flest okkar hinna eru svo heimsk, að við erum líka í fjötrum með því að taka afstöðu með og styðja óhæfuverk annars hvors aðilans.
Tökum afstöðu með ómennskunni gegn mennskunni.
Eins og við föttum ekki að einn daginn getur ómennskan, miðaldahatrið slátrað okkar börnum.
Og á meðan breytist ekkert.
Aðeins stigmagnast.
Kveðja að austan.
Minnst 260 sagðir drepnir á tónlistarhátíðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 9. október 2023
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 6
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 208
- Frá upphafi: 1412827
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 174
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar