25.1.2022 | 18:16
Þegar lygin er vopn.
Það eru ekki nýjar fréttir að fólk á jaðri samfélagsins sé líklegra til að trúa samsæriskenningum, og því miður bulli og vitleysu.
Það eru jú skýringar þess að fólk er á jaðrinum, og eigi skal gleyma að byltingar fortíðarinnar urðu vegna þess að það fólk tók markmið þeirra upp á sína arma, eða hver trúir að millistéttarmaðurinn Marx hefði náð hljómgrunn hjá öðru millistéttarfólki, sem hafði svo miklu meir að tapa en óljós grunur um ávinning seinnar meir.
Fólk á jaðrinum hugar öðruvísi, til dæmis vegna þess að það býr yfir meir sköpunarmátt sem og það tekur hið viðtekna ekki gefið, það spyr, það hugsar, það er oft ekki eins og við hin.
Því miður þá veit hið svarta vald þetta, og hefur lengi gert út á sköpun og hrekkleysi fólksins, sem á árum áður ógnaði auð þess og völdum.
Með allskonar vitleysu og vel markaðssettu bulli þá breytist fólkið á jaðrinum úr breytingarafli, í einskonar hjörð vitleysinga, sem engu ógnar, sem nær ekki að lyfta hug sínum og anda yfir nafla hinna markaðssettu vitleysu og fjarstæðu sem það er fóðrað með.
Hér á Íslandi er það Fréttin.is, eitthvað er ekki nógu heimskt að það sé birt þar.
Eða þegar poppstjörnur vísa ekki í Lennon, heldur skosk heilbrigðisyfirvöld sem eiga víst að hafa komist að því að bólusettir séu líklegri til að deyja vegna kóvid, en þeir sem eru óbólusettir.
Maður getur brosað, og maður veit að veiran fækkar grimmt í þessari vitleysingahjörð.
Eins og að hún sé vopn eða tæki til að fækka fólkinu sem spyr, sem tekur ekki arðrán, auðrán, til dæmis atlögu auðsins að framtíð lífsins hér á jörðu með því að fjármagna loftslagsfífl í valdastól sem flytja minna mengandi framleiðslu frá Vesturlöndum til mengunarverksmiðja glóbalsins, sem gefnu, heldur bregst við, berst gegn hinni augljósu tortímingu siðmenningarinnar.
Og þá spyr maður sig, hverjir þjóna þeir sem nota lygina sem vopn til að fífla hið skapandi fólk á jaðrinum??
Augljóst er að benda á hægri veitur frjálshyggjunnar sem hafa virkjað trúfífl í Bandaríkjunum og víðar, sem núna berjast fyrir ótímabæru andláti fólks vegna kórónuveirunnar, en slík ábending er grunnhyggin, eins og þessi könnun vísar í, þá er margt fólk til vinstri tortryggið og sú tortryggni fær það til að trúa bulli og vitleysu, það er í raun í vanheilögu bandalagi með öflum sem lengst er til hægri í stjórnmálum, öflum sem geta ekki opnað munninn um samfélag eða samfélagsmál, án þess að orðið frelsi sé annað hvert orð sem það notar í rökstuðningi sínum.
Eins og vinstri fólk viti ekki að hið meinta frelsi er orðskrípi yfir þá leitni hinna Ofurríku að setja restina, almenning, fólkið í þrælabönd arðráns og örbirgðar.
Eins og þetta vinstri fólk hafi gleymt hinni hatrömmu baráttu áa sinna fyrir frelsi almennings úr fjötrum fátæktar og arðráns hinna Örfáu sem áttu allt, og gáfu ekkert eftir nema vegna blóðugrar baráttu verkalýðsstéttarinnar.
Hvernig hægri öfgar náðu að mynda bandalag með vinstra fólki, stjórnleysingjum, fólki sem fyrirfram ætti að vera þess helsti andstæðingur, má guð vita.
En það má samt sjá trend þar að baki hinu augljósa bulli eru staðreyndir afskræmdar, í besta falli, oftast eru þær búnar til að kaldrifjuðu hægra öfgafólki sem matar svo stjórnleysið, vinstra fólkið með einhverju sem gæti alveg verið satt, nema hængurinn er sá að uppspuni frá rótum býr að baki.
Hér á Moggablogginu er fátt um vinstra fólk, endrum og eins slæðast inn athugasemdir einhverja tapsárra meintra jafnaðarmanna sem ennþá gráta ósigur sinn í ICEsave stríði breta gegn íslenskri alþýðu, annars erum við hér inni fólk sem er oftar til hægri, fyrir utan þá örfáu sem eru ekki neitt í pólitískum skilningi.
Og leitt er að segja það, hér fækkar óðum vitibornu fólki, hjól tímans er þar líklegasta skýringin, engin rífst við meintan aldur eða dauða, en ekki að vitleysingum hafi fjölgað, þeir verða aðeins meir áberandi eftir því sem hinum fækkar.
Það trend afhjúpar kóvid umræðan, líklegast þarf að fara víða um hinn víða heim til að finna aðra eins hjörð fólks sem vanvirðir hægra heilahvel homo sapiens, en nýtir órökhyggju hins vinstra til að réttlæta skrif sín og viðhorf.
Svo er það fólkið sem lýgur vísvitandi, kinnroðalaust fóðrar það vitleysingahjörðina með blekkingum, rangfærslum og beinum lygum.
Til dæmis þegar Ingileif Jónsdóttir, okkar fremsti vísindamaður í ónæmis og veirufræðum, vitnaði í rannsóknir breskra og ísraelskra vísindamanna, um tíðni aukaverkana vegna bólusetninga, þá voru góð ráð dýr, múgæsingin gegn bólusetningum var afhjúpuð, ruglið og bullið átti sér enga stoð í raunveruleikanum.
Alvarlegar aukaverkanir vegna hjartaóreglu eða hjartasjúkdóma, voru svo sjaldgæfar að þær mældust vart marktækar hjá börnum og unglingum, en voru örfá tilvik per milljón hjá karlmönnum á aldursbilinu 20-40 ára.
Gegn þeirri staðreynd var logið hér beint á Moggablogginu, ekki hjá vitleysingahjörðinni, heldur hjá manni sem þekktur er að fara rétt með staðreyndir í ýmsum málum.
Svona eitthvað sem minnti á underkóver útsendara Stasi (leyniþjónusta Austur Þýskalands) í Vestur Þýskalandi á dögum Kalda stríðsins, þeir afhjúpuðu sig úr öruggu gervi hins venjulega þegar húsbóndinn í Kreml taldi afhjúpunina þjóna tilgangi í hinum köldu stríðsaðgerðum sínum.
Logið var ekki beint, heldur vísað í einhvern huldulækni, sænskan, sem las það út úr þeirri tilraun sem Ingileif vitnaði rétt í, að niðurstöðurnar réttlættu að hætt væri við bólusetningu yngra fólks.
Rangt farið með staðreyndir, trúverðugleikinn notaður til að ljúga að fólki.
Ekki að fólki að jaðrinum, heldur að góðlátlegu eldra hægri sinnuðu fólki.
Vörn þess, bólusetningarnar, sem gerir það nokkuð öruggt á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, gert tortryggilegt, undirliggjandi að ýta undir ótímabærum dauða þess fólks sem fellur í hunangsgildru þess svarta sem fóðrar dauðann gegn þessu sama fólki.
Og þessi atlaga að lífinu er gerð undir merkjum málfrelsis og lýðræðislegrar umræðu.
Eitthvað sem gömlu Stalínskommarnir hefðu þegið þegar þeim var sagt að lygar og blekkingar þeirra væru ekki innan þess ramma sem lýðræðið setur lýðræðislegri umræðu.
Þetta snýst nefnilega ekki um fólkið á jaðrinum sem er líklegast til að trúa samsæriskenningum.
Þetta snýst um trúverðuga borgarlega miðla sem umbera beinar lygar og blekkingar, gleymd er sú Snorrabúð sem setti slíku skorður þegar illvígar manndrápskenningar, hvort sem þær sóttu næringu til Berlínar eða Moskvu, herjuðu að siðmenningunni og borgarlegum gildum.
Þá voru borgarlegir fjölmiðlar ekki akur lyga og blekkinga helstefna, eða fólks sem markvisst vinnur að ótímabærum dauða samborgar sinna.
Þeir voru klettur sem helstefnur kommúnismans eða nasismans steytti á, afhjúpuðu lygar og blekkingar þess fólks sem þjónuðu Helinu, gegn lífinu.
Í dag er Snorrabúð stekkur.
Borgarleg öfl verjast ekki.
Illgresi kæfir fjölmiðla þeirra.
Svo eftir stendur spurningin.
Hver verst þá??
Hver ver hin borgarlegu gildi, hið borgaralega samfélag??
Sem er forsenda þeirrar velferðar og þeirrar velmegunar sem við búum við í dag.
Svarið er einfalt.
Ef borgarleg öfl gera það ekki, þá gerir enginn það.
Í því samhengi verðum við skilja gildi borgarlegra fjölmiðla.
Þar er Mogginn á villugötum.
En ekki ennþá; "Blessuð sé minning hans".
En hve lengi??
Kveðja að austan.
![]() |
Fólk á jaðrinum líklegast til að trúa samsæriskenningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 25. janúar 2022
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.5.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar