Landsleikur í skugga ofbeldis.

 

Það er óhætt að segja að það hafi gustað um íslenska landsliðið og KSÍ síðustu nokkra daga, landsliðsmenn eru sakaðir um að vera ofbeldismenn og nauðgarar, og ríkjandi menning innan KSÍ er sögð vera "nauðgunarmenning og gerendamenning".

Þetta eru stór orð og að baki hljóta að liggja atburðir í fortíð og nútíð sem kalla á þau.

 

Halla Gunnarsdóttir, brennandi fótboltaáhugamanneskja, orðaði kjarna málsins vel í pallborðsumræðum um málefni KSÍ, svo ég vitna í frétt Ruv;

"Þessi hegðun sem er lýst, að labba inn á skemmtistað og haga sér svona, þetta gerðirðu ekki bara einu sinni á ævinni og svo aldrei meir,".

 

Það er nefnilega þannig að ofbeldismönnum fylgir slóð, sem blasir við og ekki er hægt að þagga niður til lengdar, og þó lögfræðingum hafi tekist að afvegleiða réttarkerfið í þágu skjólstæðinga sinna, að hvert ofbeldismál verði að skoðast eitt og sér, en ekki í samhengi við önnur mál svipaðs eðlis, þá er það svo að það er síendurtekið ofbeldi sem ljáir mönnum stimpilinn ofbeldismenn.

Nærtækt er að benda á mál Harvey Weinsteins eða Andrew Bretaprins, þegar eins steig fram undir nafni, þá fylgdu margar á eftir, og í dag gistir Weinstein grjótið en orðstír Andrew er enginn annar en sá að hann níddist á unglingsstelpum í partíum sem eitt villidýr í mannsmynd hélt fyrir ríka og fræga fólkið.

 

Þessi slóð er ekki til staðar í málefnum meintra ofbeldismanna landsliðsins, þrátt fyrir að fjölmiðlar og slúðurmiðlar hafi leitað af henni ítarlegra en tekur að finna nál í heystakki.

Það hafa engar stúlkur stigið fram undir nafni og ásakað Kolbein Sigþórsson um svipaða framkomu og hann var ger af eitt kvöld 2017.  Kolbeinn hefur gengist við verknaðinum, tekur fram í yfirlýsingu sinni að hann kannist ekki við hann, en bætir við að hann sé að vinna í sínum málum.  Lesið milli línanna þá virðist hann hafa farið í blakkát og gert ýmislegt af sér sem hann man ekki eftir.

Ásökun um aðra hópnauðgun reyndist vera flugufrétt sem talskona Stígamóta sver af sér að sé frá samtökunum komið.

Úr leitinni stendur aðeins eftir meint ofbeldi Ragnars Sigurðssonar á húsgögnum heimilis hans, en þó margur perrahátturinn sé til í þessum heim, þá verður slíkt seint flokkað undir nauðgun.

 

Einhver slóð getur verið þarna sem ekki hefur komið fram, og það má vel vera að það sé algjör viðbjóður, en útfrá því sem ekki er þekkt og vitað, er ekki hægt að úthrópa saklaust fólk sem níðinga, eins og gert hefur verið undanfarna daga af íslensku hópsálinni.

Hvað þá að það sé hægt að slá því fram að innan KSÍ sé ríkjandi nauðgunar og gerendamenning.

Slíkt er árás á almenna skynsemi sem og almennt siðferði, siðað fólk ásakar ekki annað fólk um alvarlega vanrækslu, yfirhylmingu á glæpsamlegri hegðun, eða varpar sekt á hóp vegna gruns um að einn innan hópsins hafi framið alvarlegan glæp.

Ef það hefur ekkert annað í höndunum en orðróm og gróusögur, og rökin er vísan í síbylju orðræðu múgæsingarinnar.

Hér er vissulega ekki verið að brenna hús eða taka fólk af lífi vegna orðróms, nema þá í óeiginlegri merkingu, en menn ættu samt að staldra við og íhuga af hverju Biden forseti baðst afsökunar á voðaverkunum í Tulsa eða ríkisstjóri Virginínu náðaði í dag 7 svört fórnarlömb múgæsingar, 70 árum eftir aftöku þeirra, þeirra sök grunur um glæp.

 

Hlálegt er svo að spjótum er beint að ötuli baráttukonu gegn kynbundnu ofbeldi, réttindum þeirra sem eru öðruvísi, manneskju sem hefur lyft grettistaki innan knattspyrnuhreyfingarinnar í jafnréttismálum.

Þar var stutt í hommahatrið og Þórðargleðin mikil yfir falli Klöru Bjartmarz.

Í valdabaráttu er ekkert heilagt, það sást að aðkomu aurapúkanna í félagsskapnum sem kennir sig við topp.

 

Landsleikurinn fer samt fram, í skugga þess ofbeldis sem saklaust fólk hefur verið beitt af ósekju.

Hvort sem það er kynbundið ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, eða ofbeldi umræðunnar.

Landsleikurinn er prófsteinn á andlegan styrk þeirra ungu manna sem eru að taka við keflinu af hetjunum hans Lars og Heimis.

Þeirra er að fara inná og spila fótbolta, um það snýst þetta þegar allt annað er dregið frá, fótboltinn er ástríða svo margra, og hafi hann villst af leið, þá er það þeirra að draga hann að landi.

Þeirra er síðan lærdómurinn, hegðun þeirra innan og utan vallar skiptir öllu ef friður á að ríkja um íþrótt þeirra.

 

Hvort þjóðfélagið lærir á síðan eftir að koma í ljós.

Vonandi er einhver þarna úti sem tekur það að sér að rannsaka þetta mál ofaní kjölinn, fær allar staðreyndir uppá yfirborðið, hversu sársaukafullar þær eru.

Ekki til að dæma, ekki til að fordæma, heldur til að læra af.

 

Ef það er slóð, þá á að finna hana.

Það á að rannsaka ásakanir, fá botn í þær.

Sama hversu mörg helg vé eru undir.

 

Ef engi er slóðin þá þarf líka að fá það á hreint.

Okkar allra vegna.

 

Annað er ávísun á ljótleika sem mun engan enda taka.

Ljótleika sem líka er ofbeldi í sinni tærustu mynd.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Mótmælt í Laugardal: „Skítinn úr skúffunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Gróa réð sig á Moggann.

 

Það er óhætt að segja að orðið heimilisofbeldi fái nýja merkingu í þessari frétt Gróu.

Þó hún sé þaullesin þá kemur hvergi fram að Ragnar Sigurðsson hafi beitt öðru ofbeldi en að níðast á heimili sínu.

Ekki konu sinni, ekki hundinum eða kettinum, nágrannanum eða lögreglunni, aðeins brotið og bramlað húsmuni.

 

Og ég sem var svo grænn að halda að orðið heimilisofbeldi merkti ofbeldi gagnvart öðru fólki, og þá innan veggja heimilisins.

En snillingar eins og Gróa geta með skapandi fréttamennsku gefið orðum nýtt lif eða aðra merkingu, enda ekki undir áþján gamaldags fréttamennsku sem fór í kistu Ara fróða með visku að betra væri að hafa það sem sannara reynist, því auðvita selur það meira að hafa það sem verra hljómar að æðsta boðorði fréttaskrifa.

 

Þá treystir Gróa sér að smjatta aðeins á KSÍ, "Knatt­spyrnu­sam­bandið hafi þá fengið upp­lýs­ing­ar um málið frá ná­grönn­um hjón­anna, en ekk­ert aðhafst.".

Til að geta skáldað í eyður þá fer Gróa örugglega rétt með að nágrannar Ragnars hafi haft sambandi við sambandið, hvað svo gerðist veit Gróa ekki, því að afla þeirra upplýsinga þarf gamaldags fréttamennsku, hringja í fólk, afla sér upplýsinga, fá álit og komment hlutaðeigandi.

Gróu dugar slúðrið, það er henni næg heimild.

 

Ef Gróa verður spurð, látin standa við frétt sína, sem reyndar er mjög ólíklegt í því andrúmslofti múgsefjunar, heiftar og haturs sem nú ríður röftum samfélagsmiðla, þar með þeirra sem ennþá kenna sig við fréttir, þá mun hún örugglega segja, "hvað er þetta maður, þú þarna gerandameðvirki með nauðgunarmenningu, hann var ekki rekinn úr landsliðinu".

Sem er rétt hjá Gróu.

Og hópsálin mun taka undir og klappa, og tilnefna Gróu til næstu blaðamannaverðlauna fyrir rökvísi sína og ályktunarhæfni.

 

Hún mun ekki spá í að KSÍ hafi verið vorkunn á þessum tíma.

Vissulega hafði Lars Lagerbäck tekið á mörgu agamálum innan landsliðshópsins, skrúfað var fyrir djammið og djússið á landsliðsferðum, auk margs annars sem snéri að aga og framkomu landsliðsmanna.

 

En hvernig var hægt að ætlast til þess að Lars hefði sett landsliðsmönnum siðareglur um hve mörg húsgögn og húsmuni mætti brjóta á heimilum þeirra áður en þeir misstu sæti sitt í landsliðinu.

Átti hann að miða við 5 bolla og undirskálar, 6 diska og einn stofustól, eða eitt bollastell og eitt sófasett??, hvenær ganga menn of langt í að misþyrma húsgögnum??

Eða átti hann að hafa þá siðareglu að þegar menn gæfu kost á sér í landsliðið, þá afsöluðu menn sér öllum rétti til að sýna mannlega hegðun, lenda í tilfinningalegu ójafnvægi, fá bræðiköst, líka þegar þeir væru ekki á vegum landsliðsins??

 

Þarna var Lars á, og er þar með orðinn sekur um gerandameðvirkni gagnvart nauðgunarmenningu, og augljóst að hann ætti að reka, væri hann ekki hættur.

Það er marka má Gróu.

Að afla sér upplýsinga hvernig hann tókst á við þetta mál, er algjört aukaatriði.

Hvað þá að það hvarfli að Gróu að það er hægt að takast á við mannlega harmleiki eða mannlegan breyskleika á annan hátt en að krossfesta menn opinberlega, úthrópa þá sem óbótamenn, útskúfa þeim.

Í hennar huga er slíkt alltaf gerandameðvirkni með nauðgunarmenningu.

 

Eftir stendur hlutur ritstjórnar Morgunblaðsins sem réði Gróu í vinnu.

Ef ráðning hennar er birtingarmynd nýrrar stefnu Morgunblaðsins til að halda velli í samkeppni við samfélagsmiðla, að blaðið hætti að vera miðill sem miðlar fréttum, og miðli slúðri þess í stað, þá verður eitt yfir alla að ganga.

Einelti og mismun varðar við ýmis lög í dag, blaðið getur ekki bara slúðrað um heimilissofbeldi knattspyrnumanna, aðrir verða að sitja við sama borð.

 

Þegar ég var ungur var oft sagt um menn að þeir væru vondir með víni, seinna þegar ég var eldri þá las ég oft í viðtölum við menn sem sóttu sér hjálp til að hætta að drekka, að vínið hefði farið illa í þá.

Sem er önnur hlið á sama pening, vísar í að undir áhrifum gerðu menn eitthvað sem ekki lengur var við unað.

Ritstjórn Morgunblaðsins ætti því að setja Gróu í það verkefni, svona fyrst blaðinu er fyrirmunað að skrifa frétt eða fréttaskýringu um hve hæft er í ásökunum um að KSÍ líði meintar nauðganir landsliðsmanna, að fara yfir gagnabanka blaðsins, og þefa uppi þá menn sem játuðu að vín hefði farið illa í þá.

Komast að því hvað var það sem þeir gerðu svo þeir hættu að drekka.

 

Nærtækt væri að byrja á núverandi og fyrrverandi starfsmönnum blaðsins, eins mætti athuga þá sem hæst hafa sig frammi í umræðunni í dag, það er karlkyns því eins og allir vita þá beita hvorki konur ofbeldi eða lenda í tilfinningalegu ójafnvægi.

Af hverju??, jú rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hæst fordæma hafa oft ýmislegt að fela, með hávaða sínum eru annað hvort að koma grunsemd eða sök sem lengst frá sjálfum sér, eða innst inni þá skammist þeir sín fyrir hegðun sína, telja hana jafnvel ranga, og fá þá einhvers konar innri réttlætingu á að fordæma aðra fyrir sömu hegðun.

Eða þeir eru bara almennt séð skítseyði, geta ekki sett sig í spor annarra, finna ekki fyrir samúð eða samhygð, orðtök eins og aðgát skal hafa í návist sálar, eða eigi skal hrapa af dómum, er einhvers konar óskiljanleg latína í þeirra eyrum.

Og skítur fylgir alltaf skítseyðum, það er bara svo.

 

Þegar Gróa hefur tekið fyrir innanhússögur, þá má taka aðra fjölmiðla fyrir, nærtækt að byrja á Rúv, þar hefur margur drykkjuboltinn unnið.

Síðan má snúa sér að stjórnmálamönnum, ættingjum þeirra og vinum, svo leikurum, rithöfundum, háskólafólki, listinn er ótæmandi.

Það er bara að byrja og áratugurinn mun ekki endast Gróu til að smjatta á öllu þeim óhroða og mannlegum breyskleika sem hún grefur upp.

Ákærandi í dag, sakborningur á morgun.

Þannig er heimur Gróu, hann er saga án endis.

 

Eftir stendur.

Er þetta heimur sem við viljum lifa í?

Er þetta samfélag sem við viljum ala börnin okkur upp í??

Er þetta leiðin til að gera heiminn betri??

 

Ég held ekki.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Landsliðsmaður sagður hafa gengið berserksgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2021

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 1440165

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband