27.3.2021 | 12:33
Grínlandið Ísland.
Við erum í upphafi fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins og aðeins snögg og ákveðin viðbrögð heilbrigðisyfirvalda geta bjargað því að annars vegar nái veiran lítilli útbreiðslu, og þar með að fáir veikist illa, sem og að tíminn sem fer í hinar hörðu sóttvarnir, verði sem stystur, að við endurheimtum daglegt líf okkar eftir hinar ætluðu þrjár vikur hinna hörðu sóttvarna.
Svo fólk geri sér grein fyrir alvöru málsins þá var víða í Evrópu ekki gripið til strangra aðgerða fyrr en veiran hafði grafið um sig og þá dugði ekki annað en allsherjarlokun þar sem fólk má fátt annað en að mæta í vinnu, það er ef vinna þess felst ekki í að veita öðrum beina þjónustu, því allt slíkt er bannað.
Það sér ekki fyrir endann á þessum lokunum, mannlíf lamað, ef við tökum til dæmis hlutfall látinna í Tékklandi og færum yfir á okkur, þá væru um 700 manns látnir hérna innanlands. Auk allra hinna sem væru veiklaðir á eftir, munum að afleiðingar Akureyrarveikinnar komu fram eftir að fólk hafði náð sér af veirusýkingunni, fólk varð smán saman veiklað, óstarfhæft, jafnvel ófært um einfaldar daglegar athafnir, vegna þrekleysis sem engin önnur skýring var á en afleiðingarnar af veirusýkingunni.
Afleiðingar kóvid er ekki bara sá mikli fjöldi eldra fólks sem kafnar lifandi, heldur líka allir þeir sem veikjast og verða ekki samir á eftir, verða jafnvel skurnin af því sem þeir voru.
Við getum öll náð þessu ef við leggjumst öll á eitt.
Nema það er bara ekki reyndin, það er eins og ákveðinn hluti þjóðarinnar búi ekki á Íslandi heldur á landi sem kalla má Grínlandið Ísland.
Hvað skýrir annað fjöldann sem þyrpist á Reykjanesið, ekki bara til að gera heiðarlega tilraun til að drepa sig ef vindátt breytist snögglega, heldur á tíma þar fólk er beðið um að forðast mannsafnað, vegna þess að það gengur veira laus í samfélaginu.
Eitt samfélagssmit greindist í gær vegna þessarar fáheyrðu heimsku sem einna helst líkist atferli Dúdú fuglsins í einhverri Ísöldinni (tær snilld teiknimyndanna).
Þau hefðu getað verið 5 eða 15, og það er í raun ekki útséð um það, þó allir voni sitt besta. En það er ekki fólkinu sem býr i Grínlandinu Íslandi að þakka.
Á sama tíma og við heyrum um að skóli eftir skóla sé að setja nemendur og starfsfólk í sóttkví, á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að skólar landsins verði lokaðir eftir páskafríið, sviðslistir enn einu sinni sviptar tekjum sínum, þá hagar fólk sér svona.
Eins og ekkert sé vitið, engin sé alvaran gagnvart hlutum sem þarf að taka alvarlega.
Hlutum sem eru dauðans alvara.
Angi af sama meiði eru þau fáheyrðu viðbrögð forstjóra Vinnumálastofnunar sem kom í fjölmiðla gær ybbandi sig, hvað úr um að skrifræði hennar væri ekki um að kenna að veiran slyppi inni í landið.
Rökin, fjöldi atvinnuleitanda sem þurfa að endurnýja vottorð sín, sem hlutfall af heildar fjöldanum sem kemur til landsins.
Hún vissi ekkert um fjölda smita sem hefði verið rakinn til þessa hóps, eða annað sem viðkom sóttvörnum, í raun það eina sem hún vissi var að hún kynni ennþá prósentureikning.
Alvarleikinn í þessu er að það eru göt á landamærunum, veiran hefur sloppið í gegnum varnir, og þó það hafi í flestum tilvikum náðst að finna þau tilvik og einangra, þá er núna vitað að allavega eitt smit hefur sloppið í gegn, og náð að breiða úr sér.
Og eitthvað skrifræði á ekki að verða þess valdandi að auknar líkur séu á slíku smiti, við lifum á 21. öldinni og þó það sé hugsað sem hindrun sem dregur úr ásókn í atvinnuleysisbætur, þá höfum við ekki efni á slíkri hindrun í dag.
Vinnumálastofnun eins og aðrir verður að nýta sér rafeindaheim til að gefa út vottorð og samþykkja vottorð en ekki að ýta undir óþarfa ferðalög frá stórsmituðum svæðum Evrópu sem bera með sér hættuna og ótann við nýtt samfélagslegt smit innanlands.
Þriðja fréttin í gær var um að þrátt fyrir tilmæli, sem ítrekuð eru eftir hinar hörðu sóttvarnir vikunnar, að þá sækir fólk ennþá ástvini sína á Keflavíkurflugvöll, þó slíkt sé með öllu bannað.
Ekki vegna þess að menn hafa svo gaman að því að banna, heldur vegna þess að það er knýjandi nauðsyn að stöðva smitleka inn fyrir landamærin.
Samt gera Grínlendingar þetta, og samt komast þeir upp með þessa hegðun sína.
Líkt og landið okkar sé eitt stórt djók.
Það virkar nefnilega þannig síðustu dagana að Þórólfur, já og fóstbróðir hans Kári, séu þeir einu sem hafa áhyggjur af ástandinu.
Þeir séu svona hrópendur sem enginn hlustar á, séu án stuðnings yfirvalda og löggæslunnar, og að almenningur hafi flutt búsetu sína frá Íslandi til Grínlandsins Ísland.
Eins og okkur sé slétt sama hvort það náist að setja veiruna í bönd og síðan útrýma henni, eða ef það tekst, að þá sé okkur slétt sama hvort nýtt og nýtt smit sleppi framhjá vörnum þjóðarinnar og öll hringavitleysa samfélagslegra lokana hefst á ný.
Því öll vitum við hvað er í húfi, það er ekki afsökunin fyrir Dúdú hegðun okkar.
Það sem er í húfi er líf okkar, vorið og sumarið.
Að við getum lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi ef við náum að verja landamæri okkar.
Að við séum ekki stöðugt í herkví sóttvarna.
Og Þórólfur reddar þessu ekki einn.
Höfum það á hreinu.
Kveðja að austan.
![]() |
Fjórir greindust innanlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 27. mars 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 3
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 1440174
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar