24.3.2021 | 22:38
Ósköp getur Sigríður verið beinskeytt.
Þegar hún vill svo við hafa.
Gaman að fá hana svona skýra út úr kófinu og full ástæða til að endurbirta orð hennar;
""Það eru mjög misvísandi skilaboð að gefa út svona yfirlýsingu og senda svo prívatnótu til utanríkisráðuneytisins sem segir að þetta eigi ekki við um Ísland".
"Ísland hefur kannski ekki ástæðu til að blanda sér mikið í þessa baráttu ESB og Bretlands, en við erum óhjákvæmilega dregin inn í málið með þessari ákvörðun í morgun," segir hún.
"Íslensk stjórnvöld eiga að mínu mati að krefast þess að Ísland verði tekið út úr þessari tilkynningu hið fyrsta. Og framkvæmdastjórnin ætti í raun að biðjast afsökunar á þessu," segir Sigríður enn fremur, en hún er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
"Þetta er allt saman algjör þvæla, en svona er þessi umræða orðin. Og viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar eru gerræðisleg og óyfirveguð. Þau eru í raun miklu verri en veiran sjálf nokkurn tíma.".
Já viðbrögð framkvæmdarstjórnarinnar eru í raun miklu verri en veiran sjálf.
Heimskulegast af mörgu heimsku var krafa framkvæmdarstjórnarinnar um frjálst flæði veirunnar, landamærum var ekki lokað fyrr en öll álfan var smituð.
Og hjáleigurnar í Schengen eltu, þorðu ekki að loka fyrr en allt var orðið of seint.
Hins vegar er það orðið grafalvarlegt mál hvernig Evrópusambandið hagar sér þessa dagana, vikurnar, mánuðina, síðustu árin.
Samskipti við flest ríki byggjast á hótunum og yfirgangi, nema gagnvart Kína, þar er skriðið, nema svona til málamynda var skjalamappa með upplýsingum um óþekkta embættismenn í Xinjiang héraði hökkuð og nöfn nokkurra dregin úr hattinum og sambandið setti á þá viðskiptaþvinganir.
Brussel er um margt farið að minna áþarflega mikið á annað veldi sem var líka stýrt frá B-borg.
Það veldi reyndar hervæddi sig og lét kné fylgja kviði hótana sinna, Brussel er hins vegar máttvana pappírstígrisdýr, svo það ógnar fáum, en það truflar mikið.
Þess vegna er þörf tilbreyting að lesa svona ádrepu, í stað hins hefðbundna orðfæris skríðandi stjórnmálamanna sem halda ekki taktinum í skriðinu því þeir eru alltaf að taka ofan, taka húfuna aðeins úr hendi sér til að setja hana á höfuð svo þeir geti strax aftur sýnt auðmýkt sína og undirlægjuhátt með því að taka hana niður jafnharðan.
Það er jú þess vegna sem þeim gengur svona illa að skríða í takti.
En þeir skríða og skríða, þeir skriðu þegar bretar beittu okkur fáheyrðri fjárkúgun í ICEsave, þeir skriðu þegar sambandið krafðist innleiðingar regluverks sem afsalar þjóðinni yfirráðum sínum yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og þeir skríða núna.
Nema Sigríður.
Hún vill að alþjóðasamningar gildi.
Og auðvitað eiga þeir að gilda.
Hvað annað??
Kveðja að austan.
![]() |
Segir háalvarlegt að setja Ísland á bannlista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 15:45
Vá, núna eru það stálin stinn.
Engin hálfvelgja, engar hálfkveðnar vísur, ekki "ég veit betur".
Spyrja má reyndar, af hverju er enn og aftur verið að níðast á landsbyggðinni, sem passar upp á sig, svo langt síðan að víða greindist smit, að hugsanlega eru menn farnir að rugla því saman við síðasta faraldur Stóru bólu.
En samt, það er viss lógíg að láta eitt yfir alla ganga, þetta bráðsmitandi breska afbrigði er ekkert grín.
En þá mega grínarar ekki stjórna ferðinni.
Dómsmálaráðherra gerði sig seka um fáheyrðan dómsgreindarbrest með því að setja nýjar reglur um sóttvarnir á landamærum, án þess að hafa sóttvarnarlæknir með í ráðum, og fjármálaráðherra var lítt skárri þegar hann reyndi að verja þá vitleysu sem í raun er skýlaust lögbrot.
Þarna þarf ríkisstjórnin að gera hreint fyrir sínu dyrum.
Og yfirlýsing heilbrigðisráðherra um að ríkisstjórnin stæði við ákvörðun sína um að láta litaspjöld stýra landamæraeftirliti eftir 1. maí er líka ámælisverð, en hún var þó að ítreka þegar tekna ákvörðun þegar aðstæður voru hugsanlega betri og bjartsýni vegna bólusetningar réði ríkjum.
Hennar víti var að sjá ekki hinar breyttu aðstæður sem og að fara gegn áhyggjum sóttvarnarlæknis.
Það er nefnilega þannig að sóttvarnarlæknir hefur alltaf haft rétt fyrir sér.
Hans einu mistök voru að reyna að þóknast ríkisstjórn Íslands svo það líti út að hún sé heil, en ekki klofin eftir línum hægri öfganna í Sjálfstæðisflokknum.
Þess vegna spilaði hann með þegar landamærin voru opnuð síðasta sumar, þess vegna var hann ekki nógu harður að krefjast þess að stoppað væri í lekann á landamærunum.
En einn daginn áttaði Þórólfur sig á því að hann var sóttvarnarlæknir, ekki sóttvarnarstjórnmálamaður, hans hlutverk var ekki að eltast við hið mögulega í hinum pólitísku refjum baktjaldanna, heldur að gegna lögboðnu hlutverki sínu að verja þjóðina gegn vágesti farsóttarinnar.
Síðan þá hefur hann staðið vaktina, og nýtur bæði traust þjóðarinnar sem og heilbrigðisstarfsmanna.
Það fer enginn gegn Þórólfi í dag.
Hans tími er kominn.
Hann á að klára dæmið.
Aðeins lokun landamæranna gegn nýsmiti getur réttlætt þessar hörðu aðgerðir.
Að gera ekki nóg er fullreynt.
Í sjálfu sér við engan að sakast, það sem er liðið er liðið, en sökin er mikil, algjör, ef menn læra ekki, og gera ekki það sem þarf að gera.
Veiran getur vissulega alltaf sloppið í gegn um varnir.
En það á ekki að vera vegna mannanna verka, að það sé viljandi skildar eftir glufur sem hún getur nýtt sér til að koma af stað nýrri og nýrri bylgju.
Þetta er svona.
Þetta sér allt vitiborið fólk, allt fullorðið fólk.
Börn og unglingar líka.
Ef það er eitthvað sem hindrar í ríkisstjórn Íslands, þá ber forsætisráðherra að losa um þá hindrun.
Hvort sem það eru einstakir ráðherrar eða flokkar.
Ef hægri heimskan tröllríður svo Sjálfstæðisflokknum að hann getur ekki varið þjóð sína, þá ber Katrínu að reka hann úr stjórninni, og mynda ríkisstjórn með þeim flokkum sem eru tilbúnir til þeirra verka að halda veirunni frá Íslandsstrendum þar til þjóðin er að fullu bólusett, og veiran ógni ekki framar lífi og limum þeirra samborgara okkar sem eru í áhættuhópum.
Þetta er ekki val, þetta er nauðsyn.
Aðeins orðað til að benda á að það er ekkert í veginum fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
En það mun ekki reyna á þetta því Sjálfstæðisflokkurinn er með.
Aðeins einhuga ríkisstjórn bregst svona skarpt við eins og þessar tillögur fela í sér.
Klárum svo dæmið.
Enn og aftur, það er ekki val.
Það er það eina.
Kveðja að austan.
![]() |
Tíu manna fjöldatakmörkun frá miðnætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 11:34
Taktu slag við raunveruleikann.
Og það eina sem er öruggt, er ósigurinn.
Eina spurningin hve menn blóðga sig mikið við að lemja hausnum við stein raunveruleikans.
Landamæri, sem leka, valda fyrr eða síðar samfélagssmiti sem aðeins víðtækar lokanir og höft á daglegu lifi geta unnið bug á.
Miðað við sögurnar sem leka út um lekann, þá er í raun ótrúlegt hvað landamærin hafa haldið og fyrir utan lukkuna sem hefur verið með okkur í liði, þá eigum við því að þakka frábæru fólki í smitrakningu og góðu skipulagi um að setja alla í sóttkví sem hugsanlega geta tengst smiti.
En var á meðan var, í dag er raunveruleikinn sá að páskarnir eru undir, vorið og jafnvel byrjun sumars ef hlutirnir eru ekki strax teknir alvarlega.
Samt enn og aftur, allt til einskis, ef tregða stjórnmálamanna við að feisa raunveruleikann, árátta þeirra að taka slaginn við hann, kemur í veg fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
Það þarf ekki mikla heilbrigða skynsemi, eða mikinn þroska, að vita að þegar 4 göt kom á bátinn, þá dugar ekki að gera aðeins við 2, hin duga til að hann sökkvi.
Þess vegna er okkur hollt að rifja upp raunsögu þeirra sem reyna að koma vitinu fyrir stjórnmálamennina.
"Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að lögreglan á landamærunum hefði kallað eftir hertum reglum og eftirliti með fólki sem hyggst dvelja á Íslandi í mjög stuttan tíma, jafnvel styttri tíma en sóttkví á að standa yfir. "Við erum að ýta á það núna ásamt sóttvarnalækni að reglum verði breytt þannig að þegar við sjáum svona getum við keyrt fólk beint í sóttvarnahús þar sem það er undir eftirliti". ....
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til í nýjasta minnisblaði sínu að víðtækt samráð verði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, Sjúkratryggingar Íslands og Rauða Krossinn um hvort hægt sé að skylda flesta eða alla þá sem ferðast hingað til lands til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan á sóttkví eða einangrun stendur. "Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra,". ...
Hann minnir á að þau smit sem greinst hafa innanlands að undanförnu tengist smituðum ferðamönnum og fullyrðir að oft á tíðum hafi litlu mátt muna og mikil mildi að smitin hafi ekki hrundið af stað stærri hópsýkingum. ". (úr frétt Ruv).
Þetta hefur verið vitað svo lengi það er að smitið innanlands tengjast smituðum ferðamönnum, það er flandrið á fólki sem ógnar okkur hinum, fjöldanum.
Og hópsýkingin sem gæti þróast í stærri faraldra, virðist samkvæmt fréttum dagsins, vera mætt á svæðið.
Í gær tilkynnti ríkisstjórnin vissulega hertar aðgerðir á landamærunum, og því ber vissulega að fagna.
Ber að fagna vegna þess að þegar menn hafa á annað borð viðurkennt vandann, og gripið til aðgerða gegn honum, þó ekki sé nóg gert, þá er aðeins tímaspursmál hvenær allt verður gert sem þarf að gera.
Sbr til dæmis ef menn sjá glæpahópa vígvæðast, og telja það ótækt, þá dugar ekki að afvopna suma, en láta aðra vera. Markmiðinu um friðsælla samfélag er ekki náð fyrr allir eru afvopnaðir.
Eðlilegt mannlíf kemst ekki á fyrr en landamærin halda.
Að feisa þá staðreynd er forsenda þess að stjórnvöld fái almenning í lið með sér enn einu sinni enn.
Í lið með sér að bæta fyrir klúður sem stjórnvöld bera beina ábyrgð á, einu sinni enn.
Að reyna annað, að bulla gegn raunveruleikanum, að sleppa börnunum lausum, gengur ekki þegar svona er komið.
Fögnum skrefinu sem var tekið í gær.
Fögnum skrefinu sem verður tekið í dag.
Og tilkynnum hátíð þegar lokaskrefið verður tekið.
Höldum svo glaðbeitt inní sumarið.
Í landinu okkar, óhrædd.
Frjáls.
Kveðja að austan.
![]() |
17 smit innanlands 14 í sóttkví |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 24. mars 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 3
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 1440174
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar