Fór eitthvað úrskeiðis í uppeldi þessa manns??

 

Vond og á köflum ill meðferð farandverkafólks í skjóli hins frjálsa flæðis Evrópusambandsins er illkynja æxli á evrópskum vinnumarkaði.

Fyrir utan siðleysi, hina taumlausu græðgi og algjöra mannfyrirlitningu sem knýr óhæfuna, þá skekkir þetta samkeppnisstöðu ærlegs fólks og ærlegra fyrirtækja, í kerfi sem hefur bundið það í lög að ætíð skuli taka lægsta tilboði.

Eflingardæmið á sér margar bræður um alla Evrópu, tugþúsundir svona málaferla eru í gangi á hverju ári, íslensku úrþvættin eiga einnig stóran frændgarð um allan hinn vestræna heim.

 

Þeir sem mannsal stunda og græða fúlgur á illri  meðferð fátæka náunga okkar, hafa fyrir löngu komist að því að í stað þess að reyna að eltast við að SÝNAST gera rétt, þá er ódýrara að kaupa sér lögfræðinga til að fara yfir starfsemi þeirra frá fyrsta degi til að passa uppá formið og vera síðan með þá tilbúna í réttarsölum, gráa fyrir járnum, gegn því fátæka fólki sem þó reynir að leita réttar síns.

Því einhver hefur logið því að því að vestræn ríki séu réttarríki þar sem allir eru jafnir fyrir lögum.

 

Þó Eflingardæmið vísi í þekkta sögu og aðstæður mannsals, sem er skjalfest í lögreglustöðvum um alla Evrópu, og hið fátæka farandverkafólk segir satt og skilmerkilega frá, sögu sem við vitum að á sér ótal hliðstæð dæmi hér innanlands, við höfum séð myndir, hlustað á viðtöl við fórnarlömb hinnar siðblindu græðgi, þá er það ekki nóg fyrir héraðsdómara.

Í yfirlætistón sem allir þekkja sem hafa séð bísperrta laganema í Vöku, útskýrir hann fyrir hinu fátæka misnotaða farandverkafólki að því hafi láðst að fá sér lögfræðing frá fyrsta degi til að gæta að formi málssóknar sinnar, fá sönnunargögn skjalfest og svo framvegis.

Og síðan, öðrum til viðvörunar, dæmir hann hina fátæku, sem voguðu sér að kvarta og kæra, til þungra sektar, öðrum til viðvörunar í sömu stöðu.

Svo er fólk hissa á því að mansal, hvort sem það er í byggingariðnaði, vændisiðnaði svo dæmi séu nefnd, grasseri og sé samfélagsleg meinsemd og ljótur blettur á samvisku Evrópu, skinhelgi hennar er að verða skrum um algjöran ljótleika.

 

Svona eru lögin segja margir og yppta öxlum, telja þá axlarypptingu rúmast innan þess að vera ærleg og heiðarleg manneskja.

En þá vil ég vitna í skrautlega sögu hins meinta glæpakóngs Íslands sem núna situr í gæsluvarðhaldi því aftakan í Rauðagerði braut niður skjaldborg hans innan lögreglunnar.

Eitt sinn þegar hann var að byggja upp það sem meðvirkir kalla athafnaferil sinn, þá var hann sóttur til saka fyrir kannabisræktun, þar sem hann leigði íbúðina sem hún var í á 600 þúsund á mánuði, þó engar voru tekjurnar á skattskýrslunni, heima hjá honum fannst teikning af kannabisrækt í heimahúsum auk margra annarrar sönnunargagna.

En að sjálfsögðu var hann sýknaður af einhverjum bísperrtum, ekki hafði hann hugmynd um af hverju þessi teikning væri heima hjá honum, þó hann leigði íbúðina þá vissi hann nákvæmlega ekkert hvað fór fram í henni og ekki er það glæpur hjá tekjulausum manni að leigja íbúð á 600 þúsund.

Kommon sagði héraðsdómarinn og ekki veit ég hvort í þetta skiptið hefði hinn blásaklausi athafnamaður sem varð ríkur af því að anda að sér loftinu fengið dæmdar bætur vegna lögregluofsókna, en flest mál á hendur honum enduðu þannig.

 

Málið er nefnilega að þjóðfélag gegnsýrt af skipulagðri glæpastarfsemi, hvort sem það er á svið hvítglæpa eða þeirra hefðbundnu, er aldrei án forsenda og það er löngu liðin tíð að leigumorðingi sé mikilvægast vinnumaður mafíustarfseminnar, heldur er það stétt sem kennd er við lögfræði.

Með einokun sinni á réttarkerfinu selur hún þjónustu sína dýrt, svo það er löngu liðin tíð að venjulegt fólk getur vænst nokkurs réttlætis ef það tekst á við peninga.

En það er ekki tilefni þessa greinar eða ég sé á nokkurn hátt að velta fyrir mér uppeldi héraðsdómarans.

Þetta er svona og við látum þetta viðgangast.

 

Það er maðurinn sem hæðist að Eflingu eftir niðurstöðu héraðsdóms og talar um sneypuför.

Vinnandi fyrir samtök sem hafa lengi barist gegn svörtum vinnumarkaði, mannsali og öðru óeðli sem hefur viðgengst á vinnumarkaði í skjóli óljósra laga og því sem virðist vera algjört viljaleysi framkvæmdarvaldsins að framfylgja þó þeim lögum sem eru í gildi.

Vegna þess að Samtök atvinnulífsins byggja á heiðarleika og að leikreglur markaðarins séu gegnsæjar, að það sé farið eftir þeim, og frávik eins og mannsal sem skekkja samkeppnisforsendur fyrirtækja, milli heiðarlegra versus hinna, séu ekki liðin.

Og um það er framkvæmdarstjóra Samtaka atvinnulífsins fullkunnugt, enda tekið fullan þátt í þeirri vinnu, og oft á tíðum verið andlit hennar út á við.

 

Samt klappar hann og blístrar eins og hver annar ótýndur götustrákur.

Hvert vitið er þar að baki, í ljósi þess sem ég útskýrði hér að ofan, og hver trúverðugleiki baráttu Samtaka atvinnulífsins er á eftir, gerir hann upp við sína vinnuveitendur.

Allavega eru það svona mál sem sker úr um hvað býr að baki hinu fögru orðum, hvort um fagurgala sé að ræða þar sem engin alvara býr að baki.

 

En það er innrætið.

Gleymum ekki um hvað málið fjallar.

Um níðingsskap sem er þekkt samfélagslegt mein, bæði hér og í öðrum Evrópulöndum.

Þar sem er níðst á fátæku fólki og komið fram við það sem skít.

 

Það er ekki bara að maður gerir ekki svona.

Heldur samþykkir maður ekki að aðrir geri svona.

Hvað þá að lög okkar og reglur leyfi mönnum slíka hegðun.

Því það eru svona má sem dæma manns innri mann.

Um það hafa allar íslenskar ömmur verið sammála í gegnum tíðina.

 

Okkur getur öllum orðið á og gert eitthvað miður fallegt, en að hlakka yfir níðingsskap, er það ekki einhver mörk sem við förum treg yfir??

Það sem þú gerir mínum minnsta bróðir, það gerir þú og mér, var einu sinni sagt.

Og á að segjast meðan siðmenningin lifir, og er sagt á meðan einhver amma kennir og hlúir.

 

En það var ekki sagt í þessari frétt.

Langt í frá.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Segja Eflingu hafa farið sneypuför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2021

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1440175

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband