14.11.2021 | 13:36
"Við erum enn á barmi stórslyss í loftslagsmálum"
Segir Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, stóra spurningin er þá, af hverju gerir hann þá ekkert??
"Loftslagsbreytingar ógnar tilveru mannkyns" segir "Carolyn Maloney, sem er formaður eftirlisnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings við yfirheyrslu á forstjórum stóru olíufyrirtækjanna vestra. Það var eins og hún var að gera þá ábyrga fyrir notkun mannkyns á jarðeldsneyti, líkt og hún væri að leita að blóraböggli til að réttlæta aðgerðaleysi Bandaríkjanna í lofslagsmálum.
"Stund sannleikans fyrir mannkynið" sagði Boris Johnson í aðdraganda lofslagsráðstefnunnar, í opnunarræðu sinni líkti hann ógninni af manngerðum lofslagsbreytingum við dómsdagtæki út James Bond mynd, þó nærri lagi væri að hann sýndi cult kunnáttu og líkt henni við Helstirnið í Star Wars.
Úlfur, Úlfur var hrópað og niðurstaðna var gaggandi hæna.
Svo ætlast þetta fólk til þess að það sé tekið mark á því.
Ef hættan er svona alvarleg, þá mæta menn henni, í stað þess að tala um hana, mála hana sterkum litum, og gera svo lítið sem ekkert sem skiptir máli.
Slíkt er alltaf blekking, sýndarmennska.
Í viðtengdri frétt er sagt að "Alok Sharma, forseti COP26 var tárvotur um augun þegar þegar niðurstaðan var ljós og baðst afsökunar því hvernig málin hefðu þróast."
Hver biðst afsökunar í stað þess að standa í lappirnar og segja, þetta er rangt?
Við gerðum ekki nóg segir aðalritarinn, skrýtin játning þegar fyrir liggur að loftslagsvísindamenn segja að "að þær aðgerðir sem voru samþykktar dugi skammt til að sporna við hlýnun jarðar."
Til hvers eru þá menn að þessu, til hvers er leikurinn gerður??
Þetta er svona eins og að ef stjörnufræðingar hefðu fundið lofstein á braut um sólu sem myndi skarast við braut jörðu eftir 5 ár, mannkynið hefði 5 ár til að þróa eldflaug sem myndi mæta steininum og sprengja hann í loft upp, en ágreiningur um hver ætti að gera hvað, bera ábyrgðina og svo framvegis, varð til þess að samþykkt var að varnir jarðar yrðu í því fólgnar að flokkur götustráka yrðu settir uppá Effel turninn og þeir ættu að kasta steinum í átt að loftsteininum eftir að hann kæmi inní gufuhvolf jarðar.
Eitthvað sem skiptir engu, en leiðtogar jarðar gætu þó sagt að þeir hafi náð samkomulagi þó það "sé ekki nóg".
Hvaða skrípaleikur er þetta eiginlega??
Nú þegar er byrjað að taka viðtal við íslensku lofslagstrúðana sem tala um árangur, skref í rétta átt, og eru örugglega þegar byrjaðir að brugga hinu dreifðu byggðum sem og tekjulægri hópum launráð sín.
Kostnaður við samgöngu og flutninga verður brátt óbærilegur fyrir landsbyggðina, kolefnaskattur umhverfisráðherra mun bíta tekjulægri hópa svo þeir dragi úr ferðum og ferðalögum, eitthvað sem skiptir litlu því hinir tekjuhærri bera meginábyrgðina á því kolefnaspori.
Svo fara menn að gróðursetja tré, horfandi framhjá því að vegna hlýnandi veðurfars eru tré að spretta upp í tugþúsundavís á hverju ári af sjálfsánu fræi.
Og jú, hækka raforkuverð, þvinga orkuskipti í samgöngum með illu uppá þjóðina, og bæta fríverslunarkjörin við Kína svo það er öruggt að það litla jákvæða sem gert er, þurrkist út með innflutningi á ódýrum kolefnamengandi varningi.
Í því síðastnefnda kristallast nefnilega hin algjör hræsni íslenskra ráðamanna varðandi lofslagsbreytingar af mannavöldum.
Innlend framleiðsla, vörur og þjónusta frá orku sem er umhverfisvæn, er brotin niður með innflutningi á ódýrum vörum frá mengunarbæli heimsins.
Það dugar ekki minna en fríverslunarsamningur til að tryggja innflutning á þeirri mengun.
Aðförin að íslenskum landbúnaði er annað dæmi.
Í stað þess að efla innlenda matvælaframleiðslu, nýta jarðorkuna okkar til að framleiða megnið af öllu grænmeti og ávöxtum sem þjóðin þarf, gera kjötframleiðsluna að fyrirmynd fyrir heimsbyggðina varðandi kolefnisspor, þá er stjórnvöld í beinu stríði við landbúnaðinn.
Raforkukostnaðurinn er vísvitandi hækkaður með vísan í ESB reglugerðir í stað þess að líta á matvælaframleiðendur sem eina samningsheild og bjóða þeim rafmagn á stóriðjuverði, flutningsgjöld stórhækkuð með eldsneytissköttum og kolefnaskatti, að ekki sé minnst á hina hægdrepandi aðgerð að leyfa innflutning á ófrosnu kjöti, tifandi tímasprengju búfjársjúkdóma.
Eitt er sagt, annað er gert.
Það sama gildir um hinn stóra heim, ríki þriðja heimsins sem bera enga ábyrgð á útblæstri gróðurhúslofttegunda, þurfa sætta sig við orkuskort og það sem býðst verður á verði sem fátækir íbúar viðkomandi landa munu hafa illa efni á.
Skýringin er kárínur gagnvart jarðeldsneytisiðnaðinum sem og hinn tilbúni orkuskortur í Evrópu.
Matvælaverð mun hækka, burt séð frá öllum meintum náttúruhamförum, dýrari orka eða orkuleysi hækkar öll aðföng og ef bændur eiga að lifa af, þá þurfa þeir hækkun á afurðum sínum.
Orkuskortur, hungur, hjá fólki sem síst skyldi og enga ábyrgð ber.
Þannig er framtíðarsýn lofslagsráðsstefna Sameinuðu þjóðanna, aðgerðir sem eiga bíta, svo ég vitni í umhverfisráðherra, vega að lífi og tilveru fátækari hluta heimsbyggðarinnar, jafnt í þriðja heiminum sem og á Vesturlöndum.
Að baki er helstefna hugmyndafræði sem færir mengun til, frá Vesturlöndum í kolabræðslur Kína og Indlands, sem skattleggur orku til að þvinga fram orkuskipti, í orkugjafa sem sannarlega í dag geta ekki sinnt núverandi orkuþörf mannkyns.
Helstefna sem fjármagnar og gerir út lofslagstrúða, og nærir múgæsing, aðallega æskunnar sem býr í foreldrahúsum og nýtir fjármuni sína í borgarferðir mörgum sinnum á ári, og heimsreisur þess á milli.
Með öðrum orðum, Leikhús fáránleikans.
Þetta er aumkunarvert.
Það er aumkunarvert fólk sem mætti til Glasgow og gerði sjálfa sig og heimsbyggðina að fífli.
Það verður síðan ennþá aumkunarverðar þegar það berst fyrir kvaðir á náungann og þvingar fram orkuskipti í löndum sem hafa ekki aðra orku til að hlaupa í.
Því hin manngerða kreppa mun engu breyta um lofslagsvána, þó litla Evrópa hætti að blása gróðurhúsloftegundum út í andrúmsloftið, þá er aukningin í kolbrennslu glóbalsins það mikil að heildarmengun eykst, og það er það sem skiptir máli.
Mengun á heimsvísu en ekki mengun einstakra landa.
Á meðan megnið af neysluvörum heimsbyggðarinnar er framleitt í Kína og í minna mæli hjá öðrum verksmiðjubúum alþjóðavæðingarinnar, þá skiptir engu þó vel stæð ríki nái að fjármagna orkuskipti sín, eða ofstækisfólk að knýja þau í gegn.
Koltvísýringurinn í andrúmsloftinu eykst, veðuröfgar magnast, mannkynið allt situr í súpunni.
Þess vegna er svo broslegt þegar leiðtogar landa eins og Danmerkur eða Kosta Ríka í sýndarmennskunni einni saman stíga á stokk og segjast hætta að nota jarðeldsneyti fyrir 2050, jafnvel þó tugir leiðtoga smáríkja herma eftir þeim, þá skiptir það engu.
Ekki á meðan Kína og Indland er ekki með, og ekki á meðan hin "frjálsa" verslun glóbalsins drepur niður alla framleiðslu en þá sem kemur frá mengunarsóðunum.
Eitthvað svo augljóst.
Nema það segir þetta enginn.
Enginn bendir á hinn nakta keisara og segir; Oj bara.
Á meðan grætur framtíð barna okkar í takt við grát jarðar.
Kveðja að austan.
![]() |
Nýr loftslagssamningur samþykktur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Bloggfærslur 14. nóvember 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.5.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar