Þögnin-Falsið-Glæpurinn.

 

Það er hafið yfir allan vafa að jarðarbúar standa frammi fyrir stórkostlegum hörmungum ef ekki er gripið til aðgerða sem sporna við aukningu koltvísýrings í andrúmsloftinu, þess hluta sem er í okkar valdi að stöðva, draga úr þar sem við getum með því langtímamarkmiði að hagkerfi okkar og samfélög setji ekki meir út í andrúmsloftið en þau hafa getu til að kolefnisjafna.

Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann og lofa aðgerðum, þar með er umræðan komin úr skotgröfum afneitunarinnar yfir í þann nauðsynlega fasa að eitthvað sé gert sem skiptir máli.

Sem leiðir að næsta skrefi, og því allra mikilvægasta, að það sem gert er, og skiptir máli, sé af þeim skala að raunveruleg minnkun verði á kolefnisútblæstri mannkynsins, og sú minnkun hægi mjög á "the final countdown" svo mannkynið hafi svigrúm til að þróa nýja tækni til að bregðast við og vinna  á þeim óhjákvæmilegum katastrófum sem munu verða á næstu árum og áratugum.

Það eina sem við vitum, sama hvað við reynum að telja okkur trú um annað; "You ain´t see nothing yet.

Ofsarigningarnar, ofsastormarnir, ofsahitabylgjurnar, ofsakuldaköstin, öfgarnar sem við höfum þegar upplifað er aðeins forsmekkurinn af því sem koma mun.

 

Fyrirsögn þessa pistils á rætur í frétt sem birtist á Mbl.is í vikunni, frétt sem fór frekar lágt, en er í raun ein af stærstu fréttum þessarar aldar.

"Saka olíufélögin um blekkingar" var yfirskrift fréttarinnar og fjallaði um þegar æðstu stjórn­end­ur helstu olíu­fyr­ir­tækja Banda­ríkj­anna sátu fyr­ir svör­um Banda­ríkjaþings. Þó það löngu verið vitað, og nú þegar sannað og staðfest að bandarísku olíurisarnir hafi beitt sér árum og áratugum saman gegn lofslagsvísindum, þá könnuðust þeir að sjálfsögðu ekki við það á nokkurn hátt í ávörpum sínum, forstjóri Chevron viðurkenndi meir að segja að lofslagsbreytingar ættu sér stað.

 

Síðan kom fréttin, sprengjan, vendipunktur í því stríði sem hagsmunaöfl vestra hafa háð gegn framtíð mannkyns, og best að vitna beint í frétt Mbl.is;

"Carolyn Maloney, sem er formaður eft­ir­lis­nefnd­ar full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, sem fer fyr­ir fund­in­um, spurði m.a. hvort for­stjór­arn­ir væru ósam­mála þeirri full­yrðingu að "lofts­lags­breyt­ing­ar ógni til­veru mann­kyns". Eng­in svör bár­ust og lét Maloney því eft­ir­far­andi um­mæli falla: "Þannig að sann­leik­ur­inn er öll­um ljós".".

 

ÞÖGNIN sagði allt sem segja þurfti.

Það rífst enginn lengur um þá staðreynd að lofslagsbreytingar ógni tilveru mannkyns.

 

Vitiborið fólk rífst ekki við staðreyndir og núna þegar allar mælingar á hitastigi jarðar, hvort sem það er á lofti eða legi, staðfesta spár þeirra lofslagslíkana sem lagt var af stað með um aldamótin, þá er engin ástæða til að ætla annað en að þær spár haldi áfram að ganga eftir.

Eftir stendur í Bandaríkjunum miðaldafólkið, sem rífst um aldur jarðar út frá ættartölum Gamla testamentisins, afneitar þróunarkenningunni því hún samræmist ekki sköpunarsögu Fyrstu Mósesbókar, trúir því að Bill Gates hafi fundið upp bóluefni og farsóttir, eða afneitar þeim raunvísindum sem skýra hlutverk koltvísýrings í andrúmsloftinu, sem er ekki aðeins forsenda lífs, heldur þess að líf þrífist á jörðinni vegna hitatemprunar áhrifa þess.

En kostunaraðilinn, sá sem fóðraði þessa vitleysinga með falsvísindum, hann er fallinn frá, valkostur olíufyrirtækjanna er að spila með, eða vera lögsóttur ella.

Forstjóri Exxon, sem vísvitandi hefur fjármagnað og hampað nokkrum þarlendum falsvísindamönnum, var minntur  á "að árið 1994 hefðu yf­ir­menn tób­aks­fyr­ir­tækja logið að Banda­ríkjaþingi og í fram­hald­inu fengið að gjalda fyr­ir það. "Ég var að vona að þú mynd­ir ekki vera eins og tób­aksiðnaður­inn og segja ósatt um þetta," sagði Maloney.".

 

Tóbaksiðnaðurinn hannaði nefnilega aðferðafræðina sem var síðan notuð með miklum árangri í Bandaríkjunum gegn loftslagsvísindum.

Keyptir vísindamenn voru látnir tala um meinta óvissu í því að tóbaksreikningar yllu krabbameini því það liggur í eðli líkinda að þau eru ekki fullsönnuð (þá væru þau ekki líkindi), þeir voru fjármagnaðir til að rannsaka "eitthvað annað" sem gæti skýrt lungnakrabbamein, og þetta annað sem skýrði einhver prósent, var teflt gegn hinu sannaða samhengi milli tóbaksreykinga og krabbameins.

Launaðir áróðursmenn (eitt megineinkenni þeirra er að þeir þykjast aldrei þiggja krónu fyrir að fífla fólk) voru síðan látnir matreiða FALSIÐ hjá hópum sem markaðsfræðingar fundu út að væru almennt móttækilegir fyrir vitleysu, hægri sinnað trúað fólk sannfærðist þegar raunvísindi voru tengd við sósíalisma og demókrata, stjórnleysingjar þegar þeim var sagt að þetta væri eitt allsherjarsamsæri Djúpríkisins.  Reyndar einföldun á flóknari áróðri en þetta eru nokkurn vegin meginlínurnar.

Það varð bara tóbaksiðnaðinum að falli að ungur faðir með samvisku, kjaftaði frá og gat fært sönnur á máli sínu, annars hefði áætlunin öll gengið eftir og hagsmunatengdir þingmenn innan Repúblikanaflokksins hefðu haft bakland til að tryggja að ekki yrðu sett lög sem hömluðu starfsemi tóbaksfyrirtækja.

 

Varðandi herferðina gegn loftslagsvísindum þá greip raunveruleikinn inní, heimurinn hlýnaði í takt við loftslagslíkön, og í dag finnst ekki einn ókeyptur vísindamaður sem mælir gegn þeim raunvísindum sem segja til um hlutverk CO2 í að viðhalda lífvænlegu lofslagi á jörðinni, og hvað gerist ef því jafnvægi er ógnað.

Og þó afneitunarsinnar munu halda áfram að lemja hausnum í stein, þá er höndin sem fóðraði FALSIÐ búin að afneita afneituninni, búin að afneita þeim.

Þeir eru orðnir sorglegri en þau nátttröll sem ennþá reyna að mæra og verja kommúnisma 20. aldar.

 

GLÆPUR gegn mannkyni er stærstur glæpur sem skilgreindur er í dag í lögum, og hingað til hefur hann verið notaður til að skilgreina einhver voðaverk í stríði eða stríðsátökum, en eftir að kórónufaraldurinn hófst, þá komu upp raddir í Svíþjóð að vísvitandi aðgerðaleysi þarlendra heilbrigðisyfirvalda á fyrstu dögum og vikum kórónufaraldursins væri dæmi um slíkan glæp. Og í Brasilíu er talað um fullum fetum að ákæra forseta landsins fyrir slíkt aðgerðaleysi, og þá út frá lögum um glæpi gegn mannkyni.

Atlaga olíurisanna að lofslagsvísindum er dæmi um slíkan glæp.

Ef það verður síðan sannað að þau hafi líka beitt sér gegn rannsóknum og þróun orkugjafa sem nýta varma sólu án þess að nota jarðeldsneyti sem millilið, þá er erfitt að sjá hvernig þau geta forðast ákæru um slíkan glæp.

 

Eitt sem blasir við svona eftir á, er samsvörunin á mótmælum gegn kjarnorku í Evrópu, til dæmis Þýskalandi, og kostaðra friðarhreyfinga gegn kjarnorkuvopnum í álfunni, en þó það hafi verið grunað, þá var það sannað eftir fall Berlínarmúrsins að drifkraftur þeirra var fjármagn frá Sovétríkjunum og í minna mæli Austur Þýskalandi.

Múgæsing sem spratt úr engu, og varð að engu um leið og kostunaraðilinn féll frá, sem tók samkeppnisaðilann (Nató) og krafist þess að hann afvopnaðist á meðan sá sem fjármagnaði beið grár fyrir járnum tilbúinn til árása, meikaði aldrei neinn sens út frá almennri skynsemi.

Og hvað er kjarnorkuiðnaðurinn annað en samkeppnisaðili jarðeldsneytisiðnaðarins??, og hvaða sens var að herja á hann út frá hættunni af fyrstu kjarnorkuverunum sem voru barn eftirstríðsáranna, í stað þess að krefjast þróunar hans, að tækninýjungar gerðu hann öruggari, kjarnorkan losar jú ekki koltvísýring??

Hvað veldur að kjarnorkan tryggir ekki orkuöryggi í Evrópu í dag??. Í hinni orkusnauðu álfu þar sem almenningur eru ofurseldur dýru jarðeldsneyti, í álfu sem býr við orkuskort sem vegur að afkomu fólks og lífsgrundvelli.

 

Sú stóra spurning er samtvinnuð miklu stærri GLÆP, glæpnum gegn sjálfu lífinu.

Hvað skýrir að það sem hefur verið gert fram að þessu á þessari öld hefur litlu sem engu skilað?

Hvað skýrir hugmyndafræði sem "bítur" (orð umhverfisráðherra) hina fátæku, sem minnstu ábyrgðina bera á losun gróðurhúsloftegunda, er hugsuð til að neyða þá aftur til miðalda í lífsháttum og lífskjörum, en snertir lítt hina auðugu sem halda áfram að hafa efni á orkusóandi lífsstíl sínum, og í dag hæða heimsbyggðina með því að fljúga þvers og kurrs um heimsbyggðina út af meintum áhyggjum sínum af komandi lofslagshörmungum, til að setja ráðstefnu sem fjalla aðeins um eitt:

Skattlagningu og afturhvarf almennings til fortíðar??

 

Á vef Lifandi Vísinda má finna nýlega grein sem heitir "Öll orka gæti verið græn árið 2050", þar sem lesa má þessi orð; "Umbreytingin frá jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku virðist vera óvinnandi verk. En tæknin til að gera það er þegar til staðar. Fræðimenn hafa reiknað út að sólar-, vind- og vatnsorka geta annað orkuþörf heimsins árið 2050 og leiðarbókin er tilbúin.".

Þegar greinin er lesin blasir við að forsenda þessara umbreytinga er öflugt tæknivætt samfélag sem hefur efnahagslega burði til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir, jafnt til að rannsaka og þróa nýja tækni sem og fjármuni til að breyta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Það er öllum ljóst að það ástand er ekki til staðar í Evrópu í dag, upp úr þurru býr álfan við sjálfskipaðan orkuskort, sem neyðir orkufrek fyrirtæki til að loka, þau smærri hætta alfarið framleiðslu, þau stærri flytja hana til mengunarlanda þar sem meginorkan er fengin með brennslu kola.

En rekstrargrunnur svo margra annarra fyrirtækja laskast líka, og þegar erfiðleikar heimsfaraldursins bætast ofaná, þá getur stórhækkaður orkureikningur orðið banabiti margra annars áður vel stæðra fyrirtækja.

Og ofaná þetta á síðan að bæta eldsneytissköttum undir yfirskini baráttu við lofslagsbreytingar, jafnt á sjálfa orkuna sem fyrirtæki nota sem og stórhækkar allan flutningskostnað, kostnað við ferðir starfsfólks og svo framvegis.

 

Í stærra samhengi má benda á stórhækkun flutningskostnaðar, stórhækkun á áburðarverði, ýtir undir matarskort, einhvers konar tilbúið þriðjaheims ástand.

Sem er eiginlega kjarni þess sem er verið að gera heimsbyggðinni i dag.

Áður en við upplifum hamfarir lofslagshlýnunarinnar, þá upplifum við manngerðar hörmungar sem eru réttlættar undir einhverju yfirskini að það sé verið að berjast við lofslagsvána.

 

Sem er alls ekki rétt.

Losun mannkyns eykst með hverju árinu, og þó einhver viðsnúningur hafi orðið á Vesturlöndum, þá er alfarið skýringin sú að hin meðvitaða skattastefna og hinn tilbúni orkuskortur, hefur flutt framleiðslu frá Vesturlöndum til Kína og í minna mæli Indlands, auk annarra fjölmennra ríkja í þriðja heiminum.

Þetta blasir svo við að það er glæpsamlegt að horfa framhjá því.

 

Rhodium group er sjálfstæð rannsóknarstofnun, sem sérhæfir sig að meta raunhagtölur frá Kína, auk þess að fjalla almennt um lofslags- og efnahagsmál, birti skýrslu þar sem fram kemur að Kína eitt og sér ber meiri ábyrgð á losun gróðurhúslofttegunda en Bandaríkin og Evrópusambandið til samans, samt telja þau Ísland með Evrópusambandinu, einn af hinum stóru sökudólgum, ef marka má umræðuna hérlendis.

Greinin heitir "China’s Greenhouse Gas Emissions Exceeded the Developed World for the First Time in 2019". Þar má lesa þessa afhjúpun um Rio, um París, og líklegast væntanlega Glasgow.

"Using our newly updated global emissions data through 2019, we estimate that in 2019, for the first time since national greenhouse gas emissions have been measured, China’s annual emissions exceeded those of all developed countries combined. China’s emissions were less than a quarter of developed country emissions in 1990, but over the past three decades have more than tripled, reaching over 14 gigatons of CO2-equivalent in 2019.".(Rhodium quantifies emissions on a “territorial” basis, consistent with UNFCCC reporting guidelines.) (Sjá athugasemd nr. 2 í athugsemdarkerfinu, þar birti ég alla tilvitnunina ásamt línuritum sem sýna þá drastísku aukningu sem hefur orðið í losun Kína frá því um 1990).

 

Það hefur aðeins orðið tilfærsla á menguninni, það hefur í raun ekkert raunhæft verið gert sem skiptir máli.

Og ef það er ekki GLÆPUR gegn lífinu, hvernig er þá hægt að skilgreina þann glæp, núna þegar allir, bókstaflega allir eftir að olíufyrirtæki gengu úr skapti afneitunarsinna, viðurkenna að "lofts­lags­breyt­ing­ar ógni til­veru mann­kyns".

 

Það þarf ekki mikið vit eða skynsemi til að sjá að það er heildarlosun gróðurhúsloftegunda sem skiptir máli, ekki tilfærsla hennar milli einstakra landa, þar sem einstök ríki keppast við að ná markmiðum sínum með því að flytja mengun sína annað.

Það þarf ekki mikið vit eða skynsemi til að sjá hvílík heimska eða óráð það er til dæmis hjá íslenskum stjórnvöldum að þvinga fram orkuskipti með skattlagningu, vega þar með að tilveru hinna dreifðu byggða sem eiga allt sitt undir samgöngum, skaða þar með til dæmis innlenda matvælaframleiðslu, sem og aðra framleiðslu, og auka þar með neyslu á ódýrum staðgengisvörum sem framleiddar eru með kolaraforkuverum.

Eða hve litlu það skiptir þó tilbúin orkukreppa í Evrópu, auk ofurskattlagningarinnar, miðaldavæði efnahagslífið, þegar Evrópa ber aðeins ábyrgð á 6,4% af heildarlosun gróðurhúsloftegunda (skilgreining samkvæmt territorial), 0,2% minna en Indland.

Að tala í þessu samhengi um losun per einstakling er hreint kjaftæði, loftslagið, spyr ekki um slíka tölfræði, aðeins um magnaukningu koltvísýrings auk annarra gróðurhúsloftegunda í lofthjúp jarðar.

 

Átti menn sig á alvarleik málsins, þá gera menn eitthvað sem skiptir máli.

Stærsti hluti fólksins sem núna er samankominn í Glasgow virðist engan veginn gera sér grein fyrir því, sumir virka það heimskir að slíkt er ekki mannlegt, heimska þeirra hlýtur að vera kostuð af öflum sem lögðu undir sig umræðuna og stjórna baráttunni gegn lofslagsvánni.

Það blasir við hvaða öfl þau eru, það þarf aðeins að spyrja sig hverjir hafa grætt á tilfærslu framleiðslunnar til Kína auk annarra þróunarlanda?

Hverjir börðust gegn Trump þegar hann fór gegn samkomulaginu um að gera ekki neitt, og kennt er við París??

Hverjir eru bakhjarlar þess lofslagstrúboðs sem tröllríður fjölmiðlum, og sneiða algjörlega frá kjarna málsins, að það sé gert sem þarf að gera.

 

Svarið við þeirri spurningu er svarið um hverjir eru sekir um mesta glæp sögunnar.

GLÆPINN gegn lífinu.

Sem verður sá síðasti ef við spyrnum ekki við fótum og verjum lífið sem við ólum.

 

Það er okkar að mynda það bakland að samstaða þjóðarleiðtoga heimsins snúist um raunverulegar aðgerðir.

Um orkuskipti frá jarðeldsneyti í vistvæna orkugjafa, þar sem fyrstu skrefin er að tryggja nauðsynlega orku sem mengar minna en kolin og olían, í grein Lifandi Vísinda er bent á jarðgas, kjarnorka frá verum sem byggð er með tækni 21. aldar er líka augljós valkostur.

Um tilfærslu frá glóbal framleiðslu til lókal, um tilfærslu frá mengandi framleiðslu til mengunarminni, en ekki öfugt eins og er í dag.

Um verndun regnskóga með góðu eða illu, þar er skýrasta dæmið um þá siðblindu að þröngir fjárhagslegir hagsmunir Örfárra geti ógnað öllu lífi í skjóli "frelsis" og frjálsra alþjóðlegra viðskipta.

Um alþjóðlega samstöðu að setja fjármuni, margfalda á við þá sem við setjum í vopn og drápstól, í að verjast afleiðingum lofslagshamfara, hvernig sem við förum að því, ef stór hluti heimsins verður lítt byggilegur vegna þurrka, ofsaveðurs eða hækkun sjávar, þá hrynur siðmenningin ef einstaklingurinn eða einstök þjóðríki verða látin takast á við þær hörmungar án stuðnings þeirra sem betur sleppa.  Því fólk grípur til fótanna og mun berjast fyrir tilveru sinni.

 

Og svo margt fleira, en ekkert af þessu er rætt um í Glasgow.

Það er aðeins sýndarráðstefna þeirra sem vinna gegn lífinu.

Hvað sem rekur þetta fólk svo áfram.

 

Fyrst að olíufurstarnir gátu viðurkennt vána, ógnina gagnvart tilveru mannkyns, þá hljótum við hin geta gert það líka.

Við þurfum aðeins að hætta að vera sauðir sem láta teyma okkur.

 

Það er ekki eftir neinu að bíða.

Ekki nema menn telji Útrýmingu vera þess verða að bíða eftir.

 

Glasgow er ekki að fara gera neitt.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Sammála um að hlýnun fari ekki yfir 1,5 gráður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. október 2021

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband