Önn­ur bylgja veirunn­ar er ekki úti­lokuð

 

Segja stjórnvöld á Nýja Sjálandi sem hafa leyft landsmönnum að lifa án ótta og án innilokunar núna í 100 daga, sama tíma og við hefðum getað lifað án veirunnar ef henni hefði ekki verið vísvitandi hleypt inn með ótímabæri opnun landamæranna.

Hvað sem verður í framtíðinni þá verða þessir 100 dagar aldrei metnir til fjár, líf án ótta í miðjum heimsfaraldri.

Almenningur þarf að vera á varðbergi en að öðru leiti getur hann lifað sínu eðlilegu lífi, nema sú heimska að ferðast óhindrað til annarra landa í miðjum heimsfaraldri er bönnuð.

Heimska er nefnilega ekki lýðréttindi á dauðans alvöru tímum, heldur ógn gegn heilsu og heilbrigði, lífi og limum samborgaranna.

 

Önnur bylgja veirunnar er óhjákvæmileg segir Þórólfur sóttvarnarlæknir, og það er réttlæting hans á því að vera ábyrgðarmaður þess faraldurs sem við glímum við í dag, og ógnar öllu daglegu lífi fólks.

Undir eru skólar, menning og listir, að ekki sé minnst á daglegt líf án ótta.

Við glímum við faraldur en Ný Sjálendingar ekki.

 

Skýringin er ákaflega einföld.

Það er grundvallar eðlismunur á sóttvörn sem útilokar ekki faraldur en reynir að hindra smit við landamæri, og sóttvörn sem telur faraldurinn óhjákvæmilegan, eins konar náttúrulögmál líkt og sólarupprás, og reynir því ekki að hindra smit á landamærunum nema að nafninu til.

Til hvers að berjast við það sem verður ekki forðað??

 

Þessi uppgjöf, þessi afneitun á möguleikum mannsandans til að sigrast á farsótt, er skýring þess að við sem samfélag erum smituð en Ný Sjálendingar ekki.

Og fyrst að við gátum ekki smitast af sjálfum okkur, þá fluttum við inn smit til að staðfesta kenninguna um að næsta bylgja væri óhjákvæmileg.

Getum þá bent á þjóð sem gætir ekki nógu vel að sóttvörnum sínum, ásökum fólk, skömmumst svo í því, og lökum síðan á öll samskipti þess.

 

Þannig er Ísland í dag.

Og þó æ fleiri rísi upp og mótmæli, þar fremstur í fararbroddi Kári Stefánsson, þá er samstaða stjórnmálastéttarinnar í takt við múlbundna fjölmiðlamenn næstum algjör, þjóðina á að smita, og hún skal haldast smituð þar til yfir líkur og lækning finnst við vágestinum.

Bakhjarl þessarar smitstefnu er síðan hjörð hinna jarmandi meðvirku sauða, sem labba gæsataktinn inní dilka sóttkvíarinnar.

Taka þegjandi á sig skaðann og tjónið, loka með bros á vor aldraða foreldra sína inná hjúkrunarheimilum, og sjálfa sig á eftir þegar grunur um smit fer hraðar um samfélagið en sinueldur á þurru vorkveldi.

Enda hver þarf lifandi samfélag þegar hægt er að hafa helgi eftir helgi með Helga í sjónvarpinu??

 

Fjöldinn ber síðan harm sinn í hljóði, bítandi á jaxlinn, vitandi að hann þarf að hlýða Víði ef nokkur von sé til að sigrast á vágestinum.

Fólk óttast að opinská mótmæli skaði Víði og varnirnar gegn vágestinum.

Sem er rétt að því marki að hlýðni við Víði er forsendan, og mótmæli gegn smitstefnunni mega ekki snúast uppí andhverfu sína, að stuðla að nýsmiti meðal þjóðarinnar.

 

Það breytir því samt ekki að við þurfum líka að styðja Kára.

Vegna þess að hann hefur rétt fyrir sér.

 

Raunveruleikinn skar úr um að önnur bylgja farsóttarinnar er ekki útilokuð, en hún er alls ekki óhjákvæmileg.

Líkt og að raunveruleikinn hefur svo margoft sagt, að það eina sem stuðlar örugglega að ósigri er uppgjöfin, að það sé hætt að berjast.

Vissulega hafa vágestir oft sigrað, og þegar er talað um ósigrandi andstæðing eða því sem næst ósigrandi andstæðing, þá er það vegna þess að hann hefur alltaf sigrað eða hefur þá yfirburði að ætla mætti að vonlaust væri að kljást við hann.

Líkt og Bretar upplifðu vorið 1940 þegar illskan virtist vera allsráðandi í Evrópu.

 

En þá var maður sem sagði í Bretlandi, við gefumst ekki upp, þó rök hans fyrir frekari baráttu með heykvíslum gegn skriðdrekum voru frekar ósannfærandi.

En eldmóður hans fylkti liði um allan heim og illskan var brotin á bak aftur, þó í bili væri.

 

Og hver hefur ekki heyrt um Davíð sem sigraði Golíat eða Leicester sem braut ofurvald peninganna á bak aftur.

Að ekki sé minnst á Nýja Sjáland og sigur þeirra yfir vágestinum.

 

Þetta er hægt.

En ekki undir stjórn uppgjafarinnar.

Þá er eins gott að gefast upp strax og bjóða veiruna velkomna án andspyrnu.

 

Það er valið í dag.

Þar er enginn millivegur.

 

Ég vel Kára.

Þó ég hlýði Víði.

Kveðja að austan.


mbl.is Hundrað dagar án innanlandssmits á Nýja-Sjálandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir höfðinu dansa limirnir.

 

Eftir að ráðherra ferðamála afhjúpaði fáheyrða heimsku og vanþekkingu þegar hún taldi sig umkomna að rífast við raunveruleikann og við Gylfa Zoega prófessor, sér miklu fróðari mann um hagfræði, í viðtali sem hvorki forsætisráðherra eða fjármálaráðherra hafa séð ástæðu til að leiðrétta, þá er ljóst að þjóðin er leidd af fólki sem tekur faraldurinn ekki alvarlega.

Enda skýrði sóttvarnarlæknir frá því óbeint í viðtali við Rúv í hádeginu, að hann yrði líka að taka tilliti til fólks sem vildi hafa landamærin því sem næst galopin.

 

Núna berast fréttir af því að ástandið sé næstum stjórnlaust að kveldi til í Miðborg Reykjavíkur, og lögreglan á vettvangi valdlaus til að grípa inní.

Hafi veiran farið út að skemmta sér með einhverjum smitbera, þá er ljóst að hún hefur smitað marga þetta eina kvöld, og muni halda áfram að gera svo ef yfirvöld grípa ekki inní.

Sem ekkert bendir til þess að þau geri, heldur herði reglur hjá saklausu fólki, læsi eldra fólk inni og hreki fólk með undirliggjandi sjúkdóma í felur.

 

Ástandið í miðbæ Reykjavíkur endurspeglar nefnilega ástandið í ríkisstjórn Íslands, nema að í miðbænum voru fyllibyttur að verki, en óljóst að svo sé á fundum ríkisstjórnarinnar.

Meðan ríkisstjórnin tekur faraldurinn ekki alvarlega, hvernig er hægt að ætlast til að ungt drukkið fólk geri slíkt??

 

Í þessu sem og öðru þegar dauðans alvara ógnar öryggi þjóða, heilbrigði og heilsu, þá verður fordæmið, leiðsögnin að koma að ofan.

Limirnir taka ekki vals varúðarinnar þegar höfuðið vill tjútta dansinn kenndan við Hruna.

Þar sem endalokin eru þekkt og víðkunn.

 

Ef lögreglan hefði haft vald til að loka þeim stöðum þar sem sóttvarnir voru ekki virtar, þá yrði ekki kvartað um næstu helgi, veskið sæi til þess.

Hvort skemmtanaþyrst ungt fólk fyndi sér annan farveg er öllu erfiðara að spá um, þar reynir á sóttvarnir okkar hinna sem eldri eru, hvort við grípum inní þegar nágrenni okkar er breytt í skemmtistaði.

En þetta er verkefni sem þarf að takast á við.

 

Hins vegar skiptir litlu máli hvað við limirnir gerum ef höfuðið er staðráðið í að hleypa smiti inní landið óháð þeim skaða sem það hefur valdið, og þeirri ógn gagnvart daglegu lífi fólks sem sóttvarnaryfirvöld boða á næstu dögum.

Undir eru skólar, menning, listir, að ekki sé minnst á blessaðan fótboltann sem berst fyrir því að fá að klára mót sín. 

Og það eina sem höfuð segir, til fjandans með þetta allt saman.

 

Þá er gott að eiga gikkinn Kára sem talar þó mannamál á góðri íslensku;

"Kári seg­ist vilja að við ger­um þá kröfu að þeir sem hingað koma fari all­ir í skimun, fimm daga sótt­kví og síðan aft­ur í skimun, það sé ein­fald­lega spurn­ing um lík­indi.

Kári seg­ir að það eigi ekki að hvíla á herðum Þórólfs að ákveða hvað skuli gera. Stjórn­völd ættu að setja fram beiðni á grund­velli þess sem þau kjósa og Þórólf­ur ætti að ráðleggja stjórn­völd­um í sam­ræmi við það.

Kári seg­ir það al­gjört grund­vall­ar­atriði að börn geti farið í skóla og við sem sam­fé­lag stundað það menn­ing­ar­líf sem við nær­umst á.".

 

Við getum lifað án ferðaþjónustunnar, en ekki til lengdar án lifandi samfélags.

Með samfélagslegum og peningalegum aðgerðum má hjálpa ferðaþjónustunni að komast í gegnum þennan heimsfaraldur, fyrir utan að smitlaust land verður alltaf aðlaðandi kostur fyrir fólk sem vill flýja smitóttan heima fyrir.

Það eru nefnilega tækifæri í smitlausu landi.

 

Kári stjórnar ekki, hefur aldrei beðið um það hlutverk.

Ríkisstjórnin þykist ekki stjórna, heldur felur sig að baki sóttvarnalækni sem á völd sín undir að hlýða henni í einu og öllu.

Og hann á að hengja ef illa fer.

 

Það er ef við rísum ekki upp og segjum eins og forðum.

"Vér mótmælum öll".

 

Eða sættum okkur við Hrunadansinn.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Sumir staðir „í bullinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. ágúst 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1440182

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband