31.7.2020 | 16:16
Að kunna ekki að skammst sín.
Er skiljanlegt fyrir mann sem er nýheiðraður fyrir framgöngu sína.
Fálkaorða fyrir dánarhlutfall uppá 30 per milljón íbúa, er alveg ágætt, gæti alveg verið verra, en hve margar orður hefði kollegi sóttvarnarlæknis í Færeyjum fengið úr hendi Guðna forseta svona í ljósi þess að hlutfall hans er 0,0 per milljón íbúa.
Mismunurinn er fólk sem dó, en jú, þetta gat verið verra.
Og enginn efast um að eftir að veirunni var vísvitandi hleypt inní landið með góðfúslega leyfi sóttvarnaryfirvalda, að þá var snöfurmannlega brugðist við.
Sem og að veiran var líka hjálpleg, þróttur hennar til að smita þvarr með hækkandi sól.
En að ábyrgðarmaður seinni bylgjunnar, maðurinn sem gaf hægri öfgunum í ríkisstjórn Íslands blessun sína við að hleypa inn veirunni, skulu skammlaust komast upp með að tala um ákveðin vonbrigði er fyrir neðan allar hellur.
Eina sem getur útskýrt þennan fréttaflutning er vonin um ríkisstyrk svo Mogginn komist á ríkisjötunina líkt og hinir meðfærilegu blaðamenn Rúv.
Í raun á Mogginn aðeins eftir að blessa ICEsave samning Svavars, og þá er botn lágkúrunnar endanlega náð.
Og enginn kann að skammst sín, hvorki sóttvarnarlæknir, hægri öfgarnir eða fjölmiðlamennirnir sem virðast vera firrtir allri skynsemi og viti.
Nema jú að þeir láti sig dreyma um ótímabæran arf fallinna ættingja.
Enginn minnist á að sóttvarnayfirvöld vissu að skimun við landamæri væri í besta falli 80% örugg, eða að ótímabær opnun landamæra í Evrópu væri bein ávísun á að áður örugg lönd fengju næstu bylgju, örugg tölfræði fortíðar segði ekkert um nútíðina eða aukningu smita í náinni framtíð.
Enda er lok lok og læs það eina sem fréttist frá Evrópu síðustu dagana.
Líkt og öruggt er að það verður lokað á okkur innan ekki svo langs tíma, enda seinni bylgja hafinn, ekki með aumingjaveiru líkt og síðast, heldur bráðsmitandi sem fékk Kára til að fölna í viðtölum gærdagsins.
Og það eina sem orðuþeginn hefur að segja um afglöp sín og rangar ákvarðanir er að raunveruleikinn sé ákveðinn vonbrigði.
Eins og hann hafi aldrei heyrt minnst á að ef smitleiðir eru ekki rofnar, þá smita veirur, og veldisaukning smita þeirra er einföld stærðfræði ef smit hefur á annað borð sloppið inn fyrir landamærin.
Það skiptir ekki máli hve margir greinast í tíma, það skiptir máli hve margir sleppa og smita.
Eitthvað sem sérfræðingur á að vita.
Það kallast svo að bíta höfuð af skömminni að benda á almenning og segja að hann hafi ekki gætt að sér.
Almenningur var á móti innflutningnum á smiti, almenningur hefur skömm á hægri öfgunum sem berjast gegn sóttvörnum og bera ábyrgð á nýsmiti í löndum eins og Bandaríkjunum og Brasilíu.
Almenningur ætlast til að sóttvarnarlæknir verji hann gegn atlögum hins heimska hægris, en leggi ekki blessun sína yfir afglöp þess.
Þórólfur brást, og bendir á aðra.
Alla nema sjálfan sig.
Það dugði síðast.
En dugar það núna??
Þar er efinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Fjölgun smita ákveðin vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.7.2020 | 08:56
Ferðir á tímum farsóttar.
Er eins og göngutúr í miðjum fellibyl, ekki beint það gáfulegasta sem fólk getur tekið uppá.
Bæði er áhættan að smita á framandi slóðum sem og að sýkjast og bera smit með sér heim.
Í ósýktum samfélögum er ferðamaðurinn alltaf litinn tortryggnisaugum, er hann hugsanlegur smitberi??
Og ef smit blossa upp þá er eðlilegt að það sé litið á hann sem blóraböggullinn enda er saga farsótta liðinna alda tengd smitberum sem koma að.
Ef síðan heimamenn þurfa að sæta mikilli röskun á daglegu lífi, og sjá á sama tíma gleiðbrosandi ferðamann, þá þarf fólk með kalt blóð líkt og Íslendinga til að viðkomandi sé hreinlega ekki grýttur.
Í þessu andrúmslofti ótta og tortryggni, þrífst enginn ferðamannaiðnaður.
Fjandskapur heimamanna sem er áþreifanlegur hér á Íslandi og örugglega víðar, óttinn við smitast á ferðalögum, hinn sífelldi möguleiki að vera settur í sóttkví við heimkomuna, eða sæta ýmsum hömlunum á ferðalaginu vegna sóttvarnarráðstafana, jafnvel að vera lokaður inná hótelherbergjum líkt og margur ferðalangurinn upplifði í fyrstu bylgjunni víða á suðrænum slóðum, allt leggst á eitt.
Ferðalög eru ekki skynsamleg ákvörðun á tímum farsóttar.
Og án ferðamanna er enginn ferðaiðnaður.
Þennan raunveruleik þarf fullorðið fólk að feisa og gera ráðstafanir til að bjarga því sem hægt er að bjarga.
Það er engin skynsemi í því fólgin að láta eignir og fyrirtæki grotna svo ekkert sé til staðar þegar bönd eru komin á farsóttina og fólk tekur aftur að ferðast, sem það mun gera því flökkueðlið er innbyggt í genamengi okkar.
Eiginlega er það heimskara en sú víðáttuvitleysa að ætla sér að reka ferðamannaiðnað á tímum farsóttar og því þarf að endurfjármagna skuldir ferðaþjónustunnar á þann hátt að ekki sé gengið að henni næstu 2 ár í hið minnsta.
Slíkt er ekki flókið, um þetta geymir sagan ótal dæmi.
Sú mýta gengur að það hafi verið Bretavinnan sem kom þjóðinni inní nútímann en sannleikurinn er sá að það var fiskútflutningur okkar þangað sem kom með gjaldeyri og tekjur sem gerði íslenskum útgerðamönnum kleyft að endurnýja löngu úrelt skip og báta, og þau tæki nýttust okkur svo á eftirstríðsárunum til að afla tekna sem nýttust okkur svo til annarrar uppbyggingar.
En þetta var upphaflega hægt vegna þess að flotinn var ekki gerður upp í kreppunni miklu og skip seld úr land.
Víxlar útgerðarmanna sem voru því sem næst tekjulausir ár eftir ár, voru endurnýjaðir, og ef það var hægt að slá víxil fyrir fyrstu olíunni á næstu vertíð, þá gekk dæmið upp og bátarnir, vissulega gamlir og úreltir, voru til staðar þegar verð á ferskfiskmörkuðum Bretlandseyja ruku upp.
Þetta er lærdómur sögunnar sem við eigum að nýta okkur.
Á stríðs og hættutímum, á tímum náttúruhamfara eða farsóttar, þarf að hugsa hlutina uppá nýtt, þar sem frumskylda stjórnvalda er að halda samfélaginu gangandi.
Það hefði til dæmis orðið lítið úr herhvöt Churchils gegn ofurefli nasismans ef það hefði dugað fyrir Hitler að senda innheimtulögfræðinga til að bera út fjölskyldur hermanna eða loka fyrirtækjum.
Þegar lífið var dauðans alvara skyldu menn þessi einföldu sannindi, aðeins samstaðan náði að sigrast á hinni ytri ógn.
Ríkisstjórn barnanna okkar hefur núna haft nokkra mánuði til að móta stefnu um hvað hún ætlar að gera til að hindra skipbrot samfélagsins.
Vart verður séð annað en að hennar eina haldreipi hafi verið að opna landið á ný fyrir smiti og treysta síðan á ferðamannaiðnað á tímum farsóttar.
Treyst á að þarna úti sé fólk sem ferðist þó það eigi á hættu að vera sett í sóttkví við heimkomuna. Ferðist þrátt fyrir að það eigi á hættu að allt sé lokað vegna sóttvarna í því landi sem það ætlar að ferðast til.
Treyst á að þau séu ekki ein um að vera eins og þau eru.
Stefna sem vissulega gæti gengið vegna hjarðar hinna jarmandi sauða sem láta allt yfir sig ganga og kóa með vitleysunni, en gengur samt aldrei því við erum ekki ein.
Önnur lönd leyfa ekki ferðalög til landa þar sem seinni bylgjan blossar upp, við erum aðeins korteri í að það verði lokað á okkur, og reyndar er Evrópa um hálftíma frá því að setja skorður á ný á ferðalög yfir landamæri.
Því raunveruleikinn á alltaf lokaorðið og það er bara svo að ef það er ekki lokað á smitleiðir, þá sýkjast samfélög, og á meðan það er opinber stefna að berjast við útbreiðslu farsóttarinnar, þá er grunnforsenda árangurs að stöðva allan innflutning á smiti.
Haldreipið er því fúinn slitinn spotti sem heldur engu.
Og brýn nauðsyn er því á öðru reipi.
Að gera ekkert er ekki í boði.
Sagan segir að það fyrsta sem þjóðir gera á hættutímum, er að skipa út óhæfum leiðtogum og forystufólki.
Það er að segja þær þjóðir sem ætluðu sér að lifa af.
Við upplifum svoleiðis tíma í dag.
Kveðja að austan.
![]() |
Hætta á gjaldþrotahrinu ferðaþjónustufyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.7.2020 | 00:00
Er þessi heimska boðleg??
"Engin gögn styðja það að íslenskt samfélag sé í þeirri stöðu sem það er nú vegna þess að tekin var ákvörðun um að opna landamærin fyrir ferðamönnum í síðasta mánuði".
Er iðnaðarráðherra virkilega svo einföld að hún telur að líf kvikni af sjálfu sér??
Að farsótt verði til úr engu??
Burt séð frá því að Íslensk erfðagreining hefur greint uppruna smitsins og ferils þess innanlands, þess vegna er jú verið að leita að óþekkta smitberanum, þá hafði ekki komið upp smit í nokkrar vikur áður en landið var opnað.
Og veirur hafa bara ákveðin líftíma áður en þær hætta að smita, þess vegna er talið duga að fara í 14 daga sóttkví til að útiloka nýsmit.
Núna þegar um tveir mánuðir eru liðnir frá því að fyrsta bylgja fjaraði út, á þá seinni bylgjan að hafa sprottið uppúr engu??
Jafnvel þó það væri ekki til tækni sem sannar að seinni bylgjan er komin erlendis frá, frá fólki sem fór ekki í sóttkví við komuna til landsins, þá er það svo heimskt að halda því fram að þessi seinna bylgja hefði átt sér stað þrátt fyrir að sömu sóttvarnir hefðu verið í gildi áfram líkt var þegar sú fyrri var lögð að velli.
Bæði reynsla okkar sem og annarra þjóða sannar að þegar skorið er á smitleiðir, þá fjarar veirusýking út, og tekur sig ekki upp aftur nema um utanaðkomandi smit sé að ræða.
Um þetta er ekki deilt, um þetta er ekki rifist, ekki frekar en tveir plúss tveir eru fjórir.
Samt ofvaxið fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands að skilja.
Nema við göngum út frá því að hann sé vísvitandi að blekkja þjóð sína.
Það er kannski boðlegt, það virðist vera lenska í hjá ráðherrum ríkisstjórnar Katrínu Jakobsdóttir að fara frjálslega með staðreyndir og rífast við raunveruleikann líkt og þeir gerðu í Orkupakkamálinu.
Síljúgandi ráðherra er hugsanlega skömminni skárri en heimskur ráðherra.
En í alvöru; Nei.
Við lifum dauðans alvöru tíma og ég vil ítreka fyrri orð mín;
"Síðasta ár einkennist að raðmistökum varðandi sjálfstæði þjóðarinnar og vörnum gegn ytri ógnum. Innan ríkisstjórnarinnar eru börn sem skilja ekki eðli mistaka sinna og vita þar að leiðandi ekki að þau hafa gert mistök. Algjörlega óhæf til að leiða eitt eða neitt á ögurstundum. Og á meðan Katrín bregst ekki við, þá eflist sá grunur að hún sjálf skilji ekki eðli sinna mistaka. Hún fær ekki mörg tækifæri í viðbót til að hreinsa þann grun.".
Ég bað samt ekki um algjöra staðfestingu þeirra.
Þetta er ekki boðlegt.
Og til vansa öllum þeim sem láta bjóða sér þetta.
Eða kóa með.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
![]() |
Ásættanleg áhætta að opna landið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 31. júlí 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 66
- Sl. sólarhring: 670
- Sl. viku: 4621
- Frá upphafi: 1458111
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 4008
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 50
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar