Blessað barnalánið.

 

Í hvert skipti sem ráðamaður er spurður um af hverju innflutningur á smiti sé ekki stöðvaður kemur alltaf sama svarið; "„Við erum að grípa til mjög harðra aðgerða á Íslandi miðað við það sem geng­ur og ger­ist í lönd­un­um í kring­um okk­ur.".

Svo ég endurtaki, mjög harðar aðgerðir miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.

Eins og það sé eitthvað svar.

 

Aðgerðirnar í löndunum í kringum okkar duga ekki, réttlætir það eitthvað dugleysi okkar??

Að við höfum leyft innflutning á smiti frá sýktum svæðum frá fyrsta degi, og erum alltaf seinni til í aðgerðum okkar en veiran að dreifa sér.

Við værum ekki í þessum vanda í dag ef við hefðum strax lokað á skíðaferðalög til Ítalíu, værum hugsanlega með 3-5 smit tengd ákveðnum skíðasvæði í Austurríki, en ekki sögunni meir, því að sjálfsögðu hefði verið lokað á það svæði líka.

Síðan skýrar reglur, 14 daga sóttkví fyrir alla sem koma frá veirusvæðum.

 

Óþægindi??, vissulega, en óþægindi fyrir þá sem tóku áhættuna af ferðalögum, ekki fyrir saklaust fólk sem virti varúðarreglur og hélt sig heima fyrir.

Ábyrgðarleysi örfárra er látin bitna á fjöldanum, í stað þess að hún bitni á þeim sjálfum.

 

Og forheimskan er svo mikil að daginn eftir fjálglegar yfirlýsingar um mikilvægi að halda stóru spítölunum okkar gangandi, þeir væru slagæð heilbrigðiskerfisins, þá labbar hjúkrunarfræðingur þar inn, nýkominn frá smitsvæðum, og smitar.

Og höfuð bitið af skömminni að reyna réttlæta það sem aldrei átti að gerast með þeim rökum að viðkomandi hafi ekki komið frá skilgreindu hættusvæði.

 

Nágrannalönd okkar hafa ekkert staðið sig betur og munu uppskera sinn faraldur, en er það réttlæting á okkar??

Svona þegar mannslíf eru í húfi, og það mörg miðað við drápstölurnar frá Ítalíu.

Vita menn ekki að héðan af skiptir engu hvað Ítalir gera, þeir gripu of seint til nauðsynlegra aðgerða, þær munu ekki duga til að hemja faraldurinn.

Aðgerðirnar eru í raun sýndarmennska, eitthvað sem á að sýna að það séu ennþá stjórnvöld í landinu.

 

Við Íslendingar höfum hugsanlega ennþá tíma til að bjarga því sem hægt er að bjarga.

Smitið er ekki ennþá það útbreitt í þjóðfélaginu, eða vonum það.

En þá þarf að stöðva innflutning á nýsmiti, ekki seinna en í gær.

 

En þá er það blessað barnalánið.

Hikið, fumið og fátið sem fylgir því er bara ekki sú leiðsögn sem þjóðin þarf í dag.

Hvorki til að bjarga mannslífum eða bjargað því sem bjargað verður í efnahagslífi þjóðarinnar.

 

Það er táknrænt, fyrir forheimskuna og fávitaháttinn, að daginn sem almannavarnir voru virkjaðar, þá kom lítil klausa á Mbl.isum að skynlausar skepnur hefðu fengið leyfi til að flytja sýkla sem ógna bæði bústofnum sem og lýðheilsu þjóðarinnar, þvert gegn ráðleggingu okkar helstu vísindamanna þar um.

Það er eins og vitið sé ekkert, eða þroskinn þá ekki til staðar.

Algjörlega ósnortin af alvarleik lífsins.

Samtalið við þjóðina ekkert, fyrir utan örfáa statusa á feisbók.

 

Við eigum í stríði sagði landlæknir.

Réttilega.

En í stríðum eru börn send út í sveitir, í skjól.

Þau eru ekki látin leiða baráttuna, enda slíkt bein ávísun á ósigur.

 

Samt er þetta raunveruleikinn á Íslandi í dag.

Að börnin eru látin stjórna í stað þess að vera send upp í sveit.

 

En það er ekki börnunum að kenna.

Höfum það á hreinu.

 

Þar þurfum við að líta okkur nær.

Kveðja að austan.


mbl.is Erum að grípa til mjög harðra aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hversu marg­ir eru að veikj­ast al­var­lega"

 

"Það er mæli­kv­arðinn sem við erum að horfa á fyrst og fremst" er haft eftir sóttvarnarlækni á blaðamannafundi dagsins.

Og í kjölfarið róar hann liðið, enginn af þeim sem hafa sýkst, hafa sýnt alvarleg einkenni.

 

Þarna sjáum við kannski fyrst glitta í skýringuna á hið óréttlætanlega, af hverju það var ekki strax lokað á Norður Ítalíu þegar ljóst var að útbreiðsla sóttarinnar þar væri stjórnlaus.

Í upphafi farsóttarinnar er heilbrigt fólk á besta aldri að sýkjast, og það sýnir ekki svo alvarleg einkenni í fyrstu. 

En það smitar, og það smitar áhættuhópana, eldra fólk, og fólk með undirliggjandi veikindi.

 

Og þá er of seint að spóla til baka.

Sóttin er stjórnlaus og fólk í áhættuhópunum stráfellur.

 

Þetta er ferlið á Ítalíu.

Fyrir 10 dögum voru 881 skráðir sýktir, í dag 9.172. 

Látnir voru 21, í dag er dánartalan komin í 463.

Það alvarlega er að á sama tíma eru aðeins 724 taldir hafa náð fullum bata, dánarhlutfallið er 41%.

 

Að leyfa þessu dreifast svona út er í raun fjöldamorð á fólki í áhættuhópum.

Og það er sú pólitíska ákvörðun sem stjórnvöld tóku með því að banna ekki strax ferðalög til Norður Ítalíu, og setja alla sem þaðan komu strax í sóttkví.

 

Þetta er alvarleiki málsins, en sóttvarnaryfirvöld virðast ekki bregðast við honum.

Það er bara beðið, og vonað hið besta.

 

Þetta er alvarleiki málsins og hann gerist ekki alvarlegri.

Og þetta vita sóttvarnaryfirvöld manna best.

 

Af einhverjum ástæðum höfðu þau ekki styrk að loka landinu fyrir innflutning á smiti frá sýktum svæðum.

Þau fengu enga hjálp, það tók enginn ráðamaður af skarið.

 

Vonandi er þetta fólk sem brást, núna á hnjánum að biðja.

Og vonandi verður það bænheyrt.

Vonandi blessast þetta.

 

Annars verður ábyrgð þess óbærileg.

Sem enginn fær risið undir.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Alvarleikinn helsti mælikvarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki á skilgreindu hættusvæði".

 

Er afsökun hjúkrunarráðs Landspítala Íslands vegna hins vítaverðs kæruleysis að hjúkrunarfræðingur hafi komið frá smitsvæðum og mætt strax til vinnu, á gjörgæslu.

Hið vítaverða kæruleysi er annars vegar það hafa mætt í vinnu og hins vegar að henni hafi verið leyft það.

Ef fagfólk tekur ekki þessa veirusýkingu alvarlega, hvernig á þá almenningur að geta gert það, hvað þá hinn forheimski hluti hans sem hefur þennan faraldur í flimtingum og trúir þeim áróðri að sóttin sé meinlausari en venjulegur inflúensufaraldur.

 

Það veit enginn af hverju sóttvarnarlæknir og almannavarnarráð lýsti pestarbæli Ítalíu ekki strax hættusvæði eftir að ljóst var að veiran var að dreifast þar stjórnlaust út.

Líklegast má skrifa þá röngu ákvörðun á sambland af kjarkleysi og þjónkun við hið frjálsa flæði á dreifingu sýkla um Evrópu.

Að baki bjó allavega engin fagleg þekking eða skortur á upplýsingum.

Ítalía var að sýkjast, það vissu það allir og kemur engum á óvart að þar stráfellur fólk í dag.

 

En að leyfa kærulausu fólki að leika sér á smitsvæði og sýkja svo samborgara sína eftir heimkomuna er hins vegar það sem sagt er á mannamáli, tilraun til fjöldamorða.

Og þeir sem taka þátt í því vísvitandi, eru sekir.

Og þeir sem hafa þekkingu til að vita betur, sekastir.

 

Kellingavæl mun ekki sigra þessa veiru, mun ekki vernda samborgara okkar sem eru í áhættuhópi.

Og gleymum aldrei að þessi veira er líka að drepa fullfrískt fólk, þó ennþá sjaldgæfara sé, enda hún réttnýbyrjuð að þreifa fyrir sig gagnvart varnarkerfi líkamans.  Hún stökkbreytist, og margt bendir til að hún verði illvígari við hverja stökkbreytingu.

Ástandið er því grafalvarlegt og vís ósigur í stríðinu við hana ef fólk getur ekki viðurkennt mistök sin og beðist afsökunar á þeim.

Því annars eru þau endurtekin aftur og aftur.

 

Ráðafólk okkar virðist vera að vakna.

Og er jafnvel farið að tjá sig á fesbók, þvílík er samtalssnilld þeirra til þjóðarinnar á þessum grafalvarlegum tímum.

Guðni forseti segir meir að segja, milli þess sem hann segir af sér ferðasögur, að við vinnum ekki þetta stríð nema við stöndum saman sem þjóð.

En heimska og vanvitaháttur, ásamt hinni æpandi þögn leiðsagnarinnar er ekki leiðin til að sameina þjóðina núna þegar smitið frá Ítalíuförum virðist ætla að dreifa sér út um samfélagið.

Hvað þá sú árátta að geta ekki játað mistök sín.

 

Forsetanum væri nær að benda á þessa einföldu staðreynd í stað þess að leika fígúru sem ekkert segir nema almenna frasa sem má læra í næstu Disney teiknimynd.

Leiðsögn er að segja satt, hvetja til raunhæfra aðgerða, stappa stáli í fólk, og útdeila trú.

Trú á þetta sé hægt, að það sé hægt að vernda líf samborgara okkar.

 

Slíka leiðsögn skortir í dag.

Í raun er hún engin.

 

Og þegar horft er til hafs, þá sést ekki í hana út við ystu sjónarrönd.

Á meðan er engin von í þessu stríði.

Kveðja að austan.


mbl.is Hjúkrunarfræðingur var ekki á hættusvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 997
  • Frá upphafi: 1321549

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 836
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband