Erum í stríði við veiruna.

 

Segir landlæknir, og það er ekki ofsagt.

 

Valið stendur á milli þess að sjá eftir foreldrum okkar, öfum og ömmum, náunganum okkar sem glímir fyrir við veikindi, í gröfina, og jafnvel líka ungt fólk á besta aldri veikjast illa, og ná sér aldrei bætur.

Eða berjast.

 

Viðrini hafa riðið röftum á samfélagsmiðlum, og gert lítið úr þessari drápsveiru.

Líkja þessu við kvef, eða vitna í dánartölur í upphafi heimsfaraldurs og bera saman við óhefta sýkingu af völdum inflúensu.

 

Sem er engu saman að jafna, að bera saman drápsveiru sem haldið er í skefjum með sóttkvíum, og inflúensu sem hefur lifað með manninum frá því að elstu menn muna, misskæð, en aldrei svo að ástæða hefur þótt að lýsa yfir stríði á hendur hennar, enda dánarhlutfallið aðeins promil miðað við drápsveiruna sem kennd er við kórónu.

Alvarlegast er þegar viðrinin kenna sig við lækningar, draga úr alvarleik hennar, tala um fjölmiðlaveiru og grafa þar með undan því fólki sem vill grípa til aðgerða sem duga.

 

Landlæknir hefur loksins mætt þessum skoffínum, og orð hennar er ekki hægt að misskilja,

"„Við erum í raun í stríði við þessa veiru og við erum að verjast innrás hennar. Við verðum öll að hjálpast að og standa saman. Það er svo mikilvægt að greina einstaklinga snemma og setja þá í einangrun.“".

Vonandi verða þessi orð hennar til þess að fólk hætti að deila statusum eða greinum þar sem lítið er gert úr drápsáhrifum kórónaveirunnar.

 

Kínverjar lýstu fyrstir þjóða yfir stríði á hendur kórónaveirunni, og þeir hafa þegar uppskorið árangur, í stað þess að tugmilljónir og jafnvel hundruð milljóna hafi sýkst, þar sem tugþúsundir liggja í valnum, þá fækkar sýkingum þar ört, og virðast í dag aðeins vera bundnar við upphafsstað smitfaraldursins.

Kínverjar töldu drápsvírusinn það alvarlegan að þeir lögðu efnahag sinn undir og í raun lokuðu verksmiðju heimsins, með tilheyrandi efnahagslegum afleiðinum.

Að ekki sé minnst á áhrifin á allt mannlíf, í raun hvarf það innan múra sóttkvíarinnar.

 

Íslensk stjórnvöld hafa ekki ennþá feisað alvarleik málsins.

En þetta er allt að koma.

Núna er varað við ferðalögum til sýktra svæða, og það er öruggt ef menn rekja smit til ferðamanna, þá verður tekið fyrir þá smitleið.

Hugsanlega of seint, en betur er seint en aldrei.

 

Sem og að í gær var tilkynnt um tímamótasamkomulag við aðila vinnumarkaðarins um greiðslur í sóttkví. 

Slíkt getur aldrei verið einkamál launþega eða atvinnurekanda, ástandið er nógu slæmt þó ekki bætist við gjaldþrot einstaklinga eða fyrirtækja vegna tilmælanna um sóttkví.

Slík byrði er alltaf okkar allra, og hlýtur að falla á sameiginlega sjóði.

 

Næsta skrefið er að gera einstaklingum og fyrirtækjum kleyft að lifa af þær óumflýjanlegar efnahagsþrengingar sem munu fylgja þessum veirufaraldri og stríðskostnaðinum sem fellur til í baráttunni við hann.

Það er ekki bara ferðamannaiðnaðurinn sem er undir.

Sá hluti hagkerfisins sem tengist mannamótum, mannfögnuðum, íþróttarviðburðum, skemmtunum og svo framvegis, verslun og þjónusta sem á allt sitt undir mannlífi og eðlilegu tekjuflæði í samfélaginu, mun upplifa fordæmalausa kreppu.

Starfsmannahald sem miðast við eðlilega veltu, verður myllusteinn þegar tekjur þorna upp, jafnvel vel stæð fyrirtæki munu lenda í erfiðleikum með launagreiðslur sínar.

 

Gengið mun falla, því það skráir aðeins jafnvægið milli tekna þjóðarbúsins versus útgjalda þess.  Því það þarf tekjur til að fjármagna útgjöld, og þjóðin er háð tekjum af ferðamannaiðnaðinum.

Enginn veit síðan hvernig áliðnaðurinn mun koma út úr þessari kreppu, snögg kólnun í heimsviðskiptum mun leita beint út í eftirspurn á áli.

Eftir stendur fiskurinn okkar, á meðan fíflin hafa ekki náð að drepa sjávarútveginn með ofurskattlagningu eða kvótauppboðum, þá mun hann standa þessa kreppu af sér, því matur er það síðasta sem heimurinn kemst án af.

Sem betur fer því annars væri hætt við svartnætti í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

 

Þjóðin hefur áður upplifað áföll í gjaldeyrisöflun sinnu, nærtækast er hrun síldarstofnanna sem þýddi um 40% samdrátt í gjaldeyristekjum.

En þá bjó hún ekki við forheimsku verðtryggingarinnar, að samdráttur í tekjum sem verðlag þarf að aðlaga sig að, sé sjálfkrafa hækkun á lánum heimila og fyrirtækja.

Verði verðtryggingin ekki fryst, þá mun þjóðfélagið hrynja.

Svo einfalt er það.

 

Og að lokum þetta.

Þjóð sem á í stríði, fer ekki í verkföll.

Hún hefur ekki efni á því, hún þarf að verja það sem hún hefur.

Það eru engar kjarabætur í boði.

 

Þetta er allt svo augljóst.

Og væri öllum skiljanlegt.

Ef einhver ráðamanna okkar talaði mannamál, og hefði manndóm og kjark að segja þjóð sinni sannleikann.

Og styrk til að gripið væri til nauðsynlegra varnarráðstafana, ekki bara gagnvart hinu banvæna veirusmiti, heldur líka gagnvart efnahagslegum afleiðinum hennar.

 

Í dag er allavega ekki umframframboð af slíku fólki.

Forheimskan og fávitahátturinn er slíkur að í upphafi þessa heimsfaraldurs, fengu siðlausar skepnur að brjóta niður sóttvarnir þjóðarinnar gagnvart innflutningi á fjölónæmum sýklum, sem ógna ekki bara lýðheilsu þjóðarinnar heldur eru líka bein ógn við búfjárstofna hennar.

Og þegar það var ljóst að sóttvarnaryfirvöld heyktust á að banna innflutning á smiti frá sýktum svæðum Norður Ítalíu, þá reyndust bæði forseti okkar og forsætisráðherra okkar fígúrur sem báðu fólk um að smæla framan í veirusmitið.

Enginn manndómur eða kjarkur til að grípa inní og stöðva hið frjálsa flæði á smiti.

Þó æpti reynsla frá Kína á nauðsyn þess að stöðva öll samskipti við sýkt svæði.

 

Við þekkjum afleiðingarnar.

Um þær þarf ekki að rífast.

Sóttvarnaryfirvöld hafa lært sína lexíu.

En ekkert bendir til þess að fígúrurnar hafi vikið fyrir leiðtoga.

 

Stjórnvöld leiða ekki, þau fylgja.

Ef siðlausu skepnurnar bæðu um töku 2 á innflutningi á fjölónæmum sýklum, þá segðu þau já.

Ef sóttvarnaryfirvöld tækju ákvörðun um að hvetja til ferðalaga til smitaðra svæða, þá segðu þau fátt annað en að hvetja fólk til að vera jákvætt.

Ef launþegasamtökin tækju uppá að boða til verkfalla og óeirða, þá segðu þau að þau væru ekki kjörin til að stjórna á hættutímum, enda valin af almannatenglum eftir hæfileikum sínum til að brosa og slá á létta strengi.

 

Á stríðstímum er svona fólki skipt út.

Það er verkefni morgundagsins.

 

Annars er þetta stríð gjörtapað.

Kveðja að austan.


mbl.is Blaðamannafundur vegna kórónuveirunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 334
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 499
  • Frá upphafi: 1320342

Annað

  • Innlit í dag: 308
  • Innlit sl. viku: 450
  • Gestir í dag: 298
  • IP-tölur í dag: 295

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband