Hin látna var með önnur undirliggjandi veikindi.

 

Sjaldan hef ég lesið eða heyrt í fréttum eins mikla gjaldfellingu á mennskunni og þessi orð sem fylgdu sorgarfrétt gærdagsins um fyrsta andlátið af völdum kórónaveirunnar.

Hvað kom það málinu við??, átti hún þá ekki sama rétt til lífs og við hin??

 

Mér varð hugsað til föður míns sem barðist fyrir lífi sínu á gjörgæslu Landspítalans eftir alvarlegt hjartaáfall og okkur var sagt að mjög ólíklegt væri að hann lifði það af.

En það var ekki tekið á móti honum í þetta skiptið, honum var sagt að fara til baka, hann ætti erindi sem hann þyrfti að sinna.  Og erindið var að passa strákana mína, tæplega eins árs, en ég var lítt nothæfur sökum alvarlegra bakveikinda.

Þrátt fyrir að vera með tæplega hálfan hjartavöðvann ónýtan eftir slagið, þá gerði gamli maðurinn það með sóma og átti 11 góð ár í viðbót þó reyndar síðustu 2 ár hefðu verið honum erfið heilsulega, en brosið sem hann gaf börnum og sérstaklega barnabörnum fór aldrei, "hvernig hafa strákarnir mínir það" var það sem hann spurði mig þegar hann komst síðast til meðvitundar þegar ljóst var í hvað stefndi.

 

Hefði pabbi minn fengið kórónuveiruna á þessum góðu og gjöfulum árum, þá hefði þulan um undirliggjandi veikindi verið lesin upp, eins og það réttlætti á einhvern hátt dauða hans.

Og vegna þess að veiran er talin ógna aðallega eldra fólki og fólki með þessi undirliggjandi veikindi, þá var þjóðinni viljandi leyft að smitast með þeim orðum að ekki þýddi að skera á smitleiðir

Því veiran virti ekki landamæri.

En eftir að þjóðin var orðin sýkt, þá var alveg hægt að loka á sýkt svæði eða setja fólk í 14 daga sóttkví við heimkomuna, en ekki fyrr en hún var orðin sýkt.

 

Ef frá eru taldar örþjóðir eins og San Marínó og Andorra þá höfum marga undanfarna daga verið sýktasta þjóð heims, eftir smit gærdagsins eru þau orðin 2.199 per milljón íbúa sem er 40 sinnum meira smit en skráð er í maurabúinu Kína. 

Og þar er farsóttin í rénum, en hjá okkur, magnast hún með hverjum deginum.

Þeir sjá fyrir endann á faraldrinum en við höfum ekki hugmynd um hvenær óttanum verði úthýst hjá okkur.

 

Á þessu eru skýringar, innanmein sem kallast hroki og sjálfsbyrgingaháttur fólks sem tók meðvitaða ákvörðun um leyfa þjóðinni að sýkjast.

Og hefur sannfært yfirvöld sem og harðhegðun heimskunnar að þessi mannslíf sem eru í húfi, þetta eldra fólk þarna og þetta fólkið þarna með undirliggjandi sjúkdóma, sé ekki þess virði að berjast fyrir.

Aðferðafræðin byggist öll á hugmyndafræði hunda sem gera það sér að leik að elta skottið á sjálfum sér, elst er við veiruna þar sem hún hefur smitað, en ekkert gert í tíma til að skera á smitleiðir svo hún nái ekki að smita.

Forherðingin svo mikil að þegar læknar á landsbyggðinni senda ákall um að loka á smit, þá eru löggurnar fengnar til að spila sig bjálfa með því að éta upp vitleysuna í tilkynningum sínum; ".. þjóni ekki tilgangi sínum fremur en að loka landinu öllu. Það muni fremur fresta vandanum en leysa hann enda óvíst þá hversu lengi landshlutinn yrði að vera lokaður.".

Löggan er samt ekki hugrakkari en það að nú berast fréttir að hún sé sjálf farin að loka sig inni, skjálfandi af hræðslu við smitið sem hún vill ekki loka inni því sérfræðingurinn að sunnan bannar henni það.

 

Rangindi þessarar aðferðafræði og hin undirliggjandi heimska og firring hefur oft verið lýst hér á þessari síðu, en ég rakst á bloggpistil í gær eftir annan Norðfirðing þar sem rökvillunni er lýst glimrandi vel, en tilefnið var frétt um að allt stefndi í að svörtustu spár myndu rætast.

Margt gott efni fer ofan garðs vegna þess að það er meira en að segja það að ná athygli á þessari gervihnattaöld þar sem megaframboð er á öllu svo ég fékk leyfi höfundar til að endurbirta pistil hans.

"Var stefnan í upphafi virkilega tekin á bjartsýnisspána?

Venjulega þegar um mannslíf er að tefla er unnið frá svörtustu spánni og svo slakað á eftir að menn gera sér betur grein fyrir hættunni. Og þarf virkilega að gera reiknilíkan til að búa til einhverja bjartsýnisspá sem er svo unnið eftir þegar við höfum biksvartan raunveruleikan æpandi á okkur frá Ítalíu og víðar? Ég bara átta mig ekki á þessu. Halda menn að þessi veira hafi kannski slappast eitthvað við ferðalagið til Íslands?

Ég vona bara að þessi nýi/gamli lyfjakokteill sem var verið að prófa komi að gagni þegar þetta verður komið á fullt skrið eftir nokkrar vikur því ég reikna ekki með að menn séu undirbúnir undir það sem koma skal.

Sú stefna sem menn enda með í svona bardaga er stefnan sem átti að taka í upphafi.". (Ágúst Kárason)

 

Sú stefna sem menn enda á er stefnan sem átti að taka í upphafi.

 

Við værum ekki svona sýkt í dag ef menn áttuðu sig á þessum einföldu sannindum.

Höfundur er vissulega ekki einn af sérfræðingunum að sunnan, hann er bara farsæll sjómaður sem aflar gjaldeyris svo þotuliðið geti flakkað um allar koppagrundir til að ná í smit handa þjóðinni sem heima situr, gætandi barna og búa, aflandi tekna, haldandi samfélaginu gangandi.

En hugsun hans er kristaltær og hann áttar sig strax á kjarna þess sem er forsendan að svona váboði fái ekki að gera óhindrað strandhögg meðal varnarlítillar þjóðar.

 

Lyddur sem leiða okkur þora ekki að taka réttar ákvarðanir, nema þegar skaðinn er skeður og ný æpandi mál kalla á úrlausn.

Lyddurnar skýla sér alltaf á bak við sérfræðingana.

Sjálfar dauðskelkaðar í felum á bak við einhvern fjarfundarbúnað.

 

Horfandi uppá samfélag sitt sem þeim var falið að stýra og vernda, smátt og smátt lamast því það eru alltaf að koma upp ný og ný smit.

Með tilheyrandi sóttkvíum, lokunum og öðru sem lamar allt mannlíf.

Og undirliggjandi er óttinn um afdrif sinna nánustu, nágranna sína og vini.

Um fólkið í samfélaginu sínu.

 

Hinir látnu verða ekki endurlífgaðir.

En fyrsta skrefið er að við látum ekki fjölmiðla eða sóttvarnaryfirvöld komast upp með að afmennska minningu þeirra með því að tala um undirliggjandi veikindi, eða glímdi við alvarleg veikindi eins og ég las á vef Ruv.

Við þekkjum öll fullt af fólki sem hefur verið alvarlega veikt á einhverjum tímapunkti en komið til baka og átt með okkur mörg góð ár.

Já jafnvel fólk sem á allt lífið framundan eftir bata sinn.

 

Bara þetta eina risaskref mun fá þjóðina til að skilja hina dauðans alvöru og hætta öllu hálfkáki í vörnum sínum.

Reiknum með hinu versta.

Verjumst hinu versta.

Og fögnum því þegar það gengur ekki eftir.

 

Vegna þess.

Vegna þess að við börðumst fyrir hverjum og einum.

 

Sérhvert mannslíf var þess virði að berjast fyrir.

Þannig sigruðum við og gengum stolt af orrustuvellinum.

Vitandi að við gerðum okkar besta.

 

Meira er ekki hægt að krefjast.

Kveðja að austan.


mbl.is 737 hafa greinst með kórónuveiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvarnarlæknir hafnar hugmyndinni.

 

Og þá er það eins og guð hafi sagt það.

 

En hver eru afrek hans??

Undir styrkri stjórn hans erum við sýktasta þjóð heims miðað við hausatölu.

Þjóðir sem hafa notað þá aðferðafræði sem hann hafnar, að loka á smitleiðir, þær eru minnst sýktar þjóðir heims miða við hausafjölda.

Og lögreglan sem á að gæta öryggi borgaranna étur upp orð hans þó raunveruleikinn æpi á að þau séu bábiljur.

 

Lögreglan á Austurlandi, sem hefur fengið svipað ákall frá íbúum fjórðungsins, hafnar beiðni um lokun með þessum orðum; " .. þjóni ekki tilgangi sínum fremur en að loka landinu öllu. Það muni fremur fresta vandanum en leysa hann enda óvíst þá hversu lengi landshlutinn yrði að vera lokaður.“".

Sama dag og myndir bárust frá Whuan sem sýndu fólk á ferli.

Jafnvel lögregla, sem ekki veður í vitinu, á að geta talið á puttum sér dagana frá því að Whuan var sett í sóttkví og allsherjar útgöngubanni var komið á og þar til opnað var aftur.  Og ef hún getur það ekki þá hlýtur einhver kennari veitt þeim aðstoð við að telja. Það er gert svona; einn, tveir, þrír, fjórir, alveg þar til síðasti dagur sóttkvíarinnar er talinn.

Það er ekkert óvíst í þessu, veiran lifir ekki sjálfstæðu lífi og ef lokað er á allar smitleiðir hennar þá deyr hún út.

 

Ábyrgð lögregluyfirvalda á Austurlandi og Norðurlandi Eystra er mikil.

Deyi fólk á þessu svæði, þá er ábyrgðin þeirra.

Þau höfðu valdið til að grípa inní, en gerðu það ekki.

 

Það sárgrætilega er að það enda öll byggðarlög meira eða minna í sóttkví vegna smæðar og nálægðar.

Munurinn á sóttkvínni á norðausturhorninu og Húnaþingi vestra er sá að fólki var leyft fyrst að sýkjast í Húnaþingi, og svo var lokað. 

Þar sitja menn uppi með óttann og áhyggjurnar af afdrifum ættingja sinna og vina.

Og meðan er ekki lokað á smitleiðir þá er alltaf hætta á að sagan endurtaki sig.

 

Vissulega er fólk miklu meira á varðbergi núna, en halda menn að fólk hafi ekki gætt að sér í Vestamannaeyjum??

Að þetta séu bara sóðar sem kunni ekki að þrífa á sér hendurnar??

Meinið og málið er að veiran finnur sér smitleiðir líkt og hópurinn sem fór í skíðaferðalag fyrir norðan komst að.

Eina örugga sóttvörnin er að loka á öll samskipti við hana.

 

Íslensk sóttvarnaryfirvöld loka á öll samskipti við veiruna eftir að fólk er sýkt.

En sóttvörn felst í því að gera það áður.

Og hefur verið gert með góðum árangri í mjög fjölmennum löndum.

 

Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessari staðreynd.

Mjög fjölmenn lönd hafa náð að halda veirunni í skefjum og það er ekkert sem bendir til þess að hún brjótist þar stjórnlaust út.

Geri hún það samt í einhverri ókominni framtíð þá hafa viðkomandi stjórnvöld keypt þjóðum sínum tíma, hindrað ótímabær dauðsföll meðal íbúanna, og stytt þann tíma sem er í óhjákvæmilega lækningu.

Við lifum jú á 21. öldinni og þetta er ekki drepsótt eins og Svarti dauði sem gengur aftur og aftur.

 

Í vörn sinni fyrir hinu óverjanlega er þá gripið til staðleysa eins og það sé ekki hægt að loka samfélög inni, útgöngubann raski daglegu lífi fólks og stöðvi í raun allt samfélagið.

En er það ekki hvort sem raunveruleikinn í dag, æ fleiri á leið í sóttkví, aðrir lifa í viðvarandi ótta um að sýkjast??

Og hver tekur á móti fólki frá sýktasta landi í heimi??

Við erum að fá á okkur svipaðan stimpil og holdsveikir höfðu á öldum áður eins og íslenskir ferðalangar hafa reynt á eigin skinni í fjarlægum löndum.  Og það er rétt að byrja.

 

Það er því grátlegra en nokkrum tárum tekur að beiðni læknanna sem standa vaktina á norðausturhorninu hafi verið hafnað með vísan í órök og bábiljur, þvert gegn reynslu þjóða sem hafa gripið til slíkra aðgerða.

Hvort skyldi vera erfiðara að loka Raufarhöfn eða Peking??

Íslendingar í Peking segja borgina ósýkta og lífið sé farið þar að ganga sinn vanagang.

Samt á að sýkja byggðirnar fyrst áður en þeim er lokað.

 

Það er verið að gambla með líf fólks.

Og allir sem ábyrgðina bera eiga að skammast sín.

 

Skammist ykkar.

Kveðja að austan.

 

PS. Tölulegar staðreyndir ljúga ekki og orðavaðall um að aðrar þjóðir líti til okkar sem fyrirmynd í baráttunni við kórónaveiruna geta ekki vísað í slíkar staðreyndir. 

Ísland.  Smit 648 eða 1.899 per milljón íbúa.  Dauðsföll 2 eða 6 per milljón íbúa.

Singapúr.  Smit 558 eða 95 per milljón íbúa.   Dauðsföll 2 eða 0,3 per milljón íbúa.

Hong Kong. Smit 387 eða 52 per milljón íbúa.   Dauðsföll 4 eða 0,5 per milljón íbúa.

Taivan   Smit  235 eða 10 per milljón íbúa.    Dauðsföll 2 eða 0,08 per milljón íbúa.

 

Þessi Austur Asíu ríki fengu fyrsta smitið um mánuði á undan okkur, hafa mikil samskipti við Kína, bæði vegna nálægðar sem og að íbúarnir eru flestir af kínverskum ættum.  Við höfðum mánuð til að undirbúa varnir okkar og læra af þeim.

Tölfræðin segir að það hafi ekki verið gert.


mbl.is Læknar vilja loka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 999
  • Frá upphafi: 1321551

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 838
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband