8.12.2020 | 21:20
Enn hamast Morgunblaðið á sóttvörnum þjóðarinnar.
Það er líkt og ritstjóri blaðsins sé orðinn leiður á þessu öllu saman, það er starfinu sínu og Morgunblaðinu, hafi ekki tötsið að hætta sjálfviljugur, og ákvað þess í stað að berjast fyrir bráðri fækkun lesenda blaðsins svo rekstrargrundvöllur þess hyrfi endalega út úr þessum heimi, en gæti hugsanlega orðið grunnur af nýju blaði og starfi sem biði hinum meginn.
Ekki er til sá kverúlant sem ekki hefur fengið pláss í blaðinu til að naga niður íslensk sóttvarnaryfirvöld, og ef kverúlantinn ber titilinn Séra Kverúlant, þá fær hann sérstaka athygli, jafnvel ókeypis auglýsingu á netspjöllum sínum auk síendurtekinna drottningarviðtala.
Síðan hefur allt verið týnt til í fréttum blaðsins sem gerir lítið úr alvarleik farsóttarinnar, sem hampar þeim sjónarmiðum að minni sóttvarnir séu betri en meiri, helst best að gera fátt annað en að biðja fólk um að þvo sér um hendurnar, líkt og sóðaskapur sé arfgengur andskoti sem hafi fylgt okkur frá forfeðrum okkar í Noregi.
Síðan er logið, og það er það versta. Fólki talið í trú um að skaðinn, bæði sá efnahagslegi sem og hinn samfélagslegi, sé sóttvörnum að kenna en ekki farsóttinni sem kallaði á þær.
Ha, hafið þið ekki séð alla ferðamennina sem ferðast um allan heim og við höfum misst af vegna sóttvarna á landamærunum??
Í þessu viðtali er sóttvarnarglæpamanni hampað, manneskju sem vísvitandi tekur áhættu á að dreifa smiti og smita samborgara sína.
Smartland er nýbúið að auglýsa postcad viðtal Sölva Tryggvasonar við hann, sem er sök sér því sá hluti blaðsins gerir ekki kröfu um innihald.
En drottningarviðtal við manneskju sem segir Ég má, ég vil, ég veit best, á dauðans alvöru tímum er nákvæmlega sem það á að vera.
Bein árás á allt það sem þríeykið hefur reynt að gera til að vernda þjóðina.
Í því sambandi skulum við muna að nagið gegn sóttvörnum tafði lokun landamæra þjóðarinnar og sú töf hækkaði dánarhlutfallið úr 33 í 86 þegar þetta er skrifað, en snörp viðbrögð þríeykisins hafa þó náð utan um smitið sem lak í gegnum landamærin, og við erum ljósárum á undan nágrannaþjóðum okkar í verndun mannslífa, að ekki sé minnst á stærri þjóðir sem eru óðum að ná 1000 per milljón markinu þrátt fyrir mannlíf hafi hvergi verið eðlilegt vegna sóttvarna.
Árangur sem við eigum að vera þakklát fyrir, og árangur sem Morgunblaðið hamast gegn, bæði leynt og ljóst.
Drottningarviðtalið afhjúpar hins vegar rugludall svo ekki sé fastar að orði komist.
Enda reynir ekki heilt fólk að réttlæta sóttvarnarglæpi sína, þeim sem verður það á í hugsunarleysi, játa sök, lofa bót og betrun, ásamt því að biðjast afsökunar á hegðun sinni.
Innihaldið er að það séu allir asnar nema viðkomandi, og asnarnir séu í allsherjar samsæri í ofsóknum og starfsníði um viðkomandi.
En það var samt ekki það sem hjó eftir og var kveikjan af þessum pistli;
"Í málfrelsi felst ekki níð. Í því felst að maður fái að spyrja spurninga. Við megum vera með mismunandi skoðanir en við megum ekki vera með persónulegar árásir á fólk opinberlega. Það er það sem stoppar fagfólk frá því að segja það sem það veit,".
Þetta er nefnilega hárrétt.
Það þarf að spyrja spurninga og gagnrýnin hugsun er nauðsynleg, jafnt á þessum tímum eða öðrum.
Í því felst hins vegar ekki að ljúga um staðreyndir og þekkta þekkingu, setja fram hálfsannleik, til að blekkja fólk eða afvegleiða.
Hvað þá að í því felist réttur til að ganga gegn lögum og reglum þjóðarinnar, á neyðartímum þegar mannslíf eða annar beinn skaði er undir.
Borgarleg óhlýðni er vissulega réttmæt á stundum, en ekki á svona tímum eins og við upplifum í dag.
Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð, en þar sem ég er svag fyrir lengra máli en styttra, þá varð mér hugsað þegar ég henti inn fororð þessa pistils, að núna væri litt minnst á sænsku leiðina líkt og plagsiður var fram eftir sumri og reyndar langt fram eftir hausti.
Munum þegar Þórólfur var spurður með þjósti af blaðamönnum af hverju við færum ekki sænsku leiðina, þar væri engin seinni bylgja, þá svaraði Þórólfur, að hann gæti ekki svarað fyrir ástandið í Svíþjóð, en hann teldi líklegt að þeir fengju sína bylgju líkt og við. En auðvitað vonaðist hann til þess að svo yrði ekki, en þar sem veira fengi að ganga laus án þess að gripið væri til aðgerða að hefta smitleiðir hennar, þá kæmi bylgja fyrr eða síðar.
Svar Morgunblaðsins var að birta frétt þar sem vitnað var í Anders Tegnell, Þórólf þeirra Svía, undir fyrirsögninni Efast um aðra smitbylgju í Svíþjóð.
Þar sem Tegnell reifst hástöfum við Þórólf, eða svo hefði mátt halda miðað við efni fréttarinnar. Margt sagt, en þetta helst;
"Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, efast um að önnur smitbylgja komi til Svíþjóðar, þar fækki nýjum staðfestum smitum og dauðsföllum. Þar vísar hann til kórónuveirufaraldursins í vetur og vor en Svíþjóð skar sig úr varðandi fjölda smita og dauðsfalla meðal ríkja á Norðurlöndunum.
Í viðtali við SVT Agenda í gær segir Tegnell að smitrakningin sé eitt af því sem skipti mestu í baráttunni við veiruna. ... Svo virðist sem kórónuveiran dreifist í klösum og Tegnell segir að um leið og veiran finni sér leið, til að mynda inn á vinnustað, þá geti hún dreifst hratt og víða þar. Hann telur að smitrakningin sé það sem gefi besta raun þegar stöðva á hópsýkingu á fyrri stigum. Þetta hafi gengið vel og gefið góða raun í Svíþjóð.
Hann segir að auðvitað sé best að fækka nýjum smitum í nánast ekki neitt en hann hafi ekki þungar áhyggjur af þessu þar sem þessi nýju smit hafi ekki náð til eldra fólks. Jafnframt hafi þau ekki aukið álag á heilbrigðisþjónustuna. "Það sem er mikilvægast er að þeim hefur ekki haldið áfram að fjölga," segir Tegnell.".
Sannaði þar með að þó menn séu spámenn í sínu eigin föðurlandi, þá metur raunveruleikinn það léttvægt ef spádómar þeirra byggjast á afneitun og heimsku.
"Við lifum á erfiðum tímum. Þetta mun verða verra. Sýndu ábyrgð, sagði hann og endurtók síðan til að sýna að honum væri alvara." sagði Stefan Löven þegar hann tilkynnti hert samkomubann í Svíþjóð þann 24. nóvember síðastliðinn.
Vegna þess að fólk var farið að deyja, önnur bylgja var skollin á.
Og í dag, þó sænsk stjórnvöld telji illa gamalt fólk sem veiran fellir, þá er dánarhlutfallið komið í 703 per milljón íbúa, og fólk er áfram að deyja.
Sambærileg tala hjá okkur væri 230 dauðsföll, en reyndar mun fleiri því við teljum gamla fólkið sem fær ótímabært andlát vegna veirunnar.
Þetta er það sem Morgunblaðið er að berjast fyrir.
Þetta er það sem nagið vildi.
Sænska leiðin.
Eftir stendur spurningin, er einhver annar litur en svartur notaður til að teikna sál þessa fólks??
Kveðja að austan.
![]() |
Ætlar að sækja ríkislögreglustjóra til saka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2020 | 13:26
Þegar vitleysan er lyginni líkust.
Þá efast maður að vanhæfni skýri puttann sem þjóðinni var gefinn þegar sóttvarnaglæpamaður komst upp með að virða ekki skimun og sóttkví á landamærunum.
Hefur ríkisstjórnin ekki frétt að smit sé lítið sem ekkert á landsbyggðinni, með Eyjafjarðasvæði sem undantekningu, en þó er það að mestu gengið yfir á því svæði?
Hefur hún ekki hlustað á þau orð Þórólfs sóttvarnarlæknis að til greina komi að slaka á hömlum á þessari sömu landsbyggð því faraldurinn er allur á höfuðborgarsvæðinu??
Nei, hún virðist lifa í sínum eigin heimi, eða lætur stjórnast af hagsmunum sem ekki eru sýnilegir almenning.
Eða hvað annað fær skýrt að opnað sé fyrir æfingar á höfuðborgarsvæðinu en þær áfram bannaðar í hinum dreifðu byggðum??
"Íþróttaæfingar, með eða án snertingar, verða heimilaðar fyrir fullorðna í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. ".
Þó að árangur í prófkjörum sé tengdur góðum tengslum við stóru klúbbana á höfuðborgarsvæðinu, þá ands. hafi það, á allri heimsku eða spillingu eru takmörk.
Það gat verið mismunun að leyfa æfingar á smitlausri landsbyggðinni en það er klárlega óeðlilegt í alla staði að leyfa þær í smitbælum en banna þar sem er smitlaust.
Það er eins og fífl stjórni okkur, eða gjörspillt fólk.
Veit eiginlega ekki hvort er verra.
Núna þegar 18. einstaklingurinn er fallinn, beinlínis vegna rangra ákvarðana stjórnvalda í sumar, sem og að Landsspítalanum var ekki tryggður fjármunir til að sóttverja Landakot, þá spyr maður sig;
Hvað gengur þessu fólki til??
Miðast öll ákvörðunartaka þess við einhverja annarlega hagsmuni sem enginn annar en þau, og hinir földu hagsmunir, þekkir til??
Svo er eitt að fyrirlíta okkur á landsbyggðinni eins og Svanhvít sýndi svo berlega þegar hún réðist að spítölum okkar misserin eftir Hrun, annað er að sýna það svona gróflega í verki líkt og þessi tillaga er.
Þið eruð óvitar greyin, þið kunnið ekki að passa uppá ykkur.
Eða þannig.
Svei attan, skammist ykkur sagði ég í gær þegar almannavarnaryfirvöld sögðust ennþá vera að skoða mál sóttvarnarglæpamannsins og afhjúpuðu þar með að engin alvara fylgdi sóttvörnum.
Í dag neyðist maður til þess aftur.
Skammist ykkar.
Þið eruð í vinnu hjá þjóðinni.
Ekki sérhagsmunum.
Þó þeir fóðri.
Kveðja að austan.
Viðbót að kveldi eftir fréttatíma sjónvarps.
Í fréttum sjónvarps, sjónvarps allra landsmanna var því slegið fram að íþróttaæfingar fullorðinna mættu hefjast á ný, sem væri frábært ef satt væri.
Samt má lesa þetta á vef ruv. "Íþróttafólk getur jafnframt tekið gleði sína því afreksfólk í efstu deildum og einstaklingsíþróttum getur hafið æfingar. Þórólfur segir það skilning sinn að í hópíþróttum sé einungis átt við efstu deildir en ekki neðri deildirnar. Það sé aftur móti ráðuneytisins að túlka reglugerðina."
Sem er samhljóða því sem stendur í textanum sem ég vitna í hér að ofan.
Allir fullorðnir sem æfa íþróttir eru sem sagt í efstu deildum, og þegar talað er um fullorðna, þá er verið að ræða 16 ára og eldri. Allir svo góðir og engar neðri deildir, 16 ára unglingur strax í efstu deild, í fótbolta, í handbolta og öllum hinum íþróttunum.
Sem er auðvitað ekki, og smærri staðir landsbyggðarinnar hafa ekki fjölda eða styrk til að setja stóru klúbbana í Reykjavík út úr efstu deild í afreksíþróttum. Og á þessum minni stöðum má fólk ekki æfa. Fyrir utan ÍA á Akranesi og KA á Akureyri, þá æfa engin lið í fótboltanum á landsbyggðinni, þrátt fyrir tuga liða, enda fótboltinn aðalíþróttin þar.
KA fær að æfa, ekki Þór, þó æfingaaðstaðan sé sú sama enda aðeins ein knattspyrnuhöll á Akureyri.
Á Austurlandi stendur ónotuð knattspyrnuhöll, samt eru 4 meistaraflokkslið í fjórðungnum, en öll í neðri deildum.
Það er greinilegt að fréttastofa sjónvarps sem og heilbrigðisráðherra lítur á okkur svipuðum augum og Þjóðverjar litu á Búskmenn og Hottintotta í den, ekki fólk, heldur eitthvað sem er svona mitt á milli þess að vera skepna og maður.
Það grátlegasta er að veturinn er tíminn þar sem menntaskólakrakkarnir fá tækifæri til að æfa og keppa, á sumrin er útgerðagróðinn notaður til að flytja inn hálfatvinnumenn sem tala útlensku tungum, og úti um allflest tækifæri.
Þetta er óskiljanleg ákvörðun, lýsir algjöri fyrirlitningu á fólki hinna smærri byggða, og hefur ekkert með sóttvarnir að gera.
Kannski er Svanhvít að hefna sín vegna hinnar óvæntu mótspyrnu sem hún varð fyrir þegar hún tók að sér i verktöku fyrir erlenda hrægamma að loka spítölum landsbyggðarinnar, það er að breyta þeim úr spítölum í hjúkrunarheimili, varð að lúffa með megnið, og hefur greinilega ekki náð sér af því áfalli.
Eða hvað annað skýrir það sem ekki er hægt að skýra???
Þarna er vitlaust gefið.
Ekki síðri kveðja að austan en fyrr í dag.
![]() |
Tilslakanir en áfram 10 manna fjöldatakmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bloggfærslur 8. desember 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 1440178
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar