Ef menn taka sjálfa sig ekki alvarlega.

 

Þá geta menn ekki ætlast til þess að aðrir geri slíkt.

 

Þess vegna var það bein atlaga að trúverðugleika sóttvarnaryfirvalda, þegar ljóst var á föstudeginum að skipverjum var haldið til verka út á sjó í skipi þar sem farsótt geisaði, að einu viðbrögð sóttvarnarlæknis í kvöldfréttum Ruv var að segja að hann þekkti ekki málavexti og gæti því lítið tjáð sig um það.

Í stað þess að segja, það sem hann sagði í dag, að þetta væri alvarlegt mál, og benda á eins og Alma, að sjúklingum sem greinast um borð í togurum geti versnað mjög hratt og því sé slæmt að vera langt frá næstu gjörgæslu.

Að þetta geti verið lífshættulegur sjúkdómur sem eigi að taka alvarlega. 

Og bætt því síðan við að málið verði rannsakað.

 

Að segja ekkert þegar alvarleikinn blasti við, þegar búið var að upplýsa að skipstjóri hefði haft samband við umdæmislækni sóttvarna fyrir vestan, og þar hefði málið dáið, og þegar búið var að upplýsa að útgerðin hefði reynt að þagga málið niður, það var og er aðeins yfirlýsing um eitt.

"Er þetta nokkuð stórmál, slapp þetta ekki bara".

Að það væri eins og sóttvarnalæknir væri að skríða fyrir hinu gíruga fjármagni sem hefur fjármagnað andstöðu frá fyrsta degi innan ríkisstjórnar Íslands við sóttvarnir, eða hann ætti í svona Trumpísku sambandi við stjórnvöld líkt og kollegi hans í Bandaríkjunum.

 

Og að segja eitthvað á þriðja degi, núna þegar einörð fréttamennska starfsmanna Ruv fyrir vestan tókst að rjúfa þagnarmúrinn sem átti að tryggja að málið koðnaði niður (ætli Píratar hafi ekki verið í startholunum með nýtt tilbúið fjölmiðlafár eftir helgi) það er aðeins til að bæta ímyndina, skipverjarnir þurftu hjálp þegar þeir stóðu einir á föstudeginum.

Það er mikill munur á að menn segi það sem þarf að segja þegar það þarf að segja það, en bregðist ekki seint og illa við vegna þrýstings frá fjölmiðlum.

Eiginlega alveg grundvallarmunur.

 

Þetta virkar ekki trúverðugt nema menn hefðu um leið beðið afsökunar á seinlæti sínu.

Og haft til reiðu skýringar á af hverju sóttvarnaryfirvöld gripu ekki fyrr inn í fyrst að skipstjóri hafði haft samband við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

Kannski var skipstjórinn í þeirri stöðu að hann gat ekki gert meir fyrir áhöfn sína.

 

Af hverju dugði þessi tilkynning ekki??

Af hverju var landhelgisgæslunni ekki gert viðvart að skip væri á veiðum þó kóvid faraldur geisaði um borð??

 

Það er nefnilega svo að það brugðist fleiri í þessu máli en skipstjórinn.

Og það brugðust fleiri í þessu máli en útgerðin.

 

Sóttvarnaryfirvöld þurfa líka að skoða sín viðbrögð, hvar í boðleiðinni gufaði tilkynningin um veikindin upp??

Af hverju gerðu þau ekki neitt.

 

Og ekki hvað síst, af hverju var þagað svona lengi eftir að málið lá ljóst fyrir??

Hví þessi samsekt í þögguninni??

 

Ef það eru mistök út af álagi??

Þá gott og vel, þá er bara að segja það.

Ekkert mál, lærdómur.

 

En það er ekki líðandi að ekkert sé sagt.

Það hefði eiginlega verið betra að þegja, en að segja þó það sem sagt var.

Hluti sem hvert meðalgreint barn hefði getað sagt sér.

En segja ekki það sem átti að segja.

 

Sjómenn eru líka fólk.

Þeir geta líka verið með undirliggjandi sjúkdóma, jafnt sem vitað er um eða ekki vitað.

Veirunni var veitt leyfi til að drepa þá, en hún tók ekki boðinu.

 

Það gerir menn ekki stikkfrí.

Engan veginn.

 

Því þetta er dauðans alvara fyrir alla.

Líka fyrir fólk út á landi, líka fyrir sjómenn.

 

En þá þarf að taka þetta alvarlega.

Alltaf.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Greinilegt að ekki hafi verið farið eftir reglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér sóttvarnarglæpamenn segjum:

 

"Það var aldrei ætl­un út­gerðar eða skip­stjóra að stefna heilsu og lífi áhafn­ar skips­ins í hættu".

Svo eftir stendur stóra spurningin, af hverju gerðið þið það þá??

 

Hefur heimsfaraldur kóvid farið framhjá ykkur, alvarleiki hans og hve margir féllu áður en gripið var til SÓTTVARNARAÐGERÐA??

Fylgist þið ekki með innlendum og erlendum fréttum??, eða lesið þið bara afskræminguna sem kemur frá hægri öfganum úr innsta kjarna Sjálfstæðisflokknum, og hefur dreift úr sér inná ritstjórn Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og kyndir undir þann áróður að kóvidveiran sé álíka hættuleg og meinlítil flensa.

Sé svo þá eru viðbrögð ykkar skiljanleg, í þekktri útgerð frystitogara hefur engu skipi verið snúið í land vegna einhvers flensuskíts, enda slíkt góð leið til að sigta út alvöru karlmenn sem kunna að bíta á jaxl, og þá eina sem lagt er uppúr er að sjá til þess að tannheilsa áhafnar sé góð og allir hvattir að fara reglulega í tanntékk.

 

Þið gerðuð þetta og brotavilji ykkar var einbeittur.

Það var örugglega engin mistök að landhelgisgæslunni var ekki tilkynnt um faraldurinn sem þið í sannleiksást ykkar kallið "grun um kór­ónu­veiru um borð", þið hafið örugglega bannað skipstjóranum að viðurlögðum brottrekstri að gera slíkt. Sá ærulausi maður mun örugglega staðfesta það þegar hann upplifir á eigin skinni fyrirlitningu samfélagsins og að hann eigi sér hvergi viðreisnar von fyrr en hann rís upp og segir satt frá.

Hafi einhver efi verið þar á þá útrýmduð þið honum með viðbrögðum ykkar eftir í land var komið þegar þið hótuðu skipverjum illu ef þeir segðu frá, ef þeir tjáðu sig um hina skelfilegu aðför ykkar að lífi þeirra og limum. Í stað þess að játa mistök ykkar, biðjast afsökunar og lofa að gera allt sem er  í ykkar valdi til að bæta úr.

Því það getur nefnilega öllum orðið á, gert hræðileg mistök, jafnvel vísvitandi, en það eru viðbrögðin við þeim sem skera úr einlægnina að baki afsökunarbeiðninni.

 

Þið hótuðu skipverjum og einhvern veginn tókst ykkur að þagga niður í sóttvarnaryfirvöldum, lögregluyfirvöldum og stjórnmálastéttinni eins og hún lagði sig.

Fyrsti vélstjóri sagði samt frá, og ykkur tókst ekki að þagga niður í samfélaginu fyrir vestan, í samráði við fréttafólk Ruv var sagt frá, vandaðar fréttir unnar, og glæpir ykkar vorum öllum ljósir.

Einnig má þakka Morgunblaðinu, þó blaðmenn þess fengju ekki að vinna sjálfstæða frétt um málið með sínum eigin viðtölum og fréttaskýringum, enda um fáheyrða hegðun að ræða frá því að Axlar Björn kom óorði á ferðaþjónustu, þá endursagði það fréttir Ruv og birti samviskulega í sjávarútvegskálfinum sínum, 200 mílum.

Meir er ekki hægt að ætlast til að blaði sem er undir hæl stórútgerðarinnar.

 

Þið hafið séð ykkur knúna til að biðjast afsökunar og segið að fyrirtækið muni axla ábyrgð.

Innantómt því ef þið meintuð orð af orðum ykkar, þá væruð þið þegar búnir að banka uppá hjá lögreglunni og biðja um gistingu í fangaklefum á meðan málið er í rannsókn.

Því fyrir utan fáheyrða mannvonsku eruð þið sekir um tilraun til manndrápa.

 

Þetta veit allt siðað fólk þó það hafi á einhvern hátt farið framhjá þeim fyrir sunnan þar sem kerfið er, valdið og atvinnugóðmennskualmannarómurinn.

Þögn þess verður það sjálft að skýra.

Vona þess vegna að það missi ekki út úr sér að voru þetta ekki bara einhverjir sjómenn, hvort sem er innilokaðir og gátu því engan smitað nema fugla og fiska.  Og er þetta ekki allt hvort sem er að deyja út þarna á landsbyggðinni, þarf ekki bara að hækka veiðigjöldin svo fólk hætti þessu hokri og flytji suður í siðmenninguna.

Allavega, hverjum er ekki svo sem sama.

 

Hverjum er ekki svo sem sama?

Vissulega ekki venjulegu ærlegu fólki, en það hefur ekkert með völdin fyrir sunnan að gera.  Fóðrar ekki almannaróm eða gerir út góða fólkið.

Á hvorki ráðherra eins og Gunnvör eða þingmenn yfir höfuð.

Er ekki áhrifavaldar eða álitsgjafar.

 

Nei, það er ekki verið að spyrja um það þegar spurt er; hverjum er ekki sama.

Það er verið að spyrja um fólkið sem þegir þegar það á að segja.

 

Þökk sé Ruv þá mun það neyðast til að tjá sig.

Mun örugglega lýsa yfir vandlætingu sinni þó einhverjum yrði á orði hvort þetta hafi verið nokkuð svo alvarlegt, allir lifandi frá borði og að á myndum hafi ekki sést nein rasísk tákn, hafi þetta þá verið svo slæmt?  En jú, jú auðvitað er mér ekki sama, ég fattaði bara ekki að ég ætti að bregðast við vegna hins alvarlega atburðar, svo vanur að segja ekki neitt nema fjölmiðlaumræða knýi mig að fara með samúðarrullu mína.  Ha, hvað gerðist þarna??, hvar var þetta??, fyrir vestan??, hvar er það??, býr fólk þarna??, eru þetta ekki bara einhverjir Pólverjar sem eru eftir þarna.

Nei, kannski ekki en ég gat bara ekki stillt mig um að skrifa niður líklegustu skýringuna á þögninni.

 

Það verður örugglega eitthvað sagt.

Hvort iðrunin risti dýpra en finna má í þessari yfirlýsingu stjórnenda Gunnvarar, það er ekki gott að spá um.

Það eru nefnilega svona mál sem afhjúpa fólk.

Hversu gott það er, hversu heilt það er.

 

Sóttvarnaryfirvöld hins vegar brugðust.

Þau höfðu vitneskju um hópsmitið.

En aðhöfðust ekkert.

 

Þau skulda okkur skýringu.

Kveðja að austan.


mbl.is Raunir skipverja mega ekki endurtaka sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1440180

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband