Vér ákærum.

 

Upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga má rekja til þingmanna á þjóðfundinum 1851 sem risu upp og mæltu þessu fleygu orð; "Vér mótmælum allir".

Tónn var sleginn sem endaði með stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944.

 

Ísland varð þá sjálfstætt ríki með stjórnarskrá, sjálfstæðu löggjafarþingi og ríkisstjórn sem sótti vald sitt til þjóðarinnar gegnum lýðræðiskjörinn þingmeirihluta sinn.

Og þessi örþjóð út í ballarhafi varð velmegunarríki þar sem jöfnuður og velferð var eins og best gerðist á byggðu bóli.  Ekki sjálfgefið því að öllu jöfnu þá eiga útnárar ríkja erfitt uppdráttar, glíma við fólksfækkun, hlutfallslega fátækt og ekki hvað síst, jafnt menntunar sem menningarskort.

Hvernig sem á það er litið þá er forsenda velmegunar og velferðar þjóðarinnar, sjálfstæði hennar og sá innri styrkur að vilja vera ekki síðri en stærri þjóðir.

 

Síðan þá hafa mörg vötn runnið til sjávar.

Hið frjálsa flæði fjármagns skóp hér fámenna stétt fjármógúla sem náðu á örfáum árum að kaupa helstu stórfyrirtæki þjóðarinnar, ásamt að leggja undir sig banka hennar, þeir skuldsettu allt í botn, fóru á hausinn og tóku þjóðina með sér.

Hörmungarnar í kjölfarið er eins og fellibylur hafi gengið yfir, eða sprengjum hafi verið varpað á borgir og bæi, þessar staðreyndir mega aldrei gleymast;

 

"Frá hruni hafa 10.000 fjölskyldur misst heimili sín á uppboðum og sennilega eru þær a.m.k. jafnmargar sem hafa misst heimili sín án þess að til uppboðs hafi komið. Varlega áætlað hafa því fleiri en 15.000 fjölskyldur misst heimili sín eða á bilinu 45.000 – 60.000 einstaklingar sem samsvarar öllum íbúum Kópavogs og helmingnum af Garðabæ. Á sama tíma hafa verið gerð 164.000 fjárnám hjá þessari 360.000 manna þjóð. Þar af voru 127.000 fjárnám árangurslaus. Þessar tölur tala sínu máli um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun.".

 

Nema að þetta voru manngerðar hörmungar, og ábyrgðin liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum og Alþingi.

Íslenska stjórnmálastéttin fórnaði þjóð sinni fyrir frið við hið alþjóðlega fjármagn sem krafðist þess að hrægammar mættu gera upp náinn.

Sem þjóð upplifðum við áður óþekkta siðblindu fólks sem naut trúnaðar okkar og trausts, og hefur aldrei hvorki þurft að sætta ábyrgð ómennsku sinnar, eða biðjast afsökunar á henni.

 

Og það er svo að fólk sem hefur rofið sáttmála mennskunnar, slitið öll tengsl við guð og góða siði, að það lætur aldrei staðar numið, fyrr en það er stöðvað.

Eitthvað sem íslenskum almenningi hefur ekki borið gæfa til.

 

Mig langar að vitna í skarpasta penna sem eftir er af mörgum góðum sem skrifuðu í dagblöð okkar á blómaskeiði þeirra, Styrmi Gunnarsson.

 

"Það er óhugnanlegt að fylgjast með því, með hvaða hætti lýðræðið er brotið á bak aftur. Hið sama hefur gerzt hér á Íslandi í eins konar örmynd í samanburði við Bretland vegna orkupakkans.

Hér er það embættismannakerfið í samvinnu við skoðanalausa og viljalausa stjórnmálamenn, sem koma við sögu, með hagsmunaaðila að bakhjarli. Það er aðeins ein aðferð til sem dugar til þess að takast á við þessa nýju innri ógn í lýðræðisríkjum og hún er sú að afhjúpa Djúpríkið og leiða það fram í dagsljósið.".

 

Þessi orð eru þeim mun alvarlegri því þau er skrifuð af einstakling sem alla sína ævi hefur varið hið borgarlega þjóðskipulag.

Og varið borgarastéttina.

 

Tilefnið er ekki bara sú gjörð stjórnmálastéttarinnar að selja forræðið yfir orkuauðlindum þjóðarinnar í hendur Brussel valdsins, heldur líka þau vinnubrögð sem stjórnmálastéttin viðhafði í umræðunni um orkupakka 3.

Það eru gild sjónarmið að taka þátt í orkubandalagi ESB og tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði, og hvernig sem á það er litið, þá eru bæði kostir með, og kostir á móti.

Innihald regluverksins er skýrt, sameiginlegur raforkumarkaður, þar sem orkuverð ræðst af framboði og eftirspurn, og yfirþjóðleg stofnun, ACER, sem mótar stefnu, ber ábyrgð á að einstök ríki framfylgi henni, og sker úr um ágreiningsefni, bæði innan ríkja og milli ríkja.

 

Stjórnmálastéttin kaus hins vegar að ljúga til um allt, afneitaði bæði markmiðum regluverksins, innihaldi þess  og afleiðingum.

Í stað þess að rökræða málin, þá voru þeir sem það vildu, sakaðir um blekkingar, að fara með staðleysur og annað, þegar þeirra eina sök var að segja frá því sem stóð í regluverkinu, og útskýra hvað það þýddi með hliðsjón af reglum Evrópusambandsins um hið frjálsa flæði.

 

Og í krafti fjölmiðla orkumógúlana, og í traust þess að þeir fjármögnuðu framboð núverandi forseta og eiga hann í raun, þá komst hún upp með málflutning og umræðu sem á sér engin fordæmi í vestrænum lýðræðisríkjum frá seinna stríði.  Eina samsvörunin má finna í Berlín í aðdraganda falls Weimars lýðveldisins í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar.

Ef lýðræðið og lýðveldið er tré, þá hjó hún ekki aðeins í tréð með því að afhenda Brussel og markaðnum forræði orkuauðlinda þjóðarinnar, heldur sargaði hún rætur þess með árás sinni á staðreyndir og heilbrigða skynsemi.

Því aðeins við ógnarstjórn, í ógnarríkjum eru staðreyndir háðar geðþótta stjórnvalda, og sannindi aðeins rædd ef valdhafin leyfir slíkt.  Þar er litla stelpan sem bendir á hinn nakta keisara höggvinn á staðnum fyrir ósvífnina.

Höggvin fyrir að segja satt.

 

Þetta er alvarleiki málsins.

Sú aðför að lýðræðinu að stjórnvöld reyni, og komist upp með, að ljúga til um stefnu sína og afleiðingar hennar.

Því forsenda lýðræðisins er að stefnur og viðhorf takist á, út frá staðreyndum og túlkun þeirra, ekki falsi og blekkingum.  Slíkt er alltaf jaðar, ekki aðal.

Og út frá þessum alvarleika kallar Styrmir á að Djúpríkið verði afhjúpað, því það virðir ekki lengur leikreglur lýðræðisins.

 

En stjórnmálastéttin sem sveik þjóð sína í hendur innlendum og erlendum hrægömmum eftir Hrun, og hefur núna samþykkt regluverkið sem kennt er við orkupakka 3, er samt ekki hafin yfir lög lýðveldisins.

Hún getur vissulega vanvirt stjórnarskrána ef á Bessastöðum situr leppur orkumógúlana, en hún getur ekki vanvirt almenn hegningarlög.

Hún getur ekki keyrt dauðadrukkin, hún má ekki stela úr búðum, og hún má ekki pissa á almannafæri frekar en aðrir borgarar þessa lands.

Og hún má ekki selja land sitt án þess að breyta lögunum fyrst.

 

Hvað það varðar eru hegningarlögin skýr.

 

"86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess

.. 87. gr. Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, án þess að verknaðurinn varði við 86. gr., þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt. Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hátt ,.. .".

 

Norðmenn breyttu lögunum sínum áður en þeir gengust undir hið evrópska forræði, en hrokinn í hrokanum sá ekki ástæðu til þess.

Haldreipið er kannski að Evrópusambandið sé ekki erlent ríki, heldur erlent vald, en mér er það til efs að það haldi þegar í það er togað fyrir dómi.

 

Það er vissulega rétt, að á meðan það reynir ekki á regluverkið, þá má túlka það stjórnmálastéttinni í vil.

En þegar boðin koma að utan, þegar Orkustofnun telur sig ríki í ríkinu, óháð innlendu valdi, en lýtur boðvaldi ACER, þá er ljóst að sjálfsákvörðunarréttur íslenska ríkisins er verulega skertur.

Reyndar eitthvað svo svipað og við höfum upplifað í kjötdóminum, en í orkuregluverkinu er forræði ACER skýrt, svo ekki er hægt að þræta að um erlent boðvald er að ræða.

 

Varnarbarátta þjóðarinnar hlýtur því að felast í að ákæra eftir lögum landsins, eftir skýrum ákvæðum hegningarlaga.

Eins og áar okkar sem mótmæltu, þá eigum við að ákæra.

Ákæra fólkið sem seldi landið okkar.

Því í lýðræðisríkjum er enginn hafinn yfir lög, hvorki þingmenn eða ráðherrar.

 

Þegar forsætisráðherra mælir í kvöld, þá skulum við muna að hún er ekki hafin yfir lög þjóðarinnar.

Þó hún í trausti valdhroka síns haldi að hún sé ósnertanleg, þá er það svo ekki.

 

Ekki á meðan það er til fólk sem rís upp og segir;

"Vér ákærum".

 

Vér ákærum.

Kveðja að austan.


mbl.is Stefnuræða forsætisráðherra í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Híf opp æpti karlinn.

 

Inn með styrkinn inn, mig vantar atkvæði, inn með styrkinn inn.

Lag sem allir kyrjuðu þó sá sótsvartasti sé háttvirtur núverandi forseti Alþingis.

Og enn á að bæta í þó vissulega komi þeir fjármunir ekki úr ríkissjóði.

 

En eins og Björt Ólafsdóttir bendir réttilega á þá hefur ríkissjóður og ríkisfyrirtæki gert ýmislegt til að stuðla að framgangi verkefnisins.

Miklir fjármunir fyrir fá störf, en á móti kemur ákveðin þungamiðja í atvinnulífi sem styrkir brothættar byggðir í Þingeyjarsýslum.

 

Menn mættu hins vegar íhuga hvort aðrar leiðir séu til þess færar.

Til dæmis var athyglisvert hvernig ríkisstjórn Thatcher tæklaði slík byggðamál á sínum tíma.  Bæði voru settir fjármunir í sprota, ytri umgjörðin var einhver blanda af styrkjum og hagstæðri fjármögnun, og síðan var skattalegum ívilnum beitt til að laða að fyrirtæki á svæðum sem uppfylltu skilyrðin um það sem við köllum brothættar byggðir í dag.

Eftir því sem ég best veit þá gekk margt betur en verr í því verkefni öllu saman enda augljóst að gróskan og gróandinn skilar alltaf meiru í húsi en ein risastór verksmiðja sem svo enginn vill vinna í.  Nema nauðbeygður.

 

Þetta hefur oft verið rætt á Íslandi, þessi hugmyndafræði er þekkt, og eitthvað unnið með hana.

En ég fullyrði að milljörðum er ekki eytt í hana.

Sem og að ríkið vinnur stanslaust á móti sínum eigin áformum, eða hvernig halda menn að íbúar landsbyggðarinnar séu í stakk búnir til taka á sig enn einn kolefnaskattinn.  Eða alla hina grænu skattana sem vinna beint gegn lífæð byggðanna, samgöngum.

Eða krepputryggingargjaldið sem lagt var á eftir Hrun, það hefur ekki lækkað mikið enda viðvarandi kreppa í ríkisfjármálum.

En er það ekki vegna þess að allt er skattlagt áður en gróskan og gróandinn nær að magna upp veltu og verðmæti??

Er ekki gáfulegra að hirða uppskeruna af kartöflunum í skatt í stað þess að hirða útsæðið???

 

Það er nefnilega tvennt sem allir flokkar á þingi eiga sameiginlegt.

Að framkvæma allir sömu stefnuna þegar þeir eru í stjórn, þó blæbrigði séu í loforðum stjórnarandstöðunnar.

Og kommúnísk skattlagning.

 

Núna síðast sjáum við það á einbeittum áformum um vegskatta eða vegtolla, eina sem deilt er um hvort ríkið á að sjá um þá ofurskattlagningu, eða hvort einkaaðilar eigi að fá að gera almenning að enn einni féþúfunni.  En það er ekki rifist um vegtollana og allir eru sammála um að ræða ekki slík mál fyrir kosningar.

Og skattar eru aldrei lækkaðir á einu stað, án þess að þeir séu hækkaðir á öðrum, og þá yfirleitt þannig að um nettó aukningu er að ræða.

Enginn flokkur virðist skilja að gróskan og gróandinn skilar auknum umsvifum og veltu, og þar með auknum skatttekjum.

 

Þetta er svona, en þarf ekki að vera svona.

Núna þegar það er aðeins einn stór flokkur á þingi, Evrópuflokkurinn, auk 2 smáflokka, þá er lag fyrir skynsamt fólk að sameinast um framboð sem býður fram sjálfstæði þjóðar, og heilbrigða skynsemi.

Og ef menn gæta þess að vera trúverðugir, þá ætti slíkur flokkur að geta fengið mikið fylgi.

Þetta yrði svona þjóð gegn auðræðinu, heilbrigð skynsemi gegn nýkommúnisma.

Framtíð gegn staðnaðir fortíð.

 

Alþingi rauf griðin við þjóðina með samþykkt orkupakka 3 og þjóðin á því að rjúfa griðin við Alþingi.

Og senda þetta fólk heim, það gerir hvort sem er fátt annað en að þjóna hagsmunum auðs og auðmanna, hvort sem það hefur komist á mála eður ei.

 

Þetta er svo einfalt, það þarf bara að framkvæma það.

Kveðja að austan.


mbl.is Björt Ólafsdóttir: „Ég varaði við þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra hefur ekki áhyggjur.

 

Þá vitum við það.

Af hverju hún hefur ekki áhyggjur kemur ekki fram í fréttinni.

Það að blaðamaður hefur ekki fyrir því að spyrja svo augljósrar spurningar segir margt um stöðu hins nýja dómsmálaráðherra.

 

Opinber hjaðningavíg embættismanna eru aldrei til góðs.

Geti menn ekki sjatlað deilur, hamið sig, þá verða þeir að víkja.

 

Hinsvegar má spyrja, hver er ábyrgð fyrrverandi dómsmálaráðherra á kerfisuppbyggingu sem svona lítil sátt er um.

Burtséð frá öllum persónum málsins.

 

Og síðan hvenær hefur miðstýring kerfisins í anda gamla Sovétsins verið sérstakt keppikefli og markmið íslenskra hægrimanna.

Í mörg mörg ára hafa þeir varla opnað svo munninn að þeir tali ekki um sameiningu, meinta hagræðingu í eina risaheild.

Sjá sparnað á blaði, spá ekkert í óskilvirkni báknsins sem smátt og smátt koðnar niður undan eigin þunga.

Hver þarf komma þegar hægrið elur af sér exeldýrkendur miðstýringarinnar??

 

En það er gott að dómsmálaráðherra hefur ekki áhyggjur.

Í raun frétt út af fyrir sig.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Segir starfslok til skoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 66
  • Sl. sólarhring: 1000
  • Sl. viku: 4529
  • Frá upphafi: 1457477

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 3917
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband