14.4.2019 | 14:21
Þegar sannleikurinn er sagður lýðskrum.
Þá höfum við vaknað uppí alræðisþjóðfélagi eins og Orwell lýsir svo ágætlega í bók sinni 1984, það er árdaga þess áður en almenningur var sviptur öllum lýðréttindum.
Það er staðreynd að regluverk ESB er yfirþjóðlegt og tekur öll völd af einstökum aðildarríkjum, slíkt telur skrifræðið nauðsynlegt til að ná fram markmiðum sínum í orkumálum.
Markmið sem eru hindrunarlaus markaðsviðskipti óháð landamærum, að auka orkuöryggi og hlut grænnar orku af heildarorkuframboði innan efnahagssvæðisins.
Að benda á þetta skrifræðisyfirþjóðvald er kallað lýðskrum.
Það er staðreynd að regluverk ESB líður ekki markaðshindranir, og slíkar markaðshindranir hafa ekki haldið þó upphaflega hefur verið samið um þær eins og nýlegur dómur um frjálsan innflutning á sýklum staðfestir.
Einhliða fyrirvari íslenskra stjórnvalda um að banna sæstreng sem mun tengja landið við hið sameiginlega orkukerfi Evrópu mun því ekki halda. Öll dómafordæmi eru á þá vegu, engin fordæmi til um það gagnstæða enda skrýtið að innleiða reglugerð sem er hugsuð til að stuðla að hindrunarlausum viðskiptum yfir landamæri, að einstök ríki geti undanþegið slíku frjálsu flæði með einhliða fyrirvörum.
En að benda á þetta er kallað lýðskrum.
Ríkisrekin einokunarfyrirtæki eru markaðshindrun í hinu frjálsa flæði, þau hindra samkeppni og einkarekin fyrirtæki keppa ekki við þau á jafnréttisgrundvelli.
Þjóðir sem undirgangast hið sameiginlega regluverk þurfa því að skipta þeim upp og bjóða hluta þeirra til sölu á markaði. Með öðrum að einkavæða þau.
En að benda á þetta er kallað lýðskrum.
Hinir svokallaðir lýðskrumarar vitna í íslensku stjórnarskrána, í lög og reglur Evrópusambandsins, í sögu þess hvernig allt samstarf hefur orðið miðstýrðara undir handleiðslu stofnana sambandsins, um dóma og dómaframkvæmd, máli sínu til stuðnings.
Menn eins og Þorsteinn Víglundsson vitna í fullyrðingar, og lýsa sjálfum sér þegar þeir segja; ", fólk sem er á launum við að kynna sér þessi mál af kostgæfni, fer fram með rök sem er ekki hægt að styðja með einum einustu tilvísunum í regluverk eða staðreyndir málsins.".
En þessi sami Þorsteinn hefur reynt að ræða málin á málefnalegum nótum, ekki með því að hafna hvað felst í reglugerðinni um hið yfirþjóðlega regluvald og hinn sameiginlega orkumarkað. Menn gera verið sammála honum eða ósammála, en hann lýgur ekki, afneitar ekki staðreyndum málsins líkt og stjórnarflokkarnir þrír gera.
Og næst þegar menn lesa fullyrðingar manna eins og Brynjars Níelssonar eða Guðlaugs Þórs þar sem þeir kannast ekki við regluverkið eða hinna sameiginlega orkumarkað, einkavæðinguna eða annað, þá ættu menn að hafa þessi orð Þorsteins í huga;
" Sú ákvörðun Norðmanna að fjárfesta í tengingu við evrópska markaðinn skýrist nefnilega ekki af því að landinu sé stýrt af ótýndum landráðamönnum heldur af því að tengingin skilar Norðmönnum miklum ábata. Hún er skynsamleg. Hún stuðlar að auknu raforkuöryggi og um leið hagnast Norðmenn ágætlega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist til að mynda. Orkan er ekki lengur "strönduð" eins og það kallast heldur eiga Norðmenn kost á því að flytja hana út ef stóriðjan vill ekki greiða uppsett verð.
Að einblína á möguleg verðlagsáhrif heima fyrir, líkt og lýðskrumarar gera, er álíka gáfulegt og að banna fiskútflutning okkar þar sem verð á ýsu hér heima kunni að vera hærra fyrir vikið. Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna. Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri. Og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Til dæmis með því að fella niður virðisauka á sölu raforku til heimilisnotkunar. Ræðum kosti þessa og galla en nálgumst ekki málið með heimóttarskap og hræðsluáróðri.". (Feisbók Þorsteins 7. apríl 2019)
Það er vissulega ákveðinn kostur að gamalt fólk hafi ekki efni á að kynda húsin sín á köldustu vetrarmánuðunum, til lengri tíma dregur það úr útgjöldum til heilbrigðiskerfisins því það er bara svo með kulda að hann dregur úr lífslíkum fólks. Og auðvitað var þetta argasti sósíalismi hjá Sjálfstæðisflokknum á fyrri hluta síðustu aldar að beita sér fyrir ódýru rafmagni og hita fyrir alla, í stað þess að markaðsvæða orkuna strax og tryggja hámarks arð fyrir orkufyrirtæki sem áttu auðvitað að vera í einkaeigu.
Og stóriðjan er vissulega ölmusuatvinnuvegur á þjóðinni sem fáu eða engu skilar líkt og Indriði G. Þorláksson hefur ítrekað bent á. Þá borga Þjóðverjarnir hærra rafmagn þegar þeir eru að falsa kolefnisbókhaldið hjá sér, og þeir sem missa vinnuna geta bara flutt til Þýskalands, eða eitthvað.
Síðan vita allir að garðyrkjan og þetta sem nýtir sér ódýra orku, er bara tómstundagaman fólks sem nennir ekki að vinna ærlega vinnu í bönkum eða hjá lögfræðifyrirtækjum. Og gerir ekkert annað en að draga úr hagnaði heildsala.
Aðalatriðið er að málið sé rætt á málefnalegan hátt, og það sé viðurkennt hvað felst í orkutilskipunum Evrópusambandsins, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki.
Fólk getur deilt um þessa lykilskoðun hans; "Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri.", en það á ekki að rífast um forsendur hennar.
Sem er tilskipun ESB um orkumarkaði, innihald hennar og afleiðingar.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að það verði ekki lagður sæstrengur.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að orkufyrirtæki í almannaeigu verði ekki einkavædd að hluta eða að öllu leiti.
Það á ekki að ljúga að þjóðinni að slíkt muni ekki breyta samfélaginu okkar í grundvallaratriðum, að kuldinn hefji innreið sína á íslensk alþýðuheimili og þúsundir munu missa vinnuna þegar iðnaður sem treystir á ódýra orku deyr drottni sínum.
Og það á ekki að ljúga að þjóðinni að stjórnarskráin heimili yfirþjóðlegt regluvald og dómsvald yfir öllu sem lítur að orkumálum.
Menn eiga að hafa kjarkinn eins og Þorsteinn og segja að það sé sín skoðun að meintur ávinningur vegi uppi skaðann, og að stjórnarskráin eigi ekki að vera markaðshindrun, eða hindra þróun á alþjóðlegu samstarfi okkar við Evrópusambandið.
Því annað er aðför að lýðræðinu.
Aðför að lýðveldinu, miklu verri en sú að afhenda erlendu valdi orkuna okkar.
Því lygin er forsenda alræðisins.
Það var lygin og ógnin sem hélt saman alræðisþjóðfélögum fasista og kommúnista.
Og ef við látum hana viðgangast þá upplifum við í dag árdaga alræðis auðsins.
Ef við viljum það, þegjum við.
Ef við viljum vernda lýðræðið, þá mótmælum við .
Vinnubrögðunum og málflutningnum.
Öll sem eitt, hvort sem við erum sammála samrunanum við orkumarkað Evrópusambandsins, eða ekki.
Og ekki hvað síst, eiga fjölmiðlamenn að standa vaktina hvað þetta varðar.
Þeir eru jú hluti af samfélagi okkar og geta ekki talið það ákjósanlegt að þjóðin sigli hraðbyri inní alræði auðsins.
Regluverkið er skýrt, dómar um hvort að einhliða fyrirvari haldi eru engir, afleiðingarnar eru skýrar, kostir og gallar.
Þess vegna á engin að komast upp með að kalla staðreyndir lýðskrum.
Og það er samsekt að láta einhvern komast upp með slíkt.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
Þ
![]() |
Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Bloggfærslur 14. apríl 2019
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 487
- Sl. sólarhring: 826
- Sl. viku: 5042
- Frá upphafi: 1458532
Annað
- Innlit í dag: 424
- Innlit sl. viku: 4382
- Gestir í dag: 408
- IP-tölur í dag: 399
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar