23.5.2016 | 10:28
Peningaþvætti Seðlabanka Íslands.
Og ríkisstjórnar Íslands mun seinna meir verið skráð í sögubækur sem dæmi algjör yfirráð fjárglæpamanna á vestrænu hagkerfi.
Og gæsagangur stuðningsmanna borgarlegu flokkanna við ránið og ruplið rannsakaður eins og annar eldri gæsagangur múgsefjunarinnar sem sviptir vitiborið fólk ráði og rænu, og fær það til að ganga fyrir björg á eftir foringjum sínum.
Hvernig gat þetta gerst??
Hvernig geta fjárglæpamenn rænt heila þjóð svona fyrir opnum tjöldum, án þess að nokkur æmti eða skræmti? Þannig að einmana maðurinn sem sást á frægri ljósmynd af fjöldafundi múgsefjunar þriðja ríkisins, virkar fjölmennur miðað við íslensku mótspyrnuna.
En víkjum fyrst að byrjuninni og spáum í af hverju þetta samhljóða frumvarp um aflandskrónur er peningaþvætti í sinni fegurstu mynd. Wikipedia er eins og oft áður með kjarna skilgreiningarinnar á peningaþvætti.
Money laundering is the process of transforming the proceeds of crime, corruption or kleptomania into ostensibly legitimate money or other assets.
Ljósfælið fé er gert löglegt með einhverjum málamyndagjörningi löglegra aðila.
Íslensku aflandskrónurnar eru dæmi um slíka ljósfælna starfsemi.
Nú myndi einhver segja að aflandskrónurnar séu að mestu í eigu erlendra hrægammasjóða, og vitna þá einhver opinber gögn því til stuðnings. Því er til að svara að leppar eru jafngamlir fyrsta peningaþvættinu, og hrægammasjóðir eru ágætis yfirvarp hinnar ljósfælnu starfsemi.
En fyrst og síðast þá er eðli peningaþvottar að lauma sér inní eitthvað sem virðist vera löglegt á yfirborðinu. Smáfyrirtækin sem því íslenska eiturlyfjagróðann eru með líka með löglega innkomu svo dæmi sé tekið.
Mestu skiptir er að sjá hina innlendu aðila sem fljóta með innan um hinar stærri upphæðir.
Kjarninn gerði ágæta úttekt á hinum sýnilega hluta þess peningaþvættis sem Seðlabankinn hefur þegar komist upp með.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Blaðamaður Kjarnans tekur það skýrt fram að vinnumennirnir í Seðlabankanum uppljóstra ekki um hið meinta erlenda eignarhald, hve mikið af því hverfur á eyjum í breska skattaskjólinu kennt við Tortóla.
Það sama gildir í dag, eignarhaldið liggur ekki fyrir, það er aðeins vitað að það er verið að þvo pening fyrir innlenda aflandseigendur.
En afhverju er aflandskrónurnar ljósfælið??
Eru þetta ekki bara löglegir fjármunir sem heiðarlegir bissness menn öfluðu í sveita síns andlits og þurftu að finna sé afland til að geyma þar sem þeir vissu sem er að bankar þeirra voru reistir á brauðfótum? Spurning sem er mandra sem gæsagangastuðningsveit fjárglæpamannanna kyrjar öllum stundum þessa dagana.
Byrjum að vitna í ríkisskattstjóra og harðorðan áfellisdóm hans yfir aflandsvæðingu fjármálakerfisins.
Ríkisskattstjóri spyr sig hvers vegna fjármagnseigendur hafi ákveði að færa eignir inn í aflandsfélög og sveipa þær huliðshjúpi með flóknum blekkingum og öðrum ráðstöfunum. . Þetta vekur hugrenningar um hvort útrásin margfræga hafi þurft á slíkri leynd að halda og hvort samhliða viðskiptagerningum hafi hún falist í því að koma fjármagni undan skattlagningu eða verið af öðrum hvötum, segir í leiðara.
Sem hann bendir réttilega á seinna í grein sinni að helstu aðvörunarorðin hefðu komið frá skattayfirvöldum, ekki íslenskum stjórnmálamönnum, eða stjórnkerfinu sem þeir ráða.
Hvert umfang hinnar ljósfælnu starfsemi er þá má vitna í Fréttatímann;
Panamaskjölin hafa dregið athygli að samfélagslegum skaða sem leiddi af útstreymi fjár frá Íslandi á árunum fyrir Hrun. Skaðinn er ekki aðeins tapaðar skatttekjur. Talið er að óframtaldar eignir og tekjur frá aldamótum til 2008 hafi numið um 1050 til 1800 milljörðum króna. Tapaðar skatttekjur af þeirri upphæð geta verið um 200 til 250 milljarðar króna. Það er mat skattasérfræðinga að um helming skattaundanskota á árunum fyrir Hrun megi rekja til skattaskjóla og útstreymis fjármagns út úr íslenska krónuhagkerfinu.
Þessar tölur eru mat, þar sem ítarleg rannsókn á umfangi fjárglæpanna liggur ekki fyrir sökum þess að íslenskir stjórnmálamenn dansa með gerendum, en ekki þjóðinni, eru í raun vinnumenn líkt og stjórnmálamenn í eiturlyfjaríkjum Mið Ameríku. Þeir fara ekki gegn hendinni sem fæðir þá, heldur hirða þakklátir molana sem að þeim er rétt.
Þúsund til tvö þúsund milljarðar eru miklir fjármunir, líka í stærstu hagkerfum hins vestræna heims.
Í okkar litla hagkerfi eru þeir ígildi alræðisvalds.
Og þessir fjármunir eru ekki áunnir í svita og strita hins heiðarlega bissnessmanns líkt og þeir sem gæsaganginn stunda halda fram.
Margir hafa lýst svikamyllunni sem íslenska efnahagsundrið byggðist á.
Enginn betur en Ragnar Önundarson gerði í frægri grein í Morgunblaðinu í árdaga íslenska fjármálaundursins kennt við Útrás og Úrásarvíkinga.
Greinin varð reyndar ekki fræg fyrr en eftir Hrunið, og margir sögðust þá hafa sömu Lilju kveðið, en sögðu það bara óvart eftir á.
Með sömu skarpskyggni lýsti Ragnar peningaþvætti Seðlabankans svo ekki verður betur gert. Í pistli á feisbókarsíðu sinni undir yfirskriftinni, "Viltu vinna milljarð".
Þegar framtíð þjóðar er í húfi, að ekki sé minnst á æru okkar sem heiðarlegs fólks að láta ekki ósómann viðgangast án mótmæla, þá ætla ég að vitna beint í Ragnar, löng lesning, en hvert orð þess virði að vera lesið.
Margoft, mörgum sinnum.
Viltu "vinna" milljarð ? Viltu svo "vinninginn heim" ? Þá er þetta aðferðin:
1. Þú stofnar "eignarhaldsfélagið" Rán ehf. og tekur milljarð að láni hjá kunningja þínum í bankanum eftir að hafa borgað "bónus" til hans með "þóknun skv. gjaldskrá".
2. Þú stofnar "aflandsfélag" Highway Robbery Inc. í Panama eða Tortóla með aðstoð kunningja þíns í bankanum og millifærir það sem eftir er af milljarðinum þangað.
3. Þú sérð enga leið til að eignarhaldsfélagið geti borgað afborganir og vexti og það fer í þrot. Bankinn afskrifar lánið þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir að hafa allar upplýsingar um hvað varð um peningana og hvert þeir fóru. Þú borgaðir svo góðan "bónus" að þeir fara ekki að vera með nein leiðindi.
4. Til öryggis stofnarðu fleiri aflandsfélög með aðstoð erlends banka og millifærir áfram nokkrum sinnum í þeirri von að það "snjói í sporin". Allt kostar þetta og þú þarft nú sjálfur að lifa eins og aðrir, svo nú "áttu" bara 900 millur.
5. Þú bíður í nokkur ár en svo sérðu tilboð Seðlabankans um að taka þátt í gjaldeyrisútboði. Þú tekur því og færð þriðjungs ábót á "vinninginn" og átt allt í einu 1.200 milljónir. Seðlabankinn tryggir þèr nafnleynd svo ekki sé unnt að lesa saman nöfn þáttakenda við afskriftalistana.
6. Þú kaupir þér teinótt jakkaföt og gerist "fjárfestir". Ásamt félögum þínum kaupir þú banka af ríkinu, sem gleðst yfir vel heppnaðri einkavæðingu og lýsir yfir sigri og fagnar að samkeppni virðist komin í bankaþjónustu.
Þetta eru illa fengnir fjármunir, þeir eru ávöxtur svikamyllu, og Alþingi Íslands, og seðlabanki þjóðarinnar eru í dag að endanlega að þvo þessa peninga.
Að gera þá löglega, svo fjárglæpamennirnir geti ráðstafað þeim að vild sinni, til dæmis sbr lið 6., að kaupa hina nýju banka sem ríkisstjórn hinna góðu verka mun fljótlega afhenda þeim til kaups.
Nú kynni einhver sem er samdauna spillingunni, segja, að þó rétt sé, að um peningaþvott sé að ræða, þá er það óhjákvæmilegur fylgifiskur þess frelsis að fá að flytja gjaldeyri úr landi sem er jú hið formlega markmið þessa frumvarps um peningaþvættis aflandskróna.
Svo mikill er heilaþvotturinn að menn þurfa ekki að vera samdauna spillingunni til að trúa bábiljunni. Í raun má þakka fyrir að fjárglæpamennirnir skuli ekki leiðinni fá fólk til að trúa að forsenda þess að sólin komi upp á mörgum sé að þúsund ungmenn ljái hjarta sitt á altari auðsins, líkt og prestar Azteka náðu að sannfæra trúgjarna á sínum tíma.
Margt má segja, en bendum á tvennt.
Það fyrra er að frjálst flæði gjaldmiðils er rót efnahagshruna. Meira að segja ESB þurfti að setja höft á hið frjálsa flæði til að bjarga evrunni, fjármagnsflóttinn lét ekki staðar numið við Miðjarðahafslöndin, bæði Belgía og Frakkland voru að falla þegar höftin voru sett.
Kreppurnar í Mið og Suður Ameríku eða í SuðAustur Asíu má líka rekja til hins frjálsa flæðis.
Og hið frjálsa flæði var forsenda hinna 1000-2000 milljarða sem hurfu úr íslensku hagkerfi á veisluárunum fyrir Hrun.
Saga sem mun endurtaka sig um leið og næsta frjálsa flæði verður lögfest.
Seinna eru rök hinnar hagsýnu húsmóðir, þeirrar persónu á hverru heimili sem lætur fæði og klæði barna sinna ganga fyrir.
Hún veit að heimilið getur ekki látið meira flæða út en kemur inn, hið seinna er ávísun á beina skuldasöfnun.
Heimili sem hefur 10% tekna sinna í afgang, getur ekki látið hærra hlutfall flæða út, jafnvel þó heimilisfaðirinn hafi lært allar kennisetningar frjálshyggjunnar um hið frjálsa flæði fjármuna, það kemur alltaf af skuldadögunum.
Það sama gildir um þjóðríki, það flæðir ekki meiri gjaldeyri út en kemur inn, og stærstum hluta þess sem kemur inn er þegar ráðstafað í nauðsynleg aðföng svo hægt sé að reka atvinnulífið sem og heimili landsins.
Ótrúlega augljóst samhengi sem svo mörgum er hulið.
Það flæðir aldrei meir út en kemur inn, sama hve frjálst flæðið er.
Rök peningaþvættisins eru því fals eitt.
Að ekki sé minnst á að verðlausar aflandskrónur fá því aðeins verðgildi, að til staðar séu gjörspilltir stjórnmálamenn sem nýta innkomu þjóðarinnar til að breyta hinu verðlausa í beinharðan gjaldeyri.
Skiptir ekki máli þó talað sé um einhver afföll, jafnvel þó hin meintu afföll séu blásin út, þá er afföll af engu, ekkert, og afföll af engu sem er gefið verðgildið 10 úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, er heldur ekkert.
Ef eftir standa 8, þá er gjöfin 8.
Blekking, fals, svik.
Engin önnur orð ná að lýsa hinni þaulskipulagða peningaþvætti, sem frumvarpið um aflandskrónur er.
Og við sem þjóð æmtum hvorki eða skræmtum.
Við sem einstaklingar störum uppí loftið, þegjandi, það er þau okkar sem taka ekki þátt í gæsagang múgsefjunar fjárglæpanna.
Við munum ekki fá birta af okkur mynd í tímaritinu Sögunni, eins og maðurinn sem hafði kjark til að lyfta ekki hendi þegar múgurinn ákallaði foringja sinn.
Við þegjum og þegjum.
Eins og við eigum ekki börn, eins og við eigum ekki líf sem þarf að verja.
Og kosningarnar næsta haust munu engu breyta.
Því fjárglæpamennirnir munu útvega Andófinu nýja leikendur í stað þeirra sem úreltir þykja.
Og gæsagangurinn mun styðja sitt fólk.
Og svo gera menn grín af Dúdú fuglinum.
Fólk ætti að líta sé nær.
Kveðja að austan.
![]() |
Frumvarp um aflandskrónur samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Bloggfærslur 23. maí 2016
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 2
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 2485
- Frá upphafi: 1469887
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2126
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar