6.4.2016 | 22:07
Hávaði bjargar ekki Bjarna.
Sigraður maður númer 2 hélt blaðamannafund núna rétt áðan.
Og öskraði á þjóð sína.
Líkt og hann væri að leika í kvikmynd um King Kong.
Ótrúleg framkoma.
Ótrúleg vanstilling.
Og þjóðin hefur séð þetta allt áður.
Mjög nýlega, og allir þekkja þau sögulok.
Að þekkja ekki sinn vitjunartíma er sorglegt.
Að skaða í leiðinni flokk sinn og þjóð, er ennþá sorglegra.
Nú er boltinn á Bessastöðum.
Aðeins þar virðist vera vit til að koma í veg fyrir algjöra upplausn.
Það er kominn tími á þingrof og utanþingsstjórn.
Kveðja að austan.
![]() |
Stjórnarandstaðan er í rusli líka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2016 | 21:29
Kóngur einn dag.
Líkt og Egon Krenz forðum sem var leiðtogi Austur Þýskalands í nokkra daga eftir afsögn Honeckers.
Borubrattur taldi hann sig haf rétt til að klára öll þau mál sem kommúnistastjórnin hafði unnið að, eins og gera við múrinn, og hindra lýðræðisumbætur.
En fólkið hafði fengi nóg, og múrinn féll.
Í dag upplifum við sömu tilraunina, ekki hjá kommúnistum, heldur hjá ríkisstjórn stórkapítalista sem bað um frið til að klára endurreisn þess kerfis sem hrundi haustið 2008.
Afnema gjaldeyrishöftin svo auðurinn geti leitað óáreittur í skattaskjól.
Tryggja að hrægammarnir fái allt sitt með rentum.
Einkavæða heilsugæsluna.
Svíkja loforð um afnám verðtryggingarinnar.
En þjóðin hefur fengið nóg.
Hún hefur endanlega fengið nóg af braskarakerfinu sem hrundi 2008.
Og hún hefur fengið nóg af stjórnmálamönnum sem sjá ekkert athugavert við óhóflega auðsöfnun og misskiptingu þjóðarauðsins.
Siðrofið sem varð við Tortillu upplýsingar var aðeins dropinn sem fyllti risa kerald.
Og núna er sagt hingað og ekki lengra.
Múrinn mun falla.
Kveðja að austan.
![]() |
Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2016 | 15:01
Sjálfsskaparvíti Sigmundar ætlar engan endi að taka.
Honum virðist vera fyrirmunað að horfast í augun á sínum eigin misstökum.
Og reynir að hlífa sig á bak við eiginkonu sína og fjölskyldu. Sem örugglega hafa ekkert sér til saka unnið, en afleikir Sigmundar hafa dregið illþyrmilega inní umræðuna.
Grundvallarmistök Sigmundar voru að eiga þetta félag í skattaskjóli. Skiptir engu hvort hann telji skattaskjólið ekki skattaskjól vegna þess að fullir skattar hafi verið greiddir af félaginu. Ef svo var, þá er óskiljanlegt að félagið skuli ekki vistað í landinu sem Sigmundur stjórnaði, í gjaldmiðlinum sem hann hefur lagt svo ríka áherslu á að haldi sjálfstæði sínu.
Þessi mistök ein og sér gera hann ófæran um að gegna stöðu forsætisráðherra.
Önnur misstök var að selja eignarhlut sinn á 1 dollar, daginn fyrir reglubreytinguna um hagsmunaskráningu þingmanna.
Slíkt bendir alltaf til að menn séu að fela eitthvað. Og viðurkenni það sjálfir með gjörðum sínum.
Þriðju mistökin voru að halda að hann þyrfti aldrei að svara hvorki fyrir feluleikinn og aflandsfélagið. Slíkt er alvarlegur dómgreindarskortur sem vekur upp spurnir um almenna hæfi Sigmundar til að gegna embætti forsætisráðherra.
Fjórðu mistökin er síðan viðbrögð hans eftir að aflandsfélagið kom í umræðuna.
Það þarf ekki að reka það ferli, en með hverjum degi var ljósara að Sigmundur höndlaði ekki embættið undir álagi. Hann skyldi ekki að hann þyrfti að útskýra málið á opinberum vettvangi, hann sá aldrei ástæðu til að biðjast afsökunar, eða sýna á nokkurn hátt iðrun yfir gjörðum sínum.
Eðlilegar aðfinnslur taldi hann ofsóknir, eðlileg fréttamennska var pólitísk aðför í hans huga. Og svo framvegis.
Síðan hefur hann aðeins gert illt verra.
Og er ennþá að.
Eins og hann eigi engan vin eða ráðgjafa sem geta róað hann, og fengið hann til að skilja að nú eigi hann að draga sig í hlé, frá öllum embættum. Safna kröftum, og þegar um hægist, að veita viðtal og útskýra sín sjónarhorn, sínar gjörðir.
Þessi einstæðingsskapur er átakanlegur.
Sigmundur Davíð hefur margt gott gert, hann ver ferskur andblær inní stjórnmálaumræðuna, og hann sannarlega gaf Framsóknarflokknum nýtt líf.
En í dag er fallinn, og hann virðist ætla að taka Framsóknarflokkinn með sér í fallinu.
Gera flokknum ókleyft að ná vopnum sínum fyrir komandi kosningar.
Það er mál að linni.
Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma.
Líka þeir sem ennþá sitja.
Kveðja að austan.
![]() |
Sigmundur: Anna vildi ekki út í geim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2016 | 09:41
Píratar enda í meirihluta ef Bjarni og Ólöf segja ekki af sér.
Svo einfalt er það.
Svo ég vitna efnislega í mætan íhaldsbloggara og stórgóðan pistil hans núna í morgunsárið, þá snýst málið ekki um hvað viðkomandi stjórnmálamönnum finnst sanngjarnt, eða stuðningsmönnum þeirra, þetta er hinn pólitíski raunveruleiki, og ef viðkomandi einstaklingar taka flokkshag fram yfir skammtíma einkahag, þá segja þau af sér áður en Alþingi ræðir vantrausttillögu stjórnarandstöðunnar.
Þau þurfa hvort sem að gera það, þau verða neydd til þess að lokum því mikill meirihluti þjóðarinnar hefur fengið nóg af leynimakkinu öllu saman.
Öllu saman, líka því sem gerðist á síðasta kjörtímabili.
En það er mikill munur á að halda reisn sinni eins og Júlíus Vífill, sem er sterkari eftir gærdaginn, og alls ekki búinn að vera í stjórnmálum ef hann kýs svo, eða gefast upp rúinn öllu trausti eins og urðu örlög Sigmundar Davíðs.
Og þessi munur er eina val Ólafar og Bjarna.
Síðan á fjórflokkurinn ekki val að halda áfram með öll sín góður verk, sem er vel nýttur frasi sem er ættaður úr smiðju Steingríms og Jóhönnu, ef hann heykist á því að opna leyndarkistur sínar og moka út hroðanum.
Endurreisn bankakerfisins, handvalið á þeim fyrirtækjum sem fengu að lifa, verðmæti seld vildarvinum á hrakvirði, lygarnar um ICEsave samningana frá fyrsta degi, og svo framvegis.
Síðan þarf að útskýra af hverju 500 milljarðar hurfu í samningaviðræðunum við hrægammana, hverjir voru þessir hrægammar, og hver eru innlendu tengslin við þá.
Þessi samningur er stærsta spillingarmál síðari ára í hinum vestrænum heimi, og það spillingarmál minnkar ekki þó þjóðin stingi hausnum í sand og ákveði núna að trúa lygavaðli ICEsaveviðsemjandanna, þó hún hafi ekki gert það þegar Jóhanna fór fyrir þeim.
Þetta mál hverfur ekkert, þetta mun springa framan í fjórflokkinn, og það er betra að gera það upp núna, en að vera fangelsaður fyrir það seinna.
Það eru þegar komin bein fjárhagsleg tengsl forsætisráðherra (SGD hefur ekki sagt af sér ennþá) og fjármálaráðherra við þessa samninga, fjölskyldumeðlimir þeirra græða á eftirgjöfinni.
Og grunsemdir eru um að miklu fleiri innlendir fjármálamenn hafi séð sér leik á borði og keypt kröfur á hrakvirði, séu með öðrum orðum hrægammar.
Fjármálamenn sem eru áhrifamiklir í bakherbergjum flokkanna.
Ef fjórflokkurinn heykist þá líður hann undir lok, stjórnmálin munu leita uppi nýja farvegi.
Hvort sem það er til góðs eða ills fyrir þjóðina, þá er það einfaldlega staðreynd.
Tími græðginnar og óheftar auðsöfnunar er liðinn.
Tími uppgjöra og uppstokkunar er framundan.
Fjórflokkurinn getur spilað með, en hann getur ekki spilað á móti.
Hann á ekkert val.
Kveðja að austan.
![]() |
Píratar með 43% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 6. apríl 2016
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 9
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 2492
- Frá upphafi: 1469894
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 2133
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar