26.4.2016 | 23:49
Hin "góðu verk" ríkisstjórnarinnar.
Sem seðlabankastjóri telur svo mikilvægt að fá að klára í friði fyrir reiðiöldinni í þjóðfélaginu, verður ekki betur lýst en með þessum orðum;
Ef við förum yfir það, þá er alveg ljóst að þeir sem eru í þessari aðstöðu, bæði að fá lán út úr bankakerfinu, koma upp félögum í erlendri eigu, fela eignarhaldið, fá arðinn út úr kerfinu - bæði taka þeir þá ekki gengisáhættu á Íslandi, þeir borga ekki skatta, hugsanlega, á Íslandi og eru ósýnilegir. En eftir að höftum var aflétt í áföngum hafa þeir getað komið með peningana aftur inn í íslenskt hagkerfi á 20% afslætti, að meðaltali, sagði Guðrún.
Þetta er það sem ríkisstjórnin er í raun að gera.
Að ryðja út heiðarlegu fólki fyrir Aflandskónga og Hrunverja.
Þetta er það sem heiðarlegt sjálfstæðisfólk ver með kjafti og klóm þessa dagana, beina aðför að borgaralegu þjóðfélagi, borgarlegum kapítalisma, í þágu aflandsfjármagns sem var sturtað úr hagkerfinu fyrir Hrun í vasa aflandsfélaga.
Og þegar maður spyr sig, af hverju gaf ríkisstjórnin kröfuhöfum gömlu bankanna u.þ.b. 500 milljarða miðað við þegar samþykktan stöðugleikaskatt, að þá leggur maður eyrun við sögnum um að hinir erlendu hrægammar voru fyrir löngu orðnir leiðir á biðinni, og seldu þessum sömu aflandskrónueigendum hrakkröfur (kröfur keyptar innan við 10% af nafnverði) sínar með góðum hagnaði.
Hrægammarnir innleystu hagnað, hinir innlendu auðmenn treystu á pólitísk ítök sín við að fá allt sem ekki var naglfast (það er hægt var að leysa skammlaust í erlendan gjaldeyri).
Sem gekk eftir.
Guðrún Johnsen bendir á flókna svikamyllu, með fullri þátttöku seðlabanka og ríkisstjórnarinnar, sem í raun er glæpur gagnvart almenningi sem þurfti að borga Hrunið fullu verði.
Meðan gerendurnir eru með allt sitt á þurru og fá í raun að eignast Ísland.
Er þetta lið ekki til dæmis búið að kaupa upp lungað af atvinnuhúsnæðinu á höfuðborgarsvæðinu og okurleigan fylgdi i kjölfarið?
Og Gjöfin mikla er óútskýrð.
Hvað ætlum við að þegja lengi?
Hvað ætlum við að láta bjóða okkur þetta í langan tíma í viðbót?
Af hverju er ekki hafin sakamálarannsókn á þessu liði?
Eða ef Alþingi vill verða fyrri til, og reyna að sættast við þjóð sína, að það skipi Opinbera rannsóknarnefnd, sem fær vald til að rannsaka allt.
Allt.
Án nokkurrar leyndar, án þess að nokkur yfirhylming verði liðinn.
Hættum að láta mata okkur á svona bulli eins og að afi eða langafi forsetafrúarinnar hafi verið Pírati eða aflandari. Fjölskylda hennar kemur Íslandi ekki við á neinn hátt. En þeir sem moldvirði þyrla, þeir framleiða svona tilbúinn æsing á færibandi, svo eitt orð heyrist ekki.
Rannsókn.
Hvort sem hún er opinber eða sakamála.
Það eru einu orðin sem við eigum að ljá eyra.
Það gista núna fangageymslur í Brussel sekir menn sem töldu sig í krafti valda sinna vera ósnertanlega. Í Suður Ameríku hafa gamlir herforingjar einnig þurft að sætta sig við dóm réttlætisins.
Á Íslandi höfum við fangelsað verkfæri, hálaunuð að vísu en verkfæri engu að síður. Gerendurnir hafa sloppið fyrir utan einn, og stjórnmálamennirnir í vasa þeirra eru ósnertanlegir, og halda grimmt áfram að koma milljörðum í vasa húsbænda sinna.
Af hverju er þetta lið ósnertanlegt?? Af hverju líðum við völd þeirra og áhrif.
Af hverju gefum við umheiminum nýjan tón, að Íslendingar líði ekki lengur fjárglæpamenn, og leppa þeirra?
Það er ekki afsökun þessara fjárglæpamanna að stjórnmálamenn í vasa þeirra hafi gert glæpi þeirra löglega, sbr þessi orð Guðrúnar:
Hún sagði það þó ljóst að ef stjórnmálamenn eru studdir af auðjöfrum sem hafa efnast á því að fara á svig við lögin væri hætta á því að regluverkið væri sett upp þannig að þessir gerningar væru gerðir löglega.
Hinir dæmdu í Brussel brutu ekki lög, því þeir voru lögin. En sú afsökun dugði skammt þegar á reyndi, það var eðli verknaðarins sem var metinn, ekki lögin sem þeir settu sjálfir.
Við þurfum Uppgjör á Íslandi, og öll hin fjölmörgu fórnarlömb Hrunsins, þurfa bæði réttlæti, og bætur. Alt að 10.000 fjölskyldur misstu heimili sín, og ótalmörg fyrirtæki voru tekin eignarnámi af bönkunum. Að ekki sé minnst á þann ótal fjölda, jafnt heimila sem fyrirtækja sem sættu afarkostum.
Samfélagið okkar mun alltaf krauma af beiskju og reiði þeirra sem eiga um sárt að binda. Verður alltaf eins og gjósandi eldfjall ef ekkert réttlæti nær fram að ganga.
"Af hverju látið þið svona" hafa ótal menn með allt sitt á þurru, spurt í blaðagreinum, sem og á öðrum vettvangi. Alls ófærir um að setja sig í spor náungans. Skilja ekkert í reiðinni.
Og þessu verður að linna.
Við þurfum nöfn kröfuhafanna uppá yfirborðið, við þurfum nöfn aflandseigandanna uppá yfirborðið, við þurfum nöfn þeirra sem ætla að þurrka upp gjaldeyrissjóð landsmanna í hinu "góða" samstarfi ríkisstjórnar og seðlabanka. Já og reyndar stjórnmálastéttarinnar allrar, því hærri hróp heyrist í mállausum manni en í stjórnarandstöðunni á þingi, hvað varðar þetta rán og rupl.
Við þurfum rannsókn.
Enn og aftur, við þurfum rannsókn,.
Eina val gerandanna er samstarf.
Sem þýðir að margt er hægt að fyrirgefa.
Eða ekkert verður fyrirgefið, ef undanbrögðum þeirra linnir ekki, og þjóðin þarf að neyða þá í vitnastúkuna.
Ríkisstjórnin okkar er gjaldþrota.
Hún er þátttakandi í svikamyllu.
Með auð gegn þjóð.
Hún hefur engan trúverðugleika.
Hún er eitt stórt aflandsfélag.
Og því miður er stjórnarandstaðan deild í því aflandsfélagi.
Látum ekki stuðningsmennina blekkja okkur þegar þeir benda á hina.
Segum þeim að ærlegt fólk bendi fyrst á sína, og krefur síðan hina um það sama.
Krefjumst þess að þeir leggi niður vopnin, það eru þeir sem viðhalda óöldinni. Ekki höfðingjarnir sem þeir styðja.
Því höfðingjarnir eru ekkert, búnir að vera.
Gjaldþrota, gjörsneyddir öllum trúverðugleika.
Þeir settu reglurnar. Þeir gerðu gamblið löglegt.
Þeir hafa ekki neitt tilkall til að stjórna þessari þjóð.
En þá verðum við að snúa bökum saman.
Krefjast rannsóknar, krefjast réttlætis.
Krefjast Uppgjörs.
Því þetta gerðist á okkar vakt.
Og það er okkar að klára dæmið.
Kveðja að austan.
![]() |
Ruðningsáhrif aflandsfélaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 26. apríl 2016
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 9
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 2492
- Frá upphafi: 1469894
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 2133
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar