14.2.2016 | 10:21
Einkenni gjörspiltra stjórnmálamanna.
Er að þeir benda alltaf á fortíðina, og þá fortíð annarra.
Til að skapa sér og sínum frið við myrkraverk sem þola ekki dagsljósið.
Einkenni réttarkerfis í vasa fjárglæpamanna (sem og annarra glæpamanna) er að það ákærir seint og illa, og þá alltaf þegar langt er liðið frá því að** glæpurinn hefur verið framinn, og ávinningurinn kominn í öruggt skjól.
Og þá er eitthvað verkfæri tekið og dæmt á meðan höfuðpaurarnir halda sinni iðju áfram óáreittir.
Vigdís Hauksdóttir er viðriðin stærstu gjöf Íslandssögunnar, þegar um 500 milljarðar í þegar samþykktum stöðugleikaskatti voru látnir hverfa í myrkraviðræðum fjármálaráðherra við kröfuhafa gömlu bankanna, kröfuhafa sem að uppistöðu eru hrægammar í ýmissi mynd.
En vel borgandi og örlátum, þeir leyfa innlendri fjárelítunni að týna upp nokkra mola, smáaurar fyrir þá en geta bjargað fallandi fjármálaveldum í bakgarði Sjálfstæðisflokksins.
Vigdís Hauksdóttir er í þingliði ríkisstjórnar sem leyfði ríkisbanka að afhenda vildarvinum Flokksins verðmæta eign fyrir smáaura.
Hún krefst ekki rannsóknar á þeim gjörningi, hvað þá að hún krefjist að ráðherrar sem eiga beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, víki á meðan spillingin er rannsökuð ofaní kjölinn.
Nei, Vigdís fær drottningarviðtal í Morgunblaðinu um eitthvað sem gerðist í fortíðinni, um eitthvað sem hægt er endalaust að rífast um.
Sem aftur vekur spurningar um Sjálfstæði Morgunblaðsins, hvort strengir að ofan séu tengdir við ritstjórn blaðsins.
Réttarkerfið okkar er nýbúið að kveða upp dóma yfir bankamönnum, þar á meðal vegna innherjasvika, markaðsmisnotkunar, og auðgunarbrot.
Markaðsmisnotkunin sem Landsbankamenn voru dæmdir fyrir nýlega var öllum ljós, fjármagnið sem fylgdi viðskiptum gervihluthafanna var að þeirri stærðargráðu að það gat aðeins komið frá bankanum sjálfum. Samt gerði ákæruvaldið ekkert á þeim tíma, hóf ekki rannsókn, spurði ekki spurninga. Afleiðingin var tap þúsunda á ævisparnaði sínum, fólk lét blekkjast, því eftirlitskerfið gerði engar athugasemdir við gjörninginn.
Innherjasvik voru líka í umræðunni á sínum tíma, en þau voru aldrei rannsökuð, aldrei kallað eftir gögnum, menn aldrei látnir svara spurningum.
Í dag er þjóðin vitni af innherjasvikum, og ágóðinn rennur í vasa aðila sem eru beintengdir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum.
Samt er engin rannsókn hafin, samt er ekkert ákært.
Vegna þess að tíminn er ekki liðinn, það er ekki búið að koma hinu illa fengnu fé í skjól, og það er ekki búið að finna verkfærið sem á að ákæra.
Eins er það með gjöfina miklu, stærsta rán Íslandsögunnar.
Fyrir opnum tjöldum, og einu fréttirnar úr ranni réttarkerfisins, eru dómar í áratugargömlum málum.
Sem segir að réttarkerfið er ekki að virka, ekki frekar en það virkaði í aðdraganda Hrunsins.
Það er í vasa einhvers, einhvers sem múlbindur það.
Og eini Sjálfstæði fjölmiðill landsins ástundar sagnfræði.
Lægra er ekki hægt að lúta.
Og skömm þeirra sem stýrast af strengjum, er algjör.
Það er nefnilega styttra á milli Steingríms og sumra, en sumir vilja meina.
Kveðja að austan.
PS. **Glöggur ritrýnir benti mér á að minna hafði verið skráð en hugsað, puttarnir höfðu ekki undan við skráninguna og það féllu niður þessi orð; "langt er liðið frá því að". Það væri jú skrýtið að ákæra áður en glæpurinn hefði verið framinn. Vona að þessi Vaðlvíska hafi ekki truflað marga í skilja innihald pistilsins sem fjallar um stjórnmálamenn á kafi í spillingarmálum, ræða spillingu fortíðar, til að umræðan beinist ekki að þeirra eigin gjörðum. Og ég gagnrýni réttarkerfi sem bregst seint og illa við fjármálaglæpum. Sérstaklega ef þeir njóta verndar ráðandi stjórnmálamanna. Sem ég kalla einu nafni; Flokkinn. Og þarf ekki að vera einn ákveðinn flokkur.
Síðbúin kveðja að austan.
![]() |
Þarf að gera þennan tíma upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bloggfærslur 14. febrúar 2016
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 11
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 1757
- Frá upphafi: 1469908
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 1497
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar