13.2.2015 | 11:20
Er Sjálfstæðisflokkurinn skjólvörn skattaundanskotsmanna??
Er flokkurinn í herferð gegn skattrannsóknarstjóra??
Er skattaundanskotslistinn jarðsprengjusvæði fyrir kvótakerfið??
Mun Stóra ferðatöskumáli fella Bjarna.
Mun Brynjar Níelsson þurfa að segja af sér vegna hótana við opinberan embættismann sem reynir að afla gagna um skattalagabrot íslensks auðfólks??
Kemur nafnalistinn sér illa við eigendur Morgunblaðsins??
Þessar spurningar og fleiri koma upp í huga manns eftir hina ótrúlegu atburðarrás síðustu daga eftir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mætti pirraður í viðtal á Ruv og missti úr sér klaufaleg ummæli um eimbætti skattrannsóknarstjóra, ásamt því að gera gárungum færi á sér með því að myndlíkja vandann við að útvega nafnalistann við stóra ferðatösku, fulla af seðlum.
Víkjum fyrst af því sem Bjarni sagði, vitnum í frétt Mbl.is.
Mér hefur þótt þetta mál vera að þvælast hjá embættinu alltof lengi og að ekki hafi allt staðist sem þaðan hefur komið, segir Bjarni við RÚV. Eins og til dæmis þegar embættið færir þær upplýsingar í ráðuneytið að gögnin standi til boða fyrir tiltekna hlutfallsfjárhæð af innheimtum skatttekjum sem myndi leiða af upplýsingunum. En eitthvað allt annað kemur í ljós síðar. Og auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna..
Mér persónulega fannst þetta fyndið, og fyrst ég blogga alltaf í viku, þegar ég á annað borð byrja að blogga,til að sjá stöðuna á topptíulistanum þá ákvað ég að gera þessi kostulegu ummæli Bjarna um ferðatöskuna að þemaefni vikunnar. Enda næstum óendanlegir fletir til að velta sér uppúr því. Eins tók ég eftir því að íhaldsbloggurum var svo lítið skemmt, að þeir þögðu allir sem einn, með einni góðri undantekningu sem fjallaði á málefnalegan hátt um að ekki væri víst að svona gögn kæmi að gagni, og rakti gang mál í sambærilegu dæmi frá Þýskalandi. Góð grein eins og oft áður hjá þeim bloggara, og maður varð fróðari á eftir.
Skattrannsóknarstjóra var hins vegar ekki skemmt, og hún er ekki hrædd við Bjarna, sem er ekki skrýtið eftir Umboðsmaður Alþingis flengdi Hönnu Birnu.
Á þriðjudaginn sendi hún frá sér fréttatilkynningu þar sem skýrt kom fram hverjum tafirnar væri að kenna. Bjarna og ráðuneytinu hans.
Að minnsta kosti annað þeirra tveggja skilyrða sem fjármála- og efnahagsráðherra setti fyrir kaupum á gögnum um meint skattaundanskot íslenskra félaga telst ekki uppfyllt og endurskoða þarf hitt. Ráðuneytið hefur ekki svarað bréfi skattrannsóknarstjóra frá 27. janúar um hvort halda eigi áfram með málið.
Skilyrðin tvö voru annars vegar að ekki yrðu gerðir samningar við aðra en þá sem til þess eru bærir og hins vegar að mögulegt væri að skilyrða greiðslur til seljenda gagnanna við hlutfall af innheimtu.
Eðli málsins vegna uppfylla þessi gögn ekki þessi skilyrði þar sem þau eru uppljóstrun í ágóðaskyni.
Að setja skilyrði sem ekki er hægt að uppfylla er þekkt aðferð til að svæfa mál, og ef einbeittur vilji er hjá viðkomandi stjórnsýsluembætti að láta ekki málið svæfast, þá er lengi hægt að þæfa málið fram og til baka, á meðan listamenn geta gert ráðstafanir um varnir.
Skattrannsóknarstjóri á erfitt um vik að fara gegn yfirmanni sínum, en þegar að ráðherra lætur svo lítið að kenna honum um að þófið, þá á skattrannsóknarstjóri aðeins 2 kosti í stöðunni, að svara fyrir sig, eða segja af sér líkt og Lögreglustjórinn í Reykjavík gerði.
Vörn Bjarna fólst fyrst í að segja að "þetta aldrei hafa verið ófrávíkjanlegt skilyrði, heldur einfaldlega árétting um að ráðuneytið styddi embættið í því að sækja gögnin með þessum hætti" en Bjarni komst fljótt að því að jafnvel auðtrúustu flokksmenn hans gátu ekki fundið flöt á lógíkinni í hundalógíkinni.
Nauðvörn hans fólst því í afdráttarlausri yfirlýsingu; sem sett var fram með stríðsletri í frétt Mbl.is, sem ég næ vonandi að kópera, því fyrirsögin var svo flott;
Bjarni: Ekkert skattaskjól hjá mér.
Teningunum kastað, hann ætlaði ekki lengur að þvælast fyrir.
Þar með átti málið að vera komið í farsælan farveg fyrir Bjarna og flokkinn, og á leið þess um stjórnkerfið var örugglega hægt að finna ýmsa steinana til að hnjóta um.
Ummælin um ferðatöskuna, og hin 8 mánaða töf myndi gleymast ef gögn kæmu heim. Það yrði bara tuð að minnast á slíkt á sigurstund.
En það gerðist eitthvað sem er óskiljanlegt, nema maður fari virkilega að taka mark á því að flokkurinn þoli ekki birtingu nafnalistans.
Ágætur íhaldsbloggari, einn sá altraustasti hér á Moggablogginu, fann þann flöt að ríkið gæti ekki verið að kaupa ólögleg gögn með þeim hætti að ekki stæðist lög um útgáfu reikninga og innheimtu virðisaukaskatts.
Og alltí einu var þögnin rofin, hver um annan héldu menn ekki vatni yfir slíkri ósvinnu. Laga og reglna skyldi gæta, menn styrktu ekki þjófa, og svo framvegis.
Flokkurinn átti sem sagt að vera skattaskjól fyrir vini sína og velunnara.
Bjarni fékk ekki að ná stjórn á málinu, koma því út úr hinni neikvæðu umræðu sem klaufaskapur hans bar ábyrgð á, og leiða það farsællega til lykta, bæði fyrir þjóð og flokk.
Og ganga svona gegn formanninum er ekki gert nema miklir hagsmunir máttarstólpa eru í húfi.
Ég fékk þá athugasemd við einhvern stríðnispistil minn, að ef það kæmi í ljós að nöfn kvótahandhafa væri á þessu lista, þá væri eðlileg viðbrögð samfélagsins að svipa þá kvótaréttindum sínum.
Veit nú ekki alveg, en ég veit að spjótin myndu standa bæði á viðkomandi kvótaeigendur, sem og kerfið sem gerði þeim fjárbrask sitt kleyft.
Nefni þetta sem dæmi, margir aðrir hagsmunir gætu legið undir.
Vissulega aðeins pælingar, en þegar þingmaður hótar til að stöðva skattrannsókn, þá er ljóst að eitthvað mikið, mikið mikið er undir.
Brynjar Níelsson er ekki lengur lögmaður útí bæ að tjá sig, hann er þingmaður stjórnarflokks, og það segir, verður að skoðast í því ljósi.
Hann er hvorki ég eða þú lesandi góður.
Hann er sendiboði, sem hefur vald til að standa við hótanir sínar.
Ætla ekki að hafa þetta lengra.
Hef ekki tíma til þess, en það hefði verið gaman að hnykkja á hinni bráðfyndnu málsvörn hinna alheilögu sem vilja ekki að hróflað sé við skattsvikurum ef prinsipp þeirra er í húfi.
Vil aðeins nefna að ríkisvald gerir ýmislegt sem við hin megum ekki.
Það til dæmis skýtur fólk á færi, ef það telur aðstæður krefja svo, það hlerar síma okkar, og svo framvegis.
Og útí hinum stóra heimi eru sérstakar stofnanir um svona starfsemi, kallaðar leyni eitthvað. Þar vita menn að þjóðríki þurfa að verja sig gegn ytri sem innri ógnum.
Vissulega má ræða prinsipp rök hinna alheilögu, en þegar prinsipp þeirra dúkka aðeins þegar hagsmunir hins skítuga fjármagns eru í húfi, þá er ekki orðum eyðandi á rökfærslu þeirra.
En nóg í bili.
Góða fótboltahelgi.
Orðið er laust, líka fyrir aulahúmora.
Ég verð ekki á vaktinni.
Kveðja að austan.
13.2.2015 | 09:19
Skálkaskjól glæpamanna.
Er sá banki sem stofnar útibú í skattaskjóli.
Það er tilgangur stofnun útibúsins, að varðveita illa fengið fé, að þvo illa fengið fé, að veita illa fengnu fé skattahjálp.
Og það er aðeins glæpafólk sem skiptir við slíka banka.
Skiptir engu þó taglhnýtingar þess í stjórnmálastétt hafi gert marga fjárglæpi þess löglega með Tortillum sínum, aflandsfélögum og svo framvegis.
HSBC bankinn er alls ekki undantekning, það er enginn heiðarlegur banki í þessum bransa, ekki frekar en það er til heiðarlegur maður í eiturlyfjasölu.
Við erum bara svo samdauna hugmyndafræði frjálshyggjunnar í þágu fjárglæpafólks, að teljum orðið hið afbrigðilega vera hið eðlilega, að löggjöfin leyfi allskonar ófélögum, kennd við eignarhald, afland eða ekkert land, að eiga og reka fyrirtæki í þeim eina tilgangi að skjóta fjármunum undan.
Ófélög, sem eiga heima í skúffum og eru ekkert annað en kennitalan.
.
HSBC bankinn var aðeins óheppinn, það eina sem fjárglæframenn geta ekki keypt, það eina sem þeir geta ekki varist, er græðgin sem sér fjárvon í að koma uppum þá.
Forsenda rannsóknar rannsóknarblaðamannanna sem afhjúpuðu HSBC bankann voru illa fengin gögn í auðgunarskyni svo ég vitni orðrétt í Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem notaði þessi orð til að hóta skattrannsóknarstjóra fangelsisvist ef hún vogaði sér að koma upp um velunnar og fjárhagslega bakhjarla flokksins.
Og blaðamaður Morgunblaðsins setti af smekkvísi sinni sem fyrsta link við þessa frétt.
Hótanir um fangelsisvist er síðasta úrræði fjárglæpamanna, að stjórnmálamenn í vasa þeirra séu nógu öflugir til að geta beitt réttarkerfinu til að þagga niður í þeim sem nýta sér illa fengin gögn í auðgunarskyni til að koma upp um fjárglæpi og fjárglæpamenn.
Þekkt er dæmið þegar Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra hótaði þeim sjómönnum sem segðu frá brottkasti, málssókn og fangelsisvist, er þeir segðu frá.
Hótun sem stöðvaði ekki brottkast, en stöðvaði opinberar frásagnir af því athæfi.
Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki nýtt eignarhald sitt á bönkum eftir Hrun til að rannsaka íslensku skálkaskjólin.
Íslenskir rannsóknarblaðamenn hafa ekki reynt að svipta hulunni af þeirri starfsemi.
Enda fara menn ekki gegn hendinni sem fæðir þá.
En Stóra ferðatöskumálið hefur gjörbreytt landsslaginu á örfáum dögum.
Einstaklega klaufaleg ummæli fjármálaráðherra hafa séð til þess að allt í einu fann stjórnarandstaðan rýtinginn sem nær inní valdahjarta Sjálfstæðisflokksins.
Eina spurningin hvort valdaþráin nái að yfirvinna sælutilfinningu fóðurgjafarinnar, því ekki er víst að höndin sem fæðir, haldi áfram að fóðra.
Í næsta pistli, sem ég ætla að slá inn áður en ég held á vit knattspyrnuævintýra, mun ég fjalla nánar um kviksyndið sem fjármálaráðherra kom flokk sínum í.
Því ef ekki tekst að þagga niður í skattrannsóknarstjóra, með hótuninni um að láta ríkislögreglustjóra handtaka hana, og ef á listanum séu raunverulega nöfn sem koma flokknum illa (af hverju annars þessi grímulausa hagsmunagæsla??), og vegna forsögu málsins, þá er fullt tilefni fyrir rannsakendur, eins og ríkissaksóknara og umboðsmann Alþingis, að rannsaka afskipti flokksins af eðlilegri stjórnsýslu.
Fordæmið er komið, set-uppið með Hönnu Birnu gæti orðið að búmmerang sem að lokum felldi Bjarna.
Og þá, og þá, verður allavega ekki gaman að vera íhaldsbloggari á Moggablogginu.
Skítugur upp að öxl að verja hið óverjanlega.
Hver skyldu þolmörkin annars vera?
Kveðja að austan.
![]() |
Glæpamenn fundu skjól hjá HSBC |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 13. febrúar 2015
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 118
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 96
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar