Færsluflokkur: Pepsi-deildin
5.8.2024 | 15:30
Þakkað fyrir vel unnin störf.
Og þar með er fyrsta færslan komin á þessu bloggi sem ég hef haldið úti í um 15 ár, sem fjallar um eitthvað sem er mér persónulegt því þeim sem er þakkað fyrir vel unnin störf, Mikael Nikulásson, var þjálfari strákanna minna, reyndar þurfti annar að hætta vegna síendurtekinna höfuðmeiðsla en hinn hélt áfram harkinu.
Skrifa þessa færslu því það hvarflar að mér að bakari sé hengdur fyrir smið.
Dreg ekki í efa pirringinn en pirringur stafar af ýmsu.
Til dæmis vanfjármögnun þar sem máttarstálpar samfélagsins, auðfyrirtækin sem hafa þegið svo margt frá samfélaginu, aðstöðuna, hafnirnar, orkuna, telja slíkt ekki kalla á skyldur og ábyrgð.
Álverið okkar er ryðguð áldós, margfalt lýti í landslaginu, sýgur til sín en gefur fátt til baka annað en mengun sem má glögglega sjá á kolryðguðum þaki Fjarðabyggðarhallarinnar, nokkrum kílómetrum í burtu.
Það eina sem maður í raun tekur eftir eru kostaðar glansauglýsingar og fréttaumfjöllun í héraðsblaði okkar Austfirðinga, Austurglugganum, þú fæðir höndina sem gæti þó sagt satt um þig.
Síðan er það alltaf sami brandarinn þegar uppsjávarhluti Samherja, Síldarvinnslan kynnir samfélagsstyrki sína, miðað við umfang og hagnað hefði jafnvel Jóakim Aðalönd skammast sín, hann var þó fastheldinn á aurinn.
Samfélag, sem allt er sogið úr, en fáu skilað til baka, er ekki sterkt samfélag.
Samt er sterkt samfélag með öflugum innviðum fyrir fjölskyldufólk, forsenda þess að hægt sé að ráða ungt og vel menntað fólk til starfa í hinum dreifðu byggðum landsins.
Á þetta benti Róbert Guðfinnsson á þegar hann benti sveitarstjórnarfólki í Fjallabyggð á að það væri til lítils að halda úti hátæknifyrirtæki á Siglufirði, ef hugarfar og innviðir væru eins og i þriðja heims samfélagi.
Það þarf nefnilega að hlúa að því sem gerir samfélög byggileg fyrir ungt fólk.
Byggðin mín Fjarðabyggð er byggð sem er að daga uppi innan frá.
Samt erum við með þessa flottu skóla, þetta yndislega starfsfólk sem starfar í skólum okkar, á hjúkrunarheimilum, með þann kjarna mennskunnar sem á að vera nægur til að hér sé gott að búa, það er í raunheimi en ekki í sýndarveruleik hinna aðkeyptu auglýsinga.
Og hér er gott að búa og hér er gott að ala upp börn.
Betri stað gat ég ekki fundið til að fóstra strákana sem núna eru að fljúga að heiman.
En það eru innanmein sem eru líkt og drepið í kjarna fallegs reynitrés, sem vega að rótum og vexti.
Innanmein sem snúa að stjórnkerfinu sem og því að það hefur ekki tekist að sameina hinar fornu byggðar sem bera upp sveitarfélagið um hið sameiginlega sem við eigum í dag.
Og auðfyrirtækin eru stikkfrí, þau sjúga en skila svo fáu til baka.
Í stað þess að feisa vandann er auðvelt að þakka mönnum fyrir vel unnin störf.
Að afleiðing uppdráttarsýkinnar sé þeirra en ekki þar sem ábyrgðin liggur.
Fótbolti er jú lífið eftir að salfiskurinn dó drottni sínum gegn ofurþunga tímans.
Fótboltinn endurspeglar líka lífið.
Hann er öflugur í öflugum samfélögum.
Í samfélögum þar sem fyrirtæki skila til baka.
Þakka fyrir og kunna að meta.
Eitthvað sem hefur greinilega klikkað í byggðinni minni.
Ég þakka samt Mækaranum fyrir góð störf.
Einlæglega.
Því maður á að þakka fyrir það sem er þakkarvert.
Kveðja að austan.
Eggert stýrir KFA út leiktíðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.11.2021 | 12:17
Vanda fann manndóminn.
Ef marka má þetta viðtal Morgunblaðsins við Vöndu formann KSÍ, þá hefur hún breyst úr veganda í verjanda, áttað sig á að nafnlausar ásakanir á heilan hóp, eða ásökun, þó undir nafni sé, er ekki forsenda útilokunar, sama hversu alvarleg viðkomandi ásökun er.
Vanda var hluti af Dómstól götunnar og átti þátt í að taka menn af lífi án dóms og laga.
Til að menn skilji fáráð þess hugarfars að ásökun er sama og sekt, langar mig að vitna í Jakob Bjarnar blaðamann í spjalli í morgunþætti Rásar 2 síðastliðinn föstudag.
Þar ofbauð Jakobi forheimska annars þáttastjórnandans og spurði; "Til hvers þurfum við dómsstóla og yfirhöfuð réttarkerfi, ef við eigum alltaf að trúa þolendum, og allir sem segja frá séu þolendur".
Það er sjúkt þjóðfélag sem leyfir götustrákum að grýta alla sem mæla gegn þeim, og leyfir Öfgum að fella dóma og framfylgja þeim með vísan í frasann; "við eigum að trúa".
Á þessu hefur Vanda loksins áttað sig, og þessi orð hennar lýsa kjarki og styrk;
"Knattspyrnusambandið hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarnar vikur fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.
"Þetta eru stór orð og það þarf að hafa það í huga að þetta er risastór hreyfing með fólki af frábæru fólki sem hefur unnið endalaust fyrir fótboltann á Íslandi," sagði Vanda. "Auðvitað má gagnrýna hlutina og það er ýmislegt sem hefði og má betur fara en það þarf líka að vanda orðavalið," sagði Vanda.".
Kjarki og styrk því öruggt er að götustrákarnir munu grýta hana, kalla hana gamlan karl, gerendameðvirka, stuðningsmann nauðgunarmenningar.
Jafnvel nauðgunarsvín.
Vanda má búast við að í hvert skipti sem hún er í fréttum, má mun til dæmis hin meðvirka samfélagsmiðladeild Mbl.is skeyta við fréttina rógmælum götustráka, það jákvæðasta sem verður sagt að hún hafi ekki kvendóm í að axla ábyrgð á nauðgunarmenningu KSÍ.
Þegar hún verður leidd til krossfestingar uppá Valhúsahæð mun hinn kjarklausi fjöldi halda sig í felum, götustrákaskríllinn mun púa og blístra líkt og við fallexina forðum daga í París.
En samt, hingað og ekki lengra, götustrákum þarf að mæta.
Ég er nýbúinn að glugga í pistil Halldórs Jónssonar þar sem vitnað er í skrif Björns Bjarnasonar um átökin í Eflingu og meinta byltingu sósíalista.
Þar komst Björn vel að orði, orð sem líka gilda um hatursorðræðu götustrákana, upphrópanir þeirra og kröfuna um útilokun.
"En á endanum verður fólkinu ljóst að hatursgrunnur er ekki líklegur til að ná árangri í baráttu fyrir breyttum og betri heimi. Þeir hötuðu skilja ekki hversvegna þeir eru hataðir því þeir finna ekki sök hjá sjálfum sér og á endanum rennur ljósið upp fyrir þeim sem álengdar standa hver eðlis og af hvaða hvötum árásirnar eru.".
Þetta er skýring þess að fjöldinn fékk nóg og kallað á styrka stjórn Napóleons eftir nokkurra mánaða ógnarstjórn götustrákanna í París, þetta er ástæða þess að hinir ofsóttu í Kína mættu götustrákunum í Menningarbyltingunni, læstu þá inni og hentu lyklunum.
Seinna verður síðan spurt, hvernig gat virðulegt málgagn borgarstéttarinnar orðið gerandi í hatursorðræðu götustrákanna og velt sér uppúr ræsinu svo litill munur var orðin á blaðinu og samfélagsmiðlum úthrópunarinnar??
En það seinna er ekki komið.
En vatnaskilin, að fólk taki á móti, þau eru í farveginum.
Það munu fleiri finna manndóminn.
Kveðja að austan.
Ósanngjörn gagnrýni á KSÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2021 | 09:57
Réttarríkið undir.
Ferill Gróu var stuttur á Morgunblaðinu í gær. Eftir að hún opnaði fréttasíðu gærdagsins með slúðurfrétt þar sem hópur fólks var rógborinn, gefið í skyn að þrír einstaklingar innan hans hefðu gerst sekir um kynferðisbrot, þá tók blaðamaður sæti Gróu og Mbl.is breyttist úr slúðurmiðli í alvöru fréttamiðil.
Rifjum upp hvað var ámælisvert í fréttamennsku Mbl.is, svona fyrir utan að dreifa slúðri og rógi, vitna í pistil gærdagsins þar um; "Alvöru fjölmiðill eins og Morgunblaðið á að nálgast þessa frétt á þeim nótum að spyrja bráðabirgðastjórn KSÍ hvort henni þyki eðlilegt að hópur út í bæ taki yfir réttarfarið og útdeili skömm og refsingu.".
Þetta er kjarni málsins, hópur jaðarfólks getur ekki tekið yfir réttarkerfið, notið til þess stuðnings fjölmiðla og afla sem hafa lengið róið að því að sundra samfélaginu í frumeindir sínar, því sundrað samfélag ver ekki auðlindir sínar og almannaeigur, sundrað samfélag ver ekki sjálfstæði sitt.
Spurningar sem voru ekki spurðar, voru spurðar í gær.
Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdarstjóri ÍSÍ, var spurður í framhaldi af frétt um ÍSÍ hefði skipað rannsóknardómara, framhjá réttarkerfinu til að meta sekt ásakaðra "Er viðeigandi að hver sem er úti í bæ geti sent inn formlega tilkynningu um meint brot til íþróttahreyfingarinnar og þá er meintur gerandi útilokaður frá til að mynda landsliðsverkefnum í sinni íþróttagrein?"
Spurningar sem á reyndar ekki að þurfa að spyrja í siðuðu samfélagi, en þarf samt að spyrja að gefnu tilefni.
Og þó Andri sé einn af þeim sem ber ábyrgð á skipan rannsóknardómarans, þá er hann ekki aumari en svo að hann gat svarað eins og siðuð vitiborin manneskja;
"Það er útilokað að það geti gengið þannig til".
Það er nefnilega útilokað að þetta geti gengið svona.
Þegar ásökun er orðin að vopni eða valdatæki, þá kann sagan engin dæmi um að slík vopn eða valdatæki hafi ekki verið misnotuð, og við Íslendingar erum ekki að fara skrifa nýjan kafla í söguna þar um.
Það er ekki boðlegt nokkrum manni, jafnvel þó þeir séu íþróttamenn, að hafa slíka fallexi yfir höfði sínu.
Geti íþróttahreyfingin ekki virt eðlilegar leikreglur samfélagsins þá ber henni að leggja sig niður.
Heimskan sem tröllríður þessari umræðu kemur síðan berlega fram í þessari frétt þar sem rætt er við "Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, verkefnastýru Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar og meðstjórnanda í framkvæmdastjórn ÍSÍ.
Hvort blaðamaður hafi séð gamalt viðtal ítölsku blaðakonunnar Oriana Fallaci við Ayatollah Khomeini þar sem beinskeyttar spurningar hennar afhjúpaði forneskju æðstaklerksins skal ósagt látið en þessi spurning hans er meitluð í granít skynseminnar; "En er það hlutverk íþróttahreyfingarinnar að taka sér stöðu dómstóla í samfélaginu?".
Tilefni spurningarinnar voru þessi orð Kolbrúnar; ".. því við þurfum að passa okkur sérstaklega á því að við séum ekki að fara langt út fyrir hegningarlögin því þetta þarf auðvitað að vera í takt við lög og reglur í landinu."
Einhver hefði nú sagt að starfshópur ÍSÍ myndi virða lög og reglur landsins, en þessi einhver var bara ekki í viðtali við Mbl.is.
"Þetta er ein af þeim spurningum sem við höfum þurft að takast á við og einmitt hversu langt íþróttahreyfingin á að teygja sig í þessum málaflokki, sérstaklega þegar þolendur eru utan íþróttahreyfingarinnar. Á sama tíma viljum við ekki hafa kynferðisofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar frekar en annars staðar og við þurfum öll að standa saman til að vinna bug á því.
Við viljum og þurfum að hafa verkfæri til þess að bregðast við því en það þarf líka að bæta dómskerfið okkar því við höfum verið að sjá um 13% sakfellingu í kynferðisbrotamálum hér á landi sem er algjört bull. Við þurfum að gera eitthvað betur, það er alveg klárt, bætti Kolbrún við í samtali við mbl.is. ".
Einhver sagði að kvenfólki hætti til að hugsa í hringi, og hlaut bágt fyrir. Hefði hann haft tímavél þá hefði hann getað vitnað í þessa beinu spurningu; Er það hlutverk íþróttahreyfingarinnar að taka sér stöðu dómsstóla í samfélaginu.
Það þarf ekki mikla rökhugsun til að segja Nei, það þarf mikinn ruglandi að blanda saman þörfinni á skýrum reglum, á þeirri yfirlýsingu að einelti og ofbeldi sé ekki liðið innan íþróttahreyfingarinnar, og þess að taka sér réttinn til að vega og meta sekt eða sakleysi ásakaðra.
Að ekki sé minnst á að ef fólk er ósatt við réttarreglur og aðferðafræði réttarkerfisins um að sekt þurfi að vera sönnuð, að þurfi það sjálft að skapa sér verkfæri til að fjölga sakfellingum.
Glórulausari getur ein umræða ekki orðið.
Fyrir gott verk á að hrósa.
Þessi blaðamennska Mbl.is er góð, himin og haf á milli hennar og hinnar aumkunarverðu sem vinna hjá Ruv, þar fullyrt að 3 landsliðsmenn í viðbót hefðu gerst sekir um kynferðisbrot.
Sönnunin: orð og ásakanir.
Megi Gróa vera sem lengst í fríi.
Það er gaman að vera búinn að fá Moggann sinn aftur.
Á góðum degi slær honum enginn út.
Takk.
Kveðja að austan.
Hversu langt á íþróttahreyfingin að ganga? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2021 | 15:57
Rannsóknardómarinn.
Hefur breyst frá því við sáum hann síðast í bíómynd, í síðri svartri skikkju, pínandi og brennandi konur á dögum hins kaþólska rannsóknarréttar.
Þetta heitir að kalla að poppa sig upp.
Í dag er hann brosmild, vel klædd kona, en hlutverk hans er það sama.
Jú, jú, það er enginn pínubekkur og bálköstur, en tímarnir breytast, en kjarninn ekki.
Eitthvað, óskilgreint, samt með umboð, telur sig hafa rétt til að vega og meta, til að dæma.
Til að útskúfa, til að taka menn út af sakramentinu.
Eða veita syndaaflausn, vissulega voru margir sem voru píndir, ekki brenndir á báli í kjölfarið.
Að því slepptu er staða hins ásakaða sú sama, útilokaður, með dóminn yfir höfði sér.
Það er ekki eins og þessi orð hafi ekki verið mælt áður; "Varðandi tímarammann þá er hann mjög misjafn og fer eftir eðli mála. Ég reyni eftir bestu getu að vinna hratt en það tekst ekki alltaf og fyrir því eru ýmsar ástæður".
Að fólk skuli taka þátt í þessum skrípaleik, þessari endurtekningu sögunnar, undir nafni og mynd, er líka framþróun.
Myndir frá Spáni sýna að dómarar rannsóknarréttarins huldu andlit sín þegar þeir voru viðstaddir brennur sínar.
Vissu eins og er að þeir voru hötuðust menn þjóðar sinnar.
En við Íslendingar eigum okkar sérstöðu.
Skömm ákærandans var ekki meir en svo að Jón Magnússon skrifaði varnarit sem hann kallaði Píslarsögu sína, þar sem hann útskýrði þær hremmingar sem ollu því að hann var nauðbeygður að brenna mann og annan.
Vissi greinilega uppá sig óeðlið, og honum mistókst að hreinsa æru sína gagnvart almenningi og almannarómi, og uppskar síðan greiningu um geðveiki hjá seinni tíma mönnum.
Hvort sú saga endurtaki sig þegar þetta fár er gert upp, veit tíminn einn.
Þó hygg ég að geðveiki verði ekki talin til afsökunar hjá því aumkunarverðu fólki sem leggur nafn sitt við þessa nútímaútgáfu á fárum fortíðar.
Það er aðeins aumt, lítilsgilt.
Og er svo illa upp alið að það fattar það ekki.
En það mun ekki erfa landið þó fattlaust sé.
Háðung þess mun hins vegar lifa.
Því mennskan kemur alltaf til baka, og leggur svona að baki.
Vissulega erum við ófullkomin.
En við erum samt betri en þetta.
Kveðja að austan.
Öll mál flokkuð sem trúnaðarmál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2021 | 08:36
Gróa mætt í vinnuna.
Komin úr langþráðu fríi með nýja slúðurfrétt handa fólki til að kjamsa á.
Það er sko svona sem fjölmiðill sem tekur sig alvarlega, hagar sér.
Og núna getur fólkið var að geta sér til hverjir þessir "hinir þrír" eru.
Að æru fólks skal vegið svo ekkert stendur eftir.
Spurning hvort Gróa bæti ekki í, fyrst hún hefur aftur fengið lausan tauminn hjá ritstjórn Morgunblaðsins, til að dreifa skít, og hún spyrji bráðabirgðaformann KSÍ um lespíska klefamenningu kvennalandsliðsins þegar hún var í landsliðinu.
Klefamenningu sem einkenndist að áreitni og útlokunarmenningu gagnvart nýliðum sem voru svo gamaldags að vera streit.
Hve lengi viðgengst þessi klefamenning, er hún ennþá við lýði í dag??
Má ekki endalaust grafa og grafa þegar menn á annað borð byrja á skurðgreftri í sorphaug slúðursins??
Alvöru fjölmiðill eins og Morgunblaðið á að skammast sín fyrir þessa framsetningu.
Alvöru fjölmiðill eins og Morgunblaðið á að nálgast þessa frétt á þeim nótum að spyrja bráðabirgðastjórn KSÍ hvort henni þyki eðlilegt að hópur út í bæ taki yfir réttarfarið og útdeili skömm og refsingu.
Það er kjarni málsins, að óréttlæti fortíðar leggi ekki grunn að óréttlæti framtíðar.
Og þetta skilur allt vitiborið fólk, hafi það á annað borð vott af æru og sóma.
Ef ásökun er ígildi glæps þá erum við farin úr réttarríki yfir í skrílríki.
Úr siðmenningu yfir í vargmenningu.
Það er ekki bara mál að linni.
Það þarf að taka á móti.
Okkur ber skyldu til þess.
Annað er helvítis aumingjaskapur.
Það er bara svo.
Kveðja að austan.
Sex landsliðsmenn sakaðir um brot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2021 | 18:45
Þú uppskerð eins og þú sáir.
Vanda Sigurgeirsdóttir fékk starf sitt vegna þess að fráfarandi stjórn KSÍ hafði hvorki kjarkinn og manndóm til að standa með Guðna Bergssyni eftir að hann lenti í gjörningsfárvirði þegar hann virti trúnað við föður Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur um að mál hennar gegn Kolbeini Sigþórssyni yrði ekki gert opinbert.
Gegn þeim trúnaði fór sjálft hið meinta fórnarlamb, og Guðni stóð nakinn á eftir á víðavangi, ennþá það naví að reyna að virða trúnaðinn með því að afsaka sig með að hann hefði talið brot Kolbeins vera ofbeldisbrot, ekki kynferðisbrot.
Sjálfsagt alltaf upplifað spark eða klíp i punginn sem ofbeldi en ekki kynferðiseitthvað.
Fyrsta embættisverk Vöndu Sigurgeirsdóttur var að ljúga að knattspyrnuáhugafólki um að hún hefði engin afskipti haft af þeirri ákvörðun Arnars Viðarssonar landsliðsþjálfara um að velja ekki Aron Gunnar Einarsson í landsliðið, ákvörðun sem var á skjön við fyrri orð Arnars um að ungu strákunum vantaði fyrirmynd og reynslu baráttuhunda.
Staðreyndin var að Vanda fundaði með Arnari, og eftir þann fund ákvað Arnar að velja ekki Aron Einar.
Næsta embættisverk hennar var að útvega Arnari þjónustu almannatengla sem tóku hann í klukkustundar þjálfun við að æfa lygina um að Vanda hefði hvergi komið nærri málum, árangurinn enginn, Arnar tafsaði út í eitt á blaðamannafundi þjálfaranna þar sem landsliðshópurinn var kynntur.
Merkilegri pappír er Vanda Sigurgeirsdóttir ekki.
En hún fékk tækifæri til að bæta úr þegar hún mætti í Kastljósviðtal hjá Jóhönnu Vigdísi, þar sem Jóhönnu var tíðrætt um kynferðisofbeldi landsliðsmanna, meðvirkni fyrrverandi stjórnar gagnvart því, og hvernig Vanda ætlaði að bæta þar úr.
Þar brást Vanda.
Hún varði ekki sitt fólk, hvorki landsliðsmenn sem hafa af ósekju mátt sitja undir rógi og slúðri níðhöggva, eða fráfarandi formann sem á engan hátt getur borið ábyrgð á því sem talið er að hafi farið miður á undanförnum árum eða áratugum.
Hún aðeins flissaði og hló með, og sagðist vera betri.
Rifjaði síðan upp að hún hefði látið klíp og káf viðgangast.
Ég sæi í anda hinar sterku konur allt í kringum mig játa uppá sig slíkan aumingjaskap, marg oft verið vitni að viðbrögðum þeirra gegn slíkri áreitni, svo hún var ekki endurtekin.
Rifjum upp það eina sem er í hendi, hinn meinta slóða sem fylgir kynferðisofbeldismönnum líkt og Halla Gunnarsdóttir benti á að fylgdi slíkri hegðun og ofbeldi.
Ásökun um nauðgun Arons Einars 2010, kæra felld niður að sögn hins meinta fórnarlambs, að hann hefði þá stöðu að það þýddi ekki að kæra hann.
Hver er svo heimskur að trúa því að 2010 hafi knattspyrnumenn verið ósnertanlegir fyrir lögum??
Heimilisharmleikur Ragnars Sigurðssonar, þar sem meint ofbeldi hans bitnaði á húsgögnum og húsmunum.
Hvar er tekið fram í lögum KSÍ, hvort sem þau er skráð eða óskráð, að formaður eða stjórn þess eigi að skipta sér að slíkum málum, annað en það að reyna að útvega viðkomandi leikmanni aðstoð og stuðning í að vinna úr sínum málum??
Meint ofbeldi Kolbeins Sigþórssonar gagnvart Þórhildi Gyðu Arnardóttur, meint því Kolbeinn kannast ekki við það sökum ölvunar sinnar. Hann samdi hins vegar um miskabætur, eftir tillögu lögfræðings Þórhildar þar um.
Þar kom Guðni hvergi nærri málum, nema að hann var beðinn um trúnað þar um.
Síðan þá hefur Þórhildur Gyða ítrekað verið staðin að rangfærslum, þær skjalfestar. Hún segir til dæmis í yfirlýsing þann 21. ágúst síðastliðinn að "Ég man vel að þetta var lögfræðingur á vegum KSÍ þar sem mér var orðrétt boðið á fund með stjórnarmeðlimum KSÍ og tilteknum landsliðsmanni þar sem bera átti undir mig þagnarskyldusamningin. Ég gæti mögulega fundið heimildir fyrir því,".
Heimildar hennar voru ekki betri en þær en lögmaður Kolbeins upplýsti að hann hefði aldrei verið á vegum KSÍ, og að það hefði ekki verið Kolbeinn sem að fyrra bragði hefði boðið miskabætur; "Hún (Þórhildur Gyða) sagðist mögulega vera tilbúin að falla frá kærunni gegn greiðslu miskabóta, bað mig að skoða það og heyra í þér. Ég kíkti á dómafordæmi og fyrir brot gegn 209./217. hafa miskabæturnar verið í kringum 300 þús kall.".
Þetta var vitað fyrir viðtal Jóhönnu Vigdísar við Vöndu, þegar Jóhanna Vigdís vogaði sér samt að tala um kynferðislegt ofbeldi Kolbeins og að KSÍ hefði reynt að þagga það mál niður, þá var hún sek um, ekki vanhæfni, heldur lygar, og hefði Vanda haft hið minnsta töts í sér, þá hefði hún mætt þessum lygum með staðreyndum.
Og síðan hvað annað, hver er svo slóðin sem liggur eftir hina meintu ofbeldismen, Kolbein, Aron Einar og alla hina sem hafa spilað fyrir hönd þjóðarinnar í landsliði hennar í knattspyrnu.
Hver er slóðin sem réttlætir allar ásakanirnar og krossfestingu Guðna??
Svarið er að þrátt fyrir dauðaleit sem hefði fundið margar nálar í heystakk, þó stakkurinn væri á stærð við Efra Breiðholt, þá hefur ekkert fundist.
Stundin, Kjarninn, Gróa á Morgunblaðinu, EKKERT.
Og á þetta þurfti Vanda aðeins að benda.
Að standa með sínu fólki.
Sem hún gerði ekki.
Brást knattspyrnunni, brást fráverandi formanni, brást okkur öllum sem unna þessari sparkíþrótt.
Svo skorar hún á íslensku þjóðina.
Að styðja það sem hún sjálf ber fulla ábyrgð á að hafa brotið niður.
Fólk eins og Vanda skilur ekki æru eða sóma.
Ekki þegar hag má hafa að elta rógbera og níðhöggva.
En Guðni Bergsson vann inn sér þá æru að öldungur, sem margt hefur séð og margt hefur upplifað, skrifaði þessi orð um hann.
Vöndu til háðungar ætla ég að birta þau;
"En mér er misboðið þegar okkur karlkyns fótboltamönnum er borið á brýn orðfar eða annað sem stuðlað getur að ofbeldi eða ofbeldismenningu. Sem bróðir 6 systra og faðir 3ja yndislegra dætra þá myndi aldrei hvarfla að mér að styðja eða verja e-ð sem flokkast gæti sem niðurlæging eða ofbeldi í garð stúlkna eða kvenna.
En ég get heldur ekki stutt orð og aðgerðir misviturra aðila sem farið hafa offari og stuðlað að því að heiðarlegur og vandaður maður eins og Guðni Bergsson var hrakinn úr starfi sem formaður KSÍ, fyrir litlar sakir, þrátt fyrir að hafa verið besti formaður KSÍ í áratugi. Guðni sinnti litlu félögunum á landsbyggðinni mun betur heldur en forverar hans í embætti höfðu gert og hann var einnig frábær fulltrúi Íslands út á við, t.d. gagnvart UEFA og FIFA.
Þegar Guðni Bergs. var kjörinn formaður KSÍ þá fékk Ísland besta hugsanlega sendiherrann fyrir íslenska knattspyrnu sem völ var á. Það hefur ekki breyst.".
Að vera ærleg manneskja er óháð kyni.
Þrátt fyrir að margar konur í dag telji að svo sé ekki.
En það er aðeins þeirra skömm.
Þeirra eigin lítilsvirðing gagnvart kynsystrum sínum.
En við eigum að styðja strákana.
Við eigum að styðja stelpurnar.
Jafnt í blíðu sem stríðu.
Látum níðhögg og rógbera ekki hafa áhrif þar á.
Þau mun uppskera sitt áður en yfir líkur.
Það segir sagan.
Hún lýgur ekki.
Kveðja að austan.
Vanda skorar á íslensku þjóðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2021 | 18:00
Landslið rúið trausti.
Fær engan stuðning í kvöld.
Samt er þarna framtíðin, sem enga sök ber, er aðeins mætt til að spila fótbolta.
Ef allt væri eðlilegt myndu knattspyrnuáhugamenn fylkja sér að baki strákunum, sýna þeim stuðning í verki um von um blóm og betri tíð.
En það er ekkert eðlilegt hjá KSÍ.
Fráfarandi stjórn féll vegna þess að hún hafði ekki kjark til að mæta dylgjum, rógi og slúðri.
Hafði ekki kjark til að standa með formanni sínum þó ljóst væri að alla tíð hafði hann reynt að gera sitt besta til að breyta meintum strákakultúr knattspyrnuhreyfingarinnar, það sem felldi hann voru atburðir fortíðar sem öllu vitibornu fólki var ljóst að Guðni Bergsson gat engan veginn borið ábyrgð á.
Vitiborið fólk veit jú að við lifum núið, getum lært af fortíðinni og lagt grunn að stefnu fyrir framtíðina, en okkur er ókleyft að breyta því sem er liðið, og við getum aldrei borið ábyrgð á hinu liðna, ef við vorum ekki sjálf gerendur, eða hlutlausir áhorfendur sem hefðu getað gripið inní, en gerðum ekki.
Núverandi formaður hóf hinsvegar vegferð sína með því að kúga landsliðsþjálfarann til að ljúga um að hann hefði sjálfur tekið þá ákvörðun um að velja ekki Aron Einar í landsliðshóp sinn.
Sú ákvörðun gat alveg verið réttmæt, en lygar og blekkingar eru það aldrei,
Hvað þá hjá fólki sem fékk völd sín eftir rýtingsstungu í bak fólks sem alltaf kom heiðarlega fram, laug ekki, blekkti ekki.
Aum var Vanda eftir þann lygaþvætting, Arnar er á eftir aumkunarverður, framdi sitt Hara Kiri,, maður sem þarf þjálfun almannatengla til að ljúga í beinni útsendingu, er ekki virðingarverður maður.
Vanda framdi hins vegar sitt Hara Kiri með því að mæta í Kastljósviðtal þar sem hún var meðvirk með slúðri, rógi og dylgjum spyrilsins.
"Trúir þú þolendum?, eiga þolendur kynferðisofbeldis ekki að njóta vafans??".
Sem er reyndar álíka gáfuleg spurning hvort þú trúir á DNA eða þyngdarlögmál Newtons.
Auðvitað ber okkur skylda til að trúa þolendum kynferðisofbeldis, en við eigum líka að hafa þá heilbrigðu skynsemi að vita að fleiri segja frá en þeir sem eru raunverulegir þolendur.
Að afneita þeirri staðreynd sem sagan kann ótal dæmi um, og oft á tíðum hafa konur verið þolendur slíkra rangra sakargifta, er vanvirðing gagnvart vitsmunum fólks og heilbrigðri skynsemi.
Jóhanna Vigdís ásakaði fólk, ásakaði knattspyrnuhreyfinguna sem heild án þess að hafa nokkuð í höndunum.
Hún vísaði i mál Gylfa Þórs án þess að geta bent á nokkuð dæmi um að meint hegðun hans hefði komið inná borð KSÍ, eða snerti íslenska knattspyrnuhreyfinguna á nokkurn hátt.
Hún vísaði í mál Kolbeins Sigþórssonar þar sem öllum má ljóst vera að meintur þolandi laug öllu til um efnisatriði málsins varðandi KSÍ og aðkomu sambandsins að því máli.
Eftir stendur trúverðugleiki hins meinta þolenda varðandi önnur efnisatriði málsins, atferli hennar fellur allavega inní þekkt mynstur fjárplógsfólks, hvort sem það er tilviljun eða ekki.
Þá er Aron Einar og meint nauðgun hans fyrir 11 árum síðan ein eftir.
Það er ljóst að sú nauðgun var kærð á sínum tíma, en kæran dregin til baka.
Hvort þáverandi stjórn KSÍ og þáverandi landsliðsþjálfarar hafi vitað um þá kæru veit enginn, því í allri múgæsingu hinna meintu fjölmiðla þjóðarinnar þá hefur enginn af þeim reynt að grafast fyrir um efnisatriði málsins og staðreyndir.
Sem og í öllu þessu máli, þá hafa réttmætar spurningar aldrei verið spurðar.
Kynferðisofbeldi fylgir slóði sagði Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri ASÍ og fyrrum frambjóðandi til embættis formanns KSÍ.
Svona gróft ofbeldi verður ekki til úr engu, það á sér forsögu, og það endurtekur sig þar til það er stöðvað.
Eitthvað sem er svo augljóst öllu vitibornu fólki, og enginn ætti að starfa við fjölmiðlun sem áttar sig ekki á þessu einfalda orsakasamhengi.
En hvar er slóðin sem borin er uppá nafngreinda sem ónafngreinda einstaklinga??
Andrés prins átti sér sinn slóða, Harry Weinstein átti sér sinn slóða, hérlendis þekkjum við nýlegt dæmi um Ingó Veðurguð.
En hvar er slóðin sem fylgdi Kolbein, hvar er slóðin sem fylgdi Aron Einari??
Eða hvar er slóðin sem réttlætir dylgjurnar og róginn gagnvart knattspyrnuhreyfingunni??
Hvað var það sem Jóhanna Vigdís hafði í höndunum sem réttlættu spurningar hennar um kynferðislegt ofbeldi sem knattspyrnuhreyfingin hefði látið viðgangast??
Nákvæmlega ekkert annað en síendurtekinn frasi um að trúa ætti meintum þolendum, án þess að taka eitt dæmi um slíkan þolanda.
Jóhanna Vigdís er ekki slúðurkelling eða rógberi út í bæ líkt og formaður jafnréttisnefndar kennara, hún er fréttamaður á launum hjá þjóðinni, hennar hlutverk er að afla sér upplýsinga og spyrja beinskeyttra spurninga út frá þeim.
Sem hún gerði ekki, hún hafði ekkert í höndunum, hún hafði ekki einu sinni þá sjálfsvirðingu að spyrja sjálfra sig þeirrar spurningar af hverju það hefði þurft frumkvæði lögmanns Kolbeins Sigþórssonar til að afhjúpaði að það hefði verið lögmaður Þórhildar Gyðu sem fór fram á miskabætur, en ekki að KSÍ hefði boðið þær gegn því að hún léti ekki málið fara lengra.
Eða hún játaði skipbrot hinna meintu fjölmiðla að það hefði þurft skúbb frá lögmanni út í bæ sem afhjúpaði lögregluskýrslur um að kæran hefði verið dregin til baka eftir að Þórhildur hefði náð sátt við Kolbein um miskabætur.
Jóhanna Vigdís gerði ekkert að þessu.
Fagmennska hennar var engin, og Vanda, sem greip gæsina með rýtinginn í hendinni að hætti Brútusar, tók undir orð hennar.
Hún varði ekki hreyfinguna, henni var um megn að standa með sínu fólki.
Vissulega þegar staðin að lygum og undanbrögðum, en samt, maður skyldi halda að manneskja með hennar reynslu og feril, gæti haldið sig við staðreyndir, og hún gerði þær kröfur til spyrils að hún hefði eitthvað í höndunum þegar hún setti fram ásakanir sínar.
Samskipti kynjanna hafa vissulega verið eins og þau hafa verið, en það sem miður hefur farið, og þarf virkilega að bæta úr, réttlætir samt aldrei róg, níð og slúður.
Slíkt hefur alltaf verið vopn ofstækisfólks sem nýtir sér ranglæti fyrir eigin völd og frama, slíkt fólk er alltaf margfalt verri en það sem fyrir var, ofstæki þess í bland við valdagræðgina elur af sér hatur, ofsóknir, þar sem sekt eða sakleysi er aukaatriði málsins.
Og að lokum ræður geðþótti og ógn hverjir eru ásakaðir, hverjir eru ofsóttir, ástand sem var kennt við terror í frönsku stjórnarbyltingunni, hefur alltaf valdið hörmungum og snúist uppí andhverfu sína.
Að sjálfsögðu hugsar venjulegur knattspyrnuáhugamaður ekki hlutina á þennan hátt þegar síbylja níðsins dynur á honum.
Hann skilur ekki hvað er í gangi, hann skilur ekki fall fyrrum goða.
En hann sér vandræðaganginn í Arnari Viðari, og hann samsinnar sig ekki við málflutning Vöndu Sigurgeirsdóttur.
Það er enginn sem stappar í hann stálið.
Það er enginn sem hvetur hann til að styðja sitt fólk þegar allt blæs á móti.
Hjásetan er hans andsvar gagnvart algjöru klúðri fráfarandi stjórnar KSÍ eða lygum og hjárænu núverandi stjórnar.
Fórnarlambið er fótboltinn.
Strákarnir okkar sem áttu að erfa landið, og erfðu það alltof fljótt.
Þeir eiga samt eftir að standa sig þessir strákar.
Þeirra er framtíðin.
Efinn er meiri hvað varðar Vöndu eða Arnar.
Kveðja að austan.
Dræm mæting á leikinn í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2021 | 21:52
Þjóðfélag fordæmingar og ofsókna.
Er ekki síður þjóðfélag kynbundins ofbeldis en það þjóðfélag eldri tíma þar sem ofbeldi gagnvart konum var liðið, talið eiginlega náttúrulögmál.
Nema í dag beinist það gegn drengjum, ungum karlmönnum, sem eru krossfestir sem hópur fyrir syndir feðranna.
Í nornapotti nafnlausra ásakana, hópsektar vegna glæpa eins eða fárra, þrífst múgæsing þar sem engu skipta staðreyndir, siður því það er ekki góður siður að rógbera fólk, sem er varin með því að veitast að þeim sem efast, eða telja sig ekki hafa orðið varir við þá hegðun sem vísað er í.
Talað er um gerendameðvirkni og nauðgunarmenningu án þess að eitt einasta dæmi hafi verið staðfest, eða sannreynt sem rennir stoðir undir viðkomandi ásakanir.
Munum að þetta hófst allt með pistli forkonu jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands og um þann pistil má lesa um í Fréttablaðinu 31. ágúst, undir fyrirsögninni að "Það hefur enginn neitað neinu". Þar má lesa meðal annars; "Hanna birti grein um frásögn konu um hópnauðgun þekktra knattspyrnumanna og svo hafi önnur saga af hópnauðgun borist henni nýlega og margar frásagnir til viðbótar. "Ég er ekki búin að telja en sumt er alveg staðfest. Sumt er í lögregluskýrslum en ég hef bara einhvern veginn ekki farið ofan í það, að grafa það upp. Það eru bara svo mörg vitni, sem segir mér að vitneskjan er til staðar", segir hún.".
Núna eru liðnir 5 dagar, stjórn KSÍ fallin og fjölmiðlar hafa kappkostað að grafa upp dæmi sem sannar málflutning Hönnu, en hún sjálf heldur sig við róginn og dylgjurnar eins og hún átti sig ekki á að þegar er farið í svona vegferð nafnlausra ásakana, þá verður að fylgja þeim eftir með staðreyndum, atburðum ásamt að nafngreina bæði þolendur og gerendur, að koma sök frá hóp til einstaklinga, frá orðróm yfir í atburð.
Þegar gengið var á Hönnu vegna þessarar annarri hópnauðgun þá bar hún Stígamót fyrir heimildinni, Stígamót kannast ekki við að hafa fengið slíka tilkynningu.
Eina heimeldisofbeldið sem fjölmiðlar hafa nefnt er ofbeldi Ragnars Sigurðssonar gagnvart húsgögnum og húsmunum á heimili hans.
Eina nauðgunin er þessi óstaðfesta frásögn frá 2010.
Óstaðfest frásögn frá 2010, ókærð því meintur þolandi sagði að honum hefði verið ráðlagt að kæra ekki, það er marka má frásögn Hönnu; "Þolandanum var eindregið ráðlagt að kæra ekki, við ofurefli væri að etja,".
Hverjir ráðleggja slíkt??, er það Samtök nauðgara innan knattspyrnuhreyfingarinnar, eða aðrir sem hafa hagsmuni af því að lög og réttur nái ekki yfir slíka glæpi?
Munum að þetta var ekki árið 1830, ekki 1930, jafnvel ekki 1970 eða 1990, heldur 2010, á þessari öld þar sem fréttir hafa reglulega birst í fjölmiðlum um að knattspyrnumenn hafa verið ásakaðir um nauðganir, og þeim vikið úr liðum sínum á meðan slíkt er rannsakað.
Það er svo langt síðan að þetta hefur verið liðið, að afbaka þann raunveruleika og vísa í meint réttleysi þolenda og því séu einhverjir ábyrgir aðilar þarna úti sem ráðleggja fórnarlömbum kynferðisglæpa að kæra ekki, er ekki trúverðugt, sérstaklega þegar það er eina kjötið á beinunum.
Og ótrúlegt að fjölmiðlar skuli ekki kanna málið betur og reyna að hafa uppi á þeim einstaklingum og samtökum sem eiga að hafa veitt þessa ráðleggingu, því slíkt er alltaf yfirhylming, í raun samsekt því í skjóli hennar geta ofbeldismenn haldið áfram óáreittir með níðingsverk sín.
"Þessi hegðun sem er lýst, að labba inn á skemmtistað og haga sér svona, þetta gerðirðu ekki bara einu sinni á ævinni og svo aldrei meir,"." sagði Halla Gunnarsdóttir, ofbeldismönnum fylgir slóð, og hana er hægt að rekja.
Svo ég vitni í lýsingu Hönnu; "Það hafði þó ekki meiri áhrif á gerendurna (landsliðsmennina) en svo að þeir gerðu grín að nauðguninni daginn eftir. Forherðingin algjör.", og forhertir menn halda áfram á meðan þarna úti er fólk sannfært fórnarlömb þeirra um að kæra ekki.
Vandinn og meinið er, að sú slóð hefur ekki fundist, þrátt fyrir ítarlega leit slúðurpressunnar að henni til að geta slegið henni uppi í hinni hörðu samkeppni við slúður samfélagsmiðlanna.
Eða eins og þeir hefðu verið brottnumdir af geimverum, sem reyndar passar ekki því meint fórnarlamb þeirra hefur fylgst með allavega öðrum þeirra að spila síðan fyrir hönd þjóðarinnar.
Og það er þá sem maður fer að spyrja sig, hvað býr að baki, er þetta trúverðug frásögn??
Þar sem ég veit að það finnast engin Samtök nauðgara innan knattspyrnuhreyfingarinnar, þá finnst mér það persónulega ekki trúverðugt að til sé fólk sem mark er takandi á, og ráðleggur fórnarlömbum skelfilegs ofbeldis að kæra ekkil
Og mér finnst það ekki trúverðugt að til sé svo vitlaus maður i opinberri stöðu, að hann hlæi daginn eftir uppí opið geðið á fórnarlambi sínu sem hann er nýbúinn að hópnauðga, og gerir grín að nauðgunin og segi síðan að skilnaði, "kærðu, það trúir þér enginn (sirka svona var frásögnin sem ég las með óhug á sínum tíma, efinn kom seinna)", fyrir hann er alltof mikið í húfi.
En ég þekki ekki staðreyndir mála, hef engar forsendur til að rannsaka þær, en ég neita að á meðan þær eru ekki staðfestar að þær séu notaðar til að úthrópa fjölda fólks, saka það um gerendameðvirkni, nauðgunarmenningu, eða kalla fólk hreinlega nauðgara.
Sjái fólk ekki alvarleikann í þessu, þá er illa komið fyrir samfélagi okkar.
Þá er það komið fram yfir hengiflug, það eina sem ekki er vitað hve hátt fall þess er.
Blint ofstæki sem fóðrar hatur og fordæmingu, hefur aldrei bætt heiminn.
Þrátt fyrir margar tilraunir þar um.
Kveðja að austan.
Kölluðu leikmenn landsliðsins nauðgara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt 6.9.2021 kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2021 | 20:42
Mogginn og skrílræðið.
Fréttamanni Mbl.is tókst í gær að fækka meintum gerendum á meintri hópnauðgun um einn þegar blaðið sagðist vita fyrir víst að Kolbeinn Sigþórsson "væri ekki annar þeirra".
Eftir standa jú hverjir???
Aron, Gylfi, Jóhann eða Birkir??
Og Mogginn er það rotinn og sjúkur að hann skammast sín ekki fyrir svona fréttamennsku, heldur gefur í frétt dagsins.
".. að hún (Klara Bjartmarz) segi af sér líkt og Guðni gerði eða verði vikið úr starfi fyrir sinn þátt í þeirri þöggunarmenningu og gerendameðvirkni sem hefur verið við lýði innan sambandsins í tengslum við ofbeldi af hálfu karlkyns landsliðsmanna í garð kvenna um langt árabil.".
Þöggunarmenning og gerendameðvirkni eru alvarleg orð hjá fjölmiðli sem ætlast til að hann sé tekinn alvarlega í umræðunni þó slík orðanotkun þætti hófleg í athugasemdarkerfi DV.
Og slíkt er ekki sagt nema dæmi séu tiltekin, í vandaðri fréttaskýringu eða frétt þar um.
Eitthvað sem Morgunblaðið hefur algjörlega heykst á.
Þar sem blaðið hefur ekki unnið sína vinnu, þá er ljóst að það vitnar í umræðu dagsins, leggur slúður að jöfnu við frétt, kannar ekki sannleiksgildi, útskýrir ekki atburðarrás, gerir ekkert af því sem alvöru fjölmiðill gerir.
Að baki röfli og ásökunum um gerendameðvirkni, eitraða klefamenningu, þöggun eða hvað sem riddarar réttlætisins týna til, þá er vitnað í tvennt, meinta hópnauðgun, sem átti sér stað fyrir rúmum 10 árum síðan, og ofbeldisbrot Kolbeins Sigþórssonar frá árinu 2017.
Og hvernig í ósköpunum réttlætir þetta þann sleggjudóm sem blaðamaður Morgunblaðsins kveður upp í viðtengdri frétt og ég vitna í??
Meint nauðgun frá árinu 2010, sem upplýst var um núna í sumar og KSÍ setti strax í ferli, hvernig getur það verið dæmi um þöggunarmenningu og gerendameðvirkni??
Er blaðamaðurinn að meina að ásökun um glæp sé ígildi þess að glæpur hafi verið framinn??
Af hverju er þá ekki búið að fangelsa alla þá lækna og hjúkrunarfræðinga, að ekki sé minnst á lögreglumenn sem áttu að vera handbendi Jóns Baldvins í að innleggja Aldísi dóttur hans á geðdeild, nægar voru ásakanir hennar??
Það að þetta fólk starfi ennþá, hafi ekki misst réttindi sín, og gisti ekki Litla Hraun í dag, er það sönnun um gerendameðvirkni og þöggunarmenningu??
Er ekki vitglóra eftir hjá ritstjórn Morgunblaðsins??, eða er þetta blautlegur draumur ritstjórnarinnar um að toppa rauðliða Maós formanns og ofsóknir þeirra á tímum Menningarbyltingarinnar??
Ásökunin er sett fram á samfélagsmiðli, hún nafngreinir ekki meinta gerendur, hún er þar með orðrómur, og ef orðrómur er tilefni aðgerða, þá er virkilega illa komið fyrir þessari þjóð, þá er hún umkringd blindskerum sem hún mun steyta á.
Hitt dæmið er Kolbeinn og það að hann skuli hafa verið valinn í landsliðið á ný, eftir að hafa verið tekinn tímabundið út því vegna ofbeldisbrots sem hann gekkst við, baðst afsökunar á, og greiddi miskabætur.
Var málið þá ekki búið??, átti að útskúfa honum um aldur og ævi??
Er ekki til lengur neitt sem heitir iðrun og endurbót í þessu samfélagi??
Aðeins hatrið og heiftin, útskúfunin, fordæmingin.
Ef svo er, þá er illa komið fyrir þjóð okkar, fótspor Maós og rauðliðana er ekki til eftirbreytni, eða önnur þau samfélög þar sem fordæmingin ein ræður för.
En þetta er matsatriði, og hver og einn getur afhjúpað sitt innræti þegar hann tekur afstöðu til þess.
En núverandi stjórn KSÍ, fyrrverandi formaður sambandsins, er ekki ábyrg fyrir endurkomu Kolbeins, ljóst var að þegar hann hafði gert upp sín mál, þá var hann talinn tækur á ný í landsliðið.
En Guðni fór rangt með í frægu Kastljós viðtali, er það ekki þöggunarmenning og gerendameðvirkni??
Og óneitanlega fór hann rangt með, um það er ekki deilt, en er hann þá að þagga niður eitthvað sem fjandvinur hans, Geir fyrrverandi formaður bar ábyrgð á??
Eða var hann að standa við samkomulag sem hann gerði við föður fórnarlambs Kolbeins, um að hafa hljótt um þetta mál eftir að miskabætur voru greiddar.
Allavega er það ljóst að faðirinn bað um þöggun, hvort sem það var með vitund dóttur sinnar, eða án hennar.
Mistök Guðna lágu í heiðarleika, ljóst er að hann hafi ekki lesið sér til um stjórnkænsku hins klóka, enda Furstinn eftir Machiavelli ekki kennt í lagadeild HÍ.
Menn geta síðan spurt sig um hvaða siður felst í því að semja um miskabætur, en stinga síðan þann í bakið sem beðinn var um að þegja.
En nauðgararnir, en nauðgararnir, þessir þarna frá 2010!!, hvað með þá???
Og hvað með þá??, Morgunblaðið þykist vita hverjir þeir eru, en þegir.
Staksteinar dagsins tala um grýtingu úr glerhúsi, Moggans vegna er eins gott að það er ekki glerveggir í virkinu uppí Móum.
En ég vil endurtaka það sem ég sagði í morgun.
"Morgunblaðið verður að taka af skarið og segja það sem það veit. Eða leggja sig niður ella.
Þar er enginn millivegur.".
Afhverju??
Jú, Mogginn var stofnaður gegn skrílræði.
Ekki til að vera hluti af því.
Og það á ekki að þurfa skruðninga úr kirkjugörðum borgarinnar til að menn þekki sinn vitjunartíma.
Eða það hefði maður haldið.
Kveðja að austan.
Ætlar ekki að hætta og verður ekki vikið frá störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.8.2021 | 18:28
Rógur og níð.
Er eitthvað sem beinist að hópi eða fjölda, með vísan í einstakling, eða einstaklinga.
Þeir ekki nafngreindir, en hópurinn eða fjöldinn situr uppi með skömmina, með ásakanirnar, með eitthvað sem ekki er hægt að verjast.
Í þessari frétt er sekt Moggans algjör.
Kveðja að austan.
Rúmenskir fjölmiðlar fjalla um málefni KSÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 6
- Sl. sólarhring: 73
- Sl. viku: 2646
- Frá upphafi: 1412704
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 2310
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar