Bjarni skýtur sig í fótinn.

 

Nú er málsvörn hans sú að munurinn á honum og Sigmundi sé sá að Wintris eigi kröfur í gömlu bankanna.

Spurður að því hver væri mun­ur­inn á máli hans og máli Sig­mund­ar Davíðs í sam­bandi við Panama-skjöl­inn, sagði Bjarni að þegar hann horfði yfir sviðið, ekki síst viðbrögð er­lend­is, væri það fyrst og fremst hags­muna­árekst­ur­inn, þ.e. að Wintris, fé­lag eig­in­konu Sig­mund­ar, ætti kröf­ur á gömlu bank­ana.

 

Skýrari getur rýtingsstungan ekki orðið.

 

Hann virðist ekki skilja að fólk er búið að fá nóg af stjórnmálamönnum, sem setja lög sem gerir fjáreigendum kleyft að fela fé sitt í skattaskjólum, hafa þannig gífurlegar fjárhæðir af samfélaginu, sem sömu stjórnmálamenn þykjast gæta hagsmuna, og svo þegar afleiðingarnar koma uppá yfirborðið, þá þykjast þessir sömu stjórnmálamenn berjast gegn þessum skattaskjólum, en hafa allan tímann nýtt sér sjálfir hagræðið af þeim.

Allt löglegt segja þeir, allt uppá borðinu, en til hvers eru þeir að leggja á sig umtalsverðan kostnað, ef ekki einhver leyndarhyggja býr að baki.

Því ef allt er löglegt, allt uppá borðinu, þá geyma menn fjármuni sína í Landsbankanum, eða í Barkleys ef þeir treysta ekki innlendum bönkum.

Þessi tvöfeldni, þessi leiksýning og skrípaleikur, fólk er einfaldlega búið að fá nóg af þessu.

Og það hlustar ekki á menn sem benda endalaust á hinn, að hann hafi verið verri.

 

Og Bjarni bætir ekki stöðu sína með því að ráðast á Sigmund.  Verður frekar minni kall fyrir vikið.

Síðan eru til önnur hagsmunatengsl, en þau sem eru útkljáð í hjónasænginni.

Til dæmis fjölskyldutengsl.

 

Og Sigmundur Davíð er þorrinn allur þróttur ef hann spyr ekki á móti, hvað hagsmuna hafði Bjarni að gæta í samningum sínum við kröfuhafana?

Hvað græddu fjölskyldumeðlimir Bjarna á þeim samningum miðað við áður boðaðan stöðugleikaskatt?

 

Margt var Sigmundi á, en það hefur enginn sýnt fram á að hann hafi verð í neinni annarri stöðu en að kona hans hafi átt skuldabréf á Landsbankann, og það er ekkert óeðlilegt að þau séu innheimt.  Það hefðu allir gert það.  Þeir sem halda öðru fram eru hræsnarar.

En það er kvittur um að vildarvinir Bjarna hafi keypt kröfur á hrakvirði, og þeir vildarvinir ná inní fjármálaveldi Engeyjarættarinnar.

Á þessu er reginmunur, Bjarna óhag.

 

Og sá sem rekur rýting, má búast við svari.

Kveðja að austan.


mbl.is Sígandi lukka best fyrir Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur knýr á afsögn Bjarna

 

Annað verður ekki lesið úr þessum orðum hans.

Sig­mund­ur sagðist vel skilja að Bjarni vildi gera þenn­an grein­ar­mun, sér­stak­lega þegar hann sjálf­ur væri bú­inn að segja af sér vegna máls­ins, en ef óánægja fólks væri aðallega til kom­inn vegna grund­vallarprinsippa þá væri mun­ur­inn eng­inn.

 

Og þrýstingurinn á Bjarna eykst enn.

Kveðja að austan


mbl.is Vænir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins um eiginhagsmunasemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aflandsfólk stjórnar þjóðinni.

 

Flokkshjarðirnar jarma stuðning þvert gegn sinni innri sannfæringu.

Leigupennar reyna að rimpa í götin á skjaldborginni, láta eins og góðæri túristabombunnar réttlæti siðleysi og siðrof.

Og alheimurinn hlær.

 

Eftir stendur ærulaus stjórnmálastétt.

Vanhæf ríkisstjórn sem þarf kraftaverk til að lifa fram af næstu afhjúpun.

Og hnípin þjóð sem skilur ekki hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessa fólks.

 

En ábyrgðarmaður aflandsstjórnarinnar er Ólafur Ragnar Grímsson.

Hann brást þegar á reyndi.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Kalla Ísland bananalýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Af­l­ands­fé­lög í besta falli ósiður"

 

Þessi beina tilvitnun í Guðlaug Þór segir allt sem segja þarf um pólitíska stöðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Það jákvæðasta sem samþingmaður hans getur sagt um hann er að hann ástundi ósiði.

 

Hitt er látið ósagt og það vita það allir,jafnvel veraleikafirrtustu sjálfstæðismenn sem tóku við skjöldunum úr skjaldborg framsóknarmanna, útslitna og tætta, og slugsast nú við að slá með þeim skjaldborg um formann sinn.

Svo er fyrirfram tapaður leikur, en getur orðið flokknum dýrt.

Og endalok Bjarna því þó Dirty Harry hafi verið fínn í Hollywood, þá er stimpill hans ekki æskilegur í stjórnmálum. 

Ekki hjá rændri þjóð, ekki hjá svívirtri þjóð sem aldrei naut nokkurs réttlætis í uppgjörinu á Hruninu. 

 

Og um vanhæfni Bjarna til nokkurs annars en að endurreisa auðkerfið sem hefur gert hann og hans líka ofurríka, þarf ekki að efast þegar þessi orð í málsvörn hans eru lesin;

 

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra ít­rekaði á Alþingi í dag að bar­átt­an gegn skatt­skjól­um sner­ist um að ná í skottið á svika­hröpp­un­um. Þeim sem væru að fela eign­ir og kom­ast und­an því að greiða skatta. Um það sner­ist alþjóðlegt sam­starf gegn skatta­skjól­um.

 

Látum liggja milli hluta tregðu hans gegn embætti skattrannsóknarstjóra þegar það vildi fá fjárveitingu til að kaupa upplýsingar um vildarvinina, og að það var aðeins öflugur þrýstingur úr samfélaginu sem neyddi Bjarna til uppgjafar í þessu máli, ásamt því að kenna honum nýtt tungutak um baráttuna gegn skattsvikurum.

Heldur íhugum kjarna málsins að fæst þessi undanskot eru ólögleg, stjórnmálamenn fóðraðir af peningamönnum, hafa sett á þannig löggjöf að það er næstum því allt hægt.

Fyrir nokkrum árum uppgötvuðu bretar að mörg stórfyrirtæki eins og Starbuck greiddu ekki penní í skatta, og það á löglegan hátt, núna á Cameron forsætisráðherra í miklum erfiðleikum eftir að upp komst um lögleg skattaundanskot föður hans, hann er einn af mörgum blóðsugunum í breskri yfirstétt sem hafa hreiðrað um sig í Íhaldsflokknum og keyrt áfram frjálshyggju flokksins.

Á Íslandi greiða nýju álverin okkar ekki skatta, og allt löglegt, og svona mætti lengi telja.

 

Þetta er kjarni frábærar greinar Styrmis Gunnarssonar, þessa vitra manns, sem lesa má um á bloggsíðu hans hér í Moggablogginu.  Af mörgu góðu segir þessi klausa allt um vandann.

 

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks hjálpaði þeim til að koma þeim milljörðum undan skattgreiðslum með breytingum á skattalögum 1996, sem heimilaði frestun á skattlagningu söluhagnaðar ef honum væri endurfjárfest en það var gert með því að endurfjárfesta í skúffufyrirtækjum í Lúxemborg. Þessi þróun náði svo nýjum hæðum með einkavæðingu bankanna.

 

Þetta varð ekki svona að sjálfu sér og það er aðeins skussarnir sem láta nappa sig.

En þjóðin tapaði tug milljörðum ef ekki hundruð.

Það eru lögin sem eru sek, og fjórflokkurinn  er sekur, því löggjöfin er hans.

 

Og þessu þarf að breyta.

Núverandi fjármalaráðherra mun ekki gera það.

 

Hann vinnur aðeins að góðu málunum eins og að gefa hrægömmunum 500 milljarða, og afnema gjaldeyrishöft svo auðmenn geti aftur farið með fé sitt í skattaskjól. 

Flytja gróðann úr landi, en skilja skuldirnar eftir á innlendri kennitölu.

 

Og fjórflokkurinn kóar með.

Þetta eru góðu verkin sem þarf að leysa.

Kveðja að austan.


mbl.is Snýst um að ná í svikahrappana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hávaði bjargar ekki Bjarna.

 

Sigraður maður númer 2 hélt blaðamannafund núna rétt áðan.

Og öskraði á þjóð sína.

Líkt og hann væri að leika í kvikmynd um King Kong.

 

Ótrúleg framkoma.

Ótrúleg vanstilling.

 

Og þjóðin hefur séð þetta allt áður.

Mjög nýlega, og allir þekkja þau sögulok.

 

Að þekkja ekki sinn vitjunartíma er sorglegt.

Að skaða í leiðinni flokk sinn og þjóð, er ennþá sorglegra.

 

Nú er boltinn á Bessastöðum.

Aðeins þar virðist vera vit til að koma í veg fyrir algjöra upplausn.

 

Það er kominn tími á þingrof og utanþingsstjórn.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Stjórnarandstaðan er í rusli líka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóngur einn dag.

 

Líkt og Egon Krenz forðum sem var leiðtogi Austur Þýskalands í nokkra daga eftir afsögn Honeckers.

Borubrattur taldi hann sig haf rétt til að klára öll þau mál sem kommúnistastjórnin hafði unnið að, eins og gera við múrinn, og hindra lýðræðisumbætur.

En fólkið hafði fengi nóg, og múrinn féll.

 

Í dag upplifum við sömu tilraunina, ekki hjá kommúnistum, heldur hjá ríkisstjórn stórkapítalista sem bað um frið til að klára endurreisn þess  kerfis sem hrundi haustið 2008.

Afnema gjaldeyrishöftin svo auðurinn geti leitað óáreittur í skattaskjól.

Tryggja að hrægammarnir fái allt sitt með rentum.

Einkavæða heilsugæsluna.

Svíkja loforð um afnám verðtryggingarinnar.

 

En þjóðin hefur fengið nóg.

Hún hefur endanlega fengið nóg af braskarakerfinu sem hrundi 2008.

Og hún hefur fengið nóg af stjórnmálamönnum sem sjá ekkert athugavert við óhóflega auðsöfnun og misskiptingu þjóðarauðsins.

 

Siðrofið sem varð við Tortillu upplýsingar var aðeins dropinn sem fyllti risa kerald.

Og núna er sagt hingað og ekki lengra.

 

Múrinn mun falla.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsskaparvíti Sigmundar ætlar engan endi að taka.

 

Honum virðist vera fyrirmunað að horfast í augun á sínum eigin misstökum.

Og reynir að hlífa sig á bak við eiginkonu sína og fjölskyldu. Sem örugglega hafa ekkert sér til saka unnið, en afleikir Sigmundar hafa dregið illþyrmilega inní umræðuna.

 

Grundvallarmistök Sigmundar voru að eiga þetta félag í skattaskjóli.  Skiptir engu hvort hann telji skattaskjólið ekki skattaskjól vegna þess að fullir skattar hafi verið greiddir af félaginu.  Ef svo var, þá er óskiljanlegt að félagið skuli ekki vistað í landinu sem Sigmundur stjórnaði, í gjaldmiðlinum sem hann hefur lagt svo ríka áherslu á að haldi sjálfstæði sínu.

Þessi mistök ein og sér gera hann ófæran um að gegna stöðu forsætisráðherra.

 

Önnur misstök var að selja eignarhlut sinn á 1 dollar, daginn fyrir reglubreytinguna um hagsmunaskráningu þingmanna. 

Slíkt bendir alltaf til að menn séu að fela eitthvað.  Og viðurkenni það sjálfir með gjörðum sínum.

 

Þriðju mistökin voru að halda að hann þyrfti aldrei að svara hvorki fyrir feluleikinn og aflandsfélagið.  Slíkt er alvarlegur dómgreindarskortur sem vekur upp spurnir um almenna hæfi Sigmundar til að gegna embætti forsætisráðherra.

 

Fjórðu mistökin er síðan viðbrögð hans eftir að aflandsfélagið kom í umræðuna. 

Það þarf ekki að reka það ferli, en með hverjum degi var ljósara að Sigmundur höndlaði ekki embættið undir álagi.  Hann skyldi ekki að hann þyrfti að útskýra málið á opinberum vettvangi, hann sá aldrei ástæðu til að biðjast afsökunar, eða sýna á nokkurn hátt iðrun yfir gjörðum sínum.

Eðlilegar aðfinnslur taldi hann ofsóknir, eðlileg fréttamennska var pólitísk aðför í hans huga.  Og svo framvegis.

 

Síðan hefur hann aðeins gert illt verra.

Og er ennþá að.

Eins og hann eigi engan vin eða ráðgjafa sem geta róað hann, og fengið hann til að skilja að nú eigi hann að draga sig í hlé, frá öllum embættum.  Safna kröftum, og þegar um hægist, að veita viðtal og útskýra sín sjónarhorn, sínar gjörðir.

Þessi einstæðingsskapur er átakanlegur.

 

Sigmundur Davíð hefur margt gott gert, hann ver ferskur andblær inní stjórnmálaumræðuna, og hann sannarlega gaf Framsóknarflokknum nýtt líf.

En í dag er fallinn, og hann virðist ætla að taka Framsóknarflokkinn með sér í fallinu.

Gera flokknum ókleyft að ná vopnum sínum fyrir komandi kosningar.

 

Það er mál að linni.

Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma.

 

Líka þeir sem ennþá sitja.

Kveðja að austan.


mbl.is Sigmundur: Anna vildi ekki út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar enda í meirihluta ef Bjarni og Ólöf segja ekki af sér.

 

Svo einfalt er það.

Svo ég vitna efnislega í mætan íhaldsbloggara og stórgóðan pistil hans núna í morgunsárið, þá snýst málið ekki um hvað viðkomandi stjórnmálamönnum finnst sanngjarnt, eða stuðningsmönnum þeirra, þetta er hinn pólitíski raunveruleiki, og ef viðkomandi einstaklingar taka flokkshag fram yfir skammtíma einkahag, þá segja þau af sér áður en Alþingi ræðir vantrausttillögu stjórnarandstöðunnar. 

Þau þurfa hvort sem að gera það, þau verða neydd til þess að lokum því mikill meirihluti þjóðarinnar hefur fengið nóg af leynimakkinu öllu saman.

Öllu saman, líka því sem gerðist á síðasta kjörtímabili.

 

En það er mikill munur á að halda reisn sinni eins og Júlíus Vífill, sem er sterkari eftir gærdaginn, og alls ekki búinn að vera í stjórnmálum ef hann kýs svo, eða gefast upp rúinn öllu trausti eins og urðu örlög Sigmundar Davíðs.

Og þessi munur er eina val Ólafar og Bjarna.

 

Síðan á fjórflokkurinn ekki val að halda áfram með öll sín góður verk, sem er vel nýttur frasi sem er ættaður úr smiðju Steingríms og Jóhönnu, ef hann heykist á því að opna leyndarkistur sínar og moka út hroðanum.

Endurreisn bankakerfisins, handvalið á þeim fyrirtækjum sem fengu að lifa, verðmæti seld vildarvinum á hrakvirði, lygarnar um ICEsave samningana frá fyrsta degi, og svo framvegis.

 

Síðan þarf að útskýra af hverju 500 milljarðar hurfu í samningaviðræðunum við hrægammana, hverjir voru þessir hrægammar, og hver eru innlendu tengslin við þá.

Þessi samningur er stærsta spillingarmál síðari ára í hinum vestrænum heimi, og það spillingarmál minnkar ekki þó þjóðin stingi hausnum í sand og ákveði núna að trúa lygavaðli ICEsaveviðsemjandanna, þó hún hafi ekki gert það þegar Jóhanna fór fyrir þeim.

Þetta mál hverfur ekkert, þetta mun springa framan í fjórflokkinn, og það er betra að gera það upp núna, en að vera fangelsaður fyrir það seinna.

 

Það eru þegar komin bein fjárhagsleg tengsl forsætisráðherra (SGD hefur ekki sagt af sér ennþá) og fjármálaráðherra við þessa samninga, fjölskyldumeðlimir þeirra græða á eftirgjöfinni.

Og grunsemdir eru um að miklu fleiri innlendir fjármálamenn hafi séð sér leik á borði og keypt kröfur á hrakvirði, séu með öðrum orðum hrægammar.

Fjármálamenn sem eru  áhrifamiklir í bakherbergjum flokkanna.

 

Ef fjórflokkurinn heykist þá líður hann undir lok, stjórnmálin munu leita uppi nýja farvegi.

Hvort sem það er til góðs eða ills fyrir þjóðina, þá er það einfaldlega staðreynd.

Tími græðginnar og óheftar auðsöfnunar er liðinn.

Tími uppgjöra og uppstokkunar er framundan.

 

Fjórflokkurinn getur spilað með, en hann getur ekki spilað á móti.

Hann á ekkert val.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Píratar með 43% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er aðeins hægt að hrókera fyrir skák og mát.

 

Ekki eftir.

 

Hefði Sigmundi borið gæfu til að stíga þetta skref strax eftir blaðamannafundinn vonda, þá væri líklegast sæmilegur friður um framsóknarmenn, og um ríkisstjórnina ef Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal hefðu fylgt fordæmi Júlíusar Vífils.

En þjóðin var látin springa, áður en eitthvað var gert.

Og í lífinu er ekki hægt að hraðspóla afturá bak, og laga þar með tjónið af sprengingunni.  Ef svo væri, þá væru sjálfsmorðssprengingar ekki hættulegt vopn.

 

Þjóðin sættir sig ekki við kattarþvott.

Hún sættir sig ekki við stjórnmálamenn sem þarf að taka í bólinu svo þeir druslist til að sýna ábyrgð.

Bretar átta sig á því að hagsmunatengsl stjórnmálamanna ná út fyrir kennitölu viðkomandi, þess vegna er Cameron í kröppum dansi svo vitnað sé í frétt Mbl.is.

Þeir myndu aldrei líða þau hagsmunatengsl sem við liðum fjármálaráðherra þegar hann fékk frítt umboð til að gefa vildarvinum sínum í bland við hrægamma hundruð milljarða króna í samningum sínum við kröfuhafa gömlu bankanna.

Engin siðuð þjóð myndi reyndar gera það.

 

Og þó fjórflokkurinn slái skjaldborg um Bjarna með því að beina öllum spjótum sínum að Sigmundi Davíð, þá mun sú skjaldborg riðlast næstu daga.

Með tilheyrandi ólgu og umróti.

 

Ef neitun Ólafs var til þess eins að leyfa þennan hráskinsleik, að ríkistjórnin lafi á horriminni út kjörtímabilið, rúinn trausti og æru.

Þá endar Ólafur feril sinn jafn illa og hann hóf hann.

Í bandalagi við auð, en ekki þjóð.

 

Hann verður að rjúfa þing og skipa utanþingsstjórn fram að næstu kosningum.

Spillinguna verður að rannsaka í eitt skipti fyrir allt.

Í friði fyrir leikurunum við Austurvöll.

 

Annars verður önnur sprenging.

Sem verður heldur ekki spóluð til baka.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Sigurður Ingi taki við af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra Bomban hin seinni.

 

Verður Kári fenginn til að skrifa uppá??

 

En án jóks þá er Ólafur kominn með öll spil í sína hendi.

Hann kurteislega neitar forsætisráðherra um þingrof, vísar í að hann þurfi að kanna þingmeirihlutann fyrir slíkri beiðni. Gengur þar gegn hefðinni því ljóst er að Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra hafði ekki meirihluta að baki sér þegar hann fékk Kristján Eldjárn til að rjúfa þing 1974.

Og hann segist ætla að kanna stöðu mála.

 

Til hvers??

Hvað gerir Alþingi þegar hann tilkynnir svo að hann telji þingið óstjórntækt, og myndar utanþingsstjórn.

Alþingi vó forsætisráðherra, það hafði ekki manndóm að setjast niður með honum, án stórkarlalegra yfirlýsinga um afsögn eða boðað vantraust, og ræða þá stöðu sem upp var komin.  Heldur voru fjölmiðlar látnir reka áfram atburðarrásina líkt og smalar á fjöllum.

Og Alþingi virkar ekki trúverðugt ef það eina sem sameinar þingmenn er að bola forsætisráðherra frá völdum.

 

Alþingi þarf líka að axla ábyrgð á uppákomum síðustu daga.

 

Það eina sem getur vakað fyrir Ólafi er að fá staðfestingu á sundurlyndinu, og að Alþingi sé ekki lengur stjórntækt.

Hann þarf aðeins að benda á að þjóðin sjái aðeins toppinn á spillingunni, og hvorki sé alþingismenn líklegir til að rannsaka sín eigin tengsl, eða tengsl annarra stjórnmálamanna, þannig að bæði fari saman hlutleysi, ásamt eindregnum vilja að fá allan hroðann uppá yfirborðið.

Jafnt hjá þessari ríkisstjórn, og hjá þeirri síðustu.

Skipan utanþingsstjórnar, sem hefði það eina hlutverk að fram fari alvöru uppgjör við fjármálasóða og leppa þeirra innan fjórflokksins, er því rökrétt framhald.

 

Hvað sem Ólafur ákveður að gera, þá er það ljóst að hans er ákvörðunin.

Fjórflokkurinn er úr leik.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Veitti ekki heimild til þingrofs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)
  • Screenshot (5952)
  • Screenshot (5951)
  • Screenshot (5886)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 1757
  • Frá upphafi: 1469908

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1497
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband