30.12.2024 | 17:07
Óskum landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.
Hljómar áramótakveðja svo margra í upplestri Sigvalda og félaga á Rúv.
Sögunni fylgir ekki hve margir óska hinni nýju ríkisstjórn velfarnaðar á nýju ári, örugglega margir, margir sem líka óska landsmönnum velfarnaðar.
Meinið er að þetta tvennt fer ekki saman, velferð þjóðar og velferðar hinnar nýju Evrópusambandsstjórnar.
Eins og þjóðin þarfnast stöðugleika, þá þarfnast hún ekki stöðugleika um að innlima hana í hið nýja stórríki Evrópu, myndað af ríkjum sem öll eru á fallandi fæti og eiga í styrjöld við hitt stóra ríkið í Evrópu.
Mein þjóðarinnar eru mörg, en þau eru innanmein, og þau lagast ekki við að innlimast í stærri mein sem aðeins eiga eftir að versna.
Sem og að flest sem hrjáir efnahagslíf okkar má rekja til hins evrópska regluverks, hins kæfandi faðmlag þess, sjálfvirkan innflutning á fólki sem viðheldur síþenslu á húsnæðismarkaði, orkumarkað orkupakkanna og svo framvegis.
Hin nýja ríkisstjórn er ríkisstjórn fagurra fyrirheita, líkt og tryggingarfélag sem lofar úrvals þjónustu nema í smáaletrinu segir að sú úrvalsþjónusta í raun sé aðeins fyrir tjónlausa.
Fögru fyrirheitin falla hvert um annað í smáletri ríkisstjórnarsáttmálans, allt sem á að gera, allt sem á að bæta, er allt háð meintu jafnvægi í ríkisfjármálum.
Það jafnvægi krefst niðurskurðar, ekki nýrra útgjalda.
Hin fögru fyrirheit eru því blekking ein.
Ríkisstjórnin segist ætla að hagræða eins og þjóðin þekkir ekki sögu hagræðingar Bjarna Ben og forvera hans í embætti fjármálaráðherra.
Undantekningarlaust auka þær kostnað til lengri tíma, því þjónustu þarf að viðhalda, kjarasamninga um veikindarétt að virða, og yfirvinnu að greiða því starfsfólki sem tekur á sig aukavaktir sólarhringsþjónustunnar.
Allt afleiðing undirmönnunar sem leiðir til viðvarandi stressástands með tilheyrandi fjarvistum og veikindum starfsfólks sem er komið yfir þolmörk starfsgetu sinnar.
Annars staðar í kerfinu myndast svo flöskuhálsar ákvarðanatöku með tilheyrandi aukakostnaði í samfélaginu.
Ríkisstjórn sem segist ætla að hagræða er ríkisstjórn sem segist ætla að gera vont verra.
Ekkert í fögrum fyrirheitum ríkisstjórnarinnar bendir til nýrrar hugsunar eða nýrrar nálgunar.
Aðeins gamla slitna platan um misvitra stjórnmálamenn sem þykjast hafa vit og getu til að segja fólkinu sem vinnur störfin, hvernig eigi að vinna þau.
Að hugsa hlutina uppá nýtt, hafa kjark til að segja sig frá hinu kæfandi evrópska regluverki, það er ríkistjórn sem þjóðin þarf, en fær ekki.
Enginn skilningur á forsendum gróskunnar og gróandans.
Hóflegri skattheimtu, skilvirku regluverki sem og traust á einstaklinginn og fyrirtækjum hans.
Þess vegna fáum við það sama og við höfðum, margt gott því í kjarna vill stjórnmálafólk okkar vel, óháð í hvaða deild það er í Einflokknum, en innviðir okkar, forsendur alls í samfélaginu, minna orðið frekar á gamalt fúið fiskiskip, sem vissulega fiskar ennþá en hve lengi enn?, í stað nýtísku báta sem þola öll veður og vinda, og eiga sér langa framtíð.
Þjóðin þarfnast ekki ríkisstjórnar um óbreytt ástand.
Um stöðnun og hnignun.
Um evrópskt regluverk, um Hönd dauðans.
Hún þarfnast nýrrar hugsunar, nýrrar nálgunar.
Hún þarf að leita aftur til uppruna síns þegar áar okkar horfðu fram í tímann, og voru sammála um að gera þann tíma betri fyrir þjóðina þó þeir deildu vissulega um leiðir en alltaf sammála um markmiðið.
Og hún þarf kjark og leiðsögn.
Kjark til að takast á við sjálfsköpuð innanmein, leiðsögn inní framtíð óvissu og óöryggis.
Það sem var, er ekki lengur.
Loftslagsbreytingar, ófriðurinn, við sem þjóð erum ekki íslensk lengur heldur einhver samtíningur innlendra og erlendra þar sem aðeins örfá ár eru í að íslensk tunga og íslensk menning verður aflögð.
Viljum við það?, við höfum allavega ekki verið spurð, og ef við viljum afleggja tungu okkar og menningu, hvað viljum við þá fá í staðinn??
Sænska ástandið, miðaldahverfi Íslamista líkt og er í Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Bretlandi, Hollandi, hverfi sem lúta hvorki lögum eða siðum þess samfélags sem hýsir þau??
Eða viljum við bara halda áfram að vera íslensk, með kostum okkar og göllum??
Þeirri spurningu hefur hin nýja ríkisstjórn hinna fögru fyrirheita ekki svarað, frekar en öðru.
Hún hefur aðeins gefið þjóðinni eitt svar, eitt öruggt stefnumál, einn fastan vegvísir.
Sem er ægivald peningastefnu Seðlabankans yfir þjóðinni, og fékk sérstakan nýfrjálshyggjumann frá Háskóla Íslands til að tryggja þessi yfirráð peninganna yfir íslensku samfélagi.
Þjóðin skal rænast, þjóðinni skal blæða, peningapúkar auðvaldsins fitna.
Það er eldgos, hækkum vexti.
Það er heimsfaraldur, hækkum vexti.
Það er uppskerubrestur loftslagshamfaranna, hækkum vexti.
Það er erlend verðbólga, hækkum vexti.
Evrópska reglugerðin hækkar orkuverð, hækkum vexti.
Að ekki sé minnst á svikamylluna, sístreymi fólks til landsins þrýstir upp íbúðaverði, í stað þess að stöðva sístreymið, eru vextir hækkaðir.
Skorti á íbúðum kennt um þá hækkun, ekki sístreyminu.
En þegar það er byggt og byggt til að mæta þeim skorti, þá er talað um þenslu, og við þeirri þenslu er brugðist við með vaxtahækkunum.
Sem aftur draga úr íbúðaframboði sem aftur leiðir til skorts á íbúðahúsnæði, sem þrýstir upp verði og þá eru vextir aftur hækkaðir.
Svikamylla í sinni tærustu mynd.
Rænir og ruplar almenning, einstaklinginn og fyrirtæki hans.
Birtingarmynd Hönd dauðans, hagfræði þess í neðra.
Upplausn samfélaga, óöld, vargöld.
Heimurinn í dag.
Og verður okkar á morgun.
Ef við tryggjum ekki þjóð okkar, menningu og tungu.
Ef við svíkjum hugsjónir ferða okkar, óháð flokkum, um velsæld lands og þjóðar.
Velsæld allra, ekki fárra.
Ég óska þjóðinni velfarnaðar í þessum síðasta pistli Kveðjunnar að austan á þessu ári.
Í þeirri ósk felst von um breytingar kjarksins, um endurheimt menningu hennar og tungu, að við fögnum fjölbreytileikanum án þess að útrýma sjálfum okkur.
Að við gerum gott úr því sem við höfum og eigum, úr gæðum lands og miða, eflum gróskuna og gróandann.
Stöðvum niðurrifið, mygluna og handarbakavinnubrögðin, hefjum mannvit og verksvit til virðingar á ný.
Við höfum verk að vinna.
Fyrsta verkið er að losa okkur við þjóna auðsins úr valdastólum.
Treystum á okkur sjálf, við getum þetta.
Með Kveðju að austan.
![]() |
Enginn ríkisráðsfundur á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.12.2024 | 12:45
Evrópusambandið í hnotskurn.
Flókið regluverk og skriffinnska, hannað eftir hagfræðikenningum Milton Friedmans um hinn óskeikula markað, sem er Hönd dauðans fyrir einstaklinginn og fyrirtæki hans.
Fitar hins vegar Púkann á fjósabitanum, auð og stórfyrirtæki hans.
Orkupakkarnir eru síðasta dæmið um heljargreipar þessar Handar dauðans, vísvitandi búa þeir til orkuskort sem síðan er notaður sem réttlæting áður óþekktum hækkunum á raforkuverð til almennings og fyrirtækja hans.
Tungumál þess í neðra, hagspeki hans sem kennd er við frjálshyggju, kallar þessar verðhækkanir, þessa aðför að mannlífi í Evrópu, "nauðsynlega hagræðingu og hámarks nýtingu raforkunnar".
Tungumál sem við eigum oft eftir að heyra næstu misserin því núverandi fjármálaráðherra kann ekkert annað tungumál, þjónar aðeins einum.
"Hækkunin með öllu ólíðandi" ályktar sveitarfélag sem á allt sitt undir garðyrkjunni, hún sker á lífæð samfélagsins.
En leppar og skreppar auðsins, til dæmis hjá Neytendasamtökunum, sem og einhver svipuð hjáræma heyrist frá ASÍ, þegja um þessa aðför Evrópusambandsins að samfélagi okkar, að fyrirtækjum okkar, en skammast hástöfum yfir óhjákvæmilegum afleiðingum þessara fordæmalausu verðhækkana á raforku, verðhækkunum á innlendri framleiðslu.
Púkinn á fjósabitanum, sá sem á gróða sinn undir innflutningi, glottir, hans fólk stjórnar í dag.
Síðan situr þjóðin undir óendanlegu skrumi, sumt jafnvel sungið, að núna eigi að efla byggðir og allt innlent.
Ofurskattarnir á atvinnuvegi byggðanna, kolefnisgjöldin sem leggjast á flutning og farartæki, segja annað, að baki fagurgalanum, líka þeim sungna, er einbeittur vilji Handarinnar að eyða, að auðna.
Hin meintu frjálsu viðskipti með raforku er síðan hægfara kyrking á það sem þó ennþá þrífst.
En firrt þjóð sér ekki í gegnum skrumið.
Trúir orðum og gjálfri.
Lokar augum fyrir gjörðum og afleiðingum þeirra.
Evrópusambandsflokkanna sem þola ekki grósku og gróandann.
Allt skal regla og setja í fjötra skriffinnskunnar.
Fólk skal þjóna auð og stórfyrirtækjum glóbalsins, sætta sig við fátækt hagræðingar þess í neðra, sætta sig við útvistunina og að allt sem er framleitt, sé framleitt í þrælabúðum glóbalsins í Fjarskaistan.
Stefna Evrópusambandsins í hnotskurn.
Í Evrópu sem þegar er fallin frá fyrri styrk og reisn.
Er þannig séð í andaslitrum.
Er vegvísir valkyrjanna.
Með þekktum og óhjákvæmilegum afleiðingum.
Þannig er Ísland í dag.
Kveðja að austan.
![]() |
Hækkunin með öllu ólíðandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.12.2024 | 17:19
Fávitatal í boði valdafíknar.
Það hefur verið ákaflega sorglegt að fylgjast með fáheyrðum svikum Ingu Sæland að bakka upp draumastjórn Evrópusinna, Nýfrjálshyggjunnar, svo það sé tekið saman; beinnar aðfarar að lífi og limum okkar venjulegra.
Með sérstaklegri áherslu að skaða og skemma líf og atvinnu á landsbyggðinni.
Viðreisn, flokkur stóratvinnurekanda, flokkur smáatvinnurekanda, það er þeirra í þeim hópi sem á það eitt sameiginlegt að nýta hripleka skattalöggjöf til að hindra eðlilega skattgreiðslur til samfélagsins, náði í gegn að ekki skyldi auður, hvað þá ofurauður sæta réttlátri skattlagningu, þess í stað skyldi ofurskattur, kenndur við auðlind, verða lagður á fyrirtæki landsbyggðarinnar.
Í hnotskurn, það sem auðurinn tapaði fyrir þjóðinni í ICEsave þjóðaratkvæðagreiðslunum, er endurheimt í Valkyrjustjórninni, byggð skal deyða, fátækt fólk skal gert fátækara.
Grunnhygginn spyr nú; en Inga sagði, já Inga sagði, og stjórnarsáttmálinn sagði!!
Margt gott og fallegt, jafnvel sungið, en áður en meint góð fyrirheit skyldu framkvæmast, þá var fyrsta skilyrðið í stjórnarsáttmála Valkyrjanna að vextir skyldu lækkaðir með aðhaldi í ríkisfjármálum.
Einfalt aðhald sem leyfir ekkert, ekkert af öllum hinum fögrum fyrirheitum.
Og svo mun verða um hina ókomnu tíð þegar Nýfrjálshyggja Viðreisnar, hagfræði þess í neðra, stjórnar fjármálum þjóðarinnar.
Ekki að það skipti máli í Kveðjunni að austan, þjóðin fékk sitt tækifæri og hún kaus að kjósa þjóðardauða fram yfir líf og grósku.
ESB reglugerðirnar sem sjúga endalaust til sín mannafla í stjórnkerfinu, ásamt því að vera hönd dauðans yfir framtak og sköpun einstaklingsins og fyrirtækja hans.
Raforkumarkað Orkupakkans, sem bjó til á einni nóttu gróðaleið gróðapunga til að hækka raforkuverð til heimila, til fyrirtækja, til bænda, til allra sem skapa gott og hagsælt samfélag, gegn grósku og gróanda.
Auk margs annars.
Kveðjan gat jafnvel kyngt lygum Ingu Snæland þegar hún afsakaði undirgefni sína við fjármálaráðherra Viðreisnar, Nýfrjálshyggjuna, svikin við kosningaloforð Flokks fólksins, með þeim orðum, að fjárlögin sem hún samþykkti í aðdraganda kosninganna, hefðu bundið hendur hennar.
Það er ekki Kveðjunnar að benda á ómerkilegar lygar og fyrirslátt.
En það er ekki hægt að þegja, þegar ekkert, það er einstaklingur sem er ekkert, nema að vera svona varta á flokki Ingu Snælands, varta sem er alfarið, og nákvæmlega ekkert annað, en mögnuð persóna Ingu Snæland, réttlætir tilveru hennar, með rökum sem lesa má um í tilvitnaðri frétt Mbl.is.
Bókun 35, svik Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar við sjálfstæði þjóðarinnar, bókun sem gerir svo ég vitni í háðungina um vörtuna; "Bókun 35 gengur í grunninn út á það að ef EES-samningurinn og önnur íslensk lög stangast á, þá gildi EES-löggjöfin nema skýrt sé tekið fram af Alþingi að svo sé ekki".
Er stefna Flokks fólksins í dag.
Og Jæja, svo ég sér kurteis, þó ég sjái engar málsbætur með þeim sem seldi sig fyrir völd, þá skal ég hætta að minnast á vörtur, og vísa í það embætti sem sjálfstæð þjóð ákvað að stofna, og taldi og miðað við afhroð ESB flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, að skipti ennþá máli.
Þá er þetta haft eftir Eyjólfi Ármannssyni, Samgöngu og sveitastjórnarráðherra; "En þetta er ekkert stórmál og það sem mér finnst skipta mestu fyrir mitt kjördæmi er að það verða 48 dagar í strandveiði. Það er stóra málið, segir Eyjólfur".
Við afleggjum sem sagt sjálfstæði þjóðarinnar segir Flokkur fólksins fyrir 48 daga í strandveiði.
Ófullur, vonandi með fullu viti.
En svo ég vísa í fyrirsögn þessa pistils, mikið má sá vera heimskur sem gleypir þetta kjaftæði.
Fávitatal í boði Ingu Snæland.
Völd er það vinur minn.
Völd.
Sjálfstæði!!
Hvað er það??
Kveðja að austan.
![]() |
Segir bókun 35 ekki hafa áhrif á stjórnarsamstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 331
- Sl. sólarhring: 816
- Sl. viku: 4794
- Frá upphafi: 1457742
Annað
- Innlit í dag: 289
- Innlit sl. viku: 4148
- Gestir í dag: 277
- IP-tölur í dag: 276
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar