27.1.2021 | 09:14
Alvara er aldrei tekin alvarlega.
Ef þeir sem framfylgja henni sína ekki alvöru gagnvart brotum á henni.
Vissulega hefði verið drastískt að negla fyrir glugga og hurðir og kveikja í staðnum, öðrum til viðvörunar, en að slepptri íkveikjunni þá á lögregluna að kalla út björgunarsveit og biðja hana að koma og negla fyrir viðkomandi veitingastað.
Tíminn sem tekur að bíða eftir björgunarsveitinni er nægur fyrir vitleysingana að koma sér út.
En djóklaust, það þarf að taka á svona brotum af fullri hörku, það er eina von okkar til að komast út úr herkví sóttvarna.
Nú er fótboltinn kominn á skrið og það er ennþá áhorfendabann, vegna þess að við klárum ekki dæmið og útrýmum smitinu algjörlega úr samfélaginu.
Slíkt er aðeins verkefni en af einhverjum ástæðum heykjast menn á því.
Með þeim afleiðingum að súpan er okkar, við sitjum öll í henni.
Þetta er ömurleg frétt.
Ekki vegna vitleysisgangsins, vitleysingar eru og verða alltaf til og það býr einhver vitleysingur í okkur öllum, heldur vegna þess að ennþá er róið í sömu knérum viðurlaga sem virka ekki.
Ásetningarbrot rekstraraðila á að þýða tafarlaus lokun rekstrar hans.
Ekkert flókið við það.
Aðeins þannig skilja menn alvöruna, og láta ekki reyna á hana.
Allt annað er endalaus ávísun á síbrot.
Þar sem menn elta skottið á veirunni, í stað þess að einangra hana og útrýma.
Feisum þetta.
Hættum þessum barnaskap.
Og gerum það sem þarf að gera.
Kveðja að austan.
![]() |
Brutu lög og héldu dansleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2021 | 18:19
Að fella út lagaheimild fyrir útgöngubanni!!
Ljómandi samstaða um heimsku og hálfvitaskap.
Ef eitthvað lýsir andlegu atgervi þorra þingmanna sem hafa hlaðist á þing eftir Búsáhaldabyltinguna þá er það þessi samstaða gegn meginkjarna allra sóttvarnalaga, gegn grundvelli þeirra.
Sem er að geta lokað á smitleiðir drepsótta, því þegar lækning er ekki til, þá er slík neyðarráðstöfun eina vopn samfélagsins gegn hinum smá vágesti sem ekki sést, en smitar og drepur ef smitleiðir eru opnar.
Við þurfum ekki að spyrja okkur hvað hefði gerst ef breska afbrigðið, eða það sem kennt er við Suður Afríku eða Brasilíu, afbrigði sem sannarlega eru stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, og smitar margfalt á við fyrstu smitbylgjuna, að þau hefðu líka verið banvænni þannig að dánartíðni veirunnar hefði færst niður aldursskalann, að þá væri mannkynið að upplifa fordæmalausa tíma, og eina vopnið væri algjört útgöngubann þar til veiran fyndi ekki nýja hýsla og dæi þannig út.
Eitthvað svo augljóst, en við eigum ekki að þurfa að spyrja slíkra spurninga, okkur dugar að sjá ástandið allt í kringum okkur.
Útgöngubann er meira eða minna normið, síðasta úrræðið svo heilbrigðiskerfin hrynji ekki og þá með óþekktu mannfalli.
Og þá myndast áður óþekkt samastaða í velferðarnefnd Alþingis um að hundsa þann raunveruleika, með vísan í eitthvað orðagjálfur um frelsi og mannréttindi, og taka úr löggjöfinni eina vopnið sem virkar á slíkum Ögurstundum.
Hvílík úrkynjun og forheimska.
Það er ekkert sem réttlætir lengur setu þessara þingmanna sem bera ábyrgð á þessu meirihlutaáliti, sjái þeir ekki að sér, þá ber forystu viðkomandi þingflokka skýlaus skylda að krefja þá um afsögn, hlíti þeir því ekki, þá ber henni að virkja öll neyðarráð stjórnarskrárinnar um að setja viðkomandi í bönd og vista þá á Klepp.
Enginn stjórnmálaflokkur, fyrir utan Pírata, hefur það sér til afsökunar að viðkomandi flokkar séu framboð um viðrinishátt og heimsku, hvað sem veldur, þá er þetta eitthvað sem má ekki líðast.
Á tímum drepsóttar og hinnar dauðans alvöru.
Það er aðeins einn aðili sem er dómbær á innihald sóttvarnarlaga, og það er sóttvarnaryfirvöld.
Gangi lögin of skammt, þá er það þeirra að benda á.
Séu þau of flókin eða jafnvel íþyngjandi, þá er það líka þeirra að gera athugasemd.
Almennir þingmenn eru aldrei til þess bærir, hafa hvorki menntun eða þekkingu til að ráðskast með slík lög.
Þó kóvid hefði ekki komið til þá eru þetta augljós sannindi.
Í heimi þar sem sýklar og veirur eru vopn, þá er augljóst að sóttvarnarlög þurfa að vera skilvirk, að þau verndi, að þau geri yfirvöldum kleyft að grípa til varna, á meðan einhver tími er til þess.
Í þessu samhengi verðum við að treysta yfirvöldum að fara rétt með, að ráðstafanir séu aldrei meir íþyngjandi en efni standa til.
Vonandi er heimskan og hálfvitahátturinn óhapp sem í raun enginn veit af hverju gerðist, og viðkomandi þingmenn hafi algjörlega lokast, misst alla dómgreind, að þetta sé ekki í raun þeir.
En ef ekki.
Þá hefur þetta fólk engan tilverurétt lengur á þingi.
Verður að víkja, með góðu eða illu.
Um það er ekkert val.
Kveðja að austan.
![]() |
Stendur til að fjarlægja útgöngubannsákvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2021 | 14:54
Aðeins ga ga fólk lætur sér detta annað í hug.
Því allar fórnir eru til einskis ef það er slakað á of snemma, þá grefur veiran aðeins um sig aftur, og hringekja sóttvarna sem eltist við fjölda smita hefst á ný.
Þar til lásarnir eru teknir fram.
Við höfðum sigur í vor, þá opnaði barnaskapur landamærin á ný fyrir innflutningi á nýrri smitbylgju.
Þetta var að ganga í byrjun haustsins, en þá datt fólk í það í Reykjavík, fór í ræktina og þriðja bylgjan reis. Einhvers konar blanda af óheppni og líklegast var slakað á of snemma, eða menn voru ekki nógu strangir gagnvart líkamsrækt og íþróttaiðkun í lokuðum rýmum.
Núna getur aðeins klár heimska í bland við vitfirringu skýrt þá ákvörðun að slaka á meðan veiran er þarna ennþá úti.
Hins vegar má læra af reynslu vorsins þegar random sýnatökur Íslenskrar erfðagreiningar ásamt að fullskima þau bæjarfélög sem voru í úrvinnslusóttkví, þefaði uppi síðustu leyfar veirunnar.
Af hverju er nýja græjan ekki nýtt til að fara í fjöldaskimarnir sem eru unnar útfrá tölfræðigreiningum á líklegstu felustöðum veirunnar??
Af hverju þetta nöldur um að fólk sé hætt að mæta í skimanir þó það fái kvef eða kverkaskít, í stað þess að spyrja; Hvað þurfum við að gera til að sigra veiruna endanlega??
Þetta eru nefnilega engin geimvísindi og veiran er ekki ósýnilegur óvinur sem skilur ekki eftir sig neina slóð.
Þetta snýst aðeins um vit okkar og þekkingu, að við virkjum það, og nýtum það til að eyða hinum banvæna óvin.
Auk þess að flýta fyrir að hið eðlilega daglega líf verði aftur boðið velkomið, þá fæst við slíka herferð lífsnauðsynleg þekking, því það veit enginn hvenær veiran laumar sér aftur inn.
Sérstaklega þegar við höfum ekki manndóm til að stöðva öll óþarfa ferðalög til og frá landinu, eins og við höfum ekki ennþá áttað okkur á hinni dauðans alvöru. Svarið við hinu sorglegu slysi fyrir vestan var ekki sem slíkt að unga fólkið hefði átt að fá sóttvarnarathvarf við Keflavíkurflugvöll, heldur að ferð þess var óþörf, undir öllum tilvikum hættuleg þeim og því samfélagi sem hafði veitt því athvarf og vinnu.
Óþarfa flandur eins og lífið sé leikur, mun fyrr eða síðar, hleypa veirunni framhjá vörnum þjóðarinnar, og þá getur hún verið miklu meir smitandi og jafnvel illvígari miðað við síðustu fréttir frá Bretalandi og Suður Afríku, og þá er eins gott að hafa þróað tæki og tólk til að mæta henni strax í byrjun og útrýma.
Þetta er ekki búið.
Þetta er aðeins að byrja.
Fyrstu mánuðir fyrri heimsstyrjaldar, og fyrstu mánuðir seinna stríðs áttu sammerkt lognmollu andvaraleysis og þeirrar sjálfsblekkingar að trúa að hildarleikurinn stæði stutt yfir, allt yrði gott í haust eða að ári, sem varð ekki því það voru engar forsendur fyrir því.
Það er eins í dag.
Þetta er rétt að byrja.
Bólusetningar ganga hægar en vonast er til, kallast raunveruleiki tregðunnar, fávitaháttur sem kenndur er við meðalhóf í sóttvörnum hefur séð til þess að veiran hefur grafið svo djúpt um sig víða, að hún smitar svo marga að óhjákvæmilega stökkbreytist hún og verður illvígari, því þó þau tilvik eru margfalt færri en hin meinlausu, þá er útbreiðslusvæði hennar það stórt að hin illvígu tilvik breiðast út, hratt, sýkja fleiri, og drepa fleiri.
Og á meðan við höfum ekki lyfin, þá höfum við aðeins sóttvarnirnar.
Nei, við erum ekki ga ga þegar á reynir.
En við getum verið skynsamari.
Einbeittari í vörnum okkar.
Og að lokum.
Hvar er Hamfarasjóður heimilanna??
Er ófriðurinn um stjórnarskrána eða eignarhald á bönkum hugsaður til að það brýna þjóðþrifamál komist ekki á dagskrá??
Í trausti þess að allt verði orðið gott í haust??
Vonandi ekki því þetta er ekki búið.
Rétt að byrja.
Og það þarf að gera það sem þarf að gera.
Ekkert flókið við það.
Kveðja að austan.
![]() |
Ótímabært að spá í frekari tilslakanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2021 | 22:21
"Því sóttvarnareglur hafi ekki verið nægjanlega harðar".
Segir örmagna læknir á gjörgæsludeild Hospital del Mar í Barcelona, vísar í yfirfullar deildir og það sem verra er, og í raun það versta, örmagna starfsfólk.
Nær að ramma inn kjarna alvarleika þessarar drepsóttar sem engu eirir, nái hún að breiðast út, óheft eða lítt heft.
Alvarleiki sem vestræn þjóðfélög hafa ekki kynnst í raun, því alltaf hefur skynsemin og þekkingin náð að yfirstíga hina forheimsku fávita sem tala um meðalhóf í sóttvörnum, og því miður hafa stjórnað flestum vestrænum samfélögum.
Líklegast er aðeins ein undantekning, ung heilbrigð kona sem er forsætisráðherra Nýja Sjálands, var það í upphafi faraldursins, og hafði vit og skynsemi að hlusta á ráð sérfræðinga þjóðarinnar á því sviði sem kennt er við sóttvarnir, einu sinni mikilvæg þekking sem bitur reynsla ítrekaða drepsjúkdóma skóp, en í dag í raun löngu gleymd, aðeins tregðan gagnvart breytingum skýrir að embætti til dæmis sóttvarnalæknis sé ennþá til í þeirri mynd sem við þekkjum, margt hagræðingargáfumennið hefur örugglega lagt til afnám þessa embættis, verkefnum þess hefði örugglega mátt sinna með öðrum veigameiri og nútímalegri.
Þess vegna er drepsóttin því sem næst stjórnlaus í dag, þrátt fyrir hertar sóttvarnir flestra ríkja í nóvember og desember.
Vandinn er og var, þær voru hertar of seint, eftir á þegar drepsóttin hafði grafið um sig djúpt í samfélögum fólks, smitstuðulinn náðist vissulega niður, en þegar sóttin er útbreidd, þá dugar ekki að hemja hana nema hann fari niður fyrir 1, jafnvel einn komma núll eitthvað getur verið ávísun á veldisvöxt, sérstaklega þegar drepsóttarveiran stökkbreytist og margfaldar sýkingarstuðul sinn.
Aðeins algjör lokun á smitleiðir hennar, þannig að einn smitaður einstaklingur eigi ekki möguleika til að smita allavega annan, heldur að smitstuðul margra verður innan við 1, það er núll komma eitthvað, dugar þegar svona er komið.
Á þetta bendir gjörgæslulæknirinn í Barcelona, i raun sjálfsagt frelsi um ferðalög yfir jólin, skilar sér beint í dauða ástvina og ættingja.
Eitthvað sem vitað var fyrir, en yfirvöld í raun lokuðu augum fyrir, líklegast vegna þess að fleiri en færri vildu taka áhættuna.
Það var ekki þannig að einhver segði að frelsi til að ferðast væri æðra mannslífum, heldur vonaðist fólk til þess að þetta gengi.
Sem það augljóslega gerði ekki, enda aldrei von á öðru.
Veirur drepsóttarinnar skilja ekki orðaleppa eins og meðalhóf í sóttvörnum, eða að nú sé tími, eins og jólin, þar sem önnur lögmál gilda en smitstuðull þeirra eða alvarleiki gagnvart heilsu þeirra sem smitast.
Þær einfaldlega smita eða drepa fái þær til þess tækifæri, með þekktum afleiðingum, þær smita ekki eða drepa sé skorið á smitleiðir þeirra.
Einfaldar staðreyndir sem vestræn samfélög lærðu í vor, en einhver óútskýranleg forheimska eða hálfvitaháttur fékk stjórnvöld flestra landa til að gleyma þegar sólin fór að skína skært í sumar, ekki bara með þeim afleiðingum að grasið fór að gróa og ávextir að þroskast á trjám, heldur líka með því að sóttvarnir innan landa, og milli landa hurfu hraðar en hitamet féllu, þó féllu þau hratt vegna hlýnunar jarðar.
Þess vegna deyr fólk í dag, á Spáni, á Bretlandi, í Svíþjóð, Tékklandi, Belgíu, Frakklandi, í svo ótalmörgum löndum, að ekki sé minnst á Ítalíu þar sem seinni bylgjan hefur drepið hátt í tvöfaldan þann fjölda sem féll í vor, þá voru samt allir óundirbúnir, bæði almenn gjörgæsla eða þekking lækna á beitingu lyfja gagnvart sóttinni.
Þá vissum við ekki betur, í dag, í haust hefur fólk dáið þó við vissum betur.
Undirliggjandi skýring er forheimska og fávitaháttur leiðtoga okkar, sem að hluta til má skýra með áróðri fjársterkra afla sem eiga rann sinn og taug að rekja til hugmyndafræði frjálshyggjunnar, og hafa barist fyrir rétt veirunnar til að sýkja og drepa, að hún hafi sama rétt og við mennirnir, þau réttindi sem við kennum við okkur og köllum mannréttindi.
Þessi viðurstyggð, með falsi sínum og blekkingum (illvígt kvef, eins og hver önnur flensa) hefur þegar kostað hundruð þúsunda fólks lífið, miklu fleiri eiga eftir að falla, milljónir eru veikluð á eftir.
Samt er aðeins ein skýring á að ekki fleiri hafi fallið, það er nútíminn og þekking hans.
Það dóu miklu fleiri í plágunni, en þá var hámarkshraðinn sá hraði sem hestur komst, fjarlægð út í tómið aðeins sú sem þokkalegur sjónauki sá, í dag keppir hestur ekki við Ferrari, eða Hubbel sjónaukinn við góðan kíki, aðeins dæmi um framþróun sem líka hefur átt sér stað í læknavísindum.
En að baki þeirri framþróun er fólk, af holdi og blóði, dags daglega köllum við það heilbrigðisstarfsfólk.
Sem er að örmagnast, er á síðustu blóðdropunum, og samt er farsóttin í vexti.
Samt í eins litlum vexti og harðar samfélagslegar lokanir leyfa henni, í mörgum löndum á aðeins eftir að loka öllu, að gefast upp á daglegu lífi því það er fátt annað sem hægt er að herða.
Ef ekki, þá hrynur heilbrigðiskerfið, ekki aðeins með þeim afleiðingum að dánartölur geti alltaf fimmfaldast, heldur líka fellur fólk úr öðrum sjúkdómum sem eru banvænir þannig séð, en auðvelt að lækna með nútíma þekkingu, tækjum og tólum.
Síðustu, ekki fyrstu, aðvörunarmerkin eru fréttir um yfirfullar deildir og örmagna starfsfólk, eða líkt og sagt var frá Bretlandi í fyrradag, að spítalar minntu á stríðstíma, þar sem óvinurinn væri veiran.
Við lifum þá tíma í dag.
Aðeins vonin um að harðar sóttvarnir snúi þróuninni við heldur lífi í mörgum heilbrigðiskerfum vestrænna þjóða í dag.
Og að bólusetningin virki áður en allt hrynur.
Samt erum við aðeins að glíma við veiru, skynlausa sameind sem varla getur talist lífvera, en hefur samt gengið svona nærri okkur.
Ef ástandið væri alls staðar eins slæmt, að hún hefði alls staðar gengið eins nærri okkur, þá gætum við sagt, að fátt hefði verið til varnar.
En það er ekki bara svo, gapið skilur á milli þekkingar og fávitaháttar.
Og fátt lýsir þessum fávitahætti betur en orðaleppurinn um Meðalhóf í sóttvörnum, og fá lönd hafa sótt lengra inná þær lendur heimskunnar en Noregur þegar Stórþingið þar afnam nauðvörn stjórnvalda um brennivínssölubann brennivínssala sem kenna sig við krár og öldurhús.
Firringin þar að baki með vísan í einhver frelsis og mannréttindarákvæði, meðalhóf eða annars sem afneitar alvarleika drepsóttarinnar, staðfesti aðeins þá úrkynjun sem gerði einum manni með byssu kleyft að drepa tugi ungmenna fyrir fram nefið á aðgerðarlausri löggæslu eða aðgerðarlausum almenningi.
Lífið er svo sjálfgefið að fólk kann ekki lengur að verja það.
Þess vegna eigum við að þakka fyrir það sem við höfum.
Að þjóðin leyfði ekki þessari úrkynjun að skjóta rótum, að hún var það heilbrigð að styðja sóttvarnaryfirvöld þegar þau tóku af skarið og lýstu yfir stríði við veiruna, og neyddu þar með stjórnvöld til að fylgja þeim, þrátt fyrir háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að veiran, þetta smæsta af hinu smáa, hefði ekki minni rétt til lífs en við hin, sem teljumst vera fólk og manneskjur.
Gleymum því samt aldrei að þessi úrkynjun ber beina ábyrgð á ótímabæru andláti hátt í tuttugu einstaklinga, sem og að samfélagið hefur verið í fjötrum óþarfra sóttvarna hátt í fjóra mánuði.
Gleymum því ekki heldur að það þurfti beina uppreisn löggæsluyfirvalda (sjá viðtal við yfirmann sóttvarna á landamærum) til þess að ríkisstjórnin hætti loksins að draga lappirnar gagnvart lokun á þeirri glufu sóttvarna að leyfa fólki að þykjast fara í 14 daga sóttkví, í stað þess að vera skimað við komu, og svo aftur eftir 5 daga.
Gleymum heldur aldrei flóttaviðbrögðum forsætisráðherra þegar hún varði hina óskiljanlegu tregðu með orðaleppnum um að stjórnvöld vildu alltaf gæta meðalhófs í sóttvörnum, eins og veiran skilji þetta meðalhóf, eða annan tilbúinn lagatexta.
Eins og að hún sé vitsmunavera og hafi lært þrætubókarlögfræði frjálshyggjunnar, sem hefur í áratugi barist fyrir frelsi Örfárra auðmanna til að ræna og rupla okkur hin, og hefur núna tekið upp á arma sína frelsi kóvid veirunnar til að drepa okkur að auki.
Gleymum því aldrei, aðeins þannig kunnum við að meta þó það sem við höfum.
Ísland eins og það er í dag.
Veirufrítt, að hryllingssögunnar eru erlendar, eitthvað sem við þurfum að varast, en er ekki.
Og já, já já, við eigum stjórnvöldum okkar mikið að þakka.
Og við eigum að þakka fyrir að mjög margt er gert, og ekki hvað síst, reynt að gera, til að þjóðin komist heil, vissulega sködduð enda ekki annað hægt, en samt heil, út úr þessum hremmingum.
Við eigum að þakka fyrir að margt má betur gera, þá vitneskju höfum við vegna þess að margt hefur verið gert, og þá vitneskju nota stjórnvöld til að gera betur.
Eins og við klúðruðum eftirmálum fjármálahrunsins kennt við haustið 2008, þá höfum við náð að halda sjó í þessum hremmingum, og ekki hvað síst sem í raun skiptir mestu máli, náð að halda þjóðarskútunni með stefnið uppí ölduna og vindinn, óveðrið er ekkert að baki, líklegast er það versta framundan, en það er ekkert sem bendir til að við höldum þetta ekki út.
Við eigum að þakka fyrir það.
Slíkt er aldrei sjálfgefið.
Allra síst í því forystuleysi sem einkennir samtíma okkar.
Við þökkum fyrir það með því að halda haus.
Að gefa ekki eftir þegar raddir úrtölunnar hvísla í eyru okkar að nú sé tíminn til að slaka á, að þetta sé í höfn, eins og óvinurinn sé ekki lengur meðal okkar.
Að við höldum okkar striki þar til ekki lengur er neitt strik til að feta.
Að við séum frjáls.
Að við séu veirulaus.
Aðeins þá, en ekki fyrr, slökum við á.
En dýpsta þakklætið er sú samkennd að við séum þá öll eitt, að byrðar okkar séu sameiginlegar, að áföll eins sé áföll okkar allra.
Og sú heitstrenging að þó við náum ekki að bjarga öllum fyrirtækjum og öllum rekstri sem faraldurinn ógnar og mun eyða eftir því sem hann nær lengur að grafa um sig, að þá mun ekkert barn, engin fjölskylda missa heimili sitt vegna hans.
Því við erum eitt, þegar á reynir þá pössum við uppá hvort annað.
Það heit mun vísa okkur veginn í gegnum brotsjóina, gegnum storminn, gegnum erfiðleikana þar til við komust heil í höfn, tilbúinn í næstu ferð, sem verður ferð sóknar og afla.
Því öll ferðalög eiga sitt upphaf.
Allur endir sína byrjun.
Og jafnvel drepsótt og heimsfaraldur sína gjöf.
Þiggjum þá gjöf.
Þökkum fyrir hana.
Við erum eitt.
Látum ekki segja okkur annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Yfirfullar deildir og örmagna starfsfólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2021 | 13:59
Mogginn klofinn í herðar niður.
Nýráðinn hægri öfgamaður á ritstjórninni sér til þess að Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson, hafa fengið alla þá dálkasentímetra sem hugsanlegur efi um viðbrögð við drepsótt, sem Kóvid sannarlega er, getur skýrt.
Í því samhengi verður að hafa í huga að þegar höfuðvígi borgaralegs fjölmiðils leggur sig fram um að dreifa efa, hálfkveðnum vísum, eða vera alltaf fyrstur að kasta sig á vagn rangfærslna eða beinna lyga, og alltaf er stutt í vitnun viðkomandi þingmanna, að þá þjónar slíkt alltaf tilgangi.
Áróður verður aldrei til úr neinu, hann er aldrei án tilgangs.
Í þessu tilviki snýst hann um rétt veirunnar til að drepa tiltölulega óáreitt samborgara okkar, og þá vísað í að hún hafi sama frelsisrétt og maðurinn sem mannréttindi eru kennd við.
Áhersla Sigríðar á að persónulegar sóttvarnir hvers og eins, séu það eina sem samfélagið getur ætlast til að borgurum landsins, eða bein afneitun Brynjars á að kóvid sé drepsótt en ekki meint kvef, er eitthvað sem fær aldrei hvorki vigt eða flug í umræðunni, nema vegna þess að hluti ritstjórnar Morgunblaðsins lær ruglinu eyra, kemur því inní umræðuna, og myndar þar með tilbúinn þrýsting á það fólk sem ber ábyrgð á vörnum þjóðarinnar gagnvart kóvid veirunni.
Sem heldur skipti ekki máli ef þessi atlaga að lífi og limum þjóðarinnar nyti ekki beins stuðnings hjá börnunum sem einhver almannatengill samfærði Valhöll um að slíkt væri klókt uppá fylgi, og eru því fulltrúar flokksins í ríkisstjórn Íslands.
Með þekktum afleiðingum, landamærin voru opnuð í sumarbyrjun fyrir innflutningi á veirunni, og þegar ljóst var að slíkt myndi leiða til nýs faraldurs, þá höfðu börnin þau ítök, með vísan í áhugafólkið um rétt veirunnar til að veikla eða drepa samborgara okkar inna þingflokks Sjálfstæðisflokksins, dyggilega stutt af áróðursmaskínu hægri öfgafólks í netheimum að ekki sé minnst á hið beina hlutverk Morgunblaðsins, að fresta nauðsynlegum gagnráðstöfum um seinni skimum og sóttkví á milli.
Afleiðingar sem bera allavega beina ábyrgð á ótímabæru andláti 17 eldri borgara, fyrir utan samfélag í viðjum sóttkvíar.
Aldrei, aldrei hafa eins fáir einstaklingar valdið samfélagi sínu eins miklu tjóni eins og þau sem beina ábyrgðina bera að franska veiran var ekki stöðvuð á landamærunum.
Samt má aldrei gleyma því að fleiri eru ábyrgir, ríkisstjórnin sem heild getur ekki þvegið hendur sínar, þó hún fengi lánað þvottakar Pílatusar sem geymt er á fornminjasafni Jerúsalemborgar, á að glufan á landamærunum, kennd við 14 daga sóttkví var ekki lokuð fyrr en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hótaði óbeint rannsókn og handtöku á þeim hagsmunum sem hindruðu hina sjálfsögðu ráðstöfun.
Sjaldan hefur eins mikil fáviska verið orðuð með eins miklum kækjum og þegar Katrín Jakobsdóttir sagði að ríkisstjórnin hefði ekki varið þjóðina því hún gætti alltaf meðalhófs í sóttvörnum.
Eitthvað sem væri trúverðugt ef hún væri lögfræðingur, lært stjórnmálfræði undir handleiðslu Hannesar, og væri með vottorð um að hún væri löggilt fífl. Og hefði þá bætt við að hún ætlaði í kjölfarið að gæta meðalhófs í sölu bankanna, hófið væri að byrja að selja Íslandsbanka í miðri heimskreppu kóvid faraldursins.
Svo kemur Mogginn með þessa frétt.
Bólusetningin er ekki lyfleysa, hún hefur áhrif, það fylgja henni aukaverkanir.
Og maður spyr sig, um öll þau börn, sem talin eru í tugþúsundum, sem hafa fengið vörn gegn bráðasýkingum, frá því að pensillínið kom fyrst á markað upp úr seinna stríði, eða losnað við illvíga barnasjúkdóma vegna bólusetninga undanfarinna 70 ára eða svo, er líf þeirra eða heilsa einskis metin þegar hinar óhjákvæmilegu aukaverkanir eru settar á vogarskálarnar??
Vissulega sjálfsögð umræða, en þegar hægri öfgamaðurinn á ritstjórn Morgunblaðsins nýtir sér bakland sitt úr eigandahópi Morgunblaðsins til að róa sífellt í þau kné að básúna út óhjákvæmilegar aukaverkanir, eða gera andlát tortryggileg, þá er ljóst að ennþá er vísvitandi vegið að lífi og limum okkar hinn, borgara þessa lands, þjóðarinnar.
Eitthvað sem er eitt af því lægsta sem fólk getur bendlað sig við.
Langur aðdragandi, var næstum búinn að gleyma hvað kveikti á lyklaborði mínu, en fyrirsögnin vísar í að einhver á ritstjórn Morgunblaðsins er ekki samdauna dauðastefnu hægri öfganna sem eigendur Morgunblaðsins hafa á einhvern hátt talið sína skyldu að ljá vægi í ritstjórn blaðsins.
Staksteinar dagsins vitna í sjálfan eldklerkinn, Gunnar Rögnvaldsson sem ekki bara hefur messað yfir EES samningnum eða sjálfseyðingarferli Evrópusambandsins, heldur líka gagnrýnt harkalega þau öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem hafa nagað niður sóttvarnir þjóðarinnar.
Staksteinar vitna í pistil Gunnars, sem er skyldulesning fyrir allt sjálfstætt fólk, sem og aðrir pistlar hans, og þar má þetta lesa;
"Þeir sem segja sóttvarnir við landamærin og innanlands óþarfar og jafnvel ekkert gagn gera, hljóta að minnsta kosti að taka þessum rökum þó svo að þeir taki beinum fólksvörnum fálega.
Um það bil 37.500 manns liggja nú á sjúkrahúsum Bretlands vegna kínversku Wuhan-veirunnar og þar af eru um það bil 3.900 í öndunarvélum.
Staðan í Þýskalandi er að 22.000 manns liggja á sjúkrahúsum landsins vegna veirunnar og þar af eru 5.000 á gjörgæslu. Samt er Þýskaland ekki enn á sama stað í veiruferlinu og Bretland.".
Lítið dæmi um heim þar sem óheftur faraldur sýkir allt og alla, stökkbreytist, verður illvígari með hverri frelsismínútu sem honum er gefið.
Það er ekki bæði sleppt og haldið.
Að upphefja Sigríði fer ekki saman við að vitna í Gunnar.
Hvað þá að rangtúlka fréttir líðandi stundar svo þær falli inní fyrirfram ákveðinn áróðursvinkils fólks sem er það sjúkt í sinni, að það tekur frelsi veiru til að drepa fram yfir rétt fólks til lífs.
Vissulega er hugsanlegt að hægri öfginn á ritstjórninni hafi talið pistil Gunnars vera almenna gagnrýni á sóttvarnir, hafi ekki skilið efni hans og innihald.
Þýtt á mannamál, að hann sé svona heimskur.
Og að næsti Staksteinar vitni í meinta fræðimenn sem tala um illvígt kvef og kóvid í sömu andrá.
Eða hina aumkunarverðu af öllum hinu aumkunarverðu, fólkið sem talar niður sóttvarnir þjóðarinnar með vísan í árangur þeirra, að hann sanni að þær hafi verið óþarfar.
Held samt ekki.
Það eru átök innan ritstjórnarinnar.
Og allavega hluti hennar er í liði með þjóðinni.
Kannski barnalegt viðhorf.
En hitt er svo illt, að maður vill ekki trúa því.
Ekki um blaðið sem hefur fylgt manni alla tíð.
Kveðja að austan.
![]() |
86 tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2021 | 22:32
Vér hinir hneyksluðu.
Höldum ekki vatni þessa dagana.
Árás óeirðarseggja, skríls, múgs, hefur ofboðið tilfinningum okkar.
Svona gerir fólk ekki gagnvart valdinu.
En þó ég sé ekki beint besti vinur Trump, og verð seint talinn í aðdáandahópi hans, þá tel ég að ein af forsendum lýðræðisins sé að menn fari rétt með, segi frá því sem gerðist, eins og það gerðist, en blandi ekki tilfinningum sínum eða pólitískum skoðunum inní frásögn sína.
Það er ef menn vinna á fjölmiðli sem fólk kaupir í þeirri góðu trú að hann segi satt og rétt frá.
Um það er ekki deilt að fjölmenn mótmælaganga endaði fyrir framan Capitol Hill, og um það er ekki deilt að sumum í þeirri göngu var heitt í hamsi, og þegar þeir sáu óvarið þinghús, og örfáa almennar löggur á verði, þá langaði þeim inn til að segja sitt álit á því sem átti sér stað innandýra.
Án þess að hafa til þess heimild, án þess að vera boðið.
Var þetta árás, vissulega, samt ekki eins gróf eins og árás órólegu deildarinnar í Samfylkingunni og grjótkastadeildar VG á þinghús okkar í ársbyrjun 2009. En hugsanlega grófari en þegar Össur stúdentaleiðtogi og félagar lögðu undir sig menntamálaráðuneytið 1976 til að mótmæla lögum um námslán.
En voru þetta óeirðarseggir??, ef svo er, hvað er þá allt það fólk sem hefur mótmælt á leiðtogafundum G-8 ríkjanna, Nató fundum eða öðrum samkomum þar sem þungvopnað lögreglulið gætir fundarstaða, heilu götunum og jafnvel hverfunum er lokað í öryggisskyni, og svo er allt í báli og brandi, rúður brotnar í verslunum, kveikt í bílum, heimatilbúnum sprengjum kastað að lögreglu og svo framvegis.
Er það þá bylting eða tilraun til byltinga, hvernig er hægt að nota sama orðið yfir hvorutveggja??
Ókei, fólk bauð sér í heimsókn inní hjarta lýðræðis Bandaríkjanna, því það var ósátt.
Það kom vissulega til stimpinga, en voru þær stimpingar eitthvað meiri en á góðum degi þegar reiðir franskir bændur mótmæla, eða öll þau skipti sem reiðir launþegar víðsvegar um heim hafa ekki sætt sig við að löggan meini þeim för??
Óeirðir, en hvar þá hin þungvopnaða óeirðarlögregla, hvar voru skyldir hennar og kylfur, þéttar raðir hennar til að verja óeirðarseggjum inngöngu, táragasið, gúmmíkúlurnar, vatnsbyssurnar, eða annað sem ég hef hingað til tengt óeirðum í vestrænum löndum??
Ég fékk mér vissulega ekki popp og kók þegar ég settist niður á miðvikudagskvöldið til að horfa á 10 fréttir Ruv, en ég átti von á myndskeiðum af kolvitlausu fólki sem barðist við óeirðarlögreglu, og hafði sigur.
Það eina sem ég sá var friðsamt fólk fyrir utan, og friðsamt fólk fyrir innan.
Engar vatnsbyssur, ekkert táragas, engar gúmmíkúlur eða lögreglumenn í aksjón við að lemja á mótmælendum fyrir utan og innan.
Það var eins og ég væri svikinn, að það væri engin innistæða að baki stóryrðunum.
Þá var sagt að Trump karlinn hefði staðið gegn því að kalla út þjóðvarðliðið, en undirmenn hans gert það í hans nafni.
Aftur ókey, þá verður fætingur.
En annað hvort er Ruv vilhallt Trump og falsar fréttaskeið um atburðina, því eina myndskeiðið sem það birti var af friðsömu fólki sem yfirgaf þinghúsið út um dyr þar sem tvær löggur virtust vera í hlutverki dyravarða, allt var mun friðsamara en þegar Siddi dyravörður með stóru Déi vísað skemmtanaþyrstu fólki út úr Egilsbúð í den í lok dansleikja.
Og aldrei hafði ég hugmyndaflug að bendla þá athöfn við óeirðir, þó Siddi hafi stundum þurft að hnykla vöðva þegar menn vildu inn aftur.
Það var ekkert þjóðvarðlið sem ruddi þinghúsið, það voru engin átök.
Aðeins boðflennur sem fóru með friði.
En það lést lögreglumaður, og það er vissulega ákaflega sorglegt, enda á fólk ekki að bjóða sér í heimsókn í þinghús til að hindra störf þess.
Því það er skylda lögreglumanna að verja þeim inngöngu, og þegar til handalögmála kemur, þá gerist því miður margt.
Fólk getur verið skotið, það getur fengið hjartaáfall í æsingnum, og það getur borið ábyrgð á dauða lögreglumanna sem voru aðeins að gera skyldu sína.
En ekkert réttlætir þessa fyrirsögn Morgunblaðsins frá því í morgun þegar því var slegið fram í Sun-æsifréttastíl að Lögreglumaður hafi verið drepinn af múgnum.
Að því gefnu að viðkomandi blaðamaður hafi ekki annað hvort verið í því, eða illa timbraður, þá hlaut hann að skilja efni þeirrar fréttar sem hann þýddi úr erlendum tungum, því þar kom skýrt fram að viðkomandi lögreglumaður var ekki drepinn af einum eða neinum. Ekki nema þá hann hafi gengið aftur.
"Eftir átökin við mótmælendur missti hann meðvitund þegar hann sneri aftur á sína starfsstöð og var fluttur á sjúkrahús.".
Drepnir lögreglumenn snúa ekki aftur á sína starfstöð, særðir lögreglumenn eftir átök ekki heldur, þeim er komið á sjúkrahús, líka í fátækustu og vanþróuðustu löndum heims.
Hvaða bull er þetta, hvað vanvirðing er þetta gagnvart vitsmunum lesendum Morgunblaðsins??
Þetta er farið að minna á gamla frétt þar sem eldri kona var skotin þegar hún tók þátt í friðsömum mótmælum, eftirá skýring lögreglunnar var að hún hefði ógnað vopnaðri lögreglu með regnhlíf. Auðvitað alveg stórhættuleg.
Og já, síðan var svona fréttaflutningur algengur í Sovétinu og fylgiríkjum þess í den.
Og hver hefur gleymt fréttum ríkisfjölmiðla í Kína þegar því fjálglega lýst hvernig friðsamur stúdent ógnaði áhöfn á skriðdreka með því að standa kyrr, og því var hún nauðbeygð að kremja hann til bana undir beltum sínum. Sem og reyndar líka nokkur þúsund til viðbótar.
Það var nefnilega þannig að einu sinni þekktu vestrænir fjölmiðlar muninn á réttu og röngu, og tættu í sig svona heimskulegan áróður og vitleysu.
En ekki í dag.
Núna finnst þeim sjálfsagt að greina frá áformum um valdarán gegn sitjandi lýðræðislega kjörnum forseta.
Og ekki þau fyrstu frá því hann var kosinn.
Við skulum allavega segja, að það var af sem áður var.
Eða eins og þjóðskáldið sagði í tregatón.
Núna er Snorrabúð stekkur.
Kveðja að austan.
![]() |
Væri hægt að víkja Trump úr embætti? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.1.2021 | 22:54
Svona gerum við ekki, skammastu þín.
Er efnislega það sem Bill Barr segir við fyrrum leiðtoga sinn, Donald Trump.
Einhver hefði kannski sagt það sama yfir embættisfærslur Barr þegar hann reyndi að klæða geðþóttaákvarðanir Trump í einhvern lagalegan og embættislegan búning.
Og börnin sem voru aðskilin frá foreldrum sínum og sett í búr á landamærunum við Mexíkó, hefðu örugglega sagt það sama, það er Skammstu þín Barr, svona gerir ekki siðað fólk þó völd séu í boði.
En Barr er vorkunn, núna metur hann sína pólitíska stöðu að hún sé best tryggð með því að flýja Trump.
Eins og Trump beri ábyrgð á því að löggæsluyfirvöld brugðust algjörlega í aðdraganda yfirtöku friðsamra mótmælenda á þinghúsinu.
Miðað við myndir þá var Capitol Hill verr varið en þinghúsið við Austurvöll þegar órólega deildin í Samfylkingunni undir forystu núverandi formanns Stjórnarskráarfélagsins og eins af núverandi þingkonum Samfylkingarinnar gerði vanheilagt bandalag við þekkta grjótkastara í VinstriGrænum sem langaði svo rosalega í ríkisstjórn.
Þá var aðeins að etja við nokkur þúsundir mótmælenda, upp til hópa friðsamra enda aktívista deild Samfylkingarinnar og grjótkastadeild VG ekki fjölmenn samtök.
Við Capitol Hill voru hins vegar tugþúsundir mættir, til að mótmæla því sem fólkið taldi valdarán hins vanheilaga bandalags elítu auðs og stjórnmála.
Vitað fyrirfram í margar vikur, og samt voru aðeins örfáar löggur mættar, kannski var restin ennþá að jafna sig á átkökum liðins árs sem demókratar kynntu linnulaust undir og töldu vera sjálfsagaðan rétt fólks til að mótmæla kerfi sem beitti kerfisbundinni mismunun á fólki eftir litarhætti þess og kynþætti.
Þau átök voru ofbeldisfull, þeir sem kynntu undir, héldu áfram að kynda undir, þó ljóst væri að mótmælin væru löngu orðin að ofbeldisfullum skrílslátum, ollu miklu eignatjóni, sem og þúsundir lögreglumanna meiddust þegar þeir fáliðaðir reyndu að vernda eignir borgaranna, sem og að slá á skrílslætin.
Fólkið við Capitol Hill var hins vegar friðsamt, og það labbaði inn í heimsókn þegar enginn hindraði för þess.
Að sjá ekki muninn lýsir aðeins þeim sem lýsir.
Ekki að það réttlæti þinghústökuna, en það gerist margt í hita leiksins.
Þess vegna er jú löggæsla nauðsynleg til að hindra svona sorgaratburði.
Breytir samt ekki því að það er réttur fólks að mótmæla þegar því ofbýður, Nixon hafði ekki rétt fyrir sér þegar hann kallaði Víetnammótmælin skrílslæti og aðför að lýðræðislegum kjörnum stjórnvöldum.
Þá féll þinghúsið hins vegar ekki, þrátt fyrir mikil læti, og jafnvel ofbeldi á köflum, því þá var löggan mætt, og varði stofnanir samfélagsins.
Það er því kaldhæðni að lesa og hlusta á vandlætingu 68 kynslóðarinnar þegar hún fordæmir atburði gærdagsins, það er eins og hún hafi reykt það mikið hass að hún muni ekki sínar eigin gjörðir.
Eins er hlálegt þegar fréttaveitur og fréttamiðlar byrja fréttir sínar á því að segja að 4 hafi látist eftir árás múgsins.
Vissulega er þetta fólkið sem vinnur erfiðisstörfin á smánarkaupi eftir að frjálshyggja auðsins útvistaði störfum og keyrði niður laun vinnandi fólks, en þó sömu orðaleppar séu notaðir og gert var í árdaga verkalýðsbaráttunnar, þá eru þeir ekki réttari í dag en þeir voru þá.
Vinnandi fólk sem mótmælir er ekki múgur, og það létust ekki fjórir vegna mótmæla þess.
Lögreglan skaut einn mótmælenda, hinir þrír höfðu ekki heilsu í hasarinn, hefur sjálfsagt eitthvað með mataræði þess að gera, sem er ekki sjálfviljugt heldur afleiðing lágra launa og almennt lélegrar heilsugæslu.
Að halda svona fram er árás á raunveruleikann.
Gekk kannski í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20., en ekki í dag þegar raunmyndir segja allt sem segja þarf.
Og þær sýndu fólk sem gekk inn, var friðsamt, og fór út í friðsemd.
En var vissulega ekki á stað þar sem það var velkomið.
Ekkert í fréttamyndum af vettvangi líkjast á nokkurn hátt þekktum fréttamyndum af atlögu rauðliða að Alþingi þegar það samþykkti aðildina að Atlantshafsbandalaginu, betur þekkt sem NATÓ.
Engin líkindi eru við skrílslætin á Austurvelli sem á fínum degi var kennt við Búsáhöld, líkist ekkert ástandinu í París 1968, að ekki sé minnst á alvöru fæting líkt og þegar rússneskir sjóliðar gengu til liðs við byltingarmenn og tóku Vetrarhöllina 1917, atburður sem markaði upphaf rússnesku byltingarinnar sem kommúnistar síðan stálu og breyttu í ofbeldi og ógn sem tók tímann rúm 70 ár að eyða.
En auðvitað gera menn ekki svona, og auðvitað á Trump að skammast sín.
Sá sem tilheyrir elítunni, hann hvetur ekki lýðinn til mótmæla, ekki þegar leikreglur elítunnar eru undir.
Lýðræði segja menn líka en bandarísk stjórnmála hafa ekki átt skylt við slíkt í mörg, mörg ár, eða jafnvel marga marga áratugi.
Elítan í Sovétríkjunum hafði þó vit á að hafa bara einn flokk, og einn frambjóðanda, en sú bandaríska notar 2 flokka, og 2 frambjóðanda, og býður þar með þeirri hættu heim að magna upp átök, sérstaklega þegar fólk trúir því að það sé í raun lýðræði, og því hafi verið stolið frá því.
Í raunveruleikanum er samt ekki mikill munur á senatinu í Capitol Hill og senatinu sem stjórnaði Róm í árdaga veldis hennar.
Hvorutveggja er birtingarmynd fámennisstjórnar hinna auðugustu og voldugustu, og lifir og lifði aðeins þann tíma sem enginn einn er nógu voldugur að brjóta alla hina á bak aftur.
Í Róm fóru margir gegn þessu formlegu valdi senatsins, enginn hafði erindi fyrr en Sesar kastaði teningnum við Rubiconfljót 49 fyrir Krist.
Spurning hvort Trump sé að kasta slíkum teningi í dag.
Menn skyldu allavega ekki vanmeta hann.
Og flótti hýenanna segir ekkert til um stöðu hans.
Þar mun lýðurinn ráða.
Sama hvað elítan fyrirlítur hann, uppnefnir hann sem múg, ómenntað hyski, fólk sem viti ekki hvað það gerir, þá er samt elítan ekkert, ef enginn vinnur fyrir hana, ef enginn berst fyrir hana.
Það veit hún, en hennar gæfa er að lýðurinn veit það ekki.
En hann mun vita, fyrr eða síðar.
Það gerist alltaf þegar elítan hefur rænt hann inn að skinni, líkt og hún hefur gert núna á fjórða áratug í Bandaríkjunum undir nafni frjálshyggjunnar og afkvæmis hennar, alþjóðavæðingarinnar.
Svik vinstri manna við lýðinn, stuðningur félags og jafnaðarmanna við villimennsku alþjóðavæðingarinnar eða þess sem við upplifum sem fjórfrelsið í Evrópu, duga í dag til að fresta hinu óhjákvæmilegu uppgjöri, en það kemur líkt og flóðaldan í kjölfar þess að fjaran þornar upp, og svo vitnað sé í þá samlíkingu, flóðaldan verður aðeins öflugri, hærri og meira eyðandi, eftir því sem fjarar teygir sig lengra út í grunnsævið.
Þess vegna ætti elítan eiginlega að þakka Trump.
Hann er þó þeirra maður, jafnvel þó hann ætlist til þess að hún borgi skatta heima fyrir en ekki í skattaskjólum, jafnvel þó hann krefjist þess að hún flytji störfin heim, og borgi laun, ekki þrælalaun fyrir það sem unnið er.
Trump er nefnilega ekki byltingarmaður, heldur maður sem þráir völd, og völd sækir hann til lýðsins, vegna þess að hann skynjar hræringarnar, hann skynjar af hverju fólk er svona reitt, og af hverju það er búið að fá upp fyrir kok af valdaelítunni, hinu vanheilaga bandalagi auðs og stjórnmála.
Hann er mun betri kostur en sá sem nýtir sér sömu hræringar til að bylta, til að umbreyta, jafnvel til að útrýma þeirri valdastétt sem fyrir er.
Eiginlega ættu menn að þakka honum í stað þess að skammast svona í honum.
Hvað þá ef menn eru svo heimskir að ætla bylta honum frá völdum, örfáum dögum áður en hann lætur af embætti.
Það er nefnilega bylting, og þá er hann í fullum rétti að svara fyrir sig.
Að verjast, að ákalla lýðinn að koma sér til varnar.
Þá verða ekki friðsöm mótmæli.
Og hjá þjóð sem dýrkar vopn, og milljónir eru betur vopnuð en hermenn flestra herja heims, þá er ekki klókt að etja fólki gegn sér.
En það væri ekki svona komið fyrir bandarískum stjórnmálum ef menn væru klókir.
Þess vegna er vitleysingunum trúandi til alls.
Meðal annars að etja lýðnum gegn sér.
Hvort Trump er síðan annar Sesar er síðan önnur saga.
En hann er þarna.
Og bíður síns vitjunartíma.
Kveðja að austan.
![]() |
Svik við embætti hans og stuðningsmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 4
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 1440175
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar