Hvenær er rán rán????

 

Andmælabréf Árna Páls Árnasonar hrekur allar fullyrðingar ESA um ríkisábyrgð á innlánum, lið fyrir lið, þannig að engin fullyrðing stofnunarinnar stendur eftir.

Aumari getur málflutningur "óháðar" stofnunar ekki orðið enda ljóst miðað við stuðningsummæli Per Sanderud við bresku fjárkúgunina, og hótanir hans í garð Íslendinga, að áminningarbréf ESA var stuðningur við fjárkúgunina, ekki hlutlaust lagaálit aðila sem höfðu eftirlitsskyldu að gegna samkvæmt EES samningnum.  

Enda hver sendir út álit um grundvallarmál, sem varðar fjárhag og lífsafkomu eins EFTA ríkis, rúmu einu og hálfu ári eftir þann atburð sem átti að hafa verið samningsbrot Íslands á EES samningnum??

 

Og andmælabréf Árna Páls Árnasonar sýnir ekki aðeins fram á glæpsamlegt athæfi ESA, heldur líka fram á glæpsamlegt athæfi allra þeirra ráðgjafa og álitsgjafa sem beittu lygum og rangfærslum til að blekkja íslensk stjórnvöld um lögmæti hinnar bresku krafna.  

Að ekki sé talað um glæpsamlegt athæfi ríkisfjölmiðlisins sem beint studdi breta allan þann tíma sem þeir reyndu að ræna íslensku þjóðina.  

Glæpsamlegt athæfi sem réttarríkið verður að takast á við og refsa fyrir eins og lög kveða á um.

 

En bíddu við myndi einhver segja, af hverju er talað um rán þegar enginn var ránsfengurinn???

Jú, þú ert sekur um bankarán á þeirri mínútu sem þú stígur inn í bankann og segir, "afhendið mér peningana".  Þú ert ekkert minna sekur þó öryggisvörðum takist að yfirbuga þig.  

Eins er það með ICEsave, bretar sannarlega reyndu að innheimta ICEsave með hótunum og kúgunum.

 

Árni Páll Árnason upplýsir í viðtali við Morgunblaðið að "aðgangur okkar að fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem á ávallt að vera óháður öðrum tvíhliða deilumálum, var alltaf skilyrtur einhvers konar úrlausn á þessu máli".

Íslensk stjórnvöld mátu stöðu mála þannig eftir Hrun að fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði verið nauðsynleg svo landið kæmist í gegnum fyrstu erfiðleikana, og þess vegna töldu þau sig nauðbeygð að semja við breta á þeirra forsendum.  Vissulega þurfti að semja og það var alltaf vilji til að semja, en sá samningur átti að vera milli jafn rétthárra aðila og byggjast á lögum og reglum.

 

Í þessu samhengi verður að nefna að tilskipun ESB um innlánstryggingar var samin eftir anda Rómarsáttmálans sem lagði áherslu á frjáls og hindrunarlaus viðskipti þar sem ríkisafskipti (ríkisábyrgð er ríkisafskipti) áttu ekki að skekkja samkeppnisforsendur milli ríkja.  Og Ísland er skuldbundið samkvæmt 61. gr. EES samningsins að fara eftir Rómarsáttmálanum sem bannar ólögmæta ríkisaðstoð. 

"Svo virðist sem aðilarnir hafi tekið afstöðu sína án þess að hliðsjón hafi verið höfð af lögum Evrópusambandsins." segir prófessor Peter Örebeck við háskólann í Tromsö í greinargerð sinni til fjárlaganefndar Alþingis.

Þvinganir og hótanir breta útskýra þá staðreynd.  

Um slíka hegðun segir í breskum hegningarlögum að hún sé Extortion en það er "criminal offense which occurs when a person unlawfully obtains either money, property or services from a person(s), entity, or institution, through coercion".  Glæpsamleg hegðun þegar peninga er krafist á ólöglegan hátt með þvingunum.

 

En framferði breta er ekki bara fjárkúgun, hún er líka hreinn og klár þjófnaður.

Og skýringin er mjög einföld, Landsbankinn var með viðbótartryggingu hjá breska tryggingarsjóðnum sem tók við þar sem trygging heimalandsins þraut.  Svo ég vitni í lagtextann, 

 

"Incoming EEA firms which obtain cover or 'top up' under the provisions of COMP 14 are firms whose Home State scheme provides no or limited compensation cover in the event that they are determined to be in default". (Handbók FSA, breska tryggingaeftirlitsins) ".

 

Reglurnar um þessa viðbótartryggingu segja skýrt að hún taki við þegar heimatrygging EES lands þrýtur (default).  Og það er tekið skýrt fram að heimatryggingin þurfi ekki að vera til staðar (no) eða takmörkuð (limited).   Takmörkuð þýðir að hún nái ekki því hámarki 20.887 sem kveðið er í reglugerð ESB um innlánstryggingar.  

Þessi reglurgerð er samin þegar almennur skilningur var á að tryggingarsjóðirnir væru sjálfstæðir án ríkisábyrgðar (sbr. reglur allra landa á Evrópska efnhagssvæðinu) eins og skýrt kom fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar og að þeir þyrftu tíma til að byggja sig upp í þá stærð að ráða við að greiða út 20.887 evru lágmarkið.  Til þess að myndaðist ekki gat í tryggingarvernd, þá tók breska viðbótartryggingin við hvort sem heimatryggingin væri engin, eða takmörkuð.  

 

Breska fjármálaeftirlitið mat íslenska tryggingasjóðinn það veikburðann að það krafði Landsbankann um þessa viðbótartryggingu.  Þetta segir í bréfi breska fjármálaráðuneytisins sem viðskiptaráðuneytið hefur afrit af undir höndum.

 

"It  (ICEsave) had an office in London, which meant that, as it had a physical presence in the UK, it was required to top-up to the FSCS. Consumers in the United Kingdom could (thus) be sure of the level of protection they had. We would confirm that the FSCS will pay compensation to the maximum limits, irrespective of the size of the levy paid to them." 

 

Það er ekki hægt að ábyrgjast fulla tryggingarvernd (maxium limists) nema að hafa sjálfur fullt forræði yfir tryggingunni sem ábyrgist hana.  Breska fjármálaeftirlitið hafði ekki forræði yfir íslenska tryggingasjóðnum, hvað þá að það gæti ábyrgst að íslenska ríkið myndi lána honum fé.

Það er til skjalfest að fólk sem hugði setja fé inn á ICEsave reikninga, fékk svona fullvissu frá breska fjármálaeftirlitinu, að Landsbankinn væri með viðbótartryggingu sem veitti fulla tryggingarvernd.

Munum í þessu samhengi orð Peters Örebec prófessors í greinargerð hans að 

"Kerfi sem tryggir fulla greiðslu innstæðutryggingar að fjárhæð EUr 20.887 er takmark sem ná skal innan eðlilegs tíma en veitir ekki lagalegan rétt frá fyrsta degi að telja".

 

Landsbankinn var með fulla tryggingu í Bretlandi og breska tryggingasjóðnum bar skylda til að greiða út þá tryggingu.  Og samkvæmt reglugerð ESB um innlánstryggingar þá átti hann forgangskröfurétt á þrotabú Landsbankans, en ekki íslenska tryggingarsjóðinn eða íslenskan almenning.

Breskum stjórnvöldum var fullkunnugt um þessa viðbótartryggingu þegar þau greiddu út ICEsave innistæðurnar í snarhasti til að koma í veg fyrir áhlaup á aðra banka á breskum fjármálamarkaði (annars mátti það taka 3 mánuði samkvæmt ESB regluverkinu).  

Þegar þau ákváðu síðan að koma þessum sannarlegu útgjöldum breska tryggingarsjóðsins á íslenskan almenning, þá voru þau að stela.  Þau ætluðu að þvinga saklausan þriðja aðila til að greiða það sem þeirra tryggingarsjóði bar að greiða.

 

Þau eru sem sagt ekki bara sek um fjárkúgun, þau eru hreinir og klárir ræningjar.  Alveg eins og maðurinn sem fer inn í banka og dregur upp byssu og krefur gjaldkerann um peninga.

Það skiptir engu máli að þau höfðu ekkert upp úr krafsinu, þau eru ræningjar fyrir því.  Þau skipulögðu rán sem mistókst vegna staðfestu íslensks almennings.

En verknaðurinn var rán engu að síður.

 

Núna þegar íslensk stjórnvöld hafa staðfestingu á þessari viðbótartryggingu, þá eiga þau að lögsækja bresk stjórnvöld fyrir breskum dómsstólum.  Bresk lög eru skýr, þau banna svona hegðun.  Hún er "criminal offence".

Og í Bretlandi eru allir jafnir fyrir lögum, líka glæpamenn.  Stétt þeirra eða staða fær þeim ekki bjargað.

Darling og Brown eru meintir tukthúslimir sem eiga að sitja inni.

 

Það er alveg óþarfi að eltast við ESA, nema á þann hátt að kæra forsvarsmenn stofnunarinnar fyrir aðstoð við fjárkúgun, aðstoð sem Per Sanderud missti út úr sér í viðtali við Fréttablaðið fyrir um ári síðan.  Um það má lesa í pistli mínum hér á undan, óþarfi að hafa fleiri orð um þá handrukkarahegðun.

Vissulega tekur tíma fyrir fólk að melta þessar staðreyndir sem hér eru raktar að ofan, og vissulega hafa stjórnvöld verið rög í þessu máli. 

En eins og rakið er hér að framan, þá eru á því skýringar sem við verðum að virða, núna fyrst að Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra hefur fengið fullt umboð ríkisstjórnarinnar til að verja þjóðina gegn frekari fjárkúgun breta. 

Liðið er liðið og við eigum styðja stjórnvöld okkar í baráttu sinni, og hvetja þau til góðra verka.  Hvort sem við sögðum Nei eða Já í ICEsave þjóðaratkvæðinu þá liggja staðreyndir málsins skýrt fyrir núna, sérfræðingar stjórnvalda hafa hrakið áburð ESA lið fyrir lið, afsannað öll þeirra lagarök og sýnt fram á að rökleysan er á svo háu stigi að ESA vitnar í dóma og lagatexta sem koma málinu ekkert við.  Eða fullyrðir um vanefndir sem eiga ekki við rök að styðjast og stofnunin sjálf átti að hafa eftirlit með, sem hún gerði og gerði engar athugasemdir við.

 

Og þegar að upplýsingarnar um viðbótartryggingu LÍ liggur fyrir, þá eigum við að krefja stjórnvöld um sókn í stað þess að liggja sífellt í vörn og bera af sér sakir.

Það er tími til kominn að bresk stjórnvöld sitji á sakabekk og útskýri lögleysu sína og þjófnað.

Bretland er ekki búsaður guðanna, þetta er fallið heimsveldi sem þarf að lúga lögum og reglum eins og við hin.

Þegar við höfum sannanir um þjófnað þeirra, þá eigum við að nýta þær sannanir.

 

Þess vegna eigum við, hinn almenni borgari að láta í okkur heyra.

Þessi grein mín er mitt framlag.  Framlag sem hefur enga vigt ef enginn tekur undir orð mín og kröfu.  En ég spyr, er eina döngun okkar að segja Nei í þjóðaratkvæði, getum við ekkert meir.

Mitt svar er Jú, við getum staðið saman og látið raddir okkar heyrast í margrödduðum kór sem krefst réttar og réttlætis yfir þjófum og ræningjum.

Þann kór munu stjórnvöld ekki hundsa.  Ég veit það fyrir víst að innan stjórnkerfisins er fólk sem fyrir löngu hefur fengið upp í kok af bresku kúguninni og vill taka slaginn.  En án stuðning almennings er það því ókleyft.

Gefum þessu fólki þann stuðning sem það þarf.

 

Tilkynnum heimsbyggðinni að íslenskur almenningur líði ekki lengur breskan ránsskap, í eitt skipti fyrir öll.

Við höfum fengið nóg.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ágæti bloggvinur, Ómar Geirsson, það er ljóst, að við NEI-menn verðum að halda vöku okkar og veita stórnvöldum strangt aðhald, þrátt fyrir kláran sigur í síðustu þjóðaratkvæðisgreiðslu um IceSave-III ?  Þessir ESB-dindlar, sem enn ráða för, er í engu treystandi, því miður ! ? Sem sagt baráttan mun halda áfram, uns við losnum undan klafa núverandi ríkisstjórnar.

Með kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 5.5.2011 kl. 00:34

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Tek heilshugar undir það,höldum vöku okkar.

Helga Kristjánsdóttir, 5.5.2011 kl. 01:25

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Vissulega mælist margt stærra í mínum huga en traustið sem ég ber til núverandi ráðamanna í ICEsave deilunni.  En það er ekki um auðugan garð að gresja, hin ráðandi stétt er því sem næst öll á því að lúffa fyrir bretum, hugmyndafræði Nei manna kemur því sem næst öllu úr grasrót hinna óþekktu einstaklinga.

Á slíkum tímum er vandfundið fólk sem gæti mannað ríkisstjórn og þorir gegn kjaftastéttum háskóla, fjölmiðla, álitsgjafa eða gegn ráðandi öflum atvinnulífsins.

Í því ljósi eigum við að meta það sem þó er vel gert, og bréf Árna Páls, sem og öll vinnan í kringum það, var til fyrirmyndar.  Eitthvað sem hefur aldrei áður sést hjá þessari ríkisstjórn.

Og miðað við alvöru málsins, og hvað er í húfi, þá eigum við að meta hana, óháð fyrri kritum.

Ég sé engan í stjórnarandstöðu sem hefði sent betra bréf.  Ég myndi aðeins treysta einum stjórnmálamanni til að leiða þessa baráttu, og hann er fyrrverandi og umdeildur.  Eina sem er öruggt er að ný stjórn myndi í besta falli gera jafn vel og Árni, og það samt ekki mjög líklegt.  

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn sveik jú þjóðina á ögurstundu vegna hagsmuna fámennrar klíku vinnuveitenda og peningakalla, gegn sinni eigin grasrót.  Og grasrótin hefur ekki ennþá skipt út þeim sem sviku enda stjórnun á flokki flóknara hagsmunamat en svo að ICEsave ráði þar úrslitum.

Mín afstaða er að meta þá sem vilja lemja á bretum, og mín hvatning er að það sé lamið fastar.  

Ég sé það undirtektum við þessum greinum mínum að fólk er ekki ennþá búið að fatta að ICEsave er ekki stjórnmáladeila heldur hrein og klár tilraun til þjófnaðar, studd af Brussel klíkunni í nafni einhverra ímyndaðar hagsmuna.  

Og fólk virðist ekki skilja að valdastéttin er ekki hafin yfir lög í nútímaþjóðfélögum.  

En það þarf einhver að hafa vilja til að lögsækja, vilja til að draga ódámana fyrir dóm.  Réttarkerfið sér svo um restina.

En til þess þarf jú að standa í lappirnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2011 kl. 08:02

4 Smámynd: Magnús Ágústsson

sammala ther Omar en hvernig er best fyrir okur ad syna studning annarstadar en herna a blogginu?

Magnús Ágústsson, 5.5.2011 kl. 08:06

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús, nú er stórt spurt, og ekki það að ég viti ekki svarið, ég þarf að skrifa svo helv. langt svar svo ég komi að öllum mismunandi flötum málsins.   Skal samt reyna að stikla á því helsta án þess að það taka allan daginn að lesa.

Hinn nafnlausi einstaklingur hefur aðeins áhrif sem hluti af heild.  Heildin getur aðeins samsinnað sig um kjarnamál, og þá að ná þeim fram ef þau eru ekki til staðar, eða verja þau ef á þau er ráðist.  ICEsave sameinar hvorutveggja, það er fjárhagslega mikilvægt, og það var ráðist á okkur.  

Heildin hefur aðeins áhrif ef hún nær að mynda afl, þá annað hvort í krafti fjölda, eða þá áróðursmáttar sem þarf að taka tillit til.  Hún ræður þá kannski ekki stefnumörkuninni, en getur samt hindrað ákveðna stefnu.  Við ICEsave andstaðan erum í þeim sporum, við ráðum ekki neinu, en við erum ógn sem valdið þarf að taka tillit til.

En heildin sem slík er ekki til, aðeins einstaklingarnir þar að baki.  Og allt á sér þetta sína byrjun, og um það snýst spurning þín.  Augljóst er að örfáir einstaklingar hafa ekkert vægi en vægið um mikilvæg málefni myndast eins og bylgjuhreyfing, punktur sem dreifir út frá sér.

Þannig var það í ICEsave baráttunni, við vorum aðeins örfá í upphafi sem gerðum það upp við okkur að hún skipti máli og við vorum tilbúin að gera það sem þurfti að gera til að hafa sigur.  Við náðum að magna upp andstöðuna þannig að allfæstir gera sér grein fyrir hvar upphafið var, en við sem byrjuðum, vitum það.

Við blogguðum sjálf, fylgdumst með bloggum annarra, studdum hvort annað, mynduðum innbyrðis tengsl, mynduðum sjálf ný tengsl, sem aftur mynduðu tengsl og svo koll af kolli.  Við náðum að mynda rödd sem aðrir gátu samsinnað sig í, við náðum að halda sjónarmiðum á floti þar til að þau fengu vægi í almennri umræðu, við nýttum okkur öll rök sem dúkkuðu upp, og við náðum að hrekja andstæðinga okkar í felur hér á Moggablogginu, það var okkar helsta vígi.  Og svo höfðum við Davíð, en hans greinar þurftu bakland, pistlahöfundar sem fóru hikandi inn á þessa braut, þeir þurftu stuðning, bæði með því að lesa um svipuð sjónarmið hjá öðrum sem og að hrekkjusvínum andstæðinganna var mætt á síðum þeirra af fólki sem var vant orrahríðinni.

Og svo framvegis, og allir þekkja restina.  Við höfum unnið allar orrustur fram að þessu, en stríðið er ekki búið.  En staða mála er eins og menn haldi að það sé hægt að leggja niður vopn, yfirgefa skotgrafirnar í trausti þess að óvinurinn hertaki þær ekki í milltíðinni.  Allir sem hlustuðu á Sigrúnu Davíðsdóttur í gær, ættu að gera sér grein fyrir að svo einfalt er lífið ekki.

En ef það á að klára stríðið, þá er alltaf spurning um næsta skref.  Síðustu pistlar mínir útskýra hvernig ég sé hlutina, ég vil hafa hlutverkaskipti, í stað þess að Íslendingar séu alltaf að bera að sér sakir, þá láti þeir aðra fá það hlutverk.  Ég er búin að benda á rökin, það er síðan dómara að skera úr um hvort þau dugi.

Og það er algjörlega ljóst að þessi skoðun mín nýtur ekki fjöldafylgis og lítið við því að gera, allt hefur sinn gang.  Og í sjálfu sér get ég ekki meira gert, hvað sem ég er þá er ég ekki kallinn á kassanum sem hrópar byltingarorð yfir lýðinn, vegna þarfarinnar á að hrópa.  Núna sker atburðarrás tímans úr um mitt framhald, og úr um hvert hið raunverulega framhald verður.  Ég mun mæta og styðja góð málefni góðra manna, og reikna með að næsti átakapunktur verði þegar svarbréf ESA kemur.  Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því, ef málið verður áfram á forræði Árna og hans fólks, þá er það í góðum höndum.  Hef mína vissu fyrir því, en hvað hún Jóhanna gerir, það er önnur saga, og verður að mæta þegar það kemur í ljós, skil samt ekki af hverju hún ætti að vinna fyrir bretana.

En þú spurðir ekki um mig, heldur þá sem vilja styðja hvessuna.  Ég útskýrði aðeins forsendur mínar fyrir að skrifa svona pistil, og um leið útskýrði ég að ég hefði ekkert með undirtektirnar að gera.  Að svo það sé á hreinu að ég er ekki hættur, þó ég þegi, ég hef einfaldlega ekki meira um málið að segja.

Aðrir, hvað geta aðrir gert??  Jú, alveg eins og við gerðum í upphafi IcEsave stríðsins, þeir geta gert það upp við sig hvað þeir vilja, hvað þeir styðja, og af hverju.  Og látið svo þann stuðning sinn í ljós eftir getu og aðstæðum.

Þeir sem halda úti bloggi, þeir geta reifað svipuð sjónarmið með sínum eigin orðum og sínum eigin hugsunum.  Þannig nær umræðan sér á flug, það fyrsta sem er orðað er sjaldnast það gáfulegasta hvort sem það er í orðum eða útlistun á vinklum, það er jú alltaf erfiðasta að byrja.  Til dæmis mikill munur á gamla T módelinu og fjölskyldubílum nútímans, en T módelið var afrekið.

Fólk á því að vera óhrætt að tjá sig, ræða málin, þegar það hefur tíma og aðstæður til.

Og þeir sem ekki blogga, þeir geta tjáð sig í athugasemdarkerfum, finna þá sem halda fram svipuðum sjónarmiðum og þeir sjálfir hafa trú á, mæta á almennar umræður á netmiðlum, spjalla um málið við vini sína, þegar menn hafa áhuga að ræða þessi mál í víðu samhengi og svo framvegis.

Með öðrum orðum reynt að skapa bylgjuhreyfinguna í allar áttir.

Það er eina ráðið að hafa áhrif á umræðuna, að mynda sterka heild.

Þar sem almenningur upplifir sig sem sterka einstaklinga og sem hluti af heild sem skiptir máli, þá er honum ekki stjórnað af fámennri valdaklíku sem vinnur að hagsmun fárra á kostnað fjöldans.

Þetta mistókst hjá Borgarahreyfingunni, þetta mistókst hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, þetta mistókst í grasrótinni gegn auðræðinu og auðráninu hinu nýja, en þetta tókst í ICEsave.

Og það eru skýringar á því að þetta mistókst, og það eru skýringar á því að þetta tókst.

Og það má vel vera að einn daginn ákveði næginlega stór hópur fólks að hann vilji ekki vera fórnarlömb, yfirleitt á leið til slátrunar.  Þá ræða menn af fullri alvöru um gagnsókn.  Og framkvæma hana eins og fólk en ekki mýs.

En sá dagur er ekki í dag eða á morgun  Magnús, þetta hefst allt á þolinmæðinni.

Kveðja í auturátt að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2011 kl. 09:23

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála ykkur, og okkur ber auðvitað að þakka það sem vel er gert, Árni Páll er þó að reyna að standa í lappirnar eftir ótrúlegt klúður og lygaþvælu allra stjórnarliða.  Sennilega ber þó hæst ef maður spáir í það, að ríkisstjórnin skyldi leggjast svo lágt að múta meirihluta sjálfstæðisþingflokksins til að játast undir Icesave á einmitt því lágkúrulega að vernda hagsmuni þeirra sem greiða þeim peninga til að viðhalda apparatinu Sjálfstæðisflokkur. 

Þessu þarf að halda til haga þegar Sjálfstæðismenn þykjast geta gert allt betur og hugsi meira um þjóðina en budduna.  Þessu má ekki gleyma.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.5.2011 kl. 14:24

7 Smámynd: Elle_

Málið snýst sannarlega um rán og þjófnað, Ómar.  Ætlaðan glæp sem við megum ekki líða bara vegna þess að ránið var stoppað, allavega í svip.   59,9% þjóðarinnar var sorglegt hlutfall fyrir NEI.  Hvort það var fáfræði, forheimska, þrælshyggja, veit ég ekki en það er bara sorglegt.  Skil þó vel að fólk var blekkt og svikið af innlendum varðhundum þjófanna. 

Elle_, 5.5.2011 kl. 19:20

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einar K. Guðfinnson og fleiri hafa bent á að aðaldómandinn hjá ESA hafi í ræðu hér á landi úrskurðað fyrirfram um að okkur beri að borga, áður en að nokkur andmæli eða rök lágu frammi. Nú stöndum við frammi fyrir því að þessi maður reyni að verja þetta frumhlaup sitt hjá úrskurðarnefndinni, sem hann veitir forsæti. Árna Páli láðist náttúrlega að nefna þetta vanhæfi mannsins til að úrskurða í málinu.  Það verður því að reyna að koma þeirri ósk á framfæri nú eða aldrei.  Eini sénsinn sem við eigum, ef úrskurðurinn verður okkur í óhag er að hafna niðurstöðunni á grunni þessara yfirlýsinga mannsins og augljóss vanhæfis hans.

Það gat aldrei farið svo að Árna tækist ekki að klúðra þessu máli á endasprettinum.

Við skulum þó vona það besta.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.5.2011 kl. 20:00

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Steinar.

Gallinn við allan málflutning Sjálfstæðismanna er að hann kemur eftirá, til þess eins settur fram að draga yfir þá aumu staðreynd, að þeir sviku þjóð sína á ögurstundu.  Og til að forða misskilning þá er ég að tala um forystu flokksins, grasrót flokksins brást ekki og það er í raun alveg frábært þegar haft er í huga hversu "tryggur" hinn almenni flokksmaður er.

En mér finnst þetta ekki vera stærsti gallinn á andsvari ríkisstjórnarinnar, stærsti gallinn er sá sem ég bendi á hér að ofan, það er sannað að LÍ hafði fullnægandi tryggingar í London, og þær tryggingar báru skaðan af falli bankans, og eiga lögum samkvæmt endurkröfu á þrotabú bankans, ekki íslenska almenning.

Ég rek þetta samviskusamlega hér að ofan, Loftur Altice hefur undir höndum bréf sem sanna þessa staðreynd, ráðuneytið hefur afrit af þessum bréfum.

En ég ætla að bera blak af ráðuneytinu, það er eins og íslenska Nei-ið fatti þetta ekki heldur.

Í huga þess er hinn berstrípaði keisari alklæddur.

Jón Steinar, það eru ENGAR líkur á því að úrskurður falli gegn lögum og staðeyndum málsins.  Á einhverjum tímapunkti verðum við að hugsa en ekki trúa áróðri fjárkúgaranna og íslenskra stuðningsmanna þeirra. 

Það gilda lög og reglur í Evrópu, það eru engin dæmi um annað til, þetta er bábilja sem á sér enga stoð.  Að vitna í álit ESA,  er ekki tilvitnun í lagaálit, heldur áróðursplagg sem stenst enga skoðun lögfræðinga.

"Andmælabréf Árna Páls Árnasonar hrekur allar fullyrðingar ESA um ríkisábyrgð á innlánum, lið fyrir lið, þannig að engin fullyrðing stofnunarinnar stendur eftir."  Þessi klausa er ekki fullyrðing, hún er staðreynd, og gættu að því að enginn Já maður þorir í hana, hvorki hjá mér eða öðrum sem þekkja til efnisatriða málsins.

Það fór enginn lögfræðingur í Sigurð Líndal eftir að hann flengdi Jón Baldvin Hannibalsson opinberlega, sú flenging átti sér stað seint um sumar 2009.

Sú staðreynd að enginn skyldi fara í gamla manninn, hefði átt að segja Íslendingum allt sem segja þurfti.

Krafa breta er fjárkúgun af grófustu gerð. 

Allir dómsstólar munu dæma hana ólöglega.

Líka Evrópudómurinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 09:16

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Ég hef mikið hugsað út í af hverju Já-ið fékk svona mikið fylgi.  Einhver hluti þess er eldra fólk sem hefur vanist því að treysta sínu fólki, og það voru ekki bara stjórnmálamenn, heldur öll elíta landsins, sem studdi samningana við breta.  Og hvor skyldi hafa rétt fyrir sér, hinn nafnlausi bloggari eða níu af tíu prófessorum háskólans svo dæmi séu tekin???

En stærsti hluti Já manna kom úr hópi fólks á miðjum aldri, vel menntað í góðum stöðum.  Og það sagði Já vegna þess að vill Ísland í ESB.  Þá lagist öll okkar vandamál.  Og Já-ið sé bara svona hundsbit sem þarf að kyngja áður en í sæluna og hinn "evrópska stöðugleika" sé komið.

Dálítið fyndið þetta með efahagslegan stöðugleika miðað við hamfarir Evrusvæðisins en líklegast erum við Íslendingar alltaf 15-20 árum á eftir í hugsun.  Rökin og umræðan er öll eins og við séum í byrjun tíunda áratugarins, og vöxturinn sé bara bein lína upp á við með hinum sameiginlega evrópskum gjaldmiðil. 

Og það er ekki fáviska sem veldur þessari blindu, það er aðeins einhver vöntun í raunveruleikaskyni fólks, eins og að á ákveðnum tímapunkti taki trú yfir hugsun.

En þetta er sem sagt megin skýringin á Já-inu, fólk upplifði nauðsyn, og kaus eftir því.

Minni hópur en stór kaus Já vegna flokkstryggðar, hann reyndi ýmis "fagleg" rök, en það var einfaldlega yfirvarp, viðkomandi einstaklingar hefðu aldrei ljáð eyra við bullinu ef þau hefðu haft frjálsar hendur með að kjósa.

En menn kyngja margri ælunni fyrir flokkinn, jafnt íhaldsmenn og VG liðar.

En aumasti hópurinn held ég hafi um leið verið sá minnsti.  Hjörðin kringum Fréttablaðið, sem fannst ritsmíðar Hallgríms Helga og Guðmundar Andra, vera sönn meistaraverk, að við værum þjófar og fólk sem hefði ekki manndóm að standa við skuldbindingar þjóðarinnar.  Þessi hjörð var áberandi í Áfram hópnum, annars hefði blogggrein verkfræðingsins sem Magnús Helgi hélt ekki vatni yfir, ekki komist á forsíðuna hjá þeim.  

Og þessi hjörð var okkar besti bandamaður, hún bókstaflega skóp fylgi fyrir okkur Nei menn.

Og eiga þeir þakkir skyldar fyrir.

En þetta er allt liðið Elle, nú þarf að fá fólk til að fatta að það er fólk.

Fólk lögsækir fjárkúgara og ræningja, það skríður ekki fyrir þeim.

Fordæmið frá El Salvador ætti að hreyfa við umræðunni hér.  Samkv. Mbl.is var hópur fjárkúgara þar tekinn og fangelsaður því  hann innheimti fjármuni af saklausu fólki með hótunum og þvingunum.  

Ef íslenskir lögmenn eru svo fáfróðir að þeir þekkja ekki til laga um fjárkúgun og rán, þá er hægt að fá dómsmálayfirvöld í San Salvador til að faxa ákæruna ásamt þeim lagagreinum sem hún byggir á.  Það hlýtur einhver á Íslandi að kunna spænsku og geta þýtt faxið.

Þar með eru lagarökin í ICEsave deilunni komin.

Þetta er ekki flóknara en það.

Kveðj að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 09:38

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Ásthildur.

Já, við eigum að virða það sem vel er gert þegar varnir Íslands eru annars vegar. Og gagnrýni okkar á að beinast að því sem vantar líkt og til dæmis þetta atriði með vanhæfni ESA.  Líklegast mun það koma á seinni stigum, þegar málið verður dómtekið, ef ESA menn eru svo heimskir að fara svo langt.

En ég held að ríkisstjórnin hafi ekkert að gera með stefnubreytingu forystu Sjálfstæðisflokksins.  Það má miklu frekar halda því fram að loksins hafi flokkurinn komið heim í haga atvinnulífsins.

En eitt er á hreinu, væri flokkurinn í stjórn, þá hefði hann samið við breta.

En enginn, enginn hefði samið eins og Svavar.

Veit það vegna þess að þann 29 ágúst 2009 var Svavars samningurinn samþykktur með fyrirvörum, það voru fyrirvararnir sem skildu á milli.

Annars var smán Alþingis algjör, mig minnir að allir flokkar hafi samþykkt.  

Og það var græðgi breta að þakka að við erum ekki IcEsave þrælar núna, búin að loka grunnþjónustu fyrir 60 milljarða í viðbót.  Því þó vextir kæmu til greiðslu eftir 7 ár, þá vildi AGS að strax yrði safnað, því annars réðum við ekki við greiðslurnar þegar þar að kæmi.

Við erum að tala um gjaldþrot íslensks samfélags sem var samþykkt samhljóða á Alþingi Ásthildur, og þjóðinni var alveg sama.  Hélt að greitt yrði með mattador peningum, eða þá að opinber þjónusta yrði greidd með mattador peningum.

Ástæða þess að hér er ennþá efnhagslíf er sú að þessir samningar fóru ekki í gegn.

Alveg eins og við erum ennþá sjálfstæð þjóð vegna þess að við höfum ekki ennþá gengið á AGS lánapakkann.

Það er búið að hnekkja ICEsave ógninni en AGS ógnin vofir ennþá yfir okkur.  Og engar breytingar verða gerðar á kvótakerfinu, verðtryggingunni, leiðréttingar á lánum heimilanna, á meðan AGS fer með yfirstjórn mála.

Málin í dag snúast ekki um þessa ríkisstjórn, hún er afleiðing, ekki orsök.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 09:53

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Í því máli erum við ekki sammála Ómar, ég er viss um að það lá fiskur undir steini með fiskveiðistjórnunarkerfið.  Það sást líka á áherslu SA að knýja á um að kerfið kæmi inn í kjarasamninga.  L.I.Ú er farin að örvænta, því þeir sjá að það flæðir undan þeim vegna andstöðu almennings við þetta kerfi.

En burt séð frá því, þá er ég sammála þér með ESA og Icesave og er gríðarlega fegin að ábyrgð almennings var forðað við síðustu forvöð.

Og þá er það AGS við þurfum að losa okkur við þann pakka.  Og síðan burtu með ESB. 

Þakka þér fyrir málefnalega og kröftuga vörn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2011 kl. 10:23

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Ásthildur, ég held að þú sért að vísa í leikritið sem var sett á svið til að blekkja fólk, þá það til að hugsa um annað en það sem raunverulega er að gerast.  Kallast sjónhverfingar hjá töframönnum.

Í mínum huga er það kristaltært að Sjálfstæðisflokkurinn tilheyrir ICEsave/AGS liðinu og það eru praktísk atriði sem valda að þeir eru utan stjórnar.  Og ég spáði hinum sögulegu svikum löngu áður en þau urðu, samningar í ICEsave eru bein afleiðing af stuðningi við veru AGS hér á landi.  

Og get ég ekki rifist um þá trú að rikisstjórnin hafi haft einhvern áhuga á að breyta kvótkerfinu, en ég hef fært rök fyrir því að AGS leyfi slíkt ekki.  Þó það sé ekki sagt berum orðum í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar við AGS, þá er það skýrt tekið fram að engu má breyta í umgjörð efnahagsmála án samþykkis sjóðsins.

Veðin í kvótakerfinu eru eitt það fáa sem stóðst hrunið.

Hins vegar tel ég okkur sammála, við erum að eins að skoða mismunandi hliðar þeirrar skepnu sem kalla má "sannleika", ég meira að spá í þeim öflum græðgi og fjármagns sem eru að baki því sem við upplifum sem atburðarrás.  Eyðing íslensk samfélags er aðeins ein birtingarmynd þeirrar stefnu sem hefur farið ránshendi um heiminn síðustu áratugi, og hefur komið Vesturlöndum fjárhagslega á kné, þannig að þau hafa misst framleiðslu sína en sitja uppi með skuldir.  

Þetta eru sömu öflin sem vinna að eyðingu írsks samfélags eða hinna fornu samfélaga Miðjarðarhafsins, allir enda sem skuldaþrælar auðmagnsins.  

Og stjórnmálamennirnir eru birtingarmynd, þeir tala allir sömu tungu, um nauðsyn þess að skera niður til að borga skuldir óráðsíu fjármálakerfisins, en við fjármagninu og auðöflum má ekki snerta.  Það eru aðeins orð hinna mismunandi tungumála sem eru öðruvísi, þau segja öll það sama, og þau boða öll endalok velferðar og mannsæmandi þjóðfélags.

Tali stjórnmálamaður öðrum tungum þá kemst hann ekki að við háborð valdanna.  Undir þá staðreynd beygði Steingrímur sig, hann þráði svo mikið völdin karlgreyið.

Og margraddaður spunakór heldur athygli okkar frá því sem raunverulega er að gerast, bæði hér og erlendis.  

En fólk er byrjað að skipuleggja sig, byrjað að rísa upp gegn eyðingu samfélaga þeirra.  

Ég held að við eigum eftir að verða samherjar í þeirri baráttu Ásthildur því við erum sammála um grundvöllinn, um hvað það er að vera maður og að lifa í mannsæmandi þjóðfélagi.  Eitthvað sem verður aldrei hægt í ræningjaþjóðfélagi auðafla.

Enn og aftur takk fyrir innlitið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 12:35

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Svo sannarlega erum við samherjar í því að bjarga Íslandi úr klóm græðginnar og peningaaflanna, það skiptir litlu máli hvort heldur sjálfstæðismenn eru þar eða hér.  Þeim verður að halda burtu frá kjötkötlunum, þetta veit almenningur annars hefði hann aldrei þolað þessari aumu ríkisstjórn að sitja svona lengi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2011 kl. 16:25

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, og því miður brást líka fólkið sem ég hef rætur í að styðja.  Þess vegna er maður svona í lausu lofti, getur ekki bent á eitthvað og sagt, þetta styð ég.

Þá fer maður að leita uppi gott fólk, sjá kraftinn í grasrótinni, og það held ég að fleiri séu að gera.  Það er gerjun núna, en það mun eitthvað koma út úr henni.  Veit ekki hvað, en eitthvað sem sameinar fólk um grunngildi samfélagsins.  

Hryllingurinn sem fólst í efnhagsáætlun AGS (60% af tekjum ríkis í vexti og afborganir vegna braskara) varð ekki að veruleika vegna andstöðu okkar við ICEsave, og vegna hennar verður þetta aldrei eins slæmt og á horfðist.  En þeir eru byrjaðir að nota braskaralánið til að greiða niður skuldir í stað þess að endursemja um þau lán sem þurfti að greiða í ár.  Við venjulegt fólk er hægt að semja, en ómennska AGS krefst niðurbrots almannaþjónustu í nafni einkavæðingar og "frjáls markaðars".  

Joseph Stiglitz er fyrrverandi bankastjórni Alþjóðabankans, hann er með Nóbel í hagfræði, og við Íslendingar höldum að hann viti ekki hvað hann er að segja þegar hann varar við að lenda í klóm sjóðsins, og þá ekki vegna hinnar upprunulegu áætlunar, hún er svona silkið utan um handjárnin, heldur vegna þess sem sjóðurinn krefst ef menn þurfa að endurfjármagna.

Og saga annarra ríkja staðfestir orð hans.

En hér höldum við að þjóðin sé ósnertanleg, að ill örlög annarra verði ekki okkar.  Samt vantaði aðeins herslumuninn að slík yrði örlög okkar eftir Svavars samninginn.

Veit ekki, en einhver barátta um grunngildi á eftir að eiga sér stað, í þeirri baráttu mun gott fólk í öllum flokkum og flokksleysum, sameinast gegn ómennskunni.

Eða það vona ég.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 17:45

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skoðaðu boðskap Frjálslynda flokksins og stefnu hans í ýmsum málum.  Ég mæli með því að fólk fari að skoða það sem þeir hafa fram að færa.  Komin tími til.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2011 kl. 19:00

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég þekki hann og líkar um margt vel við hann, og annað ekki.  Hef alltaf nálgast málin meira frá vinstri en í dag er ég alveg hættur að spá í slíkt.

Vandi Frjálslyndra hefur samt verið um margt svipaður og hremmingar Andófsins sem fann sér farveg í kringum Borgarahreyfinguna, þegar fleiri en 5 koma saman, þá virðast menn alltaf klofna í fylkingar sem hafa meiri áhuga að lemjast innbyrðis en að takast á við það sem takast þarf á við.  

Það eru líka fleiri í dag að reyna ná saman boðlega stefnu, til dæmis Fullveldissinnar.  Og ég lenti á spjalli við Pétur Valdimarsson, og hann rifjaði upp fyrir mér stefnu Þjóðarflokksins gamla.  Svo má ekki gleyma húmanistum, þeir vissu allavega út á hvað mennskan gekk.

En það er alltaf eitthvað sem skilur að, en sú barátta sem mun þróast, mun snúast um það sem sameinar, og það kemur þegar andlit óvinarins verður illvígara og lífsháski samfélags okkar öllum sýnilegur.

Þangað til ræður auðvaldið öllu.   Og stefnir heiminum í hel.

Mér er það hel ljóst, eftir það fór ég að hugsa um það sem sameinar, og hvaða hugsun þarf að búa að baki svo ólíkt fólk geti unnið saman að sama markmiði.

Spjalla stundum um það við Elle.

Hvað sem öðru líður þá er þetta svona, núna er flóafriður fyrir ICEsave, þá slakar svona blogg á.  Á ekki von á þjóðarhreyfingu um að lögsækja þjófanna, sýnist að deilan sé komin í flokkskarp.  Og er alveg sama á meðan enginn notar skattfé þjóðarinnar í lausn á því karpi.

Þrátt fyrir allt var það mikið afrek hjá hinum venjulega manni að stövða höfðingjanna óráð.

Og það var ekki svo flókið, fólk tók afstöðu og sagði hingað og ekki lengra.

Það er vegvísir fyrir það sem þarf að gera gegn hinni raunverulegu ógn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.5.2011 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 448
  • Frá upphafi: 1412810

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 387
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband