31.3.2011 | 23:56
Síbylja lygarinnar er öflugt vopn fjárkúgara.
Á fundi í Háskólanum á Akureyri var Lee Buchheit samningaformaður ICEsave nefndarinnar spurður hvort það væri ekki erfitt að selja sálu sína.
Spurningin var reyndar aðeins kurteislegri en meiningin skyldist alveg.
Svar hans var fróðlegt.
"Ég reyni að vera ekki kynningarfulltrúi; ég er ekki með JÁ-merki í jakkanum. Háskólinn bauð mér að tala um samninginn, um kosti hans og galla, áður en þið takið ákvörðun. Ég tek ekki ákvörðun um það hvort hann verður samþykktur eða ekki og ég reyni að vera ekki hlutdrægur, "
Flott svar, og gæti staðist, ef hann væri ekki ítrekað að slá Gosa við í stærð á nefi.
Rennum yfir viðtalið og týnum út helstu lygarnar, látum ónákvæmni eða hálfsannleik liggja milli hluta sökum lengdar, jafnvel ég hef takmörk á lengd pistla minna.
"Buchheit benti á að bresk og hollensk stjórnvöld greiddu þarlendum sparifjáreigendum út Icesave-eignir sínar en Íslendingar tryggðu allar innstæður íslenskra sparifjáreigenda."
Ein setning, tvöföld lygi. Geri aðrir betur.
Í það fyrsta þá greiddu bresk stjórnvöld ekki út krónu úr ríkissjóði, Landsbankinn var með innlánstryggingu hjá FSCS, breska tryggingasjóðnum. Þegar hann féll, þurfti auðvita FSCS að greiða út innlánstryggingarnar. Þess má geta að ríkissjóður Bretlands greiddi auðmönnunum innistæður yfir GBP 50.000. Þetta voru 23.526 innistæðu-eigendur af 229.170 eigendum Icesave-reikninga alls í Bretlandi. En það voru ekki hinar lögbundnu skyldutryggingar þó þeir sendi íslensku þjóðinni þann reikning líka.
Í öðru lagi þá endurtekur Buchheit síbyljuna um að íslensk stjórnvöld hafi tryggt allar innstæður íslenskra sparifjáreigenda. Ekki er til stafkrókur um það í lögum, hann er sjálfsagt að vísa í yfirlýsingu Geirs Harde sem hann gaf út þegar bankarnir féllu, en hún var sett til að róa ástandið. Er annars merkingarlaus, líkt og yfirlýsingin um að íslenska ríkið stæði að baki bönkunum og því þyrfti enginn að hafa áhyggjur þó þeir lentu í greiðsluþrot, ha ha ha.
Hún er merkingarlaus vegna þess að stjórnvöld hafa ekki getu til að standa við hana ef bankarnir hrynja, ekki frekar en að ríkið gæti ábyrgst 10.000 milljarða.
"Íslendingar gætu unnið málið en þeir gætu líka tapað og færi svo gæti Ísland þurft að greiða tvöfalt hærri upphæð en nú hefur verið samið um."
Ein lygi og önnur mjög hæpin fullyrðing.
Vissulega er ekki hægt að útiloka að íslensk stjórnvöld töpuðu dómsmáli en þeir sem fullyrða slíkt verða að vitna í lagatexta eða dómsfordæmi máli sínu til stuðnings. ESA til dæmis vitnaði í ranga lagatexta og dóma sem komu þessu máli ekkert við. Og það er útilokað að stofnun sem fer rangt með í öllum grundvallarstaðreyndum mála, fái dóm. Þú vitnar ekki í dóm um ólöglegar rjúpnaveiðar til að dæma hundaeiganda fyrir að hafa ekki farið með hundinn í hreinsun, þó báðir lagatextarnir fjalli um lífverur en ekki dauða hluti. Hæpið en samt ekki útilokað.
En ef það er dæmt eftir "ekki" lögum, og skapað þar með einstakt fordæmi í Evrópudómum, að þeir dæmi ekki eftir lögum, þá er útilokað að Ísland þurfi að greiða tvöfalt hærri upphæð. Þrotabúið dugar fyrir lágmarkstryggingunni miðað við þær forsendur sem gengið er út frá, og ef þær bresta, og það vantar uppá, þá er það alltaf miklu lægri upphæð en myndi falla til ef farið er eftir samningi Buchheit. Hans samningur er nefnilega afglöp, seinni krafa breta er gerð jafnrétthá og íslenska forgangskrafan. Eina spurningin í málinu er hvort svona afglöp séu refsiverð.
Og svo þarf ekki að taka það fram að vextir dæmast ekki í svona málum þó afglapar geti samið um þá ef aðrir þurfa svo að greiða.
"Hefði hann verið við völd, sagðist Buchheit ekki hafa greitt hinum erlendu sparifjáreigendum allar þeirra innistæður. Skynsamlegra hefði verið af breskum og hollenskum yfirvöldum að endurrreikna upphæðirnar og greiða fólkinu. Þar með hefðu sparifjáreigendur tekið á sig hluta skellsins sem hefði vissulega verið mun sanngjarnara, vegna áhættunnar sem eigendur reikninganna tók. "
Spurning hvort hann sé vísvitandi að ljúga, eða hann er hreinlega að bulla. Landsbankinn var með fulla tryggingu hjá breska tryggingasjóðnum, Leyfisnúmer FSA 207250, og því varð breski tryggingasjóðurinn að greiða út innstæðutryggingarnar eftir reglum tryggingasjóðsins, annað hefði aðeins kostað hann málssókn og skaðabætur.
Vissulega notuðu Darling og Brown þetta sem yfirskin, að þeir hefðu þurft að tæma sparibauka til að greiða út ICEsave, þegar þeir hófu ICEsave leiðangur sinn, en Buchheit gefur sig út fyrir að vera alþjóðlegur sérfræðingur, og á því ekki að endurvarpa bulli. Svo líklegast lýgur hann vísvitandi.
"Ef hollenskur banki byði Íslendingum reikninga með mjög háum vöxtum sambærilegum við Icesave og þúsundir manna settu ævisparnaðinn inn á þessa reikninga en tapaði öllu ef bankinn hryndi, þá sé ég fyrir mér að íslensk stjórnvöld myndu skipta sér af og reyna að hjálpa eigendum reikninganna. Myndu ræða við hollensk stjórnvöld og reyna að leysa málið."
Leyfi þessari lágkúru að fljóta með svona í lokin. Tilgangurinn sá eini að lauma því að allir myndu haga sér eins og bretarnir (nenni ekki að tala um Hollendinganna, þeir eru aðeins varta á nefi Breta), þar á meðal við.
Greinilegt að Buccheit hefur ekki séð myndina Accused með Judy Foster. Þar reyndi einmitt einn verjandi eins af hópnauðgurunum að nota þessi rök, með engum árangri. Hann reyndi að afla sér samúðar kviðdómsins, að foringinn hefði byrjað og helstu gerendur þar á eftir, svo skjólstæðingur hans hefði bara flotið með straumnum, "og er það ekki skiljanlegt??".
Svarið er Nei, þú réttlætir ekki kúgun og rangindi með því að benda fórnarlambi þínu á að það hefði kannski gert það sama, eða að aðrir hefðu gert það sama. Við skulum ætla íslenskum stjórnvöldum að þau hefðu farið að lögum, og leyst síðan hugsanlegan ágreining með viðræðum, eða láta dóm skera úr um.
En þau hefðu aldrei hagað sér eins og svín og reynt að fjárkúga minni þjóð sem var rænd af auðmönnum sínum.
Því margt erum við Íslendingar, en við erum ekki siðlausir, allavega ekki fólkið sem segir Nei við ICEsave.
Já fólkið má útskýra sína brenglun.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2011 kl. 09:06 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heill og sæll Ómar!
Þessi færsla þín er í aðalatriðum röng. Landsbankinn var með inlánstryggingu hjá FSCS, rétt er það, en það var top-up trygging ofan á íslensku lágmarsktrygginguna.
Þetta veit ég að þú veist. Af hverju skrifarðu þá svona tóma vitleysu gegn betri vitund??
Og þú veist líka að íslensk stjórnvöld tryggðu íslenska rinnstæður. Það var ekki fyrst og fremst með yfirlýsingu Geirs Haarde, heldur með því að setja innstæður í forgang og lyfta þeim úr úr þrotabúinu og setja í nýjan banka, með eignum (útlánum) á móti.
(Ekki fara að delera um eitthvað annað hugsanlegt hrun einhverntímann seinna - í bankahruninu 2008 voru íslenskar innstæður tryggðar 100% af ríkinu - það er STAÐREYND.)
Við ræddum þetta allt saman bara fyrir fáum vikum.
Með öðrum orðum, megininntak þessa pistils er rangt. Ef þú vilt hjálpa NEI sinnum ættirðu að koma með raunveruleg rök og segja satt.
Ég get hins vegar ekki hjálpað þér að finna góð rök fyrir Nei-inu .
Bestu kveðjur frá München!
Einar Karl, 1.4.2011 kl. 00:34
Fyrirgefðu vinur! Smá mistök í fyrra innleggi mínu leiðréttast hér með. Færslan þín er ekki "í aðalatriðum" röng. Hún er bara öll röng, frá A til Ö. Þér gengur bara betur næst.
Enn er ekki of seint að skipta um skoðun! Slíkt gera vitrir menn ef rök þeirra eru hrakin.
Bestu kveðjur!
Einar Karl, 1.4.2011 kl. 00:48
Blessaður Einar, þú ætlar ekki að leyfa mér að fara að sofa, en ég get víst sjálfum mér um kennt. Og núna ertu flottur, það máttu eiga, það kom að því að sjálfstraust mætti í heimsókn.
Vissulega ræddum við top up trygginguna, og ég lét kjurt liggja þar til að ég hafði kannað málið nánar.
"We would confirm that the FSCS will pay compensation to the maxium limists, irrespective of the size of the levy paid to them". Skýrar er ekki hægt að orða hlutina Einar, þetta er full trygging, og orðið top up vísar til að hún er aukatrygging samkvæmt því ákvæði að aðildarríki ESB bar skylda að sjá til þess að bankar utan sambandsins hefðu fullnægjandi tryggingu. Þá er vísað i að fjármálafyrirtækin fengu afslátt af iðgjöldum vegna þess að þau greiddu í tryggingasjóð heimalands, en þessi afsláttur hafði engin áhrif á tryggingaverndina, enda gengi það gegn regluverki ESB.Það var bretanna að sjá til þess að breskir neytendur hefðu fulla vernd.
Sorrý Einar, lestu handbók FSA ef þú telur þig vita betur.
Þú ert fyndinn að taka tvennt út og fullyrða um restina, en ágæt röktækni engu að síður. Núna er það fyrra hrakið, og það seinna hef ég svo marghrakið hjá þér, þú færð ekki staðfestingu á fullyrðingar þínar þó þú þegir þegar þér (vá 6 þ-orð) er bent á með rökum af hverju þú hefur rangt fyrir þér.
Endurreist bankakerfi á allt sitt undir að á það sé ekki gert áhlaup, það var það eina sem ríkið gerði með yfirlýsingu sinni, róaði ástandið.
Þetta með að forgangur innstæðna sé ígildi ríkisábyrgðar er þvílíkt bull, að þú hreinlega gerir lítið úr þér Einar. Forgangurinn styrkti innstæður á kostnað annarra skulda bankanna, en það er samt þrotabúið sjálft sem greiðir. Áttar þú þig ekki á muninum á þrotabúi annars vegar og ríkissjóði hins vegar????
Þó að útlán hafi komið á móti, þá veit enginn um verðmæti þeirra, það var til dæmis talað um í kjölfar gengisdómsins að það gæti gert Nýju bankana gjaldþrota, því það verfelldi svo eignir þeirra.
Og ef það hefði gerst, þá hefði ekki þýtt fyrir þig að mæta til Steingríms og segja honum að þú vildir fá innstæður þínar greiddar Einar, hann myndi henda þér út og segja að hann væri ekki þrotabú bankanna, þú ættir að tala við þau. Útlánin féllu ekki vegna þessa gjörðar en hún er ekki ígildi ríkisábyrgðar.
Af hverju er þér um megn að skilja að ríkisábyrgð er ákveðin með lögum, hvað er svo flókið við það?????? Og áttar þú þig ekki á því að bresk stjórnvöld gátu farið eins að, þau gátu líka endurreist ICEsave útibúið á kostnað annarra kröfuhafa, það að þau gerðu það ekki, gerir ekki íslensku innlánin að ríkisskuld.
En takk annars fyrir skemmtilega færslu Einar.
Bið að heilsa ykkur þarna út í Munchen.
Kveðja og góða nótt.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 01:28
Góðan og blessaðan daginn!
Þú segir:
Nákvæmlega!! Þetta máttu nú reyna að útskýra fyrir þrjóskuhausum í Nei-liðinu! Við óðum inn í þrotabúið og hirtum það sem við vildum! Þetta ertu nú búinn að taka undir svart á hvítu!
Og svo segja menn að Bretar og Hollendingar geti bara beðið eftir uppskiptingu á þrotabúinu! Sumir vilja jafnvel bara gefa þeim það allt eftir! Svona eins og karlljónið sem sleikir útundan og segir við ljónynjuna og hvolpana, "Gjöriði svo vel, þið megið borða allt sem eftir er af hræinu, ég er búinn að borða mína magafylli!"
Og það allra ótrúlegasta af öllu er að fólk vill ólmt fara með þetta fyrir dómstóla og heldur að dómari muni leggja blessun sína yfir annað eins! Já, það er auðvelt að grípa bara fyrir eyrun og neita að hlusta á óþægilegar staðreyndir!
Hafið það öllsömul gott þarna heima.
Einar Karl, 1.4.2011 kl. 08:09
Mér þykir merkilegt að sjá að Einar Karl er ennþá í Bretavinnunni og hamast eins og aldreigi fyrr. Það er verst hvað hann býður uppá trénaðan málflutning. Boðskapur hans er ennþá sá sami og nýlenduveldin notuðu á haustdögum 2008 til að blekkja Sossana til að fara Samningaleiðina.
Einar Karl skilur ekki að Landsbankinn var með tvöfaldar og samhliða tryggingar fyrir Icesave-reikningana. Af þessari staðreynd leiðir að FSCS greiddi innistæður upp að GBP 50.000, sem sjóðnum bar samkvæmt lögum í Bretlandi. FSCS keypti því þessar kröfur og getur reynt að innheimta þær hjá þrotabúi Landsbankans.
Ríkissjóður Bretlands greiddi auðmönnum landsins þær innistæður sem umfram voru GBP 50.000 og eignaðist þar með þær kröfur á þrotabúið. Staðan er því sú, að FSCS og ríkissjóður Bretlands eiga allar kröfur innistæðu-eigenda og engir aðrir eiga innistæðu-kröfur á þrotabú Landsbankans í Bretlandi.
Nú bregður svo við að ríkistjórn Íslands vill endilega kaupa þessar kröfur á þrotabú Landsbankans, þótt engar lagaforsendur séu fyrir slíkum kaupum og raunað bannað af Stjórnarskrá og tilskipunum ESB. Það sem er þó vera er að kaupin verða gerð á yfirverði, sem nemur að minnsta kosti 100 milljörðum Króna.
Bretum er ekki nóg að með Neyðarlögunum voru allar innistæður hjá Landsbankanum gerðar að forgangskröfum. Þetta notfærðu þeir sér til að lágmarka kostnað ríkissjóðs. Þetta hefur einnig það í för með sér að FSCS þurfti ekki að hækka iðgjöld sín um eitt Pund, vegna Icesave. Bankar í Bretlandi, sem standa undir rekstri FSCS eru einnig ákaflega þakklátir ríkisstjórn Geirs Haarde fyrir örlætið.
Það ákvæði Neyðarlaganna sem tryggði forgang innistæðu-eigenda var einungis sett fyrir Breta og Hollendinga. Engin þörf var á því ákvæði fyrir innlenda sparifjár-eigendur, því að stofnun nýgju bankanna var fullnægjandi til að bjargar þeirra innistæðum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórn Íslands hefur þagað yfir. Einar Karl hefur auðvitað ekki hugmynd um þessa staðreynd fremur en aðrar sem varða Icesave-málið.
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 09:30
Blessaður Einar, sofið þið aldrei þarna út i Munchen????
En ég ætla lesendum þessa bloggs að meta svar þitt við rökstuddum svari mínu hér að ofan þar sem ég tók efnislega á móti.
Ef þú vilt ræða annað við mig, þá er það gott og vel, ég hef svo sem rætt þetta áður.
Ekki veit ég hvað Nei liðið hugsar um sanngirni neyðarlaganna, veit hvað ég hugsa. Neyðaraðgerðir bitna alltaf á einhverjum, það þarf alltaf að vera réttlæting þar að baki. Séu menn ósáttir, þá leita menn réttar síns, en hann er mjög þröngur þegar skilgreindir almannahagsmunir eru á móti.
Já, þetta var það eina í stöðunni, ég tel að menn hugsi ekki hugsunina til enda ef þetta hefði ekki verið gert. En það er ekki sama hvernig staðið er að þessu, og gæta þarf sanngirnis í eignamat. Og þar liggur einmitt aðal áhættuþátturinn í dómsmáli, ef kærandi sýnir fram á að rangindi þegar eignir voru færðar á milli, og dómur mun leiðrétta þau.
En eins og ég hef bent þér á áður Einar, þá er ekki sjálfgefið að þessi gjörð hafi skaðað aðra kröfuhafa. Upplausnin, allavega hvað varðar innlendar eignir bankanna, hefði skaðað allt, líka trygg veð, því veð eru ekkert annað en reksturinn sem býr að baki og vilji fólks til að greiða af lánum sínum. Þú heldur þó varla að kröfuhafar hafi getað flutt inn viljugt fólk til að nýta eigur íslensku þjóðarinnar.
Þjóðarréttur leyfir þjóðnýtingu eigna á hörmungartímum, og slíkt hefði örugglega verið gert ef bankakerfið hefði liðast upp og allt stöðvað. Fordæmin eru mýmörg, allir sem hafa lesið um hið stórkostlega andóf Breta gegn nasismanum, þegar þeir stóðu einir og allslausir, vita að þar voru eignir teknar, og menn jafnvel sjanghæaðir til sjós, og það voru aðeins málmyndabætur greiddar fyrir. Og Hitler gat ekki unnið stríðið með því að láta æfa fylgismenn sína í röðum breskra iðnrekenda fara í mál gegn stríðslögunum, þau eru eitt form neyðarlaga sem gefa stjórnvöldum því sem næst alræðisvald til að grípa inní.
Íslensku neyðarlögin hindruðu upplausn, enginn veit hvað hefði gerst. Ef allt hefði farið á versta veg, þá hefði allt verið tekið án bóta. Þannig eru alþjóðlög, hafa verið um langan aldur, og munu verða um langan aldur, því rétturinn til að komast af er helgast réttur laganna.
Ég skil ekki þessa heilögu reiði þína, sem birtist í fæðusetningu þinni, minni aðeins á orð Lárusar Blöndal og Stefáns Más, að eina skylda stjórnvalda er að gæta meðalhófs, og að aðgerðir ganga ekki lengra en tilefni gefur ástæðu til.
Ég persónulega ætlast til að stjórnvöld allra landa gæti hagsmuna þegna sinna, líka þegar valið stendur á milli þeirra og fjármagns.
Og Einar, þær raddir heyrast um allan heim, ég er ekki einn með þessa skoðun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 09:33
Blessaður Loftur, og takk fyrir þitt góða innlegg. Hef engu við að bæta, vona aðeins að fólk lesi það og íhugi efni þess.
Staðreyndin að Landsbankinn var með fulla tryggingu byggist á reglugerð ESB um að gistiríkinu beri skylda til að sjá til þess að neytendur á fjármálamarkaði þess séu tryggðir, leiki vafi á gjaldhæfi heimaríkis, þá var hægt að knýja hið erlenda útibú til að taka viðbótartryggingu.
Það var gert og hún var síðan greidd út samkvæmt ákvæðum laga þar um.
Krafa breta er því ekki aðeins fjárkúgun, hún er hreinn þjófnaður því þeir eru að láta aðra greiða lögbundna tryggingu breska tryggingasjóðsins.
Og íslensk lög hafa alltaf verið skýr, sá sem styður þjófnað annarra, hann er þjófsnautur. Og í gegnum söguna hefur þótt lítil sæmd af því þó í dag sé til fólk sem hreykir sér af þeirri gjörð.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 10:05
Blessaður Einar enn og aftur.
Ég þurfti að fókusa á megin mál þitt í gærkveldi en ætla núna fyrst ég hef tóm til, að andmæla orðum þínum "Við ræddum þetta allt saman bara fyrir fáum vikum. " þar sem þú leggur þá umræðu út á þann veg að þú hafir haft það debat. Vissulega skiptumst við á skoðunum, og ég tók það fram, og hef síðan tekið það fram að þau skoðanaskipti hafi verið málefnaleg, og sá flötur sem þú tókst í þínum pistli er ekki á nokkurn hátt í samræmi við þann málflutning sem skekur Áfram Ísland, og það hefur aldrei hvarflað að mér að nota þau orð sem ég nota um þann málflutning, um þinn ágæta pistil.
Ég ætla því að birta link á hann, hann er frá 24.02 og heitir Icesave – þess vegna á að semja.
http://bloggheimar.is/einarkarl/2011/02/24/icesave-%C3%BEess-vegna-a-a%C3%B0-semja/
Allir áhugamenn um báðar hliðar málsins geta lesið.
Í innslagi hér að neðan ætla ég að endurbirta orð mín um neyðarlögin, og forgang innstæðna, hvort sem fólk er sammála þeim eður ei, þá orða ég sjónarmið sem menn þurfa að taka afstöðu til.
Samhengið má svo sjá er menn kíkja á bloggpistil þinn. Það verður enginn verri á að lesa þó þetta sé langt mál, sjónarmið okkar beggja komast vel til skila.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 10:15
Sjónarmið um neyðarlögin og hverjum forgangur innstæðna hafi gagnast.
Megininntak neyðarlaganna var ekki að tryggja forgang innstæðna, heldur til að endurreisa starfhæft bankakerfi á Íslandi. Það var gert eftir alþjóðlegum viðurkenndum aðferðum, íslensk stjórnvöld settu ekki fordæmi þar um.
Þar sem íslenska bankakerfið var endurreist þá skipti það engu fyrir það þó ákvæði væru í neyðarlögunum um forgang innstæðna, það var aðeins til hagsbóta fyrir innstæðueigendur í útibúum íslensku bankanna í Evrópu. Forgangur þeirra fram yfir aðra kröfuhafa tryggði að þeir áttu að fá sparifé sitt til baka.
Það er ekki ríkisábyrgð á innlánum í nýju bönkunum, eins og ég sé þig í fyrsta skipti viðurkenna, “því engin lög beinlínis kváðu á um það.” Ástæða þess að þú og ég og allir aðrir viðskiptavinir bankanna fáum að taka sparifé okkar út, er sú að bankarnir eru áfram í rekstri. Ef við gerum áhlaup á þá, líkt og viðskiptavinir ICEsave gerðu, þá sitjum við í súpunni, alveg eins og þeir. Þú hlýtur að hafa þá skynsemi að sjá að ef allir bankar falla, þá hafa stjórnvöld ekki fjármuni til að tryggja innstæður. Í svoleiðis tilvikum grípa stjórnvöld til neyðarlaga, og banna úttektir meðan ástandið róast.
Fullyrðing þín um ríkisábyrgð er því röng, vegna þeirra ástæðu sem þú bendir sjálfur á, það kveða engin lög á um það. Enda væru þau lög ómarktæk, sökum getuleysis ríkisins til að standa við það loforð.
Og í andmælum við andmælum.
2.”Þetta er að mínu mati RUGL, afsakaðu orðbragðið. Það þurfti að gefa innstæðum forgang til að lyfta þeim úr búinu MEÐ EIGNUM á móti. Það var ekki hægt að byrja nýju bankana með bara skuldir (innstæður) og engar eignir. Það hefði ekki verið hægt að taka út eignir úr búinu nema vegna þess að eignir voru til sem dekkuðu innstæðurnar EFTIR að þær voru gerðar að forgangskröfum.” (Úr andmælum Einars).
Einar, Nýju bankarnir voru endurreistir til að viðhalda starfhæfu bankakerfi hér á landi. Í starfshæfu bankakerfi felst meira en að tryggja sparifjáreigendum innlán. Svona orða þeir Stefán og Lárus þessa gjörð.
“Með stjórnsýsluákvörðun Fjármálaeftirlitsins var „innlend bankastarfsemi“ tekin út úr gömlu bönkunum og stofnað um þau hlutafélög í opinberri eigu. Þar með fylgdu innistæður í bönkum hér á landi hvort sem þær tilheyrðu innlendum eða erlendum aðilum. Hér er um að ræða hlutafélög sem njóta ekki ríkisábyrgðar að neinu leyti. Fullt verð verður greitt fyrir þann hluta, sem tekinn var, þannig að nettóandvirði rennur inn í bú gömlu bankanna og kemur þar til úthlutunar með venjulegum hætti. “.
Á forgang innstæðna reynir ekki nema að um þrotabú sé að ræða. Íslensk innlán voru flutt í starfshæfa banka og því reyndi aldrei á forganginn. Þetta er það sem ég á við og menn geta svo borið saman okkar ólíku áherslur gagnvart þessum forgangi.
Þess má geta að það var skrifuð mjög góð grein um þetta í viðskiptablaðinu í gær og hana má nálgast á vef Advice.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 10:24
Það hefur aldrei verið sett ríkisábyrgð á bankainnstæður á Íslandi. Þann 9. apríl næstkomandi verður tekin ákvörðun um hvort eigi að gera það í fyrsta skipti.
Reglur á evrópska efnahagssvæðinu banna hinsvegar innstæðutryggingar í formi ríkisábyrgða. Verði IceSave samningurinn lögfestur má því búast við Ísland verði kært fyrir EFTA dómstólnum. Sú áhætta myndi þá bætast við áhættu vegna dómsmáls um meinta mismunun sem hverfur alls ekki þó IceSave yrði samþykkt.
Ef við höfnum hinsvegar samningnum er engin hætta á dómsmáli vegna ólögmætrar ríkisábyrgðar, aðeins vegna meintrar mismununar.
"Ískalt hagsmunamat" hlýtur að leiða í ljós að önnur áhættan sé skárri en báðar.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2011 kl. 10:30
Ég vil bæta við að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) getur einungis skilað áliti og ákært síðan fyrir EFTA-dómstólnum, sem einnig getur einungis skilað úrskurði um samningsbrot. Hvorugur aðilinn getur fellt bóta-dóma.
Með úrskurði frá 15. desember 2010 upplýsti ESA, að stjórnvöld á Íslandi hefðu ekki brotið lög eða tilskipanir með setningu eða framkvæmd Neyðarlaganna. Réttmæti þess að veita innistæðu-eigendum forgang var staðfestur, enda var forgangurinn einungis gerður til að hjálpa ríkisstjórnum Bretlands og Hollands.
Hvað stendur þá eftir af digurbarkalegum hótunum Per Sanderud ? Eftir stendur sú hótun að um óbeina mismunun hafi verið að ræða, vegna þess að innistæðu-eigendur erlendis voru ekki leystir út með nesti og nýgjum skóm ??
Nú vitum við að það er einmitt það sem var gert, því að þeir fengu sínar innistæður greiddar í erlendum gjaldmiðlum sem ekki var gert á Íslandi. Innistæðu-eigendur fengu allar sínar innistæður greiddar af FSCS, DNB og ríkisstjórn Bretlands, en ríkisstjórn Hollands greiddi ekki eina Evru úr ríkissjóði.
Ekkert ákæruefni er því fyrir hendi og ég þori að leggja höfuðið að veði, að ESA mun ekki fylgja eftir hótunum sínum með ákærum. Til að dómar falli gegn Íslandi þurfa að vera fyrir hendi a) lagabrot, b) tjón og c) tengsl þar á milli. Ekkert þessara atriða er uppfyllt varðandi hótanir Per Sanderud.
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 11:52
Var að lesa einhversstaðar að nýjasta fréttabréf ASÍ væri helgað Icesave? Er þetta eitthvað ofan á brauð, þegar allt logar út af kjarasamningum? Í útvarpinu áðan var frétt um að Neyðarlöginn stæðust fyrir dómi, svo bar bætt við af fréttamanni; Þá eru til nægir peningar til að greiða Icessave, en þeir sem eiga þar fé eru ímis bæjarfélög í Bretlandi og Hollandi og svo líknarfélög.
Þetta er alveg jafn lúmskt og bjórauglýsingarnar þar sem bjórinn er auglýstur stórum stöfum, svo stendur "Léttöl"
Við eigum við þvílíkt ofurefli að etja í áróðrinum að manni fallast stundum hendur. Hvað er að íslendingum sumum allavega, vonandi hafa jáararnir bara svona hátt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2011 kl. 12:00
Ja, Ásthildur, ég hef svo hátt að ég heyri í sjálfum mér, ef við margföldum þann hávaða með fjölda okkar andstæðinga glæpsins, þá ættum við að yfirgnæfa raddir fjárkúgunarinnar. Ég held einmitt að það að vera ósýnilegur, láta ekki heyra í sér, sé raunverulega það eina sem Já-ið flýtur á. Og þá þögn okkar Nei manna, svona almennt séð.
Þó við höfum ekki fjölmiðlanna, þá höfum við netið og feisið, einræðisherrar Arabaríkjanna vita að það er nóg til að fella órétt og ólög. Það er fullt af fólki þarna úti sem virkilega styður okkur en enginn veit af því.
Bara til dæmis að tíuþúsund fari inn á feisið á dag, og segir, ég borga ekki skuldir annarra eins og gamall samstarfsmaður úr saltfisknum sagði við mig í morgun þegar ég hitti hann út í búð, þá veit fólk að það er ekki eitt, og þá fyrst fer valdklíkan að óttast okkur.
Vissulega veit ég að það er ekki í þjóðarkarakter Íslendinga að standa upp og segja ég, hvað þá ég mótmæli, hvað þá vér mótmælum öll. Síðast þegar það gerðist þá vakti það svo mikla athygli að það er ennþá verið að tala um það, sérstaklega í ræðum á 17. júní.
En við eigum öll börn eða barnabörn, eða þá vini og ættingja sem eiga börn og barnabörn, einu sinni hljótum við að geta unnið bug á spéhræðslu okkar og sagt, troðið ykkar skuldum þangað þar sem þær eiga heima, og það er ekki hjá okkur.
Þá mun ræðan 17. júní 2061 einmitt fjalla um þau mótmæli, mótmælin þar sem fólk sagði, við mótmælum öll.
Það er nefnilega undir hverjum og einum komið hvort hann sé maður, eða þræll. Enginn annar getur tekið þá ákvörðun fyrir hann.
Stig fólk þetta skref, þá mun enginn auðmenn, jafnvel þó allir auðmenn landsins leggi i púkk, geta keypt hávaða sem yfirgnæfir frelsisvilja fólks.
En á meðan ætla ég að skrifa um lygara og aftur lygara, því þetta er dagurinn þeirra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 13:38
Blessaður Guðmundur.
Ef við gleymum ísköldu hagsmunamati, og notum almenna þekkingu og heilbrigða skynsemi þá er ljóst að enginn dómsstóll dæmir gegn neyðarráðstöfunum þjóðar til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, og koma í veg fyrir þjóðfélagslega upplausn.
Þessi svokallaði meinti mismunur er leyfður við vissar aðstæður, og um það eru skýr lög, og skýrir dómar.
Við eigum að hætta gera andstæðingum okkur þann greiða að láta eins og að raunveruleikinn sé ekki til heldur lifum við í súralískum heimi Lísu í Undralandi, þar sem lög fara eftir einhverju allt öðru en lögum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 13:45
Blessaður Loftur, sem og hitt að lög ESB leyfa mismunun við þær aðstæður sem ríktu á Íslandi.
Þó um sannarlega mismun væri að ræða, þá er hún hreinlega lögleg. Ef mismunaregla er algild, þá er ekkert gert að ótta við mismunabrot því allt er í eðli sínu mismunun. Því gilda um hana strangar reglur þar sem vel er útskýrt hvað er mismun, og hvað ekki. Og hvenær hún gildir og hvenær ekki.
Augljósir hlutir, og alls staðar þekkt nema í kokkabókum ESB lygara Íslands.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2011 kl. 14:41
Vona að þú hafir rétt fyrir þér Ómar minn, ég ætla allavega að halda mínu striki.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2011 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.