Hagfræði niðurskurðarins.

Hagfræði niðurskurðarins er að elta skottið á sjálfum sér.

Það er reynt að ná jafnvægi en niðurskurðinn veldur samdrætti.  Það dregur úr umsvifum, skatttekjur lækka sem aftur kallar á nýjan niðurskurð og svo koll af kolli.

Vissulega næst jafnvægi, en það jafnvægi er miklu meir samdráttur en ætlað var.  Og það fylgir alltaf ófriður og ólga niðurskurði á grunnþjónustu.  Vissulega þarf að hagræða, og vissulega þarf að spá í hvort hægt sé að veita þjónustuna á ódýrari hátt, eða hvort yfir höfðu séu til peningar til að veita hana.

En þær ákvarðanir á að taka út frá langtímastefnumörkun, og ef þarf að gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar, þá þarf að vinna að þeim í sátt við umhverfið, í sátt við þjóðina.

Kreppa er nógu slæm þó ófriðarbálin logi ekki um allt.

 

En hvað á að gera, viðvarandi hallarekstur endar alltaf með ósköpum???

Vissulega en stundum er skynsamlegast að gera ekki neitt, rugga ekki bátnum, láta skottið koma til sín, ekki vera sífellt að elta það.

Og það má jafnvel færa rök fyrir því að aukin útgjöld geti aukið tekjur.  Og jafnvel lækkun skatta, til dæmis á áfengi, bensíni, jaðarskattar og svo framvegis, getur aukið skatttekjur.  Því allt vinnur saman, til að hjól atvinnulífsins snúist, þá þarf einhver að snúa þeim.

Endurskipulagning skulda heimilanna er einnig dæmi um aðgerð sem flýtir endurreisn og ýtir undir hagvöxt.  Hún er ekki bara réttlætismál, hún er líka hagvaxtaraðgerð.

Lágir vextir eru enn eitt dæmið.  Það er betra fyrir fjármagnið að hafa neikvæða ávöxtun í ákveðinn tíma en að það tapist algjörlega í kreppu og samdrætti.  Fjármagn er ekkert annað en vilji fólks til að borga af skuldum sínum eða vilji til að reka fyrirtæki.  Atvinnulaust fólk borgar ekki af skuldum sínum, gjaldþrota fyrirtæki eða fyrirtæki sem eru ekki rekin, skapa ekki vöxt og veltu.

 

Skilningsskortur á þeim kröftum sem drífa hagkerfið áfram er eini efnahagsvandi Íslands í dag.  Allar ráðstafanir stjórnvalda miðast að því að draga úr vexti, þær auka vandann, dýpka kreppuna og valda jafnvel langvarandi stöðnun ef almenningur er skilinn eftir í skuldafangelsi.  

Einstaka stórframkvæmdir drífa ekki áfram hagkerfi ef allt annað er í ólagi.  

Hin mikla meinloka íslenskra stjórnmálamanna er að halda að þeir geti reddað öllu með því að taka nógu há lán, og farið að virkja.  Það er ekki þannig, stórframkvæmdir falsa aðeins bókhaldið í smátíma og ef þær eru ekki nógu arðsamar, þá auka þær vandann frekar en hitt.

Stórframkvæmdir geta aldrei vegið á móti neikvæðri umgjörð gagnvart einstaklingnum og fyrirtækjum hans.  Því það er athafnasemi einstaklingsins sem skapar það sem við köllum hagvöxt.  Og það er arðsemi þessarar athafnasemi sem við köllum velmegun.

 

Að skapa einstaklingnum jákvæða umgjörð, leiðir alltaf til velmegunar.  

Og við þurfum stjórnmálamenn sem skilja þessi einföldu sannindi.  Og við eigum að gefa hinum frí.

Þess vegna segjum við Nei við ICEsave, því það Nei er um leið uppgjör við stjórnmálastétt sem hefur klúðrað öllu sem hún hefur komið nálægt.

Vonandi tekst uppgjörið það vel að við fáum fólk en ekki fífl til að stjórna okkur.  Ef ekki þá heldur strögglið áfram og raunveruleikinn mun halda áfram að refsa okkur.

 

Dagurinn sem við hættum að láta ljúga að okkur, við hættum að trúa bulli og bábiljum, dagurinn sem við ákveðum að nota okkar heilbrigðu skynsemi, er dagurinn sem Ísland byrjar að rísa á ný.

Og það er styttra í þann dag en við höldum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Viðkvæm staða ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Mikið er ég sammála þér...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 19.3.2011 kl. 11:22

2 identicon

Þetta með hærri skatt - dæmi:  Svíar hækkuð tóbaksskatt verulega mikið fyrir nokkrum árum síðan og eftir tvö ár var viðurkennt að skattatekjur af tóbaki höfðu minkað um helming. Smygl á tóbaki margfaldaðist  og nánast allir keyptu það tóbak,   þannig að skatturinn var lækkaður aftur, en það var of seint, því það smyglaða er komið til að vera. Tek fram að þetta var í tíð sossana, þú veist þessir með skattasýkina. Því hærri skattar, því meiri skattsvik, einfalt.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 11:56

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hvernig er hægt að toppa sjálfan sig í hverju blogginu á fætur öðru Þetta er frábært blogg sem inniheldur í raun grundvallarsannleikann varðandi það sem við stöndum frammi fyrir í dag!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.3.2011 kl. 13:07

4 identicon

Þannig að þú vilt meina að það náist meiri hagvöxtur með því að skera ekki niður?

Bergþór (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 13:37

5 identicon

Ekki eru öll efnahagsumsvif jöfn, þótt þau mælist í aukinni þjóðarframleiðslu. Sumt er arðbært, annað ekki. Mjög margt af því sem hið opinbera fæst við tilheyrir síðari flokknum. Vissulega eykur það eftirspurn í hagkerfinu, en án nægrar arðsemi er fáránlegt að stunda þá hluti á krít (myntkörfuláni m.a.s.).

Eyjólfur (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 13:44

6 identicon

Þetta er algjörlega hárrétt hjá þér. Þetta eru engin geimvísindi. Ég hef talað fyrir því að það ætti að lækka skatta á fyrirtæki, hið minnsta og/eða eitthvað á almenning líka, og eitthvað kalla til baka þessi gjöld sem þú nefnir líka réttilega til þess að koma atvinnulífinu í gang. Fyrirtækin þurfa meira svigrúm núna strax og ef þau fá það geta þau annaðhvort byrjað að ráða atvinnulaust fólk eða borgað þeim sem fyrir eru hærri laun eða bæði. Hvort heldur sem er þá græðir ríkið í formi aukinna tekna frá fyrirtækjunum og síðan græðir ríkið aftur þegar fleiri fá vinnu og/eða þegar fólkið fær hærri laun. Þetta er ekkert svaka flókið en skattaparið Jóhanna og Steingrímur eru steinrunnin og skilja þetta ekki, því miður. Og svo talaði Jóhanna um að við þyrftum kringum 15% hagvöxt 2013-14, glætan að við náum því upp úr 3-5% á tveimur árum ef þessi ríkisstjórn ætlar að halda áfram með afturhaldsstefnu eins og hún hefur gert allar götur síðan hún var sett á laggirnar. Frábær pistill hjá þér.

þórarinn (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 14:16

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðar stöllur, Rakel og Ingibjörg.

Meinsemd íslenskra stjórnmála í dag er að fjármagn var tekið fram yfir fólk.  En fjármagn er dautt tæki, það sem slíkt gerir ekki neitt.

Nema það sé fólk sem lætur það vinna.

Þess vegna eru lífsskilyrði fólks vernduð á krepputímum, skjaldborg slegin um heimil þess og afkomu.  Það er ef fólk stjórnar, ekki ómenni eins og ómenni AGS.  Það er engin munur á þeim og steratröllunum sem labba um með hafnaboltakylfur, sama aðferðafræði, sami árangur.

Og þessu þurfum við að breyta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.3.2011 kl. 15:51

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér er linkur á góða bloggrein Kristjáns Hilmarssonar þar sem hann fjallar einmitt um hvernig við erum föst í vitlausri hugmyndafræði.

http://keh.blog.is/blog/keh/entry/1151748/

" að nýta tækifærið sem þessar fórnir eru búnar að skapa og byrja uppbygginguna af fullum krafti, nýta kunnáttuna, auðlindirnar og dugnaðinn sem býr í fólkinu, ef það bara fær tækifæri og hvatningu til að bretta upp ermarnar og byrja,"

Þetta er kjarninn, það er fólk sem endurreisir efnahagslífið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.3.2011 kl. 15:55

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Annars vil ég þakka öllum innlitið.

V. Jóhannsson, þeir sem vilja hámarka skatttekjur þurfa einmitt að þekkja þetta samhengi, að ofsköttun dregur úr tekjum, eykur þær ekki.

Bergþór, þetta er nú ekki frumsamið hjá mér, hagfræðingarnir Gylfi Zoega og Jón Daníelsson reyndu mikið að útskýra þetta fyrst eftir Hrun, eins hún Lilja okkar sem hefur margar góður Liljur kveðið.  En þjóðin veðjaði á vitleysingana sem komu okkur á hausinn, og eru ekki ennþá búnir að fatta hvað fór úrskeiðis, enda er verið að endurreisa sömu vitleysuna, nema ennþá vitlausari en síðast.

Eyjólfur, hvað er það sem er ekki arðbært hjá ríkinu??? Menntun, heilsugæsla??' Kerfið???  Nútíminn kallar á öfluga menntun og heilsugæslu, og kerfið var það fyrsta sem menn fundu upp við að reka miðstýrð samfélög, það að það sé til kerfi ennþá, eftir um 5.000 ára sögu þess ætti að útskýra fyrir fólki að kerfið er komið til að vera.  Þó það væri ekki til annars en að böggast í.

Eins er þetta rökvilla hjá þér, við erum að tala um samdrátt, um að framleiðsluþættir eru illa nýttir.  Niðurskurður dregur enn meir úr nýtingu þeirra og eykur líkur á að fleiri einingar gefist upp.  Sama gildir um aukningu á skattheimtu.

Peningaprentun sem fer til dæmis í nýsköpunarverkefni er dæmi um útgjöld sem hreyfa við hagkerfinu, eins aukið framboð af framkvæmdarlánum, og svo framvegis.

Þórarinn, Ragnar Árnason prófessor benti einmitt á þetta i góðri grein í Morgunblaðinu einhvertímann snemma árs 2009, að menn ættu að skoða skattalækkanir þar sem ljóst væri að þær skiluðu sér í auknum umsvifum.  Til dæmis afsláttur á virðisaukaskatti vegna framkvæmda er aðgerð sem sannarlega hefur náð tilganginum sínum.  Meira mætti skoða.

Og Seðlabankinn átti að fjármagna atvinnuleysistryggingasjóð, hækkun tryggingagjalds eykur atvinnuleysi og vinnur því gegn því  markmiði að draga úr því.

Og svo framvegis, það eru margar hliðar á þessu sem hægt er að ræða, en tilgangur pistilsins var einfaldlega benda á að stjórnvöld réðu ekki við verkefni sitt, og það sem verra er, þau hafa ekki hugmynd um af hverju.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.3.2011 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 59
  • Sl. sólarhring: 1008
  • Sl. viku: 5790
  • Frá upphafi: 1398958

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 4911
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband