Þjóðaratkvæðagreiðsla um glæp.

 

Er auglýst í útvarpinu í dag.  Hún verður haldin 9. apríl 2011 ef dómsvaldið grípur ekki inn í og fellir hana úr gildi.  Vegna þess að það er ekki hægt að halda þjóðaratkvæði um glæp.

Glæpi á að stöðva, og glæpamönnum á að refsa, líka þeim sem aðstoða við glæpinn.

 

Af hverju er þetta glæpur???

Ögmundur Jónasson greindi frá í Kastljósinu að ein af meginástæðum þess að hann legði til við Alþingi að lögreglan fengi auknar heimildir til að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi væri sú staðreynd að "glæpamenn krefji fyrirtæki um greiðslur svo þau njóti verndar".  Og hann nefndi dæmi um velstæðan mann sem hefði verið krafin um mánaðarlegar greiðslur svo hann gæti verið öruggur um dóttur sína.  

Ástæða þess að þetta er glæpsamlegt athæfi er sú að þessar kröfur byggjast ekki á neinum lögum eða samningum, að krafa glæpamannanna styðst ekki við úrskurð dómsstóla og ef menn neita að borga, þá er ekki leitað til dómsstóla um innheimtuna, heldur er "fórnarlambinu" hótað með einhverjum skelfingum ef hann borgar ekki.

Svo ég dragi þetta saman, þá er krafan ólögvarin, styðst ekki við skýrar lagaheimildir og hótunum er beitt til að neyða "fórnarlambið" til að samþykkja hana.  Ef ég sleppi orðinu "fórnarlamb" og set in orðið "Íslendinga" þá er ég að vitna í grein Bjarna Benediktssonar frá sumrinu 2009 og hann var að fjalla um ICEsave kröfu breta.

Og þessum orðum hefur engin mótmælt, rökin sem stuðningsmenn ICEsave hafa haldið sig við er að við verðum að borga annars losnum við aldrei við hótanir breta.

En það sem þeir vita ekki en Ögmundur veit, er að slíkt athæfi er ólöglegt, bæði sjálf fjárkúgunin, sem og hitt að semja við fjárkúgarann.  Slíkt á alltaf að kæra til lögreglu.

 

Og það er engin undanþágu ákvæði í lögunum vegna breskra stjórnvalda.  Ef menn vilja semja við þau um ICEsave, þá þarf fyrst að breyta lögum á þann hátt, að taka fram að fjárkúgun sé ólögleg, nema í þeim tilvikum sem erlent ríki standi fyrir henni og það henti stjórnmálalegum hagsmunum flokka á Íslandi að samþykkja hana.

Mér vitanlega þá talaði Ögmundur ekki um slíka lagbreytingu, heldur aðeins að það þyrfti að skerpa lögin og veita lögreglu auknar heimildir til að berjast við skipulagða glæpastarfsemi.  

Spurning hvort þetta sé leið Ögmundar til að losna við Samfylkinguna úr ríkisstjórn því óneitanlega ber stuðningur hennar við ICEsave keim af vinnubrögðum Hell Angels klúbba yfir landamæri eins og lögregluforingi hjá Interpol lýsti í fréttum útvarpsins í dag.

 

En hvort sem lögreglan verður búin að fá heimildir til að stöðva innlenda aðstoð við bresku fjárkúgunina fyrir þjóðaratkvæðið 9. apríl eða ekki þá er ljóst að hvaða borgari sem er getur kært hana, og vísað í lög sem banna kúgun, þar með talið handrukkun og aðra fjárkúgun.

Vegna þess að ICEsave krafa er ólögvarin krafa innheimt án atbeina dómsstóla.

Og íslenskir dómsstólar dæma eftir lögum og lögin eru skýr.

 

Og lögin segja, að þjóðaratkvæðið um ICEsave samninginn við breta sé þjóðaratkvæði um glæp.

Og slíkt er bannað í réttarríkjum.

Af hverju heldur þessi skrípaleikur áfram?????

 

Gaddafi á enga skriðdreka hér, og ekki erum við heilaþvegin þjóð eins og íbúar Norður Kóreu.

Af hverju greiðum við þá atkvæði um fjárkúgun???

Erum við ekki lengur sjálfstæð þjóð????

 

Ég bara spyr.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

16. apríl 2011? Ekki þann 9. apríl 2011?

Annað. Það eru engir stuðningsmenn við Icesave á Íslandi. Hins vegar vill margt fólk leysa þessa deilu með samningum, einkum til að liðka fyrir ýmsu öðru. Öllum ber saman um að þetta mál stendur okkur fyrir þrifum á mörgum sviðum. Það er hægur vandinn að taka undir með þér í einu og öllu, en einnig er hægur vandinn að freistast til að leysa þetta mál með samningum. Kostirnir eru í raun þessir tveir.

Semja. Dómstólaleið.

Báðir eru þeir vondir. Fólk verður bara að velja hvort það vill láta löðrunga sig hressilega með hnúajárni, eða fá duglegt spark í rassgatið með stáltá. Hvorugt er gott.

Rétt eins og að segja við fangann við sólarupprás á lokadegi:

Hvort viltu láta skjóta þig í hausinn eða í hjartað?

Það eru engir stuðningsmenn á Íslandi. Að halda því fram er ekkert annað en níðingsháttur gagnvart því fólki sem með æluna í kokinu vill frekar semja en draga málið á langinn fyrir dómstólum, vitandi ekkert hverjar afleiðingarnar verða.

Neyðarlögin voru fín fyrir Íslendinga, en afleit fyrir erlenda viðskiptavini bankanna okkar.

Mér er sem ég sæi framan  í Íslendinga, þig með talinn, ef þessu væri snúið við.

Ef við værum að gera þessar kröfur á nýlenduveldin.

Djöfull er ég orðinn þreyttur á þessu máli.

Var búinn að heita mér því að halda kjafti um það fram yfir kosningar.

Stend við það hér eftir!

 Bestu kveðjur, Björn

Björn Birgisson, 8.3.2011 kl. 21:32

2 Smámynd: Björn Birgisson

Gleymdi þessu. Í könnun minni um Icesave kosningarnar urðu úrslit þessi:

Segja JÁ 39.3%
Segja NEI 56.7%
Skila auðu 1.7%
Sitja heima 2.2%
Kannski varstu búinn að sjá það.

Björn Birgisson, 8.3.2011 kl. 21:44

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Björn. 

Þú kemur víða við og þar sem þetta er síðasti pistill minn í bili þá ætla ég að svara nokkrum efnisatriðum þínum, fólki til fróðleiks sem ennþá er fast í blekkingarneti talsmanna fjárkúgaranna, og kíkir hér við næstu daga á meðan Mbl veltur honum í gegnum háborðið.

Ætla því að taka eitt innslag í hvern blekkingarþráð sem sakleysingjar geta fest sig í þegar það reynir að finna sanngirni í málstað fjárkúgara.

Og þar sem þetta er hið eiginlega innslag sem ég beini af þér sérstaklega þá var ég ekki búinn að skoða úrslitin en var farinn að gruna niðurstöðuna miðað við pókerfésið sem þú varst farinn að sýna.

Og miðað við að þetta er síðan þín, eitt síðasta athvarf villuráfandi sálna, þá staðfestir það enn meir kenningu mína um að Gylfi forseti sé hættur að minnast á ICEsave að ótta við að enda eins og fylgifiskar Gaddafis, Murbaraks og ICESave kúgara, á ruslahaugnum.  

Ég spái 98-2, aftur því Hagstofan getur ekki lengur tekið þátt í að fegra myndina eins og hún gerði þegar samningurinn var kynntur, og Jóhanna gat kynnt þá fölsku mynd í áramótaávarpinu að nú væri allt á uppleið.  

En raunveruleikinn er annar, og hann verður öllum ljós 16. apríl, takk fyrir að leiðrétta mig um það.  Og svikin þjóð mun krefjast uppgjörs.  Held jafnvel að ég geti sparað eldfæri mín, svikin loforð munu sjá um það.

En þetta er bara spá, engu betri en skoðanakönnun meðal fólks sem er virkt á bloggsíðum.  Það segir svo afskaplega lítið til um hvað hinn almenni maður er að hugsa, og ég held að hann sé ekki enn búinn að gera upp hug sinn, svo ég segi nú það sem ég held í alvörunni.  

En tíminn vinnur með Nei-inu, alveg eins og í fyrra.

En leikslok eru ennþá ókunn.

Takk svo fyrir innlitið Björn.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 8.3.2011 kl. 23:21

4 Smámynd: Björn Birgisson

Síðasti pistill þinn? Kjaftæði, þú getur ekki hætt!

Björn Birgisson, 8.3.2011 kl. 23:26

5 Smámynd: Ómar Geirsson

"Annað. Það eru engir stuðningsmenn við Icesave á Íslandi. Hins vegar vill margt fólk leysa þessa deilu með samningum, einkum til að liðka fyrir ýmsu öðru.Það eru engir stuðningsmenn á Íslandi. ..........Að halda því fram er ekkert annað en níðingsháttur gagnvart því fólki sem með æluna í kokinu vill frekar semja en draga málið á langinn fyrir dómstólum, vitandi ekkert hverjar afleiðingarnar verða."

Björn, þar sem ég veit að grunnlífsskoðanir okkar eru ekki svo ólíkar, og allir sem þær hafa, skammast sín ekkert fyrir að níðast á þjóðníðingum og landsölumönnum, þá þarf að leita skýringa á af hverju þú vorkennir þeim svona, jafnvel trúir að þeir séu með ógleði, líkt og ólétt kona nema að ólétta þeirra hefur staðið núna í um 2 ár.

Þar komum við að áhrifum auglýsingafræða, eða það sem er kallað PR í dag.  Og ég hef það kannski fram yfir þig að hafa fyrir aldarfjórðungi síðan tekið kúrs í sölumennsku og öllum þeim trixum sem þar eru stunduð.  Þar var manni kennt að skoða ástæðurnar á bak við orðin, og hvernig orð rímuðu við raunveruleikann.

Í stjórnmálafræðinni er hann Machiavelli  talinn hafa náð þessu mjög vel í bók sinni Furstanum. 

Það má draga þetta saman, það er ekki allt sem sýnist, og orðum má stjórna.   Og ég trúi ekki bofsi að ICEsave samningarnir séu þessu fólki óljúft.  Vegna þess að aðferðarfræði þess kemur upp um það.  Blekkingarnar, beinar lygar, allar rangfærslur á staðreyndum, samningur sem ekki er hægt að verja (fyrstu tveir), meingallaður samningur í dag, þegar allt þetta er dregið saman, þá er útilokað en að skýr illvilji liggi að baki.  Illvilji í garð þjóðar sinnar.  Menn telja réttlætanlegt að leggja ólöglegar, níðþungar byrðar vegna sinna eigin hagsmuna, þá viðskiptalegra, pólitískra eða annað sem fær þá til að framkvæma svívirðuna.

Í þessu samhengi má ekki gleyma að fyrstu tveir samningarnir voru bein ávísun á gjaldþrot, og raunveruleikinn hefur þegar afhjúpað rangindi þeirra hagvaxtaspáa sem að baki lágu, og umbrotin í Arabaheiminum, yfirvofandi gjaldþrot bandaríska alríkisins, hrun evrusvæðisins, eldgosið í Eyjafjallajökli, svo eitthvað sé týnt til, sýnir að óvissan er algjör, og þegar hún er öll niður á við, þá taka menn ekki þekktar forsendur góðæristímabila, og ná með herkjum til að framlengja þær fyrir næstu ár svo að á pappírnum sé fræðilega hægt að reikna út að þjóðin hefði getað staðið í skilum ef hún hefði neitað sér um nútímann í neyslu.

Og Björn, talsmenn afglapanna reyna ekki að bera blak af sér, nota aðeins afglöp sín sem réttlætingu á því hvað þeir hafa samið vel núna.

Núverandi samningur er ekki sama algjöra vitleysan, en hann er meingallaður, vegna þess ákvæðis að tengja hann við pund og evru á meðan inngreiðslur í tryggingasjóðinn eru bundnar við fasta krónutölu.  Það vantar í hann ákvæði um hámark gengisáhættunnar, að það sé hægt að segja að hann kosti þetta að hámarki.

Og þegar eina talan sem er notuð, er sú ólíklegasta, það er 47 milljarða tala Seðlabankans sem gengur út frá forsendum sem geta aldrei gengið, þá er ljóst að þeir sem svoleiðis blekkja, þeir eru ekki illa þjáðir af óléttu.

En það er til fólk sem hefur haldið sig við staðreyndir allan tímann, og sagst meta óþægindin, og þá sérstaklega hættuna á þvingunum og pyntingum ESB landa, það mikils að illskást sé að semja.  Það hefur aldrei logið greiðsluskyldu upp á þjóðina, eða einhverri óvissu með dómsstóla, aðeins bent á nakta staðreynd, við vorum beitt fjárkúgun, og höfum ekki afl til að verja okkur.

Ég er ekki sammála því, en met það fyrir að ljúga ekki.  

Sigríður Ingvadóttir er dæmi um slíka manneskju sem hefur mér vitanlega reynt að halda sig við rök, ekki bull.  Þegar menn ljúga ekki, þá er hægt að nota álit Seðlabankans og Hagfræðistofnunar, og láta eins og eitthvert vit sé í forsendum þeirra.  Þetta eru jú stofnanir sem eiga að hafa fagþekkinguna.  Sigríður hélt sig við matið um að hægt væri að greiða þetta með harmkvælum, en taldi að ESB hefði afl til að frysta alla uppbyggingu.

Rangt mat, en mat engu að síður.

En þau ná ekki að vera teljandi á fingrum annarra handar fólkið í Samfó sem hélt sig við staðreyndir, og kannski þurft hina höndina líka til að telja það hjá VG.

Á móti koma tugir ef ekki hundruð manna sem hafa logið öllu því sem hugmyndaflug þess hefur fundið upp til að blekkja saklaust fólk til fylgis við ólöglega fjárkúgun.

Nei, Björn, Steingrímur fór með trúverðugleikann sinn um leið og hann kynnti Svavars samninginn, því miður, því miður fyrir okkur öll sem einu sinni treystum þeim góða dreng.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2011 kl. 23:53

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Björn, var að pikka inn og gat því ekki benti þér á aðra skýringu, smá skorti á athyglisgáfu, ég sagði í bili, þar  með önnur merking.  Ég er að fara í vetrarfrí í verðavítin á Héraði, verð þar ekki í tölvutengingu fram yfir helgi. 

Pistill rúllar líklegast á morgun, og það er fullt af fólki sem les þessar langlokur mína í athugasemdum, hef margrekið mig á það þegar ég passa mig ekki á ónákvæmninni, fæ hana í hausinn, jafnvel löngu seinna.

En áfram með smjörið.

Kveðja

Ómar Geirsson, 8.3.2011 kl. 23:57

7 Smámynd: Björn Birgisson

Gangi þér vel á Héraði.

Björn Birgisson, 9.3.2011 kl. 00:01

8 Smámynd: Ómar Geirsson

"Neyðarlögin voru fín fyrir Íslendinga, en afleit fyrir erlenda viðskiptavini bankanna okkar.  Mér er sem ég sæi framan  í Íslendinga, þig með talinn, ef þessu væri snúið við.  Ef við værum að gera þessar kröfur á nýlenduveldin."

Ég veit ekki hvað ég hef rætt þessi mál oft Björn, þetta með neyðarlögin.  Hef hreinlega aldrei skilið fólk sem fattar ekki að stjórnvöld þurfa og eiga að vernda og verja hag þjóðar sinnar, ekki annarra.  Þetta er frumforsenda alþjóðarréttar, og megin réttarregla allra ríkja.  Neyð kallar á neyðarráðstafanir, og öll ríki heims heimila stjórnvöldum að grípa til neyðarlaga sem ganga yfir öll lög ef því er að skipta.  Eina sem þarf að gæta er að viðbrögðin hæfi tilefninu.  Sé gætt "meðalhófs" eins og prófessor Stefán orðar það á lagamáli.

Og enginn hefur sýnt fram á að aðrar aðgerðir hefðu náð utan um vandann.  Vissulega veit enginn hvernig nútímaríki þrífst án fjármálakerfis, hvernig það kemst í gegnum algjört bankahrun þar sem ekki finnast stafshæfir bankar, en reynsla frá Sómalíu fælir frá og enginn mælir með Sómölsku leiðinni í fullri alvöru.  

Líklegast voru neyðarlögin það eina sem síðasta ríkisstjórn gerði að viti, síðan voru teknar raðákvarðanir sem voru rangar, tíminn er að sanna það.

En hafi þau verið gölluð á einhvern hátt þá bar að gera athugasemdir við þau strax.  Þess vegna höfða til dæmis almennir kröfuhafar bankanna mál út af þeim, sérstaklega til að fá forgangi innlána hnekkt.  Fleiri málaferli fóru af stað, og hingað til hefur ríkið unnið.  Enda er það í eðli neyðarlaga, að ef þau reynast gölluð, þá er bætt úr þeim göllum með öðrum neyðarlögum, en þau eru ekki felld úr gildiDómsstólar skapa aldrei neyð með dómum sinum.  Slíkt er bara bábilja handa ofurtrúgjörnum.  

Þess vegna er neyðarlögum sem slíkum aldrei hnekkt, en ef ákvæði í þeim fara fram úr tilefninu, þá geta dómsstólar lagt til breytingar til útbóta.  Telji stjórnvöld sér ekki fært að fara eftir þeim, þá setja þau ný neyðarlög.  En eins og ég orðaði þetta einu sinni, þá gat Hitler ekki unnið breta með því að stefna breskum yfirvöldum fyrir dóm þar sem ýmis brot á borgaralegum réttindum væru talin ástæða þess að afnema herlög og þau lög sem gerðu stjórnvöldum kleyft að hervæða þjóðfélagið.  

Alvöru þjóðir sem hafa þurft að berjast fyrir tilveru sinni, skilja ekki svona umræðu eins og er hér á Íslandi um að neyðarlögin skapi bretum einhverja lagastöðu gegn sjálfstæðu ríki.  Þannig er bara ekki raunveruleikinn.

Annað atriði sem þú komst inná, þessu réttlætisrök, að við vildum ekki láta koma svona fram við okkur,, þau standast enga skoðun.  Eru raunverulega mjög sjúk, þó þeir sem slái því fram, hugsi ekki út í það.

Myndi ég vilja að íslensk stjórnvöld færu í mál við bresk stjórnvöld um að þau greiddu tjón mitt vegna viðskipta minna við breska banka í Íslandi.?? Svarið er auðvita já, ef það stæði í gildandi lögum eða alþjóðasamningum að breskir skattgreiðendur hefðu verið svo vitlausir að ábyrgjast innlán í öðrum löndum, þá myndi ég ætlast til þess að þau lög myndu gilda.  Það er enginn annar bróðir í leik, annað er hræsni að halda fram.

Og ég myndi ætlast til að íslensk stjórnvöld myndu gera kröfu, og síðan fara með hana fyrir dómsstóla ef bretar yrðu ekki við henni.  Hugsanlega myndi ég taka þátt í málsókn tapara gegn breska ríkinu ef ég teldi lögin vera okkar megin.

En ég myndi aldrei fara fram á að íslensk stjórnvöld myndu beita hótunum og ógnunum til að framfylgja þessum kröfum.  Því ég hvað sú lögleysa þýðir að lokum, það er það þjóðfélag sem við reyndum að losna við með því að taka upp nútímaréttarfar fyrir mörgum öldum síðan.  

Það tapa allir á lögleysu og þjóðfélagi hnefaréttarins.  Og mér finnst hálfsjúkt að bera það upp á andstæðinga ICEsave, að þeir séu allir sem einn fylgjandi glæpum og fjárkúgunum, bara ef þeirra hagsmunir græddu á slíku.

En það græðir enginn á slíku Björn, það tapa allir á villimennsku.

En þetta er hálfsjúkt, en það er mjög sjúkt að bera það upp á fólk að það myndi ætlast til að íslensk stjórnvöld gerðu löglausa kröfu á hendur breskum stjórnvöldum, þvert á efnisatriði málsins, þvert gegn skýrum lögum.

Það er ekki til neitt sjúkara en að rukka nágrannann, náungann eða ókunnan, hvað þá þegna annars lands um eitthvað sem stendur skýrt að hann eigi ekki að borga, og fá svo sínu framgegnt með ógnunum og hótunum..

Myndum við ekki gera þetta Færeyingum spurði einn mig fyrir ári síðan.  Ég sagði honum að ef íslensk stjórnvöld hefðu beitt aflsmunar til að kúga minni nágranna, þá væru það ekki lengur mín stjórnvöld, þau væru löglaus og það mætti beita öllu ráðum til að koma þeim frá.

Svona hagar enginn siðaður maður sér Björn.

Og þeir sem slá þessu fram, þeir hugsa aldrei eina hugsun, og það er samband þegna, skattgreiðenda við sitt eigið stjórnvald.  Þess vegna áttu breskir "taparar" að leita til þarlenda stjórnvalda um að fá tjón sitt bætt, og það gerðu þeir.  Þeir greiddu skatt í breska ríkissjóðinn, og áttu því kröfu á hendur honum, ekki þeim íslenska sem þeir vissu ekki að væri til.

Sama gera íslenskir skattgreiðendur, þeir leita til íslenska ríkisins verða þeir fyrir tjóni.  Þess vegna eigum við viðlagatryggingar svo dæmi sé tekið.  Þær bæta tjón á Íslandi, og þó sama illviðrislægðin valdi tjóni í Færeyjum og Hjaltlandseyjum, þá bæta íslensku viðlagatryggingarnar ekki tjón þar. 

Og enginn er svo heimskur í Færeyjum eða Hjaltlandi að fara fram á slíkt.  

Sagan kann engin dæmi um svona kröfugerð á hendur skattgreiðendum annarra ríkja, fyrr en bretum datt þetta í hug.  Og fengu hollensk stjórnvöld í lið með sér.

Og þegar ég segi engin dæmi Björn, þá meina ég engi dæmi.  Þú mátt hringja í alla sagnfræðinga landsins til að fá slík dæmi til að hnekkja máli mínu, en þú munt ekki fá sambærileg dæmi.  Allar svona kröfur byggjast á lögum og reglu, lögum og reglum sem liggja ljóst fyrir i upphafi.

Og dómsstólar skera úr um þær.

Þess vegna fjallar þessi grein mín um glæp, og engin borgunarsinni leggur í rökleiðsluna þó þeir viti að hundruð manna lesi hana, og margir taki upp þessi rök.  Þeir vita að á hverjum degi fara hundruð manna úr þeirra herbúðum yfir í okkar Nei-sinna, og samt leggja þeir ekki í rökræðuna.

Því það er svo langt síðan að þeir töpuðu henni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2011 kl. 00:38

9 Smámynd: Ómar Geirsson

"Semja. Dómstólaleið.  Báðir eru þeir vondir".

Þetta er frasi Björn, sem tíminn hefur afhjúpað.  Ég gat skilið þessa rökræðu fyrst, þá lá málið ekki svo ljóst fyrir.  Ég man að mín afstaða var alltaf sú í grunninn gæti það ekki staðist að svona fjárhagstengsl milli þegna í einu landi á hendur stjórnvöldum í öðru.  Það gengur gegn grunnréttindum fólks, að vera alltí einu komið í  ábyrgð fyrir innlánum í öðru landi.  Og fræðilega gengi það aldrei upp því minna land gæti aldrei ábyrgst stærri, og því væri slík ábyrgð ónothæf.  Eða eins og ég sagði, þó að allar eigur þegna smáríkisins væru seldar, og fólkið selt í námur, þá dygði það ekki til, og hver ætti þá að greiða það sem eftir stæði???

Enginn væri svo vitlaus að semja svona lög.

En ég var ekki viss, viðurkenni það en þegar ég sá að engin rök komu á móti greinum Stefáns og Lárusar þá fór ég að kynna mér málið betur.  Ég gúglaði á tilskipunina, las forsendur hennar og sá að þeir fóru rétt með, það stóð ekkert annað í lögunum en það sem þeir sögðu.

Og það ætti að segja fólki að á móti skýrum lagarökum komu engin lagarök á móti.  Bæði í greinargerð breta og ESA er rangt farið með dóma, og lagatexta, augljóst öllum lögfræðingum og þýðir aðeins eitt, málstaðurinn svo slæmur að ekki er hægt að týna eitthvað til sem gæti verið satt.

Hér innanlands þá var engin grein skrifuð gegn þeim félögum af lögfræðingum, Helga Vala, námsmaður reyndi, fór rangt með grunnstaðreyndir, og Kristinn H Gunnarsson, bókari reyndi líka, og fór ennþá vitlausara með enda flengdi Sigurður Líndal hann á svo eftirminnilegan hátt að Kristinn greyið grenjaði í svargrein, að það ætti ekki að fara svona illa með menn sem reyndu að ræða málin.

Aðrir sem rifu sig eitthvað, gerðu það í Netheimum, í pistlum eða bloggi, þorðu ekki í opinbera umræðu.  Heilbrigt vit á að segja manni hvað það þýðir þegar slegist er upp á líf og dauða.

Ytra fullyrðir FT að krafa breta sé ólögleg.  Fyrst var það sagt að öllum líkindum, svo var því hreinlega haldið fram.  Bresk stjórnvöld reyndu að þvinga blaðið bak við tjöldin til að draga þessa fullyrðingu til baka, en þau þorðu ekki í opinbera þrætu.  Allt hugsandi fólk sem les FT veit hvað það þýðir, blaðið fullyrðir ekki svona nema vera visst í sinni sök, og ef því er ekki svarað, þá er ljóst að það hafði rétt fyrir sér.

Hér innanlands fékk svo Egill Helga mann sem þekkti til reglugerðarsmíða ESB til að að útskýra hugsunina á bak við reglugerðir um fjármálamarkaði og að þeim væri stefnt gegn ríkisábyrgð, en ekki hugsaðir sem ríkisábyrgðir.  

Samt slá menn hausnum við stein og þykjast vita betur, og ennþá er það bókari, laganemi, söngelskur skipstjóri, tölvunarfræðingur, sem telja sig vita betur en sérfræðingurinn. 

Eftir hans málflutning þá er það fáviska að tala um lagastöðu breta, og það átti að útskýra fyrir fólki af hverju þeir fóru ekki strax með kröfu sína fyrir dóm.   Og af hverju þeir gera það ekki ennþá.

En þeir sem vildu leika fáráði, ég segi leika því enginn er svona vitlaus í raun, þeir töpuðu slagnum endanlega þegar ESB kvað úr um að ekki væri ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóðum samkvæmt reglugerð ESB.  Vissulega sögðu þeir um leið að Ísland ætti að greiða og tiltóku ástæður þess, skoðanir sem stóðust enga skoðun.  En það er ekki málið.

Það er dómsstóla að skera úr um slíkar fullyrðingar.  Þessir menn eru ekki guðir.  Aðeins mafían telur sig hafa slíkt vald að þurfa ekki að nota dómsstóla.

Dómsstólar, versus að greiða fjárkúgun, ég skil ekki hvernig fólk getur stillt þessu upp á þennan hátt eins og þú gerir Björn.

Dómsstólar dæma eftir lögum, og eftir það semja menn, falli dómur gegn þeim.  Semja vegna þess að enginn dómur hefur vald til að dæma þjóðir í svo þungar skaðabætur eins og felst í ICEsave samningnum.  Neyðarréttur þjóða útilokar það.  Og engin dæmi eru um slíkt.  

Jafnvel Þjóðverjar eftir seinni heimsstyrjöld, eftir að vera gjörsigraðir í stríði, voru ekki dæmdir til slíkrar nauðungar eins og samið var um í síðasta ICEsave, ekki þegar hin margfræga höfðatala er tekin með.

Þá eru síðustu rökin eftir, og það er að bretar munu ekki fara með málið fyrir dóm, heldur muni þau þvinga þjóðina til að greiða, valda okkur búsifjum.

Og ef svo verður, þá verður svo.

Þetta er gjaldið við að vera sjálfstæð þjóð, að þurfa að verja sjálfstæði sitt.  Þess vegna verjast menn innrásum, hermdarverkum, skipulagðri glæpastarfsemi.  Það er oft ódýrara að gefast upp.  Til dæmis þá sprengdu Þjóðverjar meiri verðmæti í upphafi stríðsins en þeir kröfðu bresk stjórnvöld um gegn því að láta þau í friði.  

Oft geta óaldarflokkar valdið samfélögum miklu tjóni.  

Það er kostnaður fyrir Lýbísku þjóðina að losna við hyski Gaddafis, en svona er þetta.  Frelsi og sjálfstæði er ekki metið til fjár, og flestar þjóðir kosta mannslífum til að standa á rétti sínum.   Það er erfitt að standa gegn hryðjuverkamönnum sem hvenær sem er geta gert mannskæðar árásir, en það er samt gert í öllum siðuðu löndum.

Því ein eftirgjöf leiðir til annarra.

Og kostnaðurinn við að standa gegn lögleysunni er oft mun minni en óttast var.  Því sá sem ógnar, hann hefur sjaldnast afl til að standa við hótanir sínar.  Hafi hann aflið, og innrætið til að hóta, þá tekur hann hvort sem er.

En samt berjast menn.  Unga fólkið sem lét lífið í Sarajevó, það vissi ekki hvort það dó til einskis, á tímabili þá virtust Serbarnir hafa öll töglin, en þá var bætt í og smán saman skilaði sú barátta frelsi.

Var það mannslífanna virði að halda sjálfstæði þjóðar sinnar.  Svarið var augljóst eftir Srebreinca, þeir sem skutu ungt fólk úr launsátri þar sem það sat og drakk kaffi eða gekk yfir götu, þeir voru hæfir til ennþá meiri hryðjuverka.  Enginn veit hvað þeir hefðu gert ef enginn hefði varist þeim.

Sagan sannaði líka að þeir sem bentu einmitt á kostnaðinn við að standa gegn hótunum illra innrættra manna og vildu því endalaust semja, að þeir höfðu rangt fyrir sér.  Það kom berlega í ljós í seinna stríði.  

Eins er það núna, ef bretar myndu virkilega reyna að gera okkur illt þó við stöndum á lögum og rétti, þá er innræti þeirra á því stigi ómennskunnar, að þessi uppgjöf væri aðeins byrjun á enn meiri hótunum og yfirgangi. 

Sönnun er sagan, hún kann engin önnur dæmi.

Björn, ef það er kostnaður við réttlætið, þá verður að taka því.  Hann er samt alltaf brot af því sem annars yrði.

Réttlætið er ekki metið til fjár.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2011 kl. 01:18

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, mér mun ganga vel, og hlakka mikið til. 

Innslag þitt gaf mér kærkomið tækifæri til að græja vissan endapunkt á ICEsave umfjöllun mína.  Eins og ég hef sagt þér, þá leiðist mér lognmollan, og minn eini tilgangur síðustu daga hefur verið að eggja menn gegn lögleysu, sem ef menn trúa, leysa fyrir dómsstólum.    Annars hreinlega nennti ég þessu ekki. 

Ég vil vissulega sverfa til stáls, en er ekki í aðstöðu hér á útnára að taka þátt í skipulögðu starfi þar sem hópi fólks væri komið saman um þessa frægu dómsstólaleið.  En ég get plantað, og greinar mínar verða að skoða í því ljósi.  Ég man ennþá gamla góða daga þegar ég var kallaður fáviti fyrir að tala um lögleysu og fjárkúgun, núna viðurkenna allflestir borgunarsinnar lögleysuna en bera fyrir sig hlutdræga dómsstóla og hinn meinta kostnað við að semja ekki.

Hvort margir endi á því að tala um glæp veit ég ekki, en ég hef reynt mitt besta, og get ekki kvartað yfir lestrinum á langlokum mínum.  Svona ekki miðað við deyfðina sem er almennt núna hér á Moggablogginu.

En vissulega eru til önnur sjónarmið, ekki skal ég bera á móti því.  

En væri ég í fimm manna hóp með mín, þá myndi ég láta reyna á þau.  Það er ef einhver hefði efni á lögfræðingnum.  

En ég rífst ekki við dómarann, það er aðeins Ferguson sem gerir það.

Honum væri nær að fara spila sóknarknattspyrnu, aftur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2011 kl. 01:28

11 identicon

Heill og sæll Ómar; jafnan !

Ómar !

Það eru einmitt; kjarkleysingjar og lítilmenni, sem Björn Birgisson - og aðrir; honum áþekkir, sem eru okkar samfélagi, skeinuhættastir.

Þvættingur; sem lygar Björns, um svokallaðar dómstólaleiðir Brezkra og Hollenskra Heimsvaldasinna (að öðrum ESB löndum,, meðtöldum), á sér öngvar stoðir, þar sem skæðadrífa málssókna, é hendur þeim sjálfum, af hendi gamalla nýlendna þeirra, myndi hitta þá fyrir - fyrir nú; utan mjög óþægilegar upprifjanir ESB meðlimanna;; Frakka, á þeim tíma, sem þeir kúguðu stórfé, undan Haítí mönnum, frá fyrri hluta 19. aldar - langt; inn eftir þeirri 20, sökum neitunar Haítí manna, á útvegun þræla, Frökkum til handa.

Pólitísk löðurmenni; sem Björn Birgisson, og aðra hans líka, skal ekki taka alvarlega, þar sem þeir þora ekki, eða vilja ekki, minnast á þær staðreyndir, sem ég nefndi hér, og kynnu að verða vinum þeirra, í Evrópusambandinu, einkar dýrar, þá; upp væri staðið.

Björn gleymir þeirri staðreynd; að betra er að vera dauður frjáls maður - fremur en feitur þjónn, úrkynjaðra Vestrænna Heimsvaldasinna drullusokka, Austfirðingur góður !!!

Með beztu kveðjum; austur í fjörðu, sem áður - og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 02:13

12 identicon

Heill og sæll Ómar

Takk fyrir frábæran pistil og einnig athugasemdir þínar,

sem eru leiftrandi snjallar og hitta beint í mark; þrumufleygar.

Með bestu kveðju

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 03:06

13 Smámynd: Þórir Kjartansson

Já hvað mynduð þið herskáu menn segja, Ómar og Óskar Helgi ef breskir og hollenskir  fjárglæframenn hefðu komið hér og svikið milljarða út úr hrekklausum íslendingum og síðan hefði íslenska ríkið þurft að bæta því fólki skaðann.  Það  yrðu örugglega ófagrir pistlar sem þið létuð þá frá ykkur fara í heilagri reiði út í helv. útlendingana sem  hefðu svikið okkur og prettað og  ættu að ykkar áliti að borga okkur þetta fé til baka með hæstu dráttarvöxtum.

Þórir Kjartansson, 9.3.2011 kl. 08:36

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Óskar, við Björn erum dús og eins veit ég að hann kippir sér ekkert upp við orðnotkun þína, enda tekur Björn sjálfur sterkt til orða.  Já, menn vilja líta á deiluna sem eyland, en það er ekki þannig, ef ólög gilda um okkur, þá gilda þau sömu lög um aðra, sannarlega brotamenn.

Takk Pétur.

Þórir, tel mig hafa eitt löngu máli að útskýra afstöðu siðaðs fólks.  En gott og vel, er í pökkunarpásu og skal því pikka in nokkrum orðum.

Um allan heim er fólk að valda öðrum skaða, og sá skaði er ekki alltaf bundinn við heimaland glæpamannsins.  En þú getur engin dæmi nefnt þar sem samborgarar glæpamannsins séu gerðir ábyrgir, nema tilefni nasismans þar sem heilum kynþætti var útrýmt vegna meintra brota örfárra einstaklinga (okrar, stríðgróðamenn, drápu Krist).  Skil ekki alveg að þú sért svona hrifin af slíku siðferði að þú viljir slíkt þinni eigin þjóð.

Fordómar eftir þjóðerni eru líka í dag einn sjúkasti afkimi mannshugans og fyrirfinnst víða í Evrópu.  Og afturkreistingar eins og nýnasistar eða fótboltabullur, lemja menn eftir þjóðerni.  En siðaður maður lætur dómsstóla lemja glæpamanninn.  Ég vil til dæmis að lögreglan stoppi sannarlega glæpastarfsemi Litháískra glæpamanna sem voru sendir hingað til lands af glæpasamtökum, til að vinna að glæpum frá 7-7.  En ég vil ekki að lögreglan handtaki og reki úr landi samlanda þessa glæpalýðs, kann að gera greinarmun á fólki, og dæmi gjörðir þess, ekki þjóðerni.  Þó ég sé fótboltaaðdáandi þá er ég ekki fótboltabulla, og nýnasisti og kynþáttahatari ekki heldur þó ég sé á móti fjárkúgun og ofbeldi.

Og íslenska ríkið hefði bætt skaðann eftir lögum, eða eftir nytjasjónarmiði, að það hafi talið almannahagsmuni krefjast að fólki væri bættur skaðinn.  Og síðan myndi það örugglega passa sig betur á þeim sem pretta og svíkja.

En mér virðist að pýramídaþjófar séu ennþá með starfsleyfi, svo það er ekki algilt.

Svo ég dragi þetta saman Þórir, þó margur haldi mig sig, þá er alveg óþarfi að þú ætlir mig þig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2011 kl. 09:33

15 Smámynd: Þórir Kjartansson

Takk fyrir ,,svarið" Ómar minn, sem ég fæ reyndar ekki mikið samhengi í og frábið mér algerlega að þú sért að væna mig um hrifningu á nasistum ög öðrum glæpalýð mannkynssögunnar.  En svona fara menn oft að tala og skrifa þegar þeir eru rökþrota og geta ekki rætt hlutina æsingalaust.   Ég held að þú hljótir bara að fara öfugu megin fram úr rúminu á hverjum einasta morgni. 

Kveðja að sunnan

Þórir Kjartansson, 9.3.2011 kl. 10:39

16 Smámynd: Björn Birgisson

Ég sé að mér eru ekki vandaðar kveðjurnar í innleggi #11 frá Óskari Helga Helgasyni. Sá sem svona skrifar á eitthvað vantalað við almenna mannasiði svo ekki sé meira sagt.

Björn Birgisson, 9.3.2011 kl. 11:05

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Björn, þið Óskar ræðið það í rólegheitum, reikna með að þið hafið gert það áður.

Þórir hengdu þig á það sem þú vilt.  Eina þekkta dæmið úr sögu vestræna þjóða, um þá gjörð sem dæmi þitt lýsir, er það sem ég tók.  Ef þú átt annað dæmi sem svarar rökfærslu þinni, þá máttu alveg koma með það.

Menn sem fremja glæpi, eru látnir svara til saka, ekki samlandar þeirra.  Í dæmi þínu ætlast þú til þess, sem segir mikið til um innræti þitt í garð samlanda þinna.  Og það sem meira er, þú ætlast til þess að ég sýni slíka hegðun, sem er mér fjarri.

Ef þú kannt ekki við mótrökin þá skaltu halda skoðunum þínum um sekt annarra en glæpamanna, fyrir þig, og gerðu ekki öðrum upp þær skoðanir til að réttlæta auman stuðning þinn við fjárkúgun og glæpi.

Og það er enginn æsingur að benda þér á hvað þú segir, bæði hér og annars staðar.  

Þú notar órök, og ekki meira um málið að segja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.3.2011 kl. 12:07

18 Smámynd: Viðar Friðgeirsson

Heill og sæll Ómar og hafðu þökk fyrir þennan pistil og andsvör ásamt öllum þínum fyrri pistlum um þetta málefni.

Þú ert ötull og ávallt málefnalegur þegar þú fjallar um þetta dæmalausa ICEsave mál og ekki hef ég séð neinn reyna að hrekja þitt mál með almennilegum rökum, heldur frekar með því að endurtaka hræðsluáróðurinn sem stjórnvöld og málpípur þeirra reyna að halda að okkur.

Þórir virðist mér hér vera einn af þeim. Þar sem hann virðist ekkert skilja hvert þú ert að fara í svari þínu til hans er kanski rétt að einfalda málið fyrir honum og benda bara á þessa frábæru setningu og einföldu staðreynd;

"Um allan heim er fólk að valda öðrum skaða, og sá skaði er ekki alltaf bundinn við heimaland glæpamannsins.  En þú getur engin dæmi nefnt þar sem samborgarar glæpamannsins séu gerðir ábyrgir,"

Vona þetta hjálpi honum að skilja þig.

Viðar Friðgeirsson, 9.3.2011 kl. 12:11

19 identicon

Bara eitt Ómar minn, það er dásemdarblíða hér upp á Héraði svo þú þarft ekki að kvíða neinu hvað það varðar.

Er ein af þeim sem les flesta þína pistla og er mikil aðdáandi :)

Kv úr Brekkuseli 1

Egilsstöðum

(IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 13:59

20 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ómar minn. Ég held að það sé orðið brýnt heilsufarslegt spursmál fyrir þig að komist í afslöppun upp á Hérað. 

Kveðja að sunnan

Þórir Kjartansson, 9.3.2011 kl. 14:12

21 identicon

Samingurinn nánast kominn niður í núll en ennþá eru menn að öskra sig hása út af honum. Það er alveg með ólíkindum. Þjóðinni stendur til boða skjósa þetta mál út úr heiminum með litlum eða engum tilkostnaði. Mun hún gera það? Eða er meirihlutinn orðinn jafnruglaður og þetta Moggablogga- og Útvarp Sögu lið? - Viljum við frið og góðæði eða stríð og lengri kreppu?

ábs (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:30

22 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Ómar !

Þú ert; einn þeirra Ármanna Íslands, sem seint verður fullþökkuð, árveknin, sem varðstaðan, um hagi og háttu lands og lýðs og fénaðar, alls.

Þórir Kjartansson !

Heybrækur; voru þeir öngvar : Lajos Kossuth, frelsishetja Ungverja (19. öld), sem og Giuseppe Garaibaldi, frelsishetja Ítala (19. öld), gagnvart Habsborgaraveldi Austurríkiskeisara - fremur en Nikos Sampson, frelsis hetja Kýpverja (20. öld), gegn Brezkri átroðslu, þar syðra.

Ómar Geirsson; verðskuldar fyllilega, að sitja sæmdarbekk þann, sem þeir hafa setið, fyrir sínar þjóðir - öðru máli, gegnir um menn, sem þig, ágæti Skaftfellingur.

Þú tiltekur; hversu mér, sem Ómari og öðrum hefði farist, hefðum við átt viðskiptin, við Brezka og Hollenska. Fyrir það fyrsta; hefði ekki komið til þess, af minni hálfu, sökum meðfæddrar tortryggni minnar - og; annað er það, að þeir Brown og svo, þeir Hollenzku, ákváðu, upp á sitt einsdæmi, að bæta meðspilurum Landsbanka svindlaranna, allt sitt tap, var alfarið, þeirra Brown´s ákvörðun, ekki Íslendinga, að taka þátt, þar í.

Þú Þórir; líkt nokkrum annarra, virðist ekki enn, kunna að greina, á milli opinbers Ríkisbanka - og banka einka svindlara, það eru, og munu verða þínir meinbaugir, unz þú glöggvar þig á, kannski;; með beztu manna hjálp, Skaftfellingur góður.

Hvet þig; til þess að láta af áfergju þinni, að ætla samlöndum þínum, sem öngvan tóku þáttinn, í glópsku Landsbanka mannanna, að greiða fyrir þá það, sem Íslendingum ber ekki, á nokkurn hátt.

Björn Birgisson !

Ætli; ekki megi deila um þína mannasíði - líkt mínum; þá, upp verður staðið, lítil sæmd hefir verið, að höfðingja sleikjuhætti þínum, til handa Stjórnarráðs setum, sem öðrum,, innan hinnar íslenzku valdastéttar, svo sem, til þessa.

Með; þeim sömu kveðjum, sem fyrri /

Óskar Helgi Helgason     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:40

23 identicon

Garibaldi; átti að standa þar. Afsakið; finnist meinbaugir nokkrir, míns máls.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:43

24 identicon

ábs !

Líkast til; munt þú öngva afkomendur eiga - eða þá, að þú hirðir lítt, um þeirra afdrif, á komandi tímum.

Ekki væri nú úr vegi; að þú sýndir okkur þann manndóm, að koma fram, undir fullu nafni, héðan í frá.

Með; sömu kveðjum - sem áður /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:47

25 identicon

Rosalega er þetta flottur pistill hjá þér Ómar Geirsson.
Vel skrifaður og málefnalegur í alla staði!
Enda skýtur þú rökþrota andstæðinga þína algjörlega á kaf með rökum og ritsnilld
þegar hinir sömu vilja bara borga brúsann bara vegna þess að Icesave er svo leiðinlegt.

Haltu áfram á sömu braut og hafðu það gott á héraði.
Hlakka til að lesa meira frá þér varðandi þessi mál.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 19:32

26 Smámynd: Elle_

Einn af þínum sterkustu pistlum, Ómar, hvað ætli ég hafi oft sagt það?  Já, það er ógeðslegt að við skulum nú verða að fara og kjósa um hvort við ætlum að sættast á fjárkúgun eður ei þegar stjórnvöld hefðu átt að stoppa glæpinn strax.  Og ríkissaksóknari stoppar það ekki.  Hví ekki?????  Og sami Ögmundur og vill núna stoppa handrukkun sagði ótrúlega JÁ við ICESAVE 3.  Stórmerkilegt,  Ögmundur, ICESAVE rukkunin og samningurinn eru ekkert nema skipulögð glæpastarfsemi.    Og það er þvæla að við þurfum að óttast dómstólaleiðina með bæði lögin og stjórnarskrána með okkur.  Það er aumingjaskapur og ólíðandi að vera að semja við kúgara og djöfull er ég orðin leið á að hlusta á meðhlauparana eins og 1sta commentarann að ofan verja blekkjara og lygara. 

SJÖ HÆSTARÉTTARLÖGMENN HVETJA TIL AÐ ICESAVE VERÐI FELLT:

Sjö hæstaréttarlögmenn skrifa grein í Fréttablaðið og á Vísi í dag til að hvetja Íslendinga til þess að fella Icesave lögin.

Í greininni varpa þeir fram þeirrri spurningu hvers vegna Bretar og Hollendingar hafi ekki þegar stefnt íslenska ríkinu fyrir dóm til greiðslu á kröfunum fyrst þeir telji að Íslendingum beri að borga. Svarið sé það að þjóðirnar viti að þær myndu að öllum líkindum tapa slíkum málum.

„Þær vita að þær munu ekki ná fram kröfum sínum á hendur íslensku þjóðinni nema hún taki á sig skuldbindingar til að greiða með samningi," segja lögmennirnir Brynjar Níelsson, Björgvin Þorsteinsson, Haukur Örn Birgisson, Jón Jónsson, Reimar Pétursson, Tómas Jónsson og Þorsteinn Einarsson.

Lögmennirnir hafa skrifað tólf greinar til viðbótar sem allar verða birtar á næstu dögum. 

Elle_, 9.3.2011 kl. 23:05

27 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Spurnig! Hvað stendur það skýrt að ríki eigi ekki að sjá til þess að fólk fái innistæðutryggunguna greidda ef að innistæðusjóður ræður ekki við skyldur sínar?  Hvar stendur að sumar innistæður í Íslenskum bönkum megi verja að fullu en ekki ef það eru útlendingar sem eiga þær?

Hvaða glæp ert þú að tala um?

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.3.2011 kl. 00:06

28 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

"Spurning Hvar stendur" átti þetta að vera hér fyrir ofan

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.3.2011 kl. 00:08

29 Smámynd: Elle_

Og ég var að lesa rökleysuna í Þóri að ofan og skítkast hans í Ómar og skildi ekki orð.  Hann hlýtur sjálfur að fara öfugu megin út úr rúminu á hverjum morgni ef hann þá sefur í rúmi.  Hvílík andstyggð, hvílík þvæla.

Elle_, 10.3.2011 kl. 00:52

30 Smámynd: Elle_

Og yfir-meðhlaupari og yfir-verjari glæpsins mættur á svæðið og lætur eins og hann viti ekki hvaða glæp er verið að fremja og hans flokkur heimtar. 

Elle_, 10.3.2011 kl. 00:59

31 identicon

@Magnús Helgi

> Þú vildir vafalaust borga Icesave 1

> Þú vildir vafalaust einnig borga Icesave 2

> Nú viltu skilyrðislaust borga Icesave 3!

> Er ekki komin tími til að þú vaknir til meðvitundar og skammist þín í stað þess að rembast eins og rjúpan við staurinn að réttlæta Icesave kjaftæðið frá upphafi til enda!

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:22

32 identicon

Flottur Pistill Ómar og gaman að lesa þó að maður þurfi alveg tíma í það en það er líka þess virði :)

Sigurður Freyr Egilsson (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 13:56

33 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk hér að ofan.

Og takk fyrir jákvæð orð, já og kannski miður jákvæð.

Veit svo sem ekki hvað ég á að segja Magnús, um þig virðist gilda það sem sagt var þegar kötturinn skrapp af bæ.

Jæja, ég reikna með að einhver lesi þetta þegar næsti pistill kemur á morgun, og þeim til glöggvunar vil ég benda á að ESB hefur ekki vald til að ákveða ríkisábyrgð fyrir einstök aðildarríki, hvað þá ríkisábyrgð EFTA þjóða.

Enda segir glöggt í tilskipun ESB, þegar aðildarríki hafa komið tryggingakerfi þessu á fót, þá eru þau ekki í ábyrgð.  Skýrar ekki hægt að orða, en ég skal játa, það var fólk sem skyldi ekki skilyrtar setningar í rúmfræði 106 minnir mig þegar ég var í menntó.  Og fékk alltaf 0,0 á prófum.  Ætli það hafi ekki allt endað í lögfræði miðað við að til eru lögfræðingar sem segja að svart sé hvítt, og Nei þýðir Já, það er ef einhver borgar þeim nógu mikinn pening fyrir bullið.

En sönnun í rúmfræði, sem og aðrar sannanir í stærðfræði voru ekki háðar því hvort  einhver borgaði fyrir ákveðna niðurstöðu.  Eru stéttlausar með öðrum orðum.  Ef þú uppfyllir skilyrði A, sem inniheldur B, þá EKKI C, þá er svarið EKKI C.

Einkunin 0,0 var gefin þeim sem sögðu C.  

En Magnús, ég veit að þeir í Lundi misstu áttir eftir að þeir fóru að lesa Maó, og innleiddu hugmyndafræði Menningarbyltingarinnar um afstæði fræða inn í hugmyndafræði háskólans.  En ég hélt hreinlega að enginn nemandi hefði látið platast af þeirri flónsku, en alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Hvernig dettur þér annars í hug, fullorðinn maður að einhver embættismaður sem semur reglur geti gert heilar þjóðir gjaldþrota????

Svona burt sé frá öllum öðrum efnisatriðum málsins.

Skil þá sem hafa beina hagsmuni af lygunum og eru það ómennskir að þeir vilja samborgurum sínum illt, en hef aldrei séð hagsmunatengsl þín.  Þannig að þú ert eiginlega ráðgáta Magnús Helgi.

????????????????????????????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2011 kl. 21:11

34 Smámynd: Björn Birgisson

Kominn til byggða og byrjaður að rífa kjaft? Hvernig var? Gaman að lesa skrifin þín.

Björn Birgisson, 13.3.2011 kl. 21:48

35 Smámynd: Ómar Geirsson

Fínt Björn, veðravítið var með illskásta móti, sól og næstum því blíða allan tímann.  Og engin nettenging, það kætti aðra fjölskyldumeðlimi.

Og já, ætli maður rífi sig ekki eitthvað næstu dag, 2-3 greinar eftir í seríunni um hvað þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er.

Og svo greinin, "Vér aumingjar", til heiðurs skáldinu á Fréttablaðinu.

Annars fór mikill tími hjá okkur feðgum að læra um hina dýpri hugsun á bak við árangur í fótbolta, kennari okkar var Yoda, Jeda meistari.  Og svo var æft í snjónum, sem gerði allar rennitæklingar til mikilla muna auðveldari, svo auðveldar að margar voru teknar án þess að vera hugsaðar fyrirfram, en jafn glæsilegar fyrir það.

Já, núna er vorið að koma og allur ÍS fljótlega að baki, óhjákvæmilega því sumarið verður gott.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2011 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 1412811

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband