12.10.2010 | 11:10
Hvenær yfirgaf vitið okkur???
Íslenska þjóðin er á barmi upplausnar.
Hún varð fyrir erfiðu áfalli haustið 2008, en það skýrir ekki upplausnarástandið, Hrunið var vissulega það sem hleypti atburðarrásinni af stað, en upplausnin er í okkar boði.
Boði okkar allra, því það eru við sem þjóð sem höfum brugðist að bregðast við ástandinu.
Það er eins og vitið hafi yfirgefið okkur.
Grunnmistökin voru að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og veita honum sjálfdæmi í stjórnun efnahagslífsins. Þar með leyfði þjóðin yfirstéttinni, sem kom okkur að fyrra bragði i þessa erfiðleika, að gera vont ástand verra. Rök yfirstéttarinnar voru skiljanleg, þetta var hennar tilraun til að vernda sitt fyrir afleiðingum Hrunsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er jú sérhæfður í að koma afleiðingum efnahagskreppa yfir á almenning.
En af hverju lét þjóðin blekkjast??? Dugði virkilega að Hrunverjar beittu fyrir sig sömu aðilum innan háskólanna, og innan fjölmiðlanna sem þeir höfðu í vinnu við að dásama útrásina, til að telja fólki trú um að óráð AGS væru ráð??
Samt blekkti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn engan, í aðgerðaráætlun sjóðsins var strax gert ráð fyrir um 60% skuldahlutfalli ríkissjóðs og að um það bil allar nettógjaldeyristekjur þjóðarinnar færu í afborganir erlendra lána. Hann laug því aldrei til að gengið myndi styrkjast eins og til dæmis foringjar atvinnulífsins, þeir Gylfi forseti og Vill Egils, hann benti strax á það augljósa orsakasamhengi að miklum skuldum fylgdi lágt gengi því það væri enginn peningur eftir fyrir innflutning á neysluvörum. Og í viðtali við Boga Ágústsson sagði fulltrúi sjóðsins að vissulega væri heildarskuldastaða þjóðarinnar slæm, en það kæmu eignir á móti.
Menn tala ekki um eignir á móti, nema þeir ætli að láta þær ganga upp í skuldir, og eignirnar eru til dæmis erlendar eignir lífeyrissjóða, almannaveitur og fleira sem hægt er að selja einkaaðilum.
Allt þekkt stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og afleiðingarnar eru líka þekktar. Sú þjóð sem fékk síðast að kynnast þessari skuldsetningu, Argentína, var næstum komin í samfélagslegt þrot, áður en hún vísaði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landi og tók mál sín í eigin hendur. Þar hefur allt blómstrað síðan en Íslendingum var talin í trú um, þvert á skjalfestar staðreyndir, að þar hefði allt farið á verri veginn þegar sjóðnum var gert að hypja sig.
Núna þegar þjóðin horfir framan í afleiðingarnar af stefnu sjóðsins, og samsvörunin við samfélagshrun Argentínu er augljós, þá er yppt öxlum, og annað hvort sagt að við sáum ekki þetta fyrir, eða þetta er vegna þess að það tókst ekki að skuldsetja þjóðina í ICEsavedeilunni, ennþá.
Þeir sem afneituðu staðreyndum upphaflega, eru líka að afneita þeim í dag, og það hvarflar ekki að þeim að skipta um kúrs. Og þeir sitja ennþá í valdastól.
Núna þegar þjóðin er á barmi upplausnar þá fengu stjórnvöld aðvörun, þúsundir mættu sjálfskipað fyrir utan Alþingi og mótmæltu ástandinu. Þúsundir hafa líka mótmælt aðgerðaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins út um allt land.
Hver eru viðbrögð yfirstéttarinnar við þessum mótmælum???
Hluti ríkisstjórnarinnar, að því að virtist með stuðningi Jóhönnu Sigurðardóttir en gegn vilja Steingríms Joð Sigfússonar, vildi leita sátta við almenning og í gang fóru viðræður við Hagsmunasamtök heimilanna. Og þær snúast bara um eitt, skuldaleiðréttingu heimilanna, um þær leiðir sem færar eru.
Strax var óvægin áróðursherferð sett á stað gegn þessum viðræðum, þeim var ekki einu sinni gefið tækifæri til að þróast og sjá hvað kæmi út úr þeim. Fremstur i flokki fór gjammari Steingríms og Ruv lét nota sig í skítverkin eins og venjulega. Síðan var náð í einhverja gáfumenn sem upp hófu sönginn um galna menn og galnar hugmyndir. Mestu vonbrigði mín í morgun var að lesa viðtalið í Morgunblaðinu við skynsemisveru, Arnar Sigmundsson, sem kvað almennar skuldaleiðréttingar ganga gegn hagsmunum lífeyrissjóða.
Arnar er ekki fífl eins og mennirnir sem Ruv talaði við og því eru það vonbrigði að hann skuli taka þátt í skollaleiknum. Honum er fullkomlega ljóst að eignir lífeyrissjóða eru ekki í gulli, þær eru pappírar sem eru einskis virði ef greiðsluvilji almennings hverfur. Allar tillögur til að viðhalda þeim greiðsluvilja eru því lífeyrissjóðum í hag. Hafi hann betri tillögur, þá á hann að koma með þær. En að leggja til óbreytt ástand þegar 70.000 heimili stefna í þrot, það er ekki skynsamlegt.
Og það er ekki hagur lífeyrisþega að hér verði landauðn ef skuldaþrælarnir gefast upp og yfirgefa landið. Þeir þurfa hjúkrun, þeir þurfa umönnun. Og það er lífandi fólk sem veitir slíkt, ekki pappírar.
Eins mætti hann hugsa um hvað kemur út úr næstu hrinu mótmæla, falla þá stjórnvöld og poppulistar taka við. Menn sem myndu valda lífeykissjóðunum óafturkræfu tjóni???
Nei, vitsmunaveran Arnar Sigmundsson hefði undir öllum eðlilegum kringumstæðum haldið öðruvísi á málum. Vissulega þarf að verja hagsmuni lífeyrissjóða, það er sem slíkt ekki lausn að láta þá taka við lánavandanum af skuldurum, málið er flóknara en það. En menn nota vit sitt til að finna sameiginlega fleti sem taka á vandanum og öllum aðilum málsins hugnast.
Til þess eru jú vitibornir menn. En???
Annað dæmi um ógöngur umræðunnar er pistill Brynjars Níelssonar lögmanns í Pressunni í gær og Morgunblaðið sá ástæðu til að birta á Mbl.is. Brynjar bendir á að það gilda gjaldþrota lög í landinu og að skuldugt fólk, sem ræður ekki við skuldir sínar, það eigi að fara í gegnum það ferli sem lögin geri ráð fyrir. Ekki væla um almenna skuldaleiðréttingu, því það sé brot á eignarrétti annarra.
Með öðrum orðum þá treystir hann lögfræðingum landsins til að gera rúmlega helming kjósenda þess gjaldþrota, eða setja þá í nauðungarsamningsferli, án þess að þessir rúmlega helmingur kjósenda noti lýðræðislegan rétt sinn til að verja sig.
Menn sem tala svona í núverandi ástandi eru ekki einu sinni vitfirrtir, allt samband við vitið er hreinlega horfið.
Og það sama má segja um ástandið í hnotskurn.
Þegar að kemur að því fólki sem núna er í stjórnarandstöðu, þá tekur lítið skárra við. Vissulega fékk formaður Framsóknarflokksins ágæta hagfræðinga til liðs við flokkinn að móta skynsamar efnahagstillögur, en það er eins og flokksmenn sjálfir skilji þær ekki. Annars myndu þeir ekki koma nálægt tillögum um frekari stóriðjuuppbyggingu sem er haldreipi Sjálfstæðisflokksins.
Menn ætla að endurreisa landið með því að virkja orku sem er ekki til staðar í allar þær hugmyndir sem eru í gangi, með því að skuldsetja hálfgjaldþrota orkufyrirtæki í gjaldþrot, og hafa almannasjóði og almannaveitur undir.
Er hægt að komast lengra í heimskunni????
Að læra ekki neitt af Hruninu og eitruðum afleiðingum þess að geta ekki greit skuldir sínar til baka.
Andstaðan mótaði sér farveg innan Borgarahreyfingarinnar, en margklofnaði síðan. Hagur þjóðarinnar var ekki meiri en að fólk tók persónulegan metnað og persónulegar krítur fram yfir þá vá sem blasti við almenningi.
Og Andstaðan var algjörlega taktlaus.
Hún vildi mæta árás AGS á lífskjör almennings, þar sem ICEsave kröfur breta voru múrbrjóturinn til að eyðileggja varnir þjóðarinnar, með því að boða til stjórnlagaþings, eins og réttlausir skuldaþrælar hefðu eitthvað við nýja stjórnarskrá að gera.
Og henni bar ekki gæfu til að afla hugmyndum sínum um skuldaleiðréttingu fylgis.
Hreyfing sem er með þetta 10-15% fylgi getur margt ef hún er heiðarleg og einörð í málfltuningi, en hún kemur engu í gegn á eigin spýtur.
Og beinar árásir á fjórflokkinn voru beinar árásir á 40% þjóðarinnar. Allt tal um uppgjör með sakamálarannsókn voru síðan ávísun að þeir sem tilheyrðu hinu gamla kerfi, að þeir áttu allt sitt undir að kæfa allt sem frá þessu fólki kom, sérstaklega góðu tillögurnar, því þær voru ávísun á völd sem aftur yrðu notuð til að ákæra.
Þegar þjóðarvá blasir við og jafnvel útrýming samfélagsins (minni á orð Evu Joly), þá hafa menn ekki efni á sundrungu og taktleysi.
Ekki ef menn ætla sér að bæta og breyta.
Það er eins og vitið hafi verið skilið eftir þegar lagt var af stað.
Vitið hvarf einhvers staðar í aðdraganda Hrunsins, eða eftir Hrunið. Afleiðingarnar af vitleysunni blasa við öllum. Þjóðin er á barmi upplausnar.
Þeir sem núna stjórna, halda að þeir geti gert það í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar. Þeir sem vilja taka við, þeir halda að þeir geti keyrt á stefnu sem sundrar og þar með í andstöðu við hina.
Enginn virðist gera sér grein fyrir því að það hefur engin fylking afl til að kúga fram sína stefnu, og þeir sem leiða hinar mismunandi fylkingar hafa ekki vit og þroska til að rúfa víthring deilna og vitleysu.
Og þjóðin lætur endalaust menn sem kalla spilling, spilling spila með sig og kallar jafnvel á þá til forystu í utanþingsstjórn. Menn eins og Þorvald Gylfason prófessor sem hefur það eina markmið í lífinu að leggja á þjóð sína skulahlekki ICEsave og AGS. Og allflestir álitsgjafar fjölmiðlanna spila sömu plötu.
Og þjóðinni virðist vel líka því hún hlustar á þessa menn, hún treystir til dæmis Ruv. En henni virðist ekki líka það ástand sem fylgir skuldaþrældómnum.
Það rekur sig sem sagt hvert á annað horn. Samhengi hlutanna virðist vera okkur víðsfjarri. Þeir sem mótmæla til dæmis niðurskurði heilbrigðisþjónustu, þeir studdu sína menn í ICEsave deilunni, og þeir telja AGS máttarstólpa endurreisnarinnar.
En þeir mótmæla afleiðingunum að allar tekjur ríkisins fara í skuldir.
Samhengið, ó nei.
Vitið er víðs fjarri.
En það grátlegast við þetta er að við eigum öll börn. Við eigum líf sem við viljum koma til þroska.
Er líf skuldaþrælsins það líf sem við viljum handa börnum okkar??? Að þau alist upp í þjóðfélagi sundrungar og deilna???'
Ef svarið er Nei, þá er tími til kominn að fara út og leita.
Vitið hlýtur að vera þarna einhvers staðar.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 74
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.