Það er ekki hægt að misskilja pólitískar ofsóknir.

 

Síðbúna hefnd VinstriGrænna.

Og hver er hinn meinti glæpur Ingibjargar, sem núna er verið að hefna fyrir??

Jú, Steingrímur samdi við Samfylkinguna að hann gæti kennt fyrri ríkisstjórn um forsendur svikasamningsins sem kenndur er við Svavar Gestsson.  Samfylkingin átti að þegja, eða láta spunakokka sína kenna Davíð Oddssyni um.

Þegar Ingibjörg kom fyrir þingnefnd í desember, þá hrakti hún rök Steingríms lið fyrir lið.  

Í fyrsta lagi benti hún á hið augljósa, að fyrri ríkisstjórn gæti ekki bundið hendur þeirra sem eftir koma, enda væri þá kosningar og þingræði til lítils, ef slíkt væri hægt.

Og í öðru lagi þá las hún upp úr þeim samningum sem hún skrifaði undir við Evrópusambandið, þar sem skýrt var tekið fram að taka ætti tillit til hinna efnahagslegu hamfara á Íslandi, hin svokölluðu Brusselviðmið.

Með öðrum orðum þá sveik Ingibjörg ekki land sitt eins og þau skötuhjú, Steingrímur og Jóhanna.

Það, og aðeins það, útskýrir hina pólitísku ákæru á hendur henni.

Væri um raunverulega ákæru að ræða, þá væru allir ráðherrar Hrunstjórnarinnar fyrir Landsdómi.

Allir, þar á meðal núverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, auk forseta þingsins, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, svo einhverjir séu nefndir.

En ákæra Atla snýst ekki um réttlæti, eða réttláta málsmeðferð, hún snýst um hefnd, pólitíska hefnd.

Sumt er ekki flókið.

Kveðja að austan.


mbl.is Ingibjörg: „Betra að veifa röngu tré en öngu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hefur Atli ákært einhvern? Honum var falið að stýra vinnu nefndar sem Alþingi skipaði í fulltrúum frá öllum flokkum eftir tilnefningu. Fulltrúar þess flokks sem hýsir forsætisráðherra og fjármálaráðherra hrunstjórnarinnar vildu engan ákæra. Allir aðrir nefndarmenn vildu ákæra einhverja. Nú er það á valdi Alþingis að taka ákvörðun um það hvort ákært verður og þá um leið hverjir verða ákærðir.

Þetta er lögformleg leið og byggð á lögum sem endurskoðuð voru 2008. Þetta eru upplýsingar sem óþarft ætti að vera að rifja upp.

Verði niðurstaða Alþingis sú að engin efni séu til ákæru þá eru það tímamót og um leið skilaboð til íslensku þjóðarinnar um að embættismenn stjórnsýslu séu ábyrgðarlausir um allar athafnir.

Og þá er bara að taka því.

En Atli Gíslason er ekki handhafi þessa ákæruvalds umfram aðra níumenningana og að lokum er það Alþingi sem tekur ákvörðunina í atkvæðagreiðslu.

Er ég að misskilja eitthvað? 

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 22:20

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni, mér finnst þú leggja mikið út af litlu stílbragði.

Vissulega er blæbrigðamunur að stýra þingnefnd sem leggur til ákæru, og að ákæra.

En trúðu mér, það eru til mörg tungumál í heiminum sem hafa ekki þessi blæbrigði í sögnum.

Og pistillinn var um samsæri, ekki blæbrigði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.9.2010 kl. 23:19

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það urðu vond tímamót í íslenskri þjóðarumræðu þegar Ólafur Ragnar forseti synjaði fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar. Í einni svipan aftengdust mikilvægar heilastöðvar hjá háværasta flokkspólitísks hluta þjóðarinnar og virtir öldungar og vandir að virðingu sinni gegn um langa ævi gengu af göflunum. Galskapur varð beinlínis þjóðarplága og lengi á eftir báru margir þess merki að skemmdin væri varanleg.

Þetta endurtók sig þegar Icesavelögunum svonefndum var synjað s.l. sumar.

Og nú skullu þessar hugarfarslegu hamfarir á þjóðinni einu sinni enn. Menn fyllast hatri og hver æsir annan upp og svo ásakar á víxl hver annan um hatur og ofsóknir.

Guð minn góður!

Allir sem nefndir eru á nafn í þessum brjálsemiköstum erukallaðir glæpamenn af einhverjum toga af öðrum sem telja sig heilbrigða.

Umræðuefnið í öll þrjú skiptin eru af sama toga.

Það er verið að leiða í farveg tiltekin og alvarleg deiluefni pólitísks eðlis til úrskurðar samkvæmt landslögum. Og fólk tekur sér leyfi til að álykta um og að lokum úrskurða að það séu augljós merki um að það sé verið að nauðga öllum viðurkenndum reglum um lágmörk siðgæðis.

Þegar farin er könnunarleiðangur um bloggheima núna í kvöld útheimtir það að lokum lengri tíma til að jafna sig eftir menningarlegt áfall.

Og svo kemst maður að þeirri skelfilegu niðurstöðu að vera sjálfur byrjaður að ánetjast og þetta er að verða fíkn eins og alcaholismi aðfylgjast með því hver sé veikastur þessa stundina.

Og leggur orð í belg!

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 23:58

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður Árni, en þú ert trúgjarn í meira lagi ef þú telur núverandi skrípaleik á Alþingi eitthvað sem skylt á við eðlilegan farveg á uppgjöri Hrunáranna.

Þér til upplýsingar, þá voru 12 ráðherrar í þeirri stjórn, sem svaf á vaktinni.  Og ef þú telur að stigsmunur á formlegri ábyrgð,  hafi eitthvað með sekt eða sakleysi að gera, þá ert þú kominn langan veg frá þeirri lífsspeki sem þér var innrætt í æsku.

Þá ert þú á þeim veg sem menn þræða sem taka að sér að verja gjörðir ríkra manna gegn ríflegri þóknun, og nota einmitt þrasið um form, til að afvegleiða umræðu frá sekt eða sakleysi.

Atli féll á prófinu, því miður, og þó ég dragi enga fjöður yfir að ég í illkvittni nota það til að vega að stjórn sem ég álít leppa auðmanna og ganga erinda erlends valds, þá hafði ég ekkert með það að gera að Afli gaf höggstaðinn.   Hann vissi að ef hann gat ekki verið heiðarlegur, þá fengi hann spjótslögin í sig.

Og honum er engin vorkunn.

Í gegnum tíðina hafa betri drengir  en hann verið vegnir fyrir að ganga erinda erlendra kúgara.  Þó við Íslendingar höfum ekki kynnst þeim áður, svo neinu nemur, þá er saga mannkyns mörkuð kúgun og yfirgangi stórþjóða gegn minni og veikburðari, og á öllum tímum hafa þeir veiku reynt að verja sig.

Þá hafa margir fallið, líka margir sem trúðu að þeir væru að gera rétt.

Þannig er það bara.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2010 kl. 00:37

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ómar. Mér dettur í hug orðið póstmódernismi. Reyndar er mér orðið framandi en hefur skilist að það merki eitthvað sem mætti orða svo að engin niðurstaða sé rétt og það geti bara verið blekking að trúa því að maður vakni lifandi því alveg eins geti verið að maður hafi vaknað dauður án þess að fattaða!

Það á ekki að ákæra neinn. Við eigum að skilja við stærsta rán og mestu mannlegar hamfarir seinni tíma á Íslandi á núlli- gott.

Það er nefnilega ekki hægt að ákæra vegna þess að alltaf getur verið hætta á að bakaragarmurinn verði í ógáti hengdur en smiðurinn sleppi sem framdi stærri glæp.

Kannski er þetta rétt hjá þér. Kannski eru það þegar upp er staðið foreldrar þessa ógæfufólks sem eru sökudólgarnir því glæpurinn reynist hafa byrjað í vanrækslu við uppeldið.

"Visk´um ekki gefa okkur að þessu lambið mitt, vi´skum halda áfram að tátla hrosshárið okkar."

Póstmódernisminn er þá búinn að koma til bjargar. Fáir hafa beint hvatvíslegri álösun í garð núverandi valdhafa en ég og á því mun ekki verða lát óbreyttu. Ég vil ekki samþykkja þessa óskiljanlegu vegferð á forsendum orðsins sem ég skil varla til hlítar. Ég vil láta ríkisstjórn S og V standa þjóðinni reikningsskil á mörgum vondum ákvörðunum en ég vil taka til dóms í réttri röð.

Ég vil ekki að afkomendur mínir þurfi að lifa í úrkynjuðu samfélagi og úrkynjast af þess völdum. 

Þú vitnar til míns uppeldis í æsku. Það máttirðu sannarlega gera. Kannski geri ég þeim þætti skil seinna.

Kveðja,

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 09:32

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni, sit hér í rólegheitum og sötra nýlagað kaffi.  Strákarnir njóta jákvæðs uppeldis teiknimynda, og þar í gegnum sögur, er þeim líka kennt að þekkja muninn á réttu og röngu.  Eigum við ekki að þakka fyrir að póstmódemismar hanna ekki teiknimyndir, þeir gætu aldrei klárað því þeir þekkja ekki endinn.

Ég dreg það ekki í efa að gott uppeldi í æsku móti bæði tungutak þitt og heilbrigð lífsviðhorf þín til mannlegs samfélags. Þó ég sé farinn að grána, þá er ég ekki grár, en ég þekkti margar gráhærðar konur, og nam af þeim þá lífsspeki að menn ættu að gera rétt.  Og ef menn gerðu eitthvað rangt, þá væri það rangt, og yrði að bæta úr.

Þær kannski kenndu mér ekki sögur af óréttlæti tengdu formi, las það seinna meir í bókum.  Minningar manna af strákapörum í þorpunum í upphafi nútímavæðingarinnar þar sem þeir upplifðu oft að mishart var tekið á, eftir því hver ætti í hlut.  Kallaðir þú það ekki höfðingjadekur???  En ranglátt þótti það engu að síður og gerði margan ungan manninn af róttæklingi löngu fyrir hvolpavit.

Síðan hefur heimurinn þróast, og vissulega ástæða til  að gæta varhug við hinu forna ranglæti stéttarskiptingarinnar, en ranglæti nútímans er um margt svo víðfeðmara en áður.  Til dæmis þá er aðgangur að dýrum lögfræðingum ávísun á mildari tökum réttvísinnar, og réttvísin notar formið svo mjög þegar hún kveður upp dóma sína.  Saklaus maður getur verið dæmdur sekur um sorglegna atburð sem varð, bara vegna þess að hann fyllti út vitlaust eyðublað, eða hafði ekki eiturefnapróf þegar bílinn hans valt af óviðráðanlegum ástæðum.

Og sekur maður sleppur vegna þess að hann uppfyllir ekki formskilyrði sektardóms, til dæmis hafi glæpur hans ekki verið nákvæmlega orðaður í lögum, eða þá að hann hafi farið með ráðuneyti félagsmála, en ekki fjármála.  Eða þá að hann sé vanviti og hafi ekki vitað af því sem var að gerast.  Eða eitthvað annað.

Mætur lögfræðingur eins og Atli þekkir allar þessar flækjur, og ef hann stígur skref sem óhjákvæmilega klífur þjóðina, því þó þú telur forsendur ákærunnar réttar þá eru aðrir þér ósammála, þá verður hann að stíga það skref þannig að hvorki um form eða forsendur sé deilt.

Forsendurnar þarf að skilgreina, ef þau eru meiriháttar vanræksla, sem leiddi til efnahagshruns, þá eru allir sem voru sekir um þá vanrækslu sekir.  Annars klikkar hann á forminu.

Þú mátt trúa því Árni að þessar ákærur séu liður í uppgjöri við ríkisstjórn S og V, og þetta sé fyrsta skrefið, og næsta skrefið verði að ákæra aðra Hrunráðherra, til dæmis núverandi forseta Alþingis, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.  Kannski mun Ásta Ragnheiður sjálf leggja til þessar ákærur.  

Og þú mátt líka trúa því að í framhaldi, í miðjum umræðum þá standi upp menn eins og Pétur Blöndal eða Árni Páll og segist líka verið sekir, því þeir hafi ekkert gert á Alþingi til að krefja ríkisstjórn sína um aðgerðir í bráðavanda þjóðarinnar.

En Árni, ég trúi á álfa og huldfólk, en ég trúi þessu ekki.

En uppgjör og réttlæti snúast ekki um trú, heldur réttlátar aðgerðir.

Þessi gjörð er ekki réttlát, hún er eins óréttlát og hægt er að hafa hana.  Vegna þess að grunnréttlæti snýst um að bæta úr þeim skaða sem  fórnarlömb Hrunsins urðu fyrir.  Þessi gjörð er liður í því að það verði ekki gert.

Hún styrkir ábyrgðarmenn Hrunsins í verki, hún er líður í að koma landinu endanlega í skuldafjötra erlendra afla og gera landsmenn alla að skuldaþrælum, þó með því fororði að allir megi forða sér sem vilja, nóg sé til að fátæku fólki í heiminum sem mun sætta sig við þessi lífskjör svo ég vitni í einn hagfræðing Seðlabankans sem reyndi að útskýra fyrir blaðamanni að það væri alltaf líf, líka í landi þar sem rúm 60% ríkistekna færi í afborganir og vexti, og stærsti hluti af nettó gjaldeyristekjum færi árlega í slíkar afborganir.

Þetta er óréttlæti Árni, og þetta óréttlæti er þú að styðja, hvort sem það er viljandi eða óviljandi.

Og það er ekki póstmódernismi að vega handbendi kúgara sinna.

Og það er úrkynjun að berjast ekki fyrir framtíð barna sinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2010 kl. 10:15

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka gótt svar og vingjarnlegar kveður Ómar.

Og enn sækja á vangaveltur um póstmódernismann og allar hans torræðu leiðir. Það er nú eiginlega dálítið skrýtin reynsla að vera kominn þangað sem við erum komnir í samskiptum okkar hérna. Hér haf ég lent í því óvenjulega viðfangsefni að tala á þessum vettvangi við einn málefnalegasta viðmælanda sem ég hef hitt á. Undarlegra þó er að mér sýnist að umræddur póstmódernismi hafi haldið þessum samræðum okkar gangandi og liggur þá ekki skýringin á því þar að í sínum óræða prakkaraskap hafi hann gaman af allri vitleysunni sem honum hefur tekist að stofna til?

Ég sé nefnilega ekki betur en að við notum sömu rök byggð á næstum sömu viðhorfum réttlætiskenndarinnar varasömu.

Og okkur tekst það ómögulega að verða ósammála um niðurstöðuna.

Er þetta ekki farið að nálgast einsdæmi eða hefur mér tekist að misskilja - ekki bara þig heldur - sjálfan mig líka og það hlýtur þá að vera í námunda við einhver met, kannski heimsmet!

Góðar kveðjur úr Stórholtinu!

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 12:26

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Nei, við misskiljum ekki hvorn annan, og ég skil þig mjög vel.

Er bara ekki sammála þér enda mun ég fyrr dauður liggja en að láta AGS/ICEsave rústa landi mínu.

Ágreiningurinn kristallast kannski í því fornkveðna að ranglát stjórnvöld eru aldrei hæf til að koma á réttlæti.

Liggur í eðli þeirra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2010 kl. 15:35

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Um að andmæla því að AGS/ICEsave komist upp með að rústa landi okkar hefur aldrei verið ágreiningur á milli okkar Ómar og þetta eru ótengd mál og óskyld.

Og ef/þegar samið verður um greiðslur á ísbjargarkröfunni til þess að liðka fyrir aðildarumsókn okkar í ESB þá skulum við - ef við lifum - taka upp þráðinn og þæfa um það hvort það sé ljótt mannréttindabrot að ákæra ríkisstjórnina fyrir landráð eða hvort það sé kannski ekki hægt vegna þess að Landsdómur hafi verið lagður niður af sjálfsagðri hæverku í allri umgengni við tignarfólk í Stjórnarráði Íslands. 

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 16:26

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Vichy stjórnin sáluga var löglegt kjörið stjórnvald samkvæmt alþjóðalögum.  Hún var afleiðing  af spillingu og vanhæfni franskra stjórnmálamanna sem gerði það að verkum að landið laut forræði erlends valds.

Margt gerði sú stjórn, en aldrei flaug að henni að sækja fallna stjórnmálmenn til saka fyrir vanhæfni.  Líklegasta skýringin var sú að hún gerði sér grein fyrir að það væri ekki trúverðugt, enda vissu allir hverjir húsbændurnir voru.  Eftir stríð, þá  voru forsendur fyrir afglapamálssókn, en þá létu menn  það duga að gera upp við helstu samverkamenn hins erlenda valds, einhentu sér svo að byggja upp landið, og  tókst það að lokum.

Hér er við völd stjórn sem lítur erlendu valdi.  Hún hefur það að markmiði að gera lífskjör landsmanna óbærileg um komandi framtíð  með því að festa þjóðina í skuldahít ICEsave og AGS lána.  Hún komst til valda vegna  afglapa og spillingar fyrri stjórnar, sem glutruðu niður sjálfsforræði landsins.  Þessi ríkisstjórn telur sig umkomna að draga fyrir dóm fyrrum valdsmenn, þó er helft hennar úr hópi fyrrum valdsmanna.  

Hún biður um frið um þessa ákvörðun, segir að þetta séu lög í landinu.  Og á meðan biður hún um að skæruliðar andstöðunnar hætti störfum, því það sé jú verið að rétta yfir brotlegu fólki.  Málið er að ég er ekki skæruliði vegna gjörða Ingibjargar og Geirs, heldur vegna gjörða þessarar ríkisstjórnar, vegna þess takmarks hennar að þrælka þjóð sína.

Þar liggur diffinn Árni, þar liggur diffinn.  Þó þessir heiðursmenn gætu endurvakið Móðir Theresu, til að heiðra hana, þá myndi ég mæta á svæðið, ef ég fyndi blóðlykt sundrungar og mislyndis í röðum þeirra.  Og nota lyklaborð mitt til að auka á þá sundrungu.

Vegna þess að öll mál ríkisstjórnarinnar tengjast ICEsave og AGS, allt það góða sem hún reynir að gera þjónar því eina markmið að ná styrk til að koma skuldahlekkjunum á þjóð sína.

Enginn Landsdómur hefði fengið Frjálsa Frakka til að sættast við Leppa hins erlenda valds, og vonandi mun sá dagur upp rísa að Frjálsir Íslendingar munu hugsa eins.  Það er nútíminn í dag.  Þjóðir eru ekki lengur kúgaðar með skriðdrekum, heldur fjármagni.  

En niðurstaðan er sú sama.  Og  arðrán veikari þjóða hefur aldrei verið svívirðilegra.

Hinsvegar, burt séð frá ICESave og AGS, þá þætti mér Atla kæra samt röng.  Ástæðan er mjög einföld, sekir menn geta aldrei bent á aðra seka, og ákært þá.  Atli er vissulega flekkslaus, þess vegna er valdelítan að etja honum út í foraðið.  En þjóðin gleymdi að skipta út hinum seku, hinir flekklausu eru í miklum minnihluta á þingi. 

Atla kæran er því siðferðilega röng.  Þeir sem hana styðja átta sig ekki á að það þarf réttlátt stjórnvald til að skapa réttláta niðurstöðu.

En munurinn er sá, að ef þetta væri svo, ekkert ICESave og AGS, þá sæi ég ekki nokkra ástæðu til að skipta mér af málinu, nema þá með atkvæði mínu eins og aðrir borgarar þessa lands.  Vegna þess að ég geng ekki með mannkynsfrelsunaráráttu í maganum.

En ég ver framtíð barna minna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2010 kl. 18:40

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta eru að uppistöðu gildishlaðnar áyktanir um þá ríkisstjórn sem nú situr í boði meirihluta Alþingis. Það er umræða sem á rétt á sér og styðst við nokkurn meirihluta þjóðarinnar samkv skoðanakönnunum. Þá umræðu á bara að taka á öðrum vettvangi en ekki drepa þessu máli á dreif og skýla með því þeim sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar.

þeir sem nú eiga nokkuð undir því að þessi viðhorf þín nái meirihluta í atkvæðagreiðslunni munu kunna þér miklar þakkir fyrir stuðninginn. Það munu ráðherrar vinstri velferðar líka gera þótt þeir muni ekki játa það. Náist ekki samstaða um að kalla saman Landsdóm og taka þetta mál til úrskurðar höfum við lokið við að aftengja valdstjórnina bæði nú og síðar öllum óþægindum af hálfu íslensks réttarfars.

Þá munu Steingrímur J. og kannski Jóhanna líka og einhverjir aðrir ónefndir njóta góðs af því á sínum tíma.

Og þó er það spurning. Því ekki man ég betur en að Björgvin J. Sigurðsson viðskiptaráðh. í hrunstjórninni hafi beinlínis óskað eftir því að öllum ályktunum um meinta sök hans í aðdraganda hrunsins yrði vikið til Landsdóms.

Landsdómur hefur að sjálfsögðu sýknu á sínu valdi eins og sakfellingu og uppkvaðningu dóma. 

Lögfest nánast að ein lög skuli gilda í landi voru að undanskilinni valdstjórninni sem starfar í umboði löggjafarþingsins sem aftur starfar svo í umboði kjósenda.

Þú mátt hafa mín orð fyrir því að þetta viðhorf átti ekki athvarf í híbýlum minna foreldra sem þú leiddir inn í umræðuna góðu heilli.

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 22:15

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

P.s. Ég vil leiðrétta þá ályktun mína sem leitt getur til þess skilnings að ég teji Steingrím og Jóhönnu hafa brotið lög eða ákvæði stjórnarskrár samkv. venjubundnum skilningi. Ég læt nægja að segja að þau séu ámælisverð og í tilviki Steingríms brot á trúnaði við kjósendur hans.

Alveg skýlaust siðferðisbrot.

Árni Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 22:22

13 Smámynd: Elle_

Alltof stór fjöldi fólks einblínir endalaust á fyrri stjórn og kennir þeim um Icesave, þó engin ólögleg Icesave-nauðung hafi verið gerð fyrr en undir núverandi stjórn.  Með þessu hafa menn dregið úr og skaðað baráttu okkar hinna gegn Icesave-glæpnum sem ICESAVE-STJÓRNIN er að fremja núna.   Og brýtur okkur niður endalaust.  Stjórn sem gerir bókstaflega ALLT í sínu valdi og beitir blekkingum, lygum og svikum við að koma þrælaskuldinni yfir okkur.    

Óháðir fagmenn ættu að vinna við rannsóknir á sekt stjórnmálamanna.  Og fásinna og fullkomlega ótrúverðugt að stjórnmálamenn stýri hvaða stjórnmálamenn verði kærðir og hverjir ekki.  Við erum með hættulegustu stjórnarflokka lýðveldisins við völd núna, þar með talinn Atla Gíslason, sem sagði einbeitt JÁ við Icesave.  Ef allir núverandi stjórnarliðar sem sögðu JÁ við ólögvörðum Icesave-samningi kallast ekki lögbrjótar, veit ég ekki hverjir eru lögbrjótar.  Einu undantekningarnar í stjórnarflokkunum vour 2 manneskjur, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson. 

Elle_, 19.9.2010 kl. 23:29

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni, ályktanir mínar eru minna gildishlaðnar en þær forsendur sem þú gengur út frá þegar þú villt kalla saman landsdóm.  Burtséð frá því hvort núverandi stjórn er hæf til þess eður ei, þá er ljóst að afglapaháttur sem styðst við bestu sérfræðingaráð eru ekki lögbrot.

Lögin um landráð eru hinsvegar skýr, og það er skýrt í allri vestrænni löggjöf að aðstoð við erlend öfl, hvort sem það eru ríki, hryðjuverkasamtök eða önnur óféti, sem illt vilja, er atferli sem fólk er ákært fyrir samkvæmt landráðalögum.  Að ræna landi 2/3 af landsframleiðslu er glæpur af stærðargráðu sem aldrei áður hefur sést í nútíma sögu vestrænna þjóða.  ICEsave er rán því bretarnir löghelguðu ekki kröfu sína áður en þeir gripu til þvingunaraðgerða.  

Að láta undan þvingunaraðgerðum eins og fyrri ríkisstjórn gerði, er ekki landráð sem slík, heldur pólitík sem deila má um.  En gjörðir núverandi stjórna er það því lygum og rangfærslum var haldið á lofti til að réttlæta uppgjöfina, og eðlilegum vörnum ekki haldið uppi.  

Aðstoð við fjárkúgun er allstaðar glæpur þó ég viðurkenni að ég gúglaði aðeins bresku refsilöggjöfina.  Og fjárkúgun er skilgreind allstaðar eins, sem þvingun til að láta að hendi fjármuni, án þess að lagastoð og réttarheimild liggi að baki.

Það að Íslendingar afneiti glæpnum, líkt og þeir afneita að pyntingum var beitt til að knýja fram játningum í Guðmundar og Geirfinnsmálunum,  þá er rétt skilgreindur glæpur, glæpur engu að síður.  

Ekki gildismat.

En Steingrímur og Jóhanna eru ekki sek út á minn rökstuðning, hann er vissulega gildismat á aðstæður, aðeins réttlát málsmeðferð sker úr um það.

Það er einnig gildismat hvort ranglátt stjórnvald nái fram réttlátri niðurstöðu, sjálfsagt ekkert sem útilokar það.  En það gerist svo sjaldan nema fyrir þá tilviljun að réttlát niðurstaða henti ranglátu stjórnvaldi.  Dæmi um slíkt er þegar Þjóðverjar kölluðu á Svisslendinga til að staðfesta að Stalín lét drepa pólsku liðsforingjana, þeir vissu sem er að löng saga rangra dóma hafði gert trúverðugleika þeirra að engu.

En þeir vildu samt að þeim væri trúað.

Það sama gildir hér, ef minnsta von væri að stjórn, þar sem helftin er sek, að Alþingi þar sem rúmlega helmingur þingmanna er sekur, geti sannfært fólk um að málsmeðferðin sé réttlát, þá hefði hún þurft að láta sérfræðinga, óháða úr heimi alþjóðlegra friðarboða, sjá um málsmeðferðina.  

Og þá hefði öll Hrunstjórnin verið ákærð.

Annað er gildismat, byggt á lögmálum kattarþvottsins.

En svo ég endi þessa ræðu mína á að vera sammála þér, þá er ég innilega sammála þér að umræðuforsendur mínar, að hjóla í allt sem frá þessari ríkisstjórn kemur, henni til tjóns, var ekki það gildismat sem þér var kennt í foreldrahúsi.  Hélt að ég hefði ítrekað það fyrr, þar sem ég benti á tungutak þitt og heilbrigð lífsviðhorf til mannlífs þess samfélags sem við lifum í.

Sem er aftur á móti ástæða þess að ég ræði þess mál, í stað þess að hjóla.

Ég er annars löngu hættur að ræða málin, hætti því þegar ég komst að því að enginn hlustaði á sérvisku mína.  Núna er ég í stríði, skilgreindur skærulið, sem læt stjórnast að einu, og það er eins og þú réttilega bendir á, að fella þessa stjórn með illu.

Mér til betrunar vil ég benda á að þó ég hafi heldur ekki fengið þetta gildismat úr foreldrahúsum, þá vil ég meina að þær aðstæður sem núna eru uppi, að þær hafi verið svo fjarri reynsluheimi foreldra okkar, að þar var ekki kennslu að fá hvernig ætti að vega mann og annan, þó Íslendingarsögur hafi verið í bókaskápum.

Sama held ég að hafi verið upp á teningnum hjá þeim mönnum sem í skjóli nætur gengu um götur og torg Noregs á árunum 1941-1945 og migu á hús Kvislinga og reyndu að stinga drukkna hermenn í brjóstið.  Það var ekkert í uppeldi þeirra sem bjó þá undir þessar aðstæður, og margt skrýtið framkvæmt, margt miður fallegt.

Og það miður fallega jókst með tímanum eftir því sem kúgunin herti tök sín.  

Ef ICEsave gengur eftir, mun baráttutaktík mín falla undir englatök.  Unga fólkið mun rísa upp.  Og reyna að endurheimta þjóðfélag forfeðra sinna.

Í mínum huga er betra að málið þróist ekki á það stig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2010 kl. 08:40

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle, þú kemur með enn eina nálgunina sem þó er byggð út frá mjög svipuðum forsendum og við Árni göngum út frá og hann útskýrir með póstmódernisma þann himinn og haf sem á milli okkar er í niðurstöðum.

Vilji menn ákæra, þá er um tvennt að ræða, að fá óháða aðila, sem að mínu mati yrðu að vera erlendir, eða þá skipta út Alþingi í kjölfar þjóðarsáttar um uppgjör.

Ef ICEsave og hernám AGS væru ekki inn í myndinni, þá væri ég ekki sammála uppgjöri á forsendum sakfellingar einstaklinga, eins og við höfum svo oft rætt áður.  Ég ræð ekki við slagsmálahundinn í mér, sem kviknaði eftir hryðjuverkaárás breta, og vill ná þjóðarsátt um að fella kerfið.  Slík sátt næst aldrei ef þú ákærir fortíðina.

Og þar með munu sömu glæpir fljótt endurtaka sig aftur því sami hugmyndaheimur mótar uppbygginguna.

En eins og ég sagði Árna í línu hundrað og eitthvað, eða var það þúsund og eitthvað, að þá er ég hættur að ræða málin, nema þá við aldna höfðingja,  fólk má hafa sínar skoðanir í friði fyrir mér, ég er á leiðinni úr klettagjótu minni út í opna orrustu við hernámsliðið.  

Lokaorrustan um ICEsave er í nánd.

Og ég óttast söguleg svik.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2010 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 448
  • Frá upphafi: 1412810

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 387
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband