3.2.2010 | 11:33
Fólk segir nei við ICEsave.
Veit ekki um hina sem búa í þessu landi.
Af hverju segjum við Nei?? Hafa til dæmis ekki mætir prófessor við Háskóla Íslands, eins og Njörður P. Njarðvík og Vésteinn Ólafsson skrifað lærðar greinar þar sem þeir útskýra hina siðferðilegu sekt okkar, að ef við séum fólk þá greiðum við allt það sem bretar og Hollendingar fara fram á við okkur? En ekkert fólk skrifar svona greinar, allt fólk skilur að saklaus er aldrei hengdur fyrir gjörðir höfðingja. Slíkt er alltaf villimennska.
Rök siðmenningarinnar má nálgast á margan hátt, og þau hef ég reynt að orða af ýmsum tilefnum. Hér á eftir ætla ég að endurprenta innslag þar sem ég tók á þeim rökum að ég væri siðferðislega sekur vegna þess að ICEsave útibúin voru rekin af íslenskum auðmönnum. Ágætt að velta þeim fyrir sér eftir að þeir sem eru ekki fólk, hafa látið af þeim fölsunum sínum að lög Evrópusambandsins krefji þjóðina um þessar greiðslur.
Lygina um hina siðferðislegu sekt þarf líka að senda heim í föðurhús spunakokka Samfylkingarinnar, eins mesta óþverralýðs sem vestræn saga kann frá að greina.
Ég er ekki sekur.
Lágur barnadauði og almennar lífslíkur barna okkar eru ekki eitthvað sem er sjálfgefið. Þetta kostar pening. Og þann pening á núna, vegna einhverra óskilgreindra hótana að setja í að borga breskum og Hollenskum stjórnvöldum skaðabætur vegna banka sem þau leyfðu starfsemi eftir reglugerðum sem þau eins og önnur öflug hagkerfi Evrópusambandsins sömdu. Þar komu íslensk stjórnvöld hvergi nálægt og þeirra eini glæpur var að leyfa starfsemi eftir þeim reglugerðum, en til að hindra það þá þurftu þau að segja landið úr samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið. Og ég var ekki var mikinn þrýsting um það, heldur var þrýstingurinn í hina áttina að þjóðin stigi skrefið til fulls. Það var ofsalega auðvelt að gagnrýna Hrunflokkana núna, en hvaða hreyfing stóð gegn þeim þá????? Hverjir vildu út úr EES???? Og hvað hefði komið í staðinn?????
Ekki ætla ég að réttlæta gjörðir þessara manna, enda er ég hatrammur andstæðingur þess siðleysis sem mér fannst stjórna alþjóðavæðingunni, og kaus gegn Hruninu allan tímann, þrátt fyrir rætur á miðjunni. En að mínu dómi var það kerfið sem brást, það var vitlaust gefið í upphafi því það vantaði allt siðferði inn í hagmódelið, það siðferði sem segir að rangt sé rangt, þó þú græðir á því. Og gjaldþrot þeirrar andstöðu, sem þó var til staðar gegn einkavinavæðingu Nýfrjálshyggjunnar, var eftir kosningarnar 2007 þegar allir flokkar vildu í pólitískt hjónaband með Sjálfstæðisflokknum. Hugmyndfræði hans virtist hafa sigrað, alveg þar til raunveruleikinn sagði annað. En þó hafa menn ekki lært meira en það að eins og Þorsteinn Pálsson sagði réttilega í Morgunblaðsviðtali, núna eru VinstriGrænir undir forystu Steingríms Joð að framfylgja þeirri stefnu sem Sjálfstæðiflokkurinn er að heykjast á.
Og til hvers var þá byltingin spyr ég bara??
En þetta er ekki kjarni minnar andstöðu. Ég vil meina að faðir sem horfir á látið barn sitt vegna þess að það fékk ekki sömu heilbrigðisþjónustu og hann fékk sjálfur vegna þess að erlendar vaxtagreiðslur sjúga allt fjármagn úr ríkissjóði, honum sé alveg sama um söguskýringar, hvað þá hver gerði hvað einhvern tímann. Hann spyr sig aðeins einnar spurningu og hún er þessi; Af hverju???????????????
Og í kjölfarið mun hann spyrja; Hvað gerðir þú til að hindra að þetta gerist???? Og þá er eins gott að menn hafi svör sín á hreinu.
Af hverju standa spjót mín á Steingrím Joð, þann mæta mann sem ég mat einna mest íslenskra stjórnmálamanna???? Það er ekki eingöngu vegna þess að hann er gerandi dagsins í dag, en umræðan um Hrunflokkana er söguskýring, og ég átti alveg eins von á því að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins hefði látið undan kúgun bretanna. Nei það var vegna þess að þarna hjó sá sem hlífa skyldi. Hver annar átti að verja hagsmuni þess föður sem ég lýsti hér að framan????
Þegar ég las pistil þinn fyrst þá rifjaðist upp fyrir mér löngu gleymd saga en það er um frægasta svikara grískrar sögu, hann Hippías. Hann vann sér sinn vafasama sess í sögunni um 490 fyrir Krist (fletti þessu upp, man nú ekki svo vel staðreyndir). Þá réðist Daríus Persakonungur á Grikki með mikinn liðsafla og sjálf gríska siðmenningin og sjálfstæði var undir. Nokkur grísk borgríki fylgdu Persunum en Aþena og Sparta stóðu á móti ásamt megninu af grísku ríkjunum. Spartverjar voru þá þekktir fantar og fúlmenni og í kjölfar þessarar fyrstu orrustu við Persana stofnuðu Aþeningar Sjóríkjasambandið sem þeir kúguðu síðan seinna meir miskunnarlaust. Spartverjar og Aþeningar urðu síðan seinna meir "Hrunríki" grísks sjálfstæðis með sínum linnulausa ófriði. Auk þess voru ótal margir liðhlaupar í liði Persanna.
En eitt nafn lifir, og það er nafn Hippíasar, fyrrverandi harðstjóra (Tyran) Aþenu, sem bauð Daríusi þjónustu sína til að endurheimta sín fyrri völd í Aþenu. Þá hjó sá sem hlífa skyldi, Hippías notaði hæfni sína og þekkingu til aðstoða óvininn í stað þess að verja sitt fólk.
Og hefur verið fyrirlitinn æ síðan.
Kannski eru þær ógnir sem Steingrímur sá í spákúlu sinna ráðgjafa það mikil að honum féllust hendur, en það gaf honum ekki vald til að svíkja stefnu sína og hugsjónir. Skorti honum kjark eða þrek til að berjast við Helstefnu Nýfrjálshyggjunnar, þá átti hann að víkja og hleypa viljugum baráttumanni að, en EKKERT gaf honum rétt til að ganga til liðs við óvininni og afvopna þar um leiða alla Andstöðu gegn honum.
Í því eru hin grundvallarsvik fólgin.
Pétain marskálkur mátti gera í sínar brækur andspænis mætti Þjóðverja, hin svik hans við frönsku þjóðin fólst í uppgjöfinni, í stað þess að fela De Gaulle völdin. Þá hélt franska auðvaldið að það gæti samið við siðlausa ræningja, en það reyndist vera rangt. Ræningjar stela alltaf, og ef þeir eru siðlausir í þokkabót, þá valda þeir ómældum hörmungum komist þeir upp með það.
Nýfrjálshyggjan er siðlaus ræningja stefna. Eðli hennar er að fá sem mest út úr fórnarlömbum sínum með sem minnstum tilkostnaði. Og hún drepur fólk. Og það mun hún gera á Íslandi. Allstaðar þar sem ein birtingarmynd hennar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur náð ítökum, þar hefur fólk fallið, sem annars hefði lifað.
Og þetta fólk er alþýðufólk, alveg eins og ég, sonur húsvarðar í Gagnfræðiskólanum í 35 ár. Ég og mínir líkar hafa notið góðs af þeirri velferð sem uppgjafasinnar vilja fórna fyrir friðinn. Og ég er nógu skynsamur til að gera mér grein fyrir því að það sem hefur einu sinni tapast, það tekur ómælda baráttu að ná til baka. Og á meðan óþarfa þjáningar þeirra sem velferðin átti að hlífa.
Þetta skyldi Borgarahreyfingin aldrei nógu vel. Þræll þarf ekki réttlæti, hann þarf frelsi. Og í dag er verið að gera íslensku þjóðina að þrælum erlends auðvalds. Og á meðan snýst umræðan um ýmsa augljósa vankanta okkar gamla þjóðfélags. En hvort sem það var gott eða slæmt (ekki verra en það að við vorum á topp þrjú lista Sameinuðu þjóðanna yfir mesta velmegunina í heiminum) þá var það okkar þjóðfélag. Í dag er Steingrímur Joð Sigfússon vinnumaður hjá þeim sem vilja svipta okkur þessu þjóðfélagi og gera Ísland að hjálendu alþjóðlegs auðmagns.
Pólitík Andófsafla í dag snýst ekki um að sníða vankanta af hina gamla þjóðfélagi, alvöru Andófsöfl eru í frelsisbaráttu. Og sú barátta er að tapast af tveimur ástæðum. Breytingaraflið (sem fann sér meðal annars farveg í Borgarahreyfingunni) vill uppgjör við fortíðina, en á meðan sér það ekki hina aðsteðjandi ógn skuldaþrældómsins og afsal auðlynda þjóðarinnar í hendurnar á erlendu auðvaldi og þeir sem sökum róttækra stjórnmálaskoðana sinna ættu að vera í fararbroddi Andstöðunnar, þeir sviku.
Og það skiptir ekki máli af hvaða toga svikin eru. Þeir sviku.
Og enginn leiðtogi mun ná að sameina þjóðina um réttlæti skuldaþrælsins. Og ef hann trúir því að græðgi Nýfrjálshyggjunnar sé eitthvað náttúrulögmál, sem ekki er hægt að breyta, og því snúist starf hans um gera gott úr þjóðfélagi sem notar lungann af sínum tekjum til að borga vexti og afborganir til erlends auðvalds, þá hefur hann lesið stöðuna hrikalega vitlaust. Og skiptir þá engu hversu góður og gegn hann er að öðru leyti og hve vel hann vill. Og þá skiptir heldur engu máli hver gerði hvað, hverjum og hvurs, og allt það.
Ekki það að réttlæti skipti ekki máli. En það er grundvallarmunur á réttlæti og réttlátri framtíð. Og það er lítið réttlæti sem lætur sér duga að gera upp við einstaklinga, en ekki kerfið sem skóp þá. Hvað þá ef sú barátta festir verri birtingarmynd siðleysisins í sessi. Þjóðfélög Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki réttlát og í þeim eiga börn alþýðufólks sér enga framtíð. Þar eru þau aðeins ódýrt vinnuafl, ekki manneskjur.
Það er réttlát framtíð sem börn okkar þurfa. Því fyrr sem við hættum hjaðningavígum, gerum upp fortíð okkar með aðferðafræði sannleiksnefndar, og förum að takast á við vandamál þjóðar okkar á vitrænan hátt með mennsku að leiðarljósi, því fyrr verður vandi fortíðar að baki og því fyrr mun það þjóðfélag sem börnin okkar erfa, vera réttlát.
Þess vegna segir fólk Nei við ICEsave.
Það er fyrsta skrefið af mörgum sem þarf að taka framtíðarinnar vegna.
Og fólk mun ekki heykjast á þeim skrefum.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 12:01 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 74
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.