22.1.2010 | 20:54
Þau seldu sálu sína en voru samt rekin.
Laun andskotans eru alltaf vanþakklæti.
Eftir stendur djúpstæð fyrirlitning þjóðarinnar á vinnubrögðum þessa stofnunar og þess keypta fólks sem þar er innandyra.
Það er ekki hægt að leggjast lægra en frétta og dagskrármenn útvarps hafa gert í ICESave deilunni.
Þeim tókst að slá BBC út í rangtúlkun og blekkingum. Þó er BBC aðeins að gæta hagsmuna ranglátra stjórnvalda heimalandsins.
Réttur fréttaflutningur kom að utan. Í erlendum fjölmiðlum fékk fólk að heyra raddir þeirra sem styðja réttlátan málstað íslensku þjóðarinnar gegn ofurvaldi erlends auðvalds og nýlendukúgara.
Það var eins og þjóðin væri komin á meginland Evrópu fyrir rúmum 60 árum síðan. Þá fékk kúgað fólk líka fréttir að utan.
Það eina sorglega við þessa frétt er að allir skyldu ekki vera látnir fara. Sem stuðningsmaður þessarar stofnunar í rúm 40 ár, er það mjög sorglegt að þurfa að viðurkenna að farið hefur fé betra, en þó verra sem eftir situr.
En það eru 507 milljarðar í húfi, ef allt fer á besta veg.
Vegna lögleysu og fjárkúgunar, sem nýtur stuðnings íslenskra fjölmiðla og íslenskra stjórnvalda.
Slíkt hefur aldrei áður gerst í um 5.000 ára skráðri sögu mannsins að ein þjóð hafi verið svikin jafn mikið af meðbræðrum sínum.
Það hefur aldrei gerst áður að fjölmiðlar árásaraðilans flytji réttari fréttir en fjölmiðlar þeirrar þjóðar sem á er ráðist.
Og mér er til efs að slíkt gerist aftur á næstu 5.000 árum.
Já, það er alltaf sorglegt þegar fólk selur sálu sina og æru auðmönnum og gróðabröskurum, erlendum fjárkúgurum og aumingjum.
Aðeins aumingjar ráðast á smáþjóð á neyðarstundu.
Og aðeins sálarlaust fólk styður þá.
Kveðja að austan.
Blaðamannafélagið harmar uppsagnir hjá RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 71
- Sl. sólarhring: 1008
- Sl. viku: 5802
- Frá upphafi: 1398970
Annað
- Innlit í dag: 68
- Innlit sl. viku: 4923
- Gestir í dag: 67
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nú sýnist mér þú dansa á hinni mjóu línu velsæmisins félagi Ómar.
Einkum þó í síðustu þremur ályktunum.
Á fyrri hluta tuttugustu aldar deidu um nýtingu sameiginlegra hlunninda bændurnir Benedikt og Daníel á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Deilan fór fyrir sáttanefnd hreppsins. Þar sakaði Benedikt Daníel um að hafa kallað sig þjóf.
"Aldrei sagði ég það nú - svaraði Daníel með meinfýsnu glotti- en í hug datt mér það"!
Árni Gunnarsson, 22.1.2010 kl. 21:18
Fallega sagt hjá þér Árni. En Ómar þekkir kannski ekki Reykjastöndina við austanverðan Tindastól og segir því bara það sem hann meinar og næstum alltaf er ég honum reyndar sammála. En vissulega fylgir stundum smá sót góðum skotum, fallbyssuskotum Ómars.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 21:32
Þessi færsla er magnþrunginn vitnisburður. Um öfgar og öfgaskoðanir. Um hvernig vanhugsuð orð fella eigendur þeirra í áliti. Mjóu línuna í velsæminu, sem Árni nefnir, tekst þér ekki að feta. Þú svamlar í drullupyttinum fyrir neðan. Wipe Out! Stilltu þig gæðingur! Haltu þig á línunni!
Björn Birgisson, 22.1.2010 kl. 22:08
Blessaðir félagar.
Árni. Línur eru til að dansa eftir. Þegar ríkisútvarpið sagði frá skrifum forsætisráðherra Íslands í hollenskum blöðum þar sem hún lýsti yfir stuðningi við ólöglega kúgun breta og Hollendinga, en kvartaði undan vaxtakjörum, þá rauf stofnunin grið við þjóðina.
Það er ekki flóknara en það.
Í öllum öðrum þjóðríkjum heims væri Jóhanna fyrrverandi eftir þetta bréf. Jafnvel þó það væri hænufótur fyrir kröfum breta og Hollendinga þá tekur æðsta vald þjóðar sem er ofsótt, ekki svona til orða. Og Ruv hefur sér það ekki til afsökunar að vélbyssur væru að baki þeim eins og þegar norska ríkisútvarpið neyddist til að útvarpa 17. mai ræðu Qvislings.
Fimmhundruð og sjö milljarða gjöf Jóhönnu til breta á eftir að kosta mannslíf, og þau eru ekki í útlöndum.
Og takk fyrir daginn Pétur, gaman að spjalla við þig í dag. Ég hef séð Reykjaströndina í fjarlægð.
Og blessaður Björn. Alltaf gaman að fá þig í heimsókn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.1.2010 kl. 22:22
Kallinn er slarkfær stígvélalaus í línudansinum, plaffandi úr frethólknum ógurlega. Súludans ku vera upplyftandi.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 00:41
Hvern skyldi undra, að þjóðhollum Ómari sé misboðið?
En það má hann Pétur Örn eiga, að orðsnjall er hann!
Jón Valur Jensson, 23.1.2010 kl. 01:00
Góður og lýsandi forugur pistill, voðalega Ómars-legur. Og ekki voru umræður allra orðhittnu mannanna síðri. RUV getur kennt sinni aumu ríkisstjórnarstefnu um sótið hans Ómars. -_-
Elle_, 23.1.2010 kl. 01:15
RÚV hefur verið hliðhollt þessari stjórn hennar Jóhönnu og Steingríms. Ég hefði viljað sjá aðalmanninn segja af sér, hann Páll Magnússon virðist vera ömurlegur stjórnandi. Miðað við daglegt tap á RÚV síðan hann tók við.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.1.2010 kl. 02:38
Takk fyrir innlitið kæra fólk.
Árni, þar sem ég var að flýta mér í gær þá gat ég ekki gengið frá andsvari mínu eins og ég vildi. Og gat því ekki formað svar mitt eins og snjallt innslag þitt gaf tilefni til.
Ég var dálítið hissa um þau dæmi sem þú týndir til um mörk velsæmisins. Persónulega fannst mér rætni mín vera meitluðust í þessari setningu : "mjög sorglegt að þurfa að viðurkenna að farið hefur fé betra, en þó verra sem eftir situr." En það er samt nú ekki annað en bein þýðing á þessum orðum Péturs í innslagi hans við pistil hér að framan: "Það sem ég óttast er að ekki muni það minnka við þessar uppsagnir, því enn sitja helstu jarlarnir þar innanborðs og "makka rétt" og sleikja sig upp við valdherrana."
En hvað um það, ég fór að spá í það sem ég hélt að væri hógværi hluti pistils míns.
Vissulega er það misnotkun á orðinu "sorg" að setja hana í samhengi við þá mannlegu hvöt sumra að aðstoða alltaf höfðingjanna í öllum óhæfuverkum sem þeim dettur í hug. Sérstaklega er mér minnistæð tréskurðarmynd af illvirkjum þýskra höfðingja gagnvart smábændum sem risu upp gegn kúgun þeirra um miðja 16. öld. Svona fyrir utan að Bæjarar hafa ekki mátt heyra minnst á lúterskuna síðan, þá varð mér snemma ljóst að svona hryðjuverk væru aldrei gerð nema með aðstoð viljugra, ekki sáu höfðingjarnir um að saga, sarga eða brenna. En orðið sem maður á að nota er líklegast ómennska, eða eitthvað af þeim bálki.
Þér finnst það ekki rétt að nota orðið aumingja sem níðast á minnimáttar, hvað þá minnimáttar í neyð. En svona er austfirskan, kann ekki skagfirsku, nema skál og syngja.
En hvort allir þeir sem styðja slíkt eru sálarlausir, kannski alhæfing, en pistill rætninnar verður að lúta sínum lögmálum, og alhæfingar koma þar við sögu. Mér er minnisstæð fyrsta mynd Jody Foster, eftir að hún varð stór. Þar lék hún glaða stúlku, sem lenti í hópnauðgun á bar, félagslegi status hennar var þannig að graðir menn töldu sig hafa veiðileyfi á hana. Þeir hlutu dóm fyrir (byggð á sönnum atburðum) en ég man þegar ég horfði á hana stráklingurinn, að mér fannst mesti viðbjóðurinn að horfa á þá sem stóðu aðgerðarlausir hjá, jafnvel hvöttu ódæðismennina áfram. Er sál í mönnum sem svona haga sér????
Vissulega er hún það en verknaðurinn er það alvarlegur að full ástæða er að skamma þá með orðum fyrst það má ekki flengja þá.
En þá erum við loksins kominn af kjarna pistilsins sem endurspeglast í dæmisögunni þinni af Reykjaströnd.
Rætinn er hann og illkvittnislegur og átti að vera það. Það býr mikil fyrirlitning að baki orðum mínum á gjörðum þessa fólks sem bregst samborgurum sínum svona illilega í höfðingjaþóknun og stuðningi við erlend kúgunaröfl. En ég sagði ekki það sem ég hugsaði.
Af hverju er Disraeli, sá mæti sómamaður, sem örugglega drap ekki flugu, kallaður mesti fjöldamorðingi sögunnar???? Jú, það er vegna þess að hann er talinn bera ábyrgð á hinni hörmulegu hungursneyð á Indlandi á seinni hluta 19. aldar, þar sem tugir milljóna féllu úr hungri vegna grimmilegra aðgerða breskra stjórnvalda. Þetta er alltaf spurningin hvort það sé aftökusveitin sem ber ábyrgð á morðinu, eða er það sá sem sagði henni að skjóta?
Velferð kostar peninga, velferð bjargar mannslífum. Það er ekki íslenska lýsið sem til dæmis útskýrir hin lágu gildi á ungbarnadauða. Stjórnarstefna sem níðist á þúsundum barna með því að neita foreldrum þeirra um hjálp í skuldaerfiðleikum þeirra, mun fella fólk, þó óbeint sé. Stjórnarstefna sem tekur tugi milljarða út úr heilbrigðis og velferðarkerfinu til að tryggja eignir auðmanna (hávaxtastefna) og stjórnarstefna sem eyðileggur innviði velferðarkerfisins til að kaupa meintan frið við kúgara og yfirgangsseggi, hún drepur fólk. Bæði beint og óbeint.
Og Árni, hvað kallast fólk sem stuðlar að ótímabæru andláti meðbræðra sinna???? Eða fólk sem aðstoðar við framkvæmd slíkra hörmunga??? Hvað voru til dæmis ritstjórar þeirra dagblaða sem studdu Disrael með ráðum og dáðum í níðingsverkum hans á Indlandi????
Það eru til góð íslensk orð yfir slíkt athæfi, en vegna þess að ég er línudansari, þá nefni ég þau ekki, ekki ennþá.
Og Árni, íhaldið er ekki við stjórn.
Og Árni, þessar gjörðir eiga ekkert skylt við endurreisn efnahagslífsins. Vissulega á Nýfrjálshyggjan til hagfræðimódel þar sem blóðfórnir eru ein breytan, en síðast þegar ég vissi þá voru dýrkendur þeirrar helstefnu aðeins lítill sértrúarsöfnuður sem komast fyrir í litlu bakherbergi á Hverfisgötunni.
Svona gerir siðað fólk ekki.
Við hlutum öll uppeldi til að skilja það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.1.2010 kl. 08:59
Góður Ómar, í málsvörn þinni allri.
"... en verknaðurinn er það alvarlegur að full ástæða er að skamma þá með orðum fyrst það má ekki flengja þá." – Nákvæmlega! Vel mælt!
Einnig þetta sem þú ræðir um sálar- og aðgerðarlausu áhorfendurna og klapplið andskota okkar – sem og dæmið af Disraeli. (Var okkur ekki kennt að dást að honum í sögubókunum?!)
Jón Valur Jensson, 23.1.2010 kl. 15:15
Blessaður Jón Valur.
Jú, ég dáðist af Disraeli á sínum tíma. Og hef reyndar alltaf litið upp til Bretanna. Sérstaklega á seinni hluta 18. aldra, alla 19. öld og fram eftir þeirri 20. var mikil gerjun í hugmyndaheimi þeirra sem allir hafa gott af að kynna sér.
Og það var breska íhaldið sem tók fyrstu rimmuna við siðblindu frjálshyggjunnar. Það er til dæmis alveg ótrúleg lesning að lesa umræðuna og vörn illmenna þegar reynt var að koma böndum á mesta viðbjóðinn í kolanámunum. Þá var kristilegu siðgæði teflt fram gegn siðblindu græðginnar.
Og þið íhaldsmenn Jón eigið ennþá sama erindið í þá umræðu, minni ykkur á rætur ykkar, til dæmis orðræðu Ólafs Thors við liberalistana í Sjálfstæðisflokknum þegar hann og Bjarni voru að koma verkamannabústaðakerfinu á.
En svo ég haldi mig samt við þráðinn, þá er það með Disraeli og svo marga aðra. Þeir skynja ekki sinn glæp. Þetta er alltaf einhver realismi sem dregur fólk út í foraðið. Og þegar menn skynja ekki glæpinn, þá forðast menn hann ekki.
Þess vegna eiga menn alltaf að fara varlega að fordæma gengna menn, mun nær að fordæma verknaðinn en óvitana sem frömdu þá. En við eigum að læra. Sérstaklega að læra að skilja að sumt má bara ekki.
Og við þurfum að læra það hratt því hinar gömlu lausnir okkar á deilum, ofbeldi, virkar ekki lengur. Sú tíð leið undir lok þegar sprengjan var sprengd yfir Hirosima. Síðan þá hefur gjöreyðileggingarmáttur mannsins tekið þvílíkum framförum, að mannkynið þolir ekki næstu stóru deilulausn, sem á að útkljá hver er sterkastur.
Ég hef oft sagt að við höfum haft 2.000 ár til að skilja þann siðaboðskap sem segir okkur hvað er rangt. Þessi 2.000 ár verða að nægja.
Núverandi kynslóð á ekki val með að hundsa það fram af sér lengur. Menn verða að læra að þekkja muninn á réttu og röngu, og reyna að framkvæma það sem rétt er.
Þess vegna er ég að pikka á tölvu mína, ég á afkomendur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.1.2010 kl. 15:58
Góð hugvekja hjá þér, Ómar, sannarlega. Tek undir þetta og þá ekki sízt þegar þú minnir á "orðræðu Ólafs Thors við liberalistana í Sjálfstæðisflokknum þegar hann og Bjarni voru að koma verkamannabústaðakerfinu á." Styrmir Gunnarsson minnti líka á þessa kristnu-konservatívu stefnu Sjálfstæðisflokksins lengi vel í kringum miðbik 20. aldar (segjum: einkum á 2. þriðjungi aldarinnar) í einu af sínum frábæru Reykjavíkurbréfum, sennilega 2008 (sumar eða haust?) og rakti þar enn fleiri góð dæmi um þá velferðarríkis-hyggju (öryggisnet fyrir fátæka o.fl.), sem sú stefna fól í sér.
Jón Valur Jensson, 23.1.2010 kl. 16:57
Ómar, núna hefurðu dregið inn í pistlana þína orðfærustu og rökföstustu mennina sem allir mættu vera að skrifa sína eigin pistla. Og það er ekki út af engu, Ómar, það er hin réttláta sýn og rökhyggjan sem ykkur er sameiginleg. Vildi bara koma þessu fram. Og enn rignir á Suðurlandi. -_-
Elle_, 23.1.2010 kl. 19:19
Já, og við unnum Elle í kvöld, góður dagur miðað við að fátt gleður mig meir en rigningarfréttir að sunnan, sérstaklega apríl, maí, júní, júlí, ágúst og september.
En um hin stríðandi öfl má segja Jón Valur að þau eiga meira sameiginlegt en sundrar. Og Styrmir hefur oft yljað fólki með skýrri rökhugsun og mannúð. Og ef hann tæki nú endanlegt skref frá þröngsýni æskunnar og upphæfi sig yfir pólitískt flokkaþras, gerðist húmanisti í bestu merkingu þess orðs, þá sæi hann að gott kapítal er fyrir fjöldann, ekki auðmenn og sálarlausa auðhringa.
Hann nær oft upp á tindinn á sprettinum en rennur svo aftur niður hlíðarnar vegna þess að hann trúir ekki sjálfur á sin orð. Sá sem hefur vit til að sjá hvað er rangt, og kann að orða það þannig að aðrir skilja, hann verður líka að hafa þann kjark sem þarf til að segja frá röngum gjörðum samherja, og kunna að útskýra það með þeim orðum sem þeir skilja.
Sá er vinur sem til vamms segir, og sá er snjall sem kann það á þann hátt að menn skilji og samþykki. Og reyni að bæta úr. Því það að reyna heitir framþróun.
En Churchil var líka lengi að þroskast.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 23.1.2010 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.