21.1.2010 | 09:54
Með lögum skal land byggja.
Alþingismenn setja lög. En Alþingismenn átta sig ekki á því að eftir lögum á að fara. Þeir hafa ekkert vald til að semja við breta og Hollendinga í ICEsave deilunni ef sá samningur felur í sér fjárgjafir eða friðunarskatt til hinna erlendu óvinaríkja.
Þeir hafa aðeins vald til að semja um að eftir lögum sé farið. Það er laganna að skera úr um kröfur breta og Hollendinga.
Af svipuðu tilefni samdi ég pistil í gær, sem þarf að fara reglulega í loftið til að fólk átti sig á um hvað ICEsave deilan snýst,og hvað lausn lögin krefjast að sé farin. Hér kemur hann aðeins styttur og breyttur og ef fólk vill ekki missa 507 milljarða hið minnsta úr út hagkerfinu, til að greiða kúgunarfé breta, þá ættu menn að lesa þennan pistil, íhuga, reyna að skilja forsendur hans, og síðan gera kröfu sem bergmálar um þjóðfélagið, með lögum skal land byggja.
Með lögum skal land byggja.
Enn einu sinni ætlar fórnarlamb fjárkúgarans að skríða heim að dyrum hans og biðja hann um að vera ekki alveg svona vondur við sig.
En það gilda lög og reglur. Stjórnmálamenn vinna við að setja lög. Skilja þeir ekki hvað það þýðir??? Það þýðir að lög gilda um eitthvað tiltekið atriði og eftir þeim er farið.
Stjórnmálamenn gera samninga, suma alþjóðlega.
Enginn alþjóðlegur samningur er gildur samkvæmt alþjóðlögum ef ekki er í honum leiðir til að takast á við ágreining. Þegar um flókinn milliríkjasamning eins og EES samninginn þá eru þær leiðir bundnar við tilteknar stofnanir sem annarsvegar fara með eftirlit á framkvæmd einstakra aðildarríkja á samningnum og síðan dómstóls sem sker úr um ágreining ef ekki er hægt að leysa hann með samkomulagi.
Þessar stofnanir heita ESA, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstóllinn. Um þær má lesa á EES vefsetrinu, undir lið sem heitir Samningur milli EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
Það er lágmark að stjórnmálamenn þekki réttarfarsleiðir stærsta alþjóðlegs samnings sem íslensk stjórnvöld hafa gert og snertir kjarna þeirrar deilu sem þjóðin á við Hollendinga og breta.
Það er skýrt kveðið á um í lögunum um ESA að hún eigi að fylgjast með réttri framkvæmd EFTA ríkja á EES samningnum. Í því felst meðal annars að fylgjast með að EFTA ríki innleiði tilskipanir ESB á réttan hátt og framfylgi þeim síðan eins og felst í tilskipunum.
Komi upp ágreiningur um rétta innleiðingu tilskipunar og framkvæmd hennar, þá bera ESA að skera úr um og síðan EFTA dómsins að dæma. Og sá dómur þarf að byggjast á fordæmum Evrópudómsins eða þá ef um grundvallarmál, áður ekki dómtekið, þá þarf EFTA dómurinn að leita til Evrópudómsins um ráðgjöf eða sameiginlegan dóm (þetta er nokkurn veginn á mannamáli um það sem stendur í lögunum).
Krafa Hollendinga og breta er ekki á milliríkja basis, krafa þeirra er með beina tilvísun í ákvæði EES samningsins sem skyldur Íslendinga til að innleiða lög og reglur ESB og fara eftir þeim.
Þeir tína aðallega þrennt til.
1. Ísland hafi ekki innleitt tilskipun ESB um innlánstryggingar á fullnægjandi hátt því ekki sé til peningur í íslenska tryggingasjóðnum til að greiða út lögbundnar innlánstryggingar.
2. Íslensk stjórnvöld hafi með neyðarlögum sínum tryggt innstæður á Íslandi en ekki gætt jafnræðis þegar innstæður í íslenskum útibúum í viðkomandi löndum voru látnar falla.
3. Ísland hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu og sé því í ábyrgð fyrir því tjóni sem íslensku bankarnir ullu.
Út frá þessum meintum ágöllum gera Hollendingar og bretar kröfur til að Íslendingar greiði öllum innlánseigendum í íslenskum útibúum út lágmarkstryggingu sem kveðið er á í tilskipun ESB nr 94/19, um það bil 20 þúsund evrur. En í réttarríkjum er það ekki kröfuhafans að skera úr um réttmæti krafna sinna. Slíkt er dómstóla.
Og þegar kröfurnar eru gerðar með tilvísun í EES samninginn þá er það réttarleiða EES samningsins að skera úr um lögmæti þeirra. Enginn annar aðili er til þess réttbær. Og það er þessa aðila að leita til Evrópudómsins um aðstoð á túlkun þeirra vafaatriða sem valda þessari deilu.
Engin önnur leið er réttbær samkvæmt lögum.
Hollendingar og bretar fóru ekki þessa leið og því í það fyrsta þá er krafa þeirra ólögleg vegna þess, burtséð frá því hvort hún sé réttmæt eður ei.
Þegar stjórnmálamenn tala um milliríkjadeilu, þörfina á pólitískum samningum eða pólitískri sátt þá eru það fín orð yfir lögleysu, þeir ætla ekki að fara eftir þeim lögum sem þeir ætlast til að aðrir fari eftir og refsa harðlega fyrir ef svo er ekki gert.
En slíkt geðþóttavald hafa þeir ekki samkvæmt stjórnarskrám Íslands, Bretlands og Hollands, og samkvæmt lögum og reglum EES og Evrópubandalagsins. Vegna þess að um réttarríki er að ræða og Evrópusambandið er réttarsamfélag, einmitt stofnað gegn yfirgangi og lögleysu.
Og að hundsa leiðir réttarríkisins í þessari deilu er leið skrílræðis og barbarisma. Og þegar sá barbarismi leiðir hugsanlega til þess að saklaust fólk sé með lögleysu látið taka á sig skuldir óskyldra einkaaðila, þá er um beina aðför að siðmenningunni.
Vegna þess að sú siðmenning sem við höfum í dag byggist á lögum og rétti. Og sú leið var valin af gefnu tilefni. Það vill enginn aftur þann tíma miðalda þegar hetjur riðu um héruð og rændu mann og annan. Eða þá þegar yfirgangssöm ríki í krafti stærðar og hervalds, hertóku og rændu minni nágranna sína.
Blóð u.þ.b. 80 milljóna manna var talin réttlæting þess að fólk sagði aldrei aldrei aftur. Út frá því þeirri hugsun var réttarsamfélagið Evrópusambandið stofnað. Til að festa siðmenninguna í sessi í Evrópu, og vonandi líka í heiminum með fordæmi sínu um lýðræði og mannréttindi.
Svo eru einhverjir stjórnmálamenn á Íslandi sem telja sig hafa rétt til að semja sig frá sjálfri siðmenningunni. Ef þetta væri fótboltaleikur, þá kæmi það mér og mínum ekki við.
En þeirra pólitíska lausn byggist á því að ræna velferðarkerfi okkar, ræna börnin okkar mannsæmandi menntun og tryggja að aldraðir foreldrar okkar fái ekki bestu umönnun eins verið hefur.
Enginn stjórnmálamaður, sama hvað hann þykist vera vel meinandi, hefur þann rétt.
Alþingi Íslendinga ber siðferðisleg skylda, því ber lagaleg skylda til að setja ICEsave deilu Íslendinga við breta og Hollendinga í lögbundinn farveg þar sem úr réttmæti krafna þeirra er skorið. Falli ábyrgð á íslenska ríkið, þá verður hún gerð upp samkvæmt alþjóðlögum sem meðal annars banna íþyngjandi kvaðir á almenning vegna milliríkjasamninga.
Tími þrælahalds er nefnilega liðinn. Og tími villimennsku í samskiptum einstaklinga og þjóða einnig.
Í þessu sambandi skiptir engu hvort bretar og Hollendingar mæti fyrir EFTA dóminn. Sú forsenda er hvergi til staðar í EES samningnum að sá sem leggi fram kröfu á hendur EFTA ríki mæti, það nægir að um ágreining sé að ræða og íslensk stjórnvöld vilji fá úr honum skorið.
Og eftir þeim úrskurð verða deiluaðilar að fara hvort sem þeim líkar það vel eða illa.
Málið er svo augljóst að það er grátlegt að það skuli ekki fyrir löngu verið komið í réttan farveg. Það er ótrúlegt að þúsundir íslenskra, og evrópskra lögfræðinga skuli ekki hafa bent á þessar einföldu staðreyndir réttarríkisins og krafist þess að eftir þeim sé farið.
Tími lögleysu stjórnmálamanna er liðinn.
Kveðja að austan.
Engin svör hafa borist að utan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 71
- Sl. sólarhring: 1008
- Sl. viku: 5802
- Frá upphafi: 1398970
Annað
- Innlit í dag: 68
- Innlit sl. viku: 4923
- Gestir í dag: 67
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær pistill hjá þér.
(IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 08:31
Takk Sigurlaug.
Vona að fólk átti sig á þeirri grunnstaðreynd að deilur eru leystar með leiðum réttarríkisins eftir að hafa lesið grein þeirra Jón Steinars og Sigurðar Líndal í Morgunblaðinu í gær.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2010 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.