Hræðslubandalagið sigraði.

 

Og ljóst er að grámi dauðans hefur lagst á franskt lýðræði.

Eða hvernig á að túlka eða greina kosningar í rótgrónu lýðræðisríki þar sem valið stendur annars vegar á milli frambjóðenda með skýra stefnu, og hins vegar óttann við viðkomandi frambjóðenda??

 

Var þetta hið eina sem land hugmyndanna gat boðið almenningi uppá??

Hræðslu, ótta??

Og hver er hugmyndafræðilegur grundvöllur fólks sem telur sig standa fyrir jöfnuð og félagshyggju, að það eina sem það hefur til málanna að leggja, er að biðla til gamalla kjósenda sinna að kjósa nýríkan bankamann, fulltrúa alls hins versta í hinum alþjóðlega ræningjakapítalisma??

Svo er sagt að svik borgi sig, en það er afsannast á þessari háðung franska vinstrisins.

 

Það lofaði kjósendum sínum alltaf að berjast gegn nýfrjálshyggjunni, gegn ræningjakapítalismanum, en þegar á reyndi, þegar loforðin fleyttu því í ráðherrastól, að þá var það kaþólskara en frjálshyggjupáfinn í Chicago.

Gekk miklu lengra en frjálshyggjuflokkarnir þorðu nokkurn tímann.

Hvort sem það var að einkavæða almannaþjónustu, selja ríkiseignir eða skerða réttindi launafólks.

Það eru fleiri en Steingrímur Joð sem hafa logið sig til valda þó íslenskt vinstrifólk, ólíkt því frönsku, verðlauni Steingrími svikin.

 

Gjaldþrot hefðbundinna franskra stjórnmálamanna var löngu fyrirséð.

Of lengi hafði verið logið, of miklu, ítrekað.

Dauðateygjur þeirra var að sameinast um óttann.

 

Hann sigrað núna, en hann mun ekki sigra næst.

Frakkland á ekki viðreisnar von fyrr en það losar sig við hina dauðu hönd Evrópusambandsins, og það losar sig við ræningjakapítalistana, hugmyndafræði þeirra og efnahagsstefnu.

Síðan þarf að vinna að sátt á milli gamalla Frakka, og nýrra Frakka.

Hvað sem hægra lýðskrumið segir, þá er Ruanda leiðin ekki sú sem mun skapa frið og sátt til lengdar.

 

Aðeins samræðan, viðurkenning á sammannlegum gildum mun það gera.

En slík samræða, þó til staðar sé, hefur ekki náð því tungutaki að venjulegt fólk fylkir sér um hana.

 

En hún er lífsnauðsyn, ekki bara í Frakklandi, heimurinn allur þarf á henni að halda.

Og hún mun heyrast, hún mun ná að yfirgnæfa glymjanda tómhyggjunnar og hrópanda öfganna.

 

Því hún elur af sér líf.

Hitt deyðir líf.

 

Og lífið mun alltaf finna sér leið til að lifa af.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Unga gáfnaljósið tekur völdin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað er kosið í Frakklandi?

 

Svar er einfalt og kom fram í annarri frétt hér á Mbl.is, "Hinir ríkustu auka við auðinn", það er kosið um hvort auðstéttin megi halda áfram að ræna og rupla í landinu eins og aldrei fyrr.

Hvort auðstéttin megi leggja heilu héruðin og borgirnar í rúst með því að flytja atvinnu fólks úr landi til þrælabúða þriðja heimsins.

Hvort hún megi sækja að því sem eftir er með því að flytja inn ódýran varning fríverslunarinnar, þar sem kostnaði er haldið niðri með því að virða engin réttindi, hvorki verkafólks, umhverfis, samfélags.  Á sama tíma og hún setur ótal, ótal íþyngjandi reglur og reglugerðir til að draga þróttinn úr innlendri atvinnustarfsemi.  En fer sjálf framhjá þeim öllum með hinum ódýra innflutningi.

Og ekki hvað síst er kosið um hvort megi eyðileggja lífskjör ófaglegs verkafólks, faglærðs verkafólks, sem þó voru ekki beysin fyrir, með hinu frjálsa flæði undirborgaða og réttindalausra frá fátækustu kimum Evrópu.

 

Fólk er að mótmæla slæmum lífskjörum, óöryggi, og hnignun.  Hnignun innviða, hnignun samfélagslegra þjónustu.

Og stórauknum ójöfnuði þar sem æ stærri hluti hverrar þjóðar á aðeins skuldirnar á meðan jafnvel öflugustu talningavélar ná ekki að telja heildarauð hinna ofsaríkustu.

Þessi óánægja kom Trump til valda, og þessi óánægja leitar í sífelldu uppá yfirborðið í Evrópu, þá auðkerfinu takist ennþá að grafa hana aftur í vonleysið og örvæntinguna.

 

Þessi óánægja hefur þurrkað út hina hefðbundnu flokka Frakklands, því sísvik jarða flokka að lokum.  Sérstaklega þá sem boða jöfnuð og bræðralag fjöldans, en í reynd er það jöfnuður og bræðralag hinna ríku eins og við Íslendingar fengu að reyna á eigin skinni þegar þau Jóhanna og Steingrímur slógu skjaldborg um auðinn.

Vissulega tókst frönsku auðstéttinni í tíma að koma sér upp skálkaskjóli, sem er hið tilbúna framboð bankamannsins Macrons, en allt sem hann segir og gerir, er árangur markaðskönnunar um hvað þyrfti að segja og gera til að slá á óánægju fólks, svo hann virkaði trúverðugur frambjóðandi eftir að hræðslubandalagið hefði vegið Le Pen.

En þetta er aðeins gálgafrestur, sama lygin virkar aðeins einu sinni, og núna er auðræðið búið með sína valmöguleika.

 

Næst mun fólk ekki láta glepjast af tilbúningi.

Næst mun fólk krefjast breytinga, og sjá til þess með atkvæði sínu að af þeim verði.

Aðeins afnám lýðræðisins mun geta koma í veg fyrir það.

 

Hverjar þær breytingar verða, er svo komið undir skynsömu fólki.

Ef það telur sig hafa efni á að gagnrýna hina svokölluðu popúlista, þá verður það að sýna í verki að það getur komið sér saman um valkost, sem hefur kjark til að fara gegn auðstéttinni, og vit til að forma tillögur að nýju og betra þjóðskipulagi.

Ekki að það þurfi að finna upp hjólið, vestræn samfélög og vestræn velferðarkerfi voru öll að þróast í rétta átt, hvort sem það var undir stjórn vinstri eða hægri manna, eða alveg þar til mótleikur auðstéttarinnar gegn velferð og velmegun fjöldans, frjálshyggjan náði öllum völdum í vestrænum stjórnmálum.

Og rauf samfélagssáttina.

 

Takist heiðvirðu, skynsömu fólki, sem þekki bæði sið og rétt, ekki þetta verkefni, þá taka öfgarnar við.

Þá mun renna upp tími fallaxirnar og aftökusveitarinnar.

Ólga og óöld mun yfirtaka vestræn samfélög.

Því eins og allir sem vita sem hafa einu sinni átt gufuketill, að það er aðeins hægt að fresta hinu óhjákvæmilega þegar hann yfirhitnar, með því að tropa í sprungur.  Hann springur alltaf að lokum.

 

Hinn vestræni heimur er kominn að því að springa.

Frakkland springur kannski ekki í dag.

 

En það mun springa.

Sá er lærdómur sögunnar.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Yrði sá yngsti frá dögum Napoleons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðaldaríki sem fóðrar íslamska öfga.

 

Tilkynnir núna að það ætli að veita konum meiri frelsi í lífi sínu.

Þær þurfi ekki að spyrja karlmenn leyfi um allt.

Bara næstum því allt.

 

Á sama tíma og þeir sem benda á hina hugmyndafræðilegu óværu sem þetta miðaldaríki fjármagnar á Vesturlöndum eru kallaðir hægriöfgamenn, rasistar sem ástundi hatursorðræðu, þá eru veraldlegar ríkisstjórnir í Mið Austurlöndum hraktar frá völdum, hver á fætur annarri.

Og liðsmenn dauðans, haturs og ofbeldis, beint fjármagnaðir af Arabíuskaganum, fylla uppí tómarúmið með tilheyrandi hörmungum fyrir íbúa viðkomandi landa.

Aðeins í Egyptalandi tókst að snúa þessa öfgamenn niður, bjarga landinu fyrir horn, í bili að minnsta kosti.

 

Þetta miðaldaríki er nánasti bandamaður vestrænna stjórnmálamanna.

Og í nánu samstarfi við þá að miðaldavæða hinn múslimíska heim.

 

Blóðið, ofbeldið, hryllingurinn er allur í okkar boði.

Það erum við sem höfum kosið þá stjórnmálamenn sem hafa ekki þann lágmarks siðferðislegan þroska til að þekkja ófreskju þegar þeir taka í hendurnar á henni.

Og það erum við sem sitjum uppi með afleiðingarnar, flóttamannabylgjuna sem við ráðum ekki við.

 

Lausnin felst ekki í að loka landamærum og láta þjáningar hinna saklausu, sem nota bene þjást vegna okkar gjörða, deyja út í auðninni.

Þó það væri ekki nema vegna þess að það fyrsta sem hinir einkavinavædduvildarvinarflokkar frjálshyggjunnar gerður, var að skera niður við trog alla öryggisþjónustu á vegum ríkisins, svo vildarvinirnir gætu fyllt uppí tómið með öryggisfyrirtækjum sínum.

Við höfum ekkert til að verjast með ef þessu fólki dytti í hug að bíta frá sér.  Þjófar, í nafni frjálshyggjunnar hafa stjórnað okkur í 30 ár, og rúið áður rík samfélög okkar inn að beini.

 

Síðan haga manneskjur sér svo ekki, þær hjálpa á neyðarstundu, en skella ekki í lás.

Og jú, við erum manneskjur þó stjórnmálamenn frjálshyggjunnar, varðmenn vildarvinanna, reyni að telja okkur í trú um að svo sé ekki.

 

Lausnin er að við tökum okkur taki og losum okkur við óværuna, sníkinn sem lagst hefur á þjóðarlíkama okkar.

Og síðan stillum við til friðar með því að stöðva miðaldaríkið í að koma öllu í bál og brand.

Við stöðvum fjárflæði þess og við stöðvum þá sem breiða út hugmyndafræði þess.  Líka á Vesturlöndum.

 

Byltingin gegn Mammon og þeim sem hann blóta,  er þegar hafin.

Vörn hans er að bjóða uppá ýmiskonar handbendi í felubúningi.

Í Bandaríkjunum var maður í trúðsbúningi boðinn fram, í Frakklandi var hönnuð miðjuímynd um harðsvíraðan fjármálamann, á Íslandi voru búnir til flokkar, nóg af þeim.  Svo þegar móðurflokknum var hafnað, þá voru flokksskrípin kölluð til eftir þörfum.

Og síðan er kynnt undir þau átök sem eiga að fella lýðræðið, og vestræna velmegun um leið.  Enda hefur auðurinn aldrei getað fyrirgefið bandalag kristilegra íhaldsmanna og jafnaðarmanna og ávöxt þess, velferðarkerfið.

 

Þetta eru skammtímalausnir, fólk lætur ekki platast nema einu seinni í hverju landi.

En þá er spurningin hvort að fasískir eða hálffasískir flokkar taki yfir stjórnkerfið.

Kemur í ljós, ef öllum er sama, þá verður svo.

 

En við skulum ekki vanmeta lífið, og hvöt þess til að vilja lifa af.

Við skulum ekki vanmeta siðinn sem segir okkur að sérhvert líf hafi rétt til lífs.

Eða skynsemi okkar til að skilja af hverju við eigum að líta eftir náunga okkar, að hans örlög séu samofin okkar.

 

Mannkynið hefur áður sigrast á illvígum drepsóttum.

Svarta pestin ætti ekki að vera nein undantekning þar á.

 

Í augnablikinu ræður hún öllu.

Hannar atburðarrásina, stjórnar öllu því sem við gerum.

 

En á morgun, á morgun.

Hefur eitthvað breyst.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Leyft að vinna án leyfis frá körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 1099
  • Frá upphafi: 1321862

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 914
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband