Ólíkt hafast þjóðir að.

 

Suður Kóreu menn hafa fengið nóg af spilltum ráðamönnum í gegnum tíðina, og þegar núverandi forseti tengist spillingarmálum náinna samherja, þá fjölmenntu þeir út á götur og kröfðust afsagnar hans.  Skipti ekki máli að hún var kona, og það hefði örugglega ekki skipt máli þó hún hefði verið af Engeyjarættinni.

Í dag berast svo fréttir að stjórnlagadómstóll Suður Kóreu hafi staðfest embættissviptingu forsetans, hún skal sæta ábyrgð gjörða sinna.

 

Á Íslandi eykst hins vegar forfrömun manna eftir því sem þeir tengjast fleiri spillingarmálum.

Tugmilljarða gjaldþrot bensínssölufyrirtækis er bónus, innherjamisferli rétt fyrir Hrun er bónus, gjafasala Borgunar til ættmenna er bónus, Gjöfin eina uppá 500 milljarða til hrægamma er bónus, fjármálabrask í gegnum aflandsfélög er bónus, ljúga sig til valda er bónus.

Og samanlagaðar bónusgreiðslurnar eru valdamesta embætti þjóðarinnar.

 

Þjóðin hafnaði reyndar hinum gjörspillta stjórnmálamanni og flokki hans.  Ef elliær gamalmenni sem halda að þau séu að kjósa Bjarna Ben eldri og þann borgaralega í haldsflokk sem hann veitti forystu og hnarreistir landsbyggðarmenn sem telja sísvikin loforð í samgöngum og byggðarmálum forsenda byggðar þeirra og búsetu, hefðu ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn, þá hefði hann beðið sögulegt afhroð og misst áhrifastöðu sína í íslenskum stjórnmálum.

En þessi stuðningur hinna sísviknu ásamt því að ná óánægjufylgi hægri fólks með því að útbúa nýjan flokk korteri fyrir kosningar, dugði til að halda völdum, og leiða fyrstu ómenguðu hægri stjórnina frá því á dögum Jóns Þorlákssonar.

Svik og klækjabrögð eru guðmóðir og guðfaðir þessarar ríkisstjórnar, og eina sem er öruggt er að gjörspillingin mun ná nýjum hæðum.

 

Það er af sem áður var í Sjálfstæðisflokknum þegar farsælasti formaður flokksins bjó í venjulegu húsi og tölti út í banka til að taka út sparifé sitt, sem nota bene voru nokkrir þúsundkallar, ekki nokkrar hundruð milljónir, til að mótmæla framferði auðmanna.

Það er af sem áður var að flokkurinn stóð fyrir styrkingu samfélagsins, uppbyggingu innviða, og tiltrúar á land og lýð.

Það er ekki svo langt síðan að flokkurinn stóð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, smíði á nýju varðskipi, og aðeins lengra aftur var nýtt hafrannsóknarskip tekið í notkun.

 

Hvað er gert í dag??

Það er ekki til fjármunir í neitt.

Niðurskurður á öllum sviðum, engin uppbygging, engin nýsmíði, allur sameiginlegur rekstur í flugumynd.

 

En við eigum til auðmenn, við eigum til milljarðamæringa, reyndar mjög marga milljarðamæringa, reynda eigum við heimsmet í fjölda milljarðamæringa miðað við höfðatölu.

Og þessir milljarðamæringar eiga hundruð milljarða í földum skjólum erlendis, látum ekki blekkjast af því að Panamaskjölin hafi sagt einhverja sögu, þau náðu ekki einu sinni toppnum á umfanginu.

Svo eigum við skuldir þessa milljarðamæringa, alveg óskiptar.

 

Sem aftur skýrir að helsta atvinnugreinin eftir Hrun er föðurlandssvik af ýmsu tagi.

Næstum óteljandi fjöldi sérfræðinga, hvort sem það er almannatenglar, lögfræðingar, viðskiptafræðingar, endurskoðendur, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, rithöfundar, hafa á einn eða annan hátt selt hrægömmum, erlendum sem innlendum, sálu sína og þjónustu, gegn þóknun, til aðstoða þá við að ræna og rupla þjóð sína.

Og höldum því skýrt til haga að þessi þjóðarsvik eru ekki á nokkurn hátt bundin við Sjálfstæðisflokkinn og sjálfstæðisfólk.

Og munum að þeir sem halda því fram eru allir sem einn í þjónustu ræningjahyskisins.

 

Deila og drottna.

Sundra og spilla.

Ræna og rupla.

 

Ísland í dag.

Með síljúgandi stjórnmálamönnum og auðum götum.

Með þegjandi eða tuðandi öldungum sem bregðast þeirri skyldu sinni að verja þjóð sína og arfleið.

Lýtur harðstjórn (tyranny) vanheilags bandalags innlendra og erlendra hrægamma sem láta leppa sína, hvort sem það er í Seðlabankanum eða ríkisstjórn, telja þjóð sinni í trú um að hún sé svo bláfátæk að hún geti ekki haldið innviðum sínum við. 

Hvað þá byggt eitthvað upp.

En leyfir henni að njóta neyslufyllerís hágengisins svona rétt á meðan krónuauðurinn er fluttur úr landi í aflandsskjól.

 

Já, ólíkt hafast þjóðir að.

Sumar hafa fengið nóg, aðrar svipta börn sín framtíðinni.

Því í auðþjóðfélagi, þjóðfélagi auðræðisins, búa aðeins auðmenn og þrælar, og jú reyndar nokkrir misfeitir milliliðir, og svo auðvitað fólkið sem þjónar auðnum.

 

Svona er framtíð barna okkar.

Þau sem ætla að stofna fjölskyldu og uppfylla grunnskyldu lífsins, að ala af sér líf, þau geta ekki keypt sér húsnæði, heldur býður þeirra hlutskipti leiguþrælsins.

Þau sem ætla að nýta sér það sem við til skamms tíma kölluðum almannaþjónustu, munu ekki geta það nema eiga fjármuni til að borga einkaaðilum fyrir.

 

Allt sem áar okkar áorkuðu er að grotna niður.

Hverfa í eyðimörk frjálshyggjunnar.

Auðurinn og stórfyrirtæki hans ráða öllu, og er að eignast allt.

Og bráðum segir hann við okkur að við séum óþörf, að vélvitið og sjálfvirknin munu vinna öll störfin fyrir hann.

Étið þá það sem úti frýs.

 

Étið það sem úti frýs.

Fallegt að segja það við börnin sín eða hitt þó heldur.

Og enginn kannast við að segja þessi orð.

 

En þau óma í þögn okkar.

Tómlæti okkar magnar þau upp.

Auðar götur bergmála þessi fyrirheit um framtíð þeirra.

 

Étið það sem úti frýs.

Börnin kær.

 

Mér er ekki sama, en ég nenni ekki, ég get ekki.

Ég má ekki vera að því.

 

Eða eitthvað, eða eitthvað.

Allt nema að verja lífið sem við ólum.

 

Það er okkur um megn.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Park svipt forsetaembætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 230
  • Sl. sólarhring: 230
  • Sl. viku: 1224
  • Frá upphafi: 1321776

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 1004
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband