Æ, ósköp er áróðursdeildin aum í dag.

Morgunblaðið hefur tekið afstöðu í ICEsave deilunni.  Og sú afstaða litar allan "fréttaflutning" blaðsins af deilunni.  Eins og margir vita þá finnst í fórum blaðsins gífurlegur fróðleikur um kalda stríðið og þau  vinnubrögð sem þar voru tíðkuð.  Þar á meðal áróður.  Og í fjöldamörg ár var Pravda, blað sovéska kommúnista flokksins, skyldulesning fyrir ákveðna blaðamenn í stjórnmálaskrifum.  Þú þurftir jú að þekkja óvin þinn svo hægt væri að verjast honum.  

Pravda þýðir sannleikur, en það var óvart og taldist til stórra mistaka ef áróður blaðsins innihélt sannleik, í merkingunni að hafa það sem sannara reynist.

Í ICesave deilunni hefur ritstjóri Morgunblaðsins leitað til þessara gömlu Hauka og fengið hjá þeim ráð um hvernig á matreiða sannleikann, hvernig Morgunblaðið getur verið Pravda okkar Íslendinga.

En það eru nýir tímar og "lygin" er ekki gerð að frétt en sannleikurinn er oft hafður ósagður og rangfærslum er hampað.  Dugi það ekki til þá finnur áróðursdeildin alltaf nýjan og nýjan vinkil til að hamla gegn þeirri óstöðvandi þróun að íslenska þjóðin er að vakna og hætt að trúa að það sé henni fyrir bestu að veðsetja börn sín í skuldahlekki Evrópusambandsins.

Núna síðustu daga hafa reglulegar birst fréttatilvísanir á Mbl.is í blogg manna sem hafa eitthvað til málanna að leggja gegn þjóð sinni.  Má segja að unnið sé eftir reglunni "að litlu verður Vöggur feginn", eða þannig.

Gegn vandaðri grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar, í Morgunblaðinu 22. júni, tefldi Mbl.is fram bullrökum Eiðs Guðnasonar, rök sem manninum er fullkomlega frjálst að halda fram og margt mátti segja um en orðið frétt var ekki eitt af því, og gegn vönduðum útreikningum Andófsmanna, á netinu um hinar óbærilegu byrðar ICEsave samkomulagsins, var teflt fram húmor Friðriks Hansen um að við ættum bara að virkja 1000 megavott og láta þau borga ICEsave skuldbindingarnar.  Fyndið en seint flokkað undir frétt.

Og í dag virðist áróðursdeildin hafa kveikt á perunni að þó Vöggur verði feginn af litlu, þá er hann farinn á vit feðra sinna og upplýst fólk vill upplýsta umræðu, ekki bull.

Og þá var bullið sett í búning fréttaskýringar.  

Möguleikarnir eru hins vegar afar takmarkaðir.

Segir áróðursdeildin.  Og á þá við möguleikar Íslands til að fá mál sitt tekið upp fyrir hlutlausum dómstólum. 

Röng fullyrðing notar röng dæmi til að rökstyðja mál sitt.  Dæmi sem eru rétt þegar þau eiga við það mál sem um er fjallað en eru bull þegar þau eru notuð í röngu samhengi.

Í þjóðarétti gilda allt aðrar reglur en í landsrétti. Eigi einhver lögvarða fjárkröfu á einstakling hér á landi eða lögaðila getur sá hinn sami ávallt leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum.

 Hvað er að þessari fullyrðingu, er hún ekki rétt?? Vissulega en hún er sett inn á útsmoginn hátt sem svar við megin röksemdum Jóns Steinar Gunnlaugssonar þegar hann benti áróðurspésum út hvað réttarríki gengi og til hvers dómstólar væru.  Hér er lúmskt verið að halda því fram að ekki sé hægt að lögsækja íslenska ríkið fyrir íslenskum dómstólum og verður þessi blekking að skoðast í ljósi þess að Jón Steinar benti áróðurspésum á að varnarþing íslenska ríkisins væri á Íslandi.  En komum að því seinna.

Þessu er fylgt eftir með þessum staðhæfingum:

Annað gildir í þjóðaréttinum. Í deilu milli tveggja þjóða gildir sú meginregla að semja þarf um að leggja mál í hendur dómstóla. Í þorskastríðunum við Breta neituðu Íslendingar til dæmis að samþykkja að leggja málið fyrir gerðardóm og þar við sat. Bandaríkjamenn hafa jafnframt neitað að fallast á lögsögu Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í Haag og þannig mætti áfram telja.

 Er þetta ekki rétt?  Jú, vissulega, en þetta kemur því máli sem um er fjallað ekkert við.  Í því er lygin fólgin.

ICEsave deilan snýst um túlkun á lögum og reglum EES, sem er sameiginlegt efnahagssvæði ríkja Evrópubandalagsins og ríkja EFTA.  EES samningurinn er milliríkjasamningur um samstarf ríkja, og hann væri einskis virði ef í honum væri ekki ákvæði um réttarfarsreglur sem segja til um hvað eigi að gera, komi upp lagaágreiningur eða deilur um túlkun laga.  Og réttarfarsreglurnar takast á við brot einstakra ríkja á reglum efnahagssvæðisins.  Þessar réttarfarsreglur gagnvart EFTA ríkjunum eru Eftirlitsstofnun EFTA, ESA og EFTA dómstóllinn.

Þegar Morgunblaðið vitnar í landhelgisdeilu Íslands og Bretalands þá er hann að vitna í deilu tveggja ríkja um þjóðréttarleg ákvæði, en ekki deilu tveggja ríkja um brot eða lagatúlkun á ákvæðum milliríkjasamstarfs sem þær voru aðilar að.  Og hvað Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn kemur þessu máli við yrði jafnvel Vögg fyrirmunað að skilja, væri hann ennþá meðal okkar.

Það er ekki einu sinni verið að bera saman epli og appelsínur, það er verið að blekkja, en á ákaflega gegnsæjan hátt.

 

En deilan snýst um það hvort bretar og Hollendingar geti dregið Ísland fyrir dóm þar sem Ísland er EFTA ríki, en þessi lönd eru í ESB.  Með miklum vilja í rangtúlkunum á EES samningnum má segja að slíkt sé ekki hægt því það er ekki sagt berum orðum í ákvæðum EES samningsins að komi upp sú staða að bretar og Hollendingar verði fúlir út í Íslendinga, þá geti þeir dregið þá fyrir dóm.  En ESB getur beint þeim tilmælum til ESA og EFTA dómstólsins að taka þessi mál fyrir og eins geta þessi bandalög komið sér saman um ákveðinn sameiginlegan dóm sem dæmir um þetta gat á tilskipun ESB um innlánstryggingakerfi því þetta er jú grundvallarmál sem varðar svo margt innan efnahagssvæðisins.

En stóra lygin er sú að Íslandi skorti réttarúrræði.  Til hvers??  Til að fá dómstóla til að krefjast þess að við eigum að láta frá okkur aleiguna í ólöglegar greiðslur, sem brjóta tilskipun ESB, brjóta EES samninginn og brjóta alþjóðalög.  Það er jú bannað að setja þjóðir á hausinn og koma almenningi á vonarvol vegna misráðinna ákvæða í milliríkjasamningum.

En áróðurspésarnir fundu upp á lyginni og hún skal hömruð.  

En Jón Steinar kvað þá bjána sem vissu ekki hvað dómstólar væru, hvað þá hvernig leikreglur réttarríkja væru.

Og Jón Steinar sagði eitt sem fólk ætti að hafa í huga.  Komi ESB/EFTA sér ekki saman um réttarúrræði, þá gilda þau lög sem í gildi eru.  Íslensku lögin eru skýr.  Og þau segja að Tryggingasjóðurinn sé sjálfseignastofnun, án bakábyrgðar íslenska ríkisins.  Og það er aðeins eitt sem getur hnekkt þeim.  Og það er dómur sem dæmir þau lög ólögleg eða ófullkomin í ljósi tilskipanar ESB.  Ísland hefur skuldbundið sig að lúta reglum EES og aðlaga lög sín að reglum og tilskipunum ESB.  Aðeins dómsstig innan EES getur hnekkt okkar lögum á fyrrgreindum forsendum.   Til þess er enginn annar dómur fær.

Og nýti bretar og Hollendingar sér ekki ákvæði EES samningsins þá geta þessi ríki eða þeir einstaklingar og stofnanir sem eiga eitthvað upp á Tryggingasjóðinn að klaga, höfðað mál fyrir íslenskum dómstólum.  Aðeins þeir geta dæmt eftir íslenskum lögum.

Við megum aldrei gleyma því að það eru aðrir sem eru kvarta yfir íslensku löggjöfinni.  Það er blekking að tala endalaust um að okkur skorti dómsúrræðin.  Það erum ekki við sem ætlum í mál við sjálfa okkur.

Samfylkingin er ekki íslenska þjóðin, aðeins hluti hennar.  Vilji hún endilega gera þjóðina gjaldþrota, þá þarf hún fyrst að fara í mál við íslenska ríkið, eða biðja bretana að gera það fyrir sig.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Ber okkur í raun að borga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð Símonarson

Sæll Ómar, aldeilis frábær lesning og ég verð að hrósa þér fyrir að benda á hið augljósa varðandi einsleita áróðurinn sem ruslfjölmiðlarnir (klíkan sem á stærstu fjölmiðla landsins) mata ofan í okkur.  Auðvitað eigum við að leita réttar okkar og auðvitað á EES samningurinn að dekka þessi milliríkjamál að fullu, það virðist sem ríkisstjórnin vilji ekki viðurkenna það. Síðan þessi IceSave samningur, ef hann er ekki besta dæmið um 1. gráðu landráð þá veit ég ekki hvað landráð er. Ég hreinlega held að Jóhanna og Steingrímur viti ekki rassgat hvað er að gerast beint undir nefjum þeirra þ.e.a.s. ef þau vilja ekki að Ísland missir fullveldi sitt. Núna væri gott að fá lögmentað fólk til að finna ákvæðin í EES samningunum sem taka á svona milliríkjadeilum, ekki gerir ríkisstjórnin það. 

Lifi Byltingin!!
og kær kveðja Alli

Alfreð Símonarson, 26.6.2009 kl. 11:17

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er sorglegt hvernig stjórnvöld standa kjarklaus gegn þjóðinni en ekki með henni. Tek heils hugar undir lokasetninguna þína, enda lengi verið á þeirri skoðun að fyrir framtíð Íslands sé ekkert hættulegra en Samfylkingin.

Haraldur Hansson, 26.6.2009 kl. 11:57

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hans.

Mikið sammála þér með kjarkleysið, en okkar á milli þá flokkast lokasetning mín undir stríðni.  En það er með hana eins og málverkið af raunverulegum atburðum, túlkun höfundar er hans skynjun á því sem gerðist eða er að gerast. 

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 26.6.2009 kl. 13:36

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Alfreð.

Ég verð alltaf þyrstur þegar ég sé myndina af þér.  Flott mótív.  Já og lengi lifi byltingin.

Ég vil aðeins hnykkja á því að það erum ekki við sem þurfum að fara í mál, það er þeirra sem eru ósáttir við okkar lög.  Þetta litla atriði vill oft gleymast.

Í bloggum mínum hér að framan þá er ég með linka á helstu lagatextana sem varða ICEsave deiluna.  Þau heita orðræða Borgunarsinna eitthvað.  En textinn um ESA og dómstól EFTA er nokkuð skýr og eins og ég segi þá þarf mikinn vilja til að snúa út úr honum.  En nota bene þá er það ekki okkar að benda á úrræðin.

En hér er texti sem varðar málið:

Telji eftirlitsstofnun EFTA að EFTA-ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum eða samningi þessum skal hún, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum, leggja fram rökstutt álit sitt um málið eftir að hafa gefið viðkomandi ríki tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu.

Ef viðkomandi ríki breytir ekki í samræmi við álitið innan þess frests sem eftirlitsstofnun EFTA setur getur hún vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

Sbr. 166. gr. Rs

32. gr.


EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu í málum er varða lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja um túlkun eða beitingu EES-samningsins, samningsins um fastanefnd EFTA eða samnings þessa.

Sbr. 170. gr. Rs

33. gr.


Hlutaðeigandi EFTA-ríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.6.2009 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband