Einstaklingur sem virti ekki sóttkví.

 

Segir Víðir Reynisson, sami Víðir Reynisson sem varði hið óverjanlega, að sóttkví við landamærin sé ekki örugg, með þeim orðum að ekki væri hægt að banna allt flug til landsins.

 

Hvað er svona flókið við það að hafa örugga sóttkví?

Og hví í andskotanum ef hún er ekki örugg, af hverju kóa almannavarnir með og lýsa jafnvel ánægju sína með núververandi fyrirkomulag.

Að pappírar séu teknir gildir en ekki tvöföld skimun með sóttkví á milli, eða fólki sé í sjálfvald sett hvort það virði sóttkvína eða ekki, og þá með þekktum afleiðingum.

 

Það er hlutverk almannavarna að tryggja öryggi landsmanna, og það er þeirra að gera kröfu á löggjafann að enginn vafi sé á lagagrundvelli þeirra aðgerða sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma til að tryggja þetta öryggi.

Hlutverk þeirra er ekki að leika hlýðna eða vanhæfa embættismenn sem bakka upp vitleysu ráðherra, eða sjá jafnvel ekkert athugavert við hana.

Þeirra hlutverk er að falla með tillögum sínum, fái þær ekki brautagengi ráðamanna, segja þjóðinni sannleikann og tilkynna síðan afsögn sína ef tillögur ráðaherra ganga þvert gegn þeim.

 

Það er vitað í dag að fólk með pappíra getur borið með sér smit inní landið, það er raunveruleiki veirunnar að hún getur smitað aftur, og hún getur smitað bólusetta.

Það er líka vitað að fólk virðir ekki sóttkví, líkt og það er vitað að fólk virðir ekki umferðarlög, skattalög, allskonar lög.  Við því er að sjálfsögðu viðurlög, en í þessa eina tilviki, brot á sóttkví, eru afleiðingarnar innanlandssmit sem sóttvarnaryfirvöld berjast gegn með allskonar kvöðum og takmörkunum á daglegt líf fólks.

Slíkar kvaðir og takmarkanir eru alltaf umdeilanlegar, og þess vegna er siðferðisleg forsenda þeirra að þessi sömu yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra smit yfir landamærin.

Og það er ekki gert í dag, því sóttkví er ekki örugg á meðan það er komið undir brotavilja hvort hún haldi eður ei.

 

Játning Víðis í dag.

Hópsmitið í Mýrdalnum.

Landamærin halda ekki.

 

Svarið er ekki eins og haft er eftir Víði Reynissyni, að næstu tveir til þrír dagar skipti sköpum hvort herða þurfi sóttvarnaraðgerðir innanlands.

Svarið er að stöðva lekann á landamærunum, biðja síðan þjóðina auðmjúklega afsökunar á þeim glöpum að fyrirsjáanlegur leki skyldi ekki vera stöðvaður, og þá er hægt að ræða hertar sóttvarnir, enn einu sinni enn.

Aðeins afglapinn svarar að við þessu sé ekkert að gera, að lekinn á landamærunum sé eins og heilög kýr á Indlandi, ósnertanlegur og þjóðin skuli bara enn einu sinni búa sig undir að missa af vorinu og síðan sumrinu.

 

Núna reynir á þjóðina að láta ekki bjóða sér þessa vitleysu.

Daglegt líf hennar er undir.

 

Hún á að gera kröfu á sóttvarnaryfirvöld að segja henni satt og koma með tillögur sem duga.

Hún á að gera kröfu á stjórnvöld að lagagrundvöllur sé til staðar, þurfi til þess neyðarlög, þá á hún að gera kröfu á setningu þeirra.

Flækist viðrini eða óvitar á Alþingi fyrir, og ríkisstjórnin hafi ekki meirihluta fyrir lögum sínum, þá þjóðin að gera þá kröfu á forseta Íslands að hann víki þingi frá með þeim orðum að það hafi engan rétt að vinna gegn þjóðinni á neyðartímum.

 

Síðan á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að komast upp með að hafa barn í stöðu dómsmálaráðherra og forsætisráðherra ekki að líða að innan ríkisstjórnar sé ráðherra sem opinberlega brúkar munn við hann um nauðsyn sóttvarna.

Þetta er alvaran, ekki barnaleikur, það veit enginn hvernig málin eiga eftir að þróast með þessa veiru, tíminn til að sigrast á henni með bólusetningum virðist vera renna út, banvæn afbrigði veirunnar geta borist aftur og aftur að ströndum þjóðarinnar.

Þess vegna er það skylda stjórnmálanna að sjá til þess að fullorðið fólki leiði varnir hennar og það sé fullorðið fólk sem taki ákvarðarnir á öllum stigum málsins.

 

Það rífst enginn við raunveruleikann án þess að tapa þeirri rimmu.

Á annað ár höfum við leyft veirunni að leka inn fyrir landamærin, og allan þann tíma verið meir eða minna í fjötrum sóttvarna, vissulega ekki eins alvarlegra og víða erlendis, þökk sé snerpunni í að rekja smit og senda alla í sóttkví sem gætu verið smitaðir, en sóttvarna engu að síður sem hafa stjórnað daglegu lifi okkar allan þennan tíma.

 

Rifrildið þarf því að taka enda.

Sættumst við raunveruleikann og gerum það sem við þurfum að gera.

Það er vissulega fordæmalaust en við lifum bara fordæmalausa tíma.

Þar gamla orðtakið að duga eða drepast, er ekki lengur vísan í að drepast í óeiginlegri merkingu.

 

Það er bara svo.

Þetta er ekki val.

Kveðja að austan.


mbl.is Hópsmit í leikskólanum rakið til brots á sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hvaða sóttvarnalagabrot er það, geturðu farið nánar út í það?

"Það er aðili sem við eftirlit virtist ekki hafa virt sóttkví og lögregla hafði afskipti af honum. Við erum svo með raðgreiningu, sem tengir þetta saman. Viðkomandi kom til landsins um mánaðamótin."" [Letbr. mín].

Það má slá því föstu að lögreglumaðurinnn tók ekki upp hjá sjálfum sér að upplýsa almenning um þetta.

Manneskjan sem braut sóttvarnalög og setur leikskólann á hausinn og íslenskt samfélag á hliðina er allt að því nafngreind í þessari frétt.

Einhverjir einhvers staðar í kerfinu og sem einhvers mega sín eru búnir að fá nóg af fólki sem flakkar inn og út úr landinu ábyrgðarlaust við að brjóta lög um sóttkví.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 18.4.2021 kl. 13:59

2 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Er sá sem braut sóttkví starfsmaður leikskólans? og hefði hann skv. reglugerðinni sem dæmd var ólögmæt, átt að vera í sóttvarnarhúsi?

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 18.4.2021 kl. 14:17

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Þórdís.

Ég las rétt áðan hjá Ruv.is að viðkomandi væri ekki starfsmaður leikskólans, enda sem slíkt ekkert atriði málsins, ef smit sleppur inn fyrir landamærin, þá getur það smitað alla sem komast í snertingu við það eða hafa deilt rými með viðkomandi.  Svo fer það eftir því hvað þetta er smitandi, hve margir smitast í kjölfarið, en eins og allir vita, nema hugsanlega dómsmálaráðherra, þá er veldisaukning á veirusmitum.

Hvort viðkomandi hafi síðan átt að vera á sóttvarnahúsi, eða hafi komið frá löndum þar sem ekki var gerð krafa þar um, skiptir þannig séð engu.  Reglugerðin var götótt því ef menn sjálfir trúa frasa sínum að eitt smit sé nóg til að starta nýrri bylgju, þá áttu auðvitað allir farþegar sem komu til landsins að fara í sóttkví undir eftirliti.

Auðvitað voru meiri líkur á smiti frá hárrauðum löndum, en þetta snýst ekki um meiri eða minni, heldur líkur.

Það er alltaf líkur á að jafnvel hin fullkomnasta sóttkví bresti, og þá þarf að bregðast við því.  Hins vegar er öruggt að landamærin halda ekki ef skilin eru eftir göt fyrir veiruna að smeigja sér í gegn, aðeins spurning um tíma.

Þetta vita sóttvarnayfirvöld og þau mega ekki halda öðru fram eða leggja annað til en það sem virkar.

Það er ekki endalaust hægt að bæta úr afglapahættinum með því að herða aðgerðir innanlands.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2021 kl. 14:56

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Esja.

Vissulega réttmæt pæling, að andóf innan kerfis sé hafið.

En ég held að það andóf sé fallið á tíma, núna þurfa menn að stíga fram, benda á staðreyndir, og standa með þeim.

Sýna manndóm með öðrum orðum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2021 kl. 14:58

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þórdís Björk. Reglugerðin var ekki úrskurðuð ólögmæt í heild sinni heldur aðeins það ákvæði hennar sem kvað á um skyldudvöl allra ferðamanna í sóttvarnarhúsi.

Nú er komin ný reglugerð og með nægri stoð í sóttvarnalögum er samkvæmt henni heimilt að sekta þá sem brjóta sóttkví og hneppa þá í einangrun í sóttvarnarhúsi.

Hvort lögregla beitti slíkum heimildum í tilviki þessa einstaklings sem hún hafði afskipti af, eða hvers vegna ekki, er spurningin sem þarf að fá svarað.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2021 kl. 15:04

6 identicon

Eitt er víst, Ómar, að það kvarnast úr virkisveggjunum sem pólitísk stjórnvöld reistu til að hlífa þeim sem ætluðu sér aldrei að virða reglur um sóttkví. Þetta má heyra á máli fleiri en lögreglumannsins.

Hvort virkisveggirnir brotna á endanum er annað mál en það er a.m.k. öruggt að þeir veita ekki sama skjól og áður.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 18.4.2021 kl. 15:20

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég er nokkuð viss um að það hefur verið íslendingur sem braut sóttkví, -alla vega manneskja með íslenska heimilisfestu.

Ef erlendur ferðamaður hefði brotið sóttkví hefði ekkert verið gert, -og Víðir hlýðir ekki ræstur út á sunnudegi.

Fasisminn á eftir að mæta á útidyraþröskuldinn hjá þér Ómar minn, -hann er mættur í leikskólann.

Heil að ofan.

Magnús Sigurðsson, 18.4.2021 kl. 15:46

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Já þú segir það Magnús.

Við unnum samt 3-1.

Kveðja úr sólinni neðra.

Ómar Geirsson, 18.4.2021 kl. 16:56

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Sótt­kví­ar­brjót­ur­inn kom til lands­ins frá Póllandi í lok mars." - segir í frétt mbl.is: Smitrakning nær óvenjulangt aftur

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2021 kl. 19:15

10 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Já ok takk Guðmundur, virkar eins og verið sé að reyna finna ástæðu til að herða aðgerðir. Hvað eru margir veikir?

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 18.4.2021 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 356
  • Sl. viku: 1563
  • Frá upphafi: 1321455

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1330
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband