Alvarleg staða.

 

En samt allt í lagi að halda sig við raunveruleikann.

 

Sem er að lönd í miðjum faraldri lenda á rauðum lista annarra landa svo ferðaþjónusta sem treystir á erlenda ferðamenn er þá hvort sem er í lamasessi.

Sem og að faraldurinn virðist vera að springa út í Evrópu, og þá er líklegt að þau lönd sem ennþá leyfa óþarfa ferðalög, fari að loka á þau.

 

Staðreyndir eru nefnilega til alls fyrst ef menn ætla sér að fá aðstoð samfélagsins til að lifa af.

Afneitunin eða það sem á mannamáli má kalla lygar, er hins vegar ekki líkleg til að fá samúð þjóðarinnar, sem vill ekki lifa í sífelldum ótta við innflutt veirusmit.

 

Svo má ekki gleyma að tækifærin liggja í ósýktu landi, þangað vill fólk koma og slaka á, og þá er 5 daga sóttkví á fögrum stað aðeins upphaf af góðu fríi.

Þess vegna eiga menn að kalla eftir aðstoð en um leið hysja upp um sig brækurnar og skoða hvaða möguleikar búa í miðjum  heimsfaraldri.

 

Heimsfaraldri sem ríkisstjórn Íslands bjó ekki til og ber enga ábyrgð á.

En ber hins vegar skylda til að aðstoða þá sem sóttvarnarráðstafanir bitna á.

Því sóttvörnum fylgir ábyrgð.

 

Þá ábyrgð þarf að axla.

Ekki seinna.

 

Núna.

Kveðja að austan.


mbl.is Ferðir afbókaðar – verslunum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Úr annarri frétt Mbl.is, þar sem hótelhaldari á Sigló bendir á raunveruleikann;

"Þá seg­ir hún ákvörðun stjórn­valda um hert­ar aðgerðir á landa­mær­um rétta. „Við erum að treysta á Íslend­ing­ana núna. Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun fyr­ir okk­ur að gera þetta með þess­um hætti. Ef við vær­um að fá aðra bylgju myndi eng­inn koma hingað,“ seg­ir Krist­björg.".

Þetta er hið rétta viðhorf, að halda sig við raunveruleikann, þannig næst samstaðan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.8.2020 kl. 07:38

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Mér sýnist íslensk yfirvöld yfirleitt vinna á þeirri forsendu að menn hafi ekki lært neitt nýtt um þennan vírus seinustu 6 mánuði:

Menn vita ennþá ekkert hvernig hann bregst við hinum og þessum lyfjum.
Menn vita ekkert um áhættuhópa.
Menn hafa ekkert lært á mismunandi aðferðum mismunandi ríkja.
Menn vita ekkert um það hvað líkaminn gerir til að sigrast á veirunni; hvort líkaminn myndi mótefni eða þjálfi svokallaðr T-frumur.
Menn vita ekkert hvað stórt hlutfall svæðis þurfi að smitast (og batna) til að setja upp náttúrulegar tálmanir á útbreiðslu veirunnar, og síðar meir ná hjarðónæmi.

Nei, menn hafa ekkert lært á 6 mánuðum. Það eina sem virkar er að læsa heilbrigt fólk inni og steypa sér brosandi fram af hengiflugi efnahagshruns, einangrunar, gjaldþrots, sjálfsvíga og dauðsfalla vegna annarra sjúkdóma.

Hvað gera menn í haust þegar inflúensan fer á stjá?

Geir Ágústsson, 19.8.2020 kl. 09:56

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Menn ákkúrat vita það sem þú ert að tala um, og þú veist það mætavel að framsetning þín á þessum spurningum er propaganda, sjálfsagt út af þeim pirringi að lífið hætti að ganga vanaganginn.

Gagnrýni er réttmæt en ef hún byggist á skrumskælingu og útúrsnúning, ásamt vissri afneitun staðreynda, þá er hún ekki lengur gagnrýni.

Menn hafa lært á mistökum ríkja sem hundsuðu þekktar staðreyndir sóttvarna, að sjúkdómar sem lúta veldissmiti, springa út fyrr eða síðar ef smitstuðullinn fer yfir 1.  Blessuð lúpína mín er mislengi að dreifa úr sér og hertaka svæði, en þegar hún springur út, þá fær hana ekkert stöðvað, það er svipað með veirusmit.

Þau ríki sem héldu sig við þekktar staðreyndir, skáru á smitleiðir, jafnt innanlands sem og við landamærin, náðu árangri, bæði varðandi hlutfall þeirra sem veiktust, sem og hlutfallið af þeim sem féllu.  Singapore til dæmis fékk til dæmis smitbylgju gegnum landamærin (mikil tengsl við Kína) sem tók tíma að kæfa, en mjög fáir féllu vegna öflugra smitvarna.  Seinni bylgja þeirra varð vegna þess að sóttvarnaryfirvöldum þar yfirsást hættan af farandverkamönnum, hún varð miklu víðtækari, en dauðsföll í lágmarki sem er afrek hjá svona þéttbýlu borgríki. 

En enn og aftur, lykilatriðið var smitvörn við landamærin.

Þegar faraldur varð óviðráðanlegur til dæmis í Whuan, þá dugði ekki að skera á smitleiðir við landamæri eða eltast við veiruna með smitrakningu, það varð að skera á allar smitleiðir með lokun samfélagsins og það tókst. 

Ekkert dæmi eru um árangur þar sem landamæri voru opin, sem er líklegast það sem þú ert að rífast yfir núna.

Efnahagslegar afleiðingar eru alltaf miklar, fer samt eftir eðli atvinnulífsins, ferðamannaiðnaður um allan heim hefur orðið fyrir miklum skaða, óháð hvort veiran náð að festa rætur eða ekki.  Ástæðan náttúrulega að fólk hættir að ferðast á tímum drepsóttar, bæði vegna sóttkvíar heima fyrir sem og sóttkvíar í landinu sem á að ferðast til.

Þó er nokkuð góð þumalputtaregla að þar sem tekist hefur að stöðva útbreiðsluna við landamæri, og ekki hefur þurft að grípa til harkalegra lokana, nema þá í tiltölulegan stuttan tíma, þar kemur efnahagslífið betur út. Þannig að þessi flötur gagnrýni þinnar er rangur, og ég held að þú vitir það vel Geir, en það er þetta jú með tilganginn.

Menn vita hvernig hún bregst við hinum og þessum lyfjum, bæði eru viðtöl við íslenska lækna, og mjög auðvelt að gúgla réttar upplýsingar þar um.

Menn vita margt um áhættuhópa en nýjar upplýsingar hrannast inn, til dæmis frá Svíþjóð þar sem bráðabólga ógnar lífi ungra barna mörgum vikum eftir tiltölulega meinlaust smit.

Eðli málsins vita menn ekkert um hjarðónæmi, til þess þarf fleiri en eina bylgju sem og einhverja einræðisstjórn sem ætlar að láta reyna á slíkt.  Eftir að Kínverjar hlupu úr skaftinu, þá er spurningin um hvort Norður Kórea hafi tötsið til þess.

Síðan langar mig að ræða þessa fullyrðingu þína; "Menn vita ekkert um það hvað líkaminn gerir til að sigrast á veirunni; hvort líkaminn myndi mótefni eða þjálfi svokallaðr T-frumur.", þú veist auðvitað að það er rangt að nota orðið "ekkert" í þessu samhengi, en eðli málsins vegna þarf tímalínu til að hægt sé að rannsaka nýja sjúkdóma, og þar hrannast líka upplýsingarnar inn.  En það er þetta með varnir líkamans og T-frumuna, það er skýring þess að menn vilja rannsaka veiruna sem olli spænsku veikinni, því seinni bylgja hennar felldi ungt fólk í blóma lífsins, líkleg skýring er að veiran magnaði upp ofsaviðbrögð ónæmiskerfisins, eitthvað sem menn merkja með þessa veiru.

Þetta er skýring þess að sóttvarnaryfirvöld um allan heim, fólkið sem hefur þekkinguna en ekki bullið að vopni, hræðist seinni bylgjuna. 

Hún gæti gert þá fyrri að hreinum barnaleik.

Síðan ert það þú og þínir Geir sem vilja loka heilbrigt fólk inni með því að hleypa veirunni inní landið og gefa henni þar frítt spil með því sem þið kallið persónulegar sóttvarnir, það endar alltaf á einn veg, stjórnlaus faraldur.

Og þá er lok lok og læs, og ekkert val þar um.

En á meðan, er eldra fólk lokað inni, sem og fólk í áhættuhópum lokar sig sjálfviljugt af, miklu stærri hópur en þig grunar.

Allt mannlíf brenglast, fyrir utan að viðvarandi ótti leikur samfélagið illa.

Þetta eru meðal annars hóparnir sem eyða mestu, og hvaða vit er í því??

Ekkert, enda grípa menn þá til áróðursins.

En til hvers??

Það er mér ofvaxið að skilja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.8.2020 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 407
  • Sl. viku: 800
  • Frá upphafi: 1320647

Annað

  • Innlit í dag: 75
  • Innlit sl. viku: 691
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 69

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband