Sjálfstætt fólk andmælir gerræði.

 

Því gerræði að þjóðin er ekki spurð álits, þegar að innleiða á regluverk sem sviptir hana forræði yfir orkuauðlindum sínum, regluverk sem breytir auðlindinni í markaðsvöru, sem á að seljast á samkeppnismarkaði hins sameiginlega orkumarkaðar Evrópu.

Ragnar Ingólfsson orðar nákvæmlega kjarna málsins;

"Þá skor­ar Ragn­ar Þór á stjórn­völd að fresta mál­inu og biður um að þjóðin fái and­rými til að kynna sér málið bet­ur. „Við kjós­end­ur hljót­um að geta gert þá kröfu þegar svo stór og um­deild mál, er snúa að auðlind­um þjóðar­inn­ar og grunnstoðum sam­fé­lags­ins, eru til um­fjöll­un­ar og hafa ekki fengið efn­is­lega umræðu í aðdrag­anda kosn­inga. Okk­ur get­ur varla legið svo mikið á að ekki megi slá þessu á frest til hausts­ins.“".

Og það er smán Alþingis að skilja ekki þennan kjarna.

 

Sem og það er smán hvað margt ósjálfstætt fólk þegir, þó það hafi valist til þeirra trúnaðarstarfa að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.

Er það til dæmis afsökun hjá formanni Neytandasamtakanna að þó fjármálastofnanir hafi fjármagnað formennsku hans, að samtökin berjist ekki gegn þessum reglum sem gera ekkert annað en að hækka raforkuverð íslenskra neytenda??

Eða þau sveitarfélög sem eiga mest undir að raforka okkar fari ekki á samkeppnismarkað, Fjarðabyggð og Akranes.  Hvaða ósjálfstæði veldur að frá þeim heyist ekki múkk?? 

Er það hollusta við þá sem eru ofar í goggunarröð flokkanna??

Hræðsla við valdið í 101??, eða hvað??

Varla er skýringin skortur á almennu atgervi, að menn skilji ekki hvað er undir??

 

Hér í Fjarðabyggð er það alla vega ákaflega ólíkleg skýring svo eitthvað hefur þetta með ósjálfstæði að gera.

Svipað og var til skamms tíma í verkalýðshreyfingunni þegar fáir þorðu gegn Gylfa og skrifstofunni og menn kyngdu því að eina verkalýðsbaráttan fólst í því að hvetja til þess að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Það vissu flestir betur, en fáir þorðu gegn talandanum í Gylfa.

 

Í dag er sjálfstætt fólk í forystu launþegasamtakanna og það áréttar að hagsmunir auðsins að markaðsvæða orkuna er ekki hagsmunir almennings.

Einn helsti ráðgjafi Eflingar, Stefán Ólafsson orðar þetta mjög vel;

"Orkupakki 3 er hluti af lengri tíma þróun skipanar orkumála, sem einkum stefnir að aukinni markaðsvæðingu og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja. Þetta er meðal annars fært í þann búning að um sé að ræða aukna samkeppni sem styrki stöðu heimila og fyrirtækja, sem eigi svo að koma fram í betri og ódýrari þjónustu. Sá hængur er þó á þessari stefnu Evrópusambandsins að einkum er um að ræða gervisamkeppni, sem mun litlum ábata skila til neytenda. Verðhækkanir á orku til almennings eru líklegasta afleiðingin hér á landi. Hins vegar er mikil ágóðavon falin í þessari stefnu fyrir einkafjárfesta sem fá tækifæri til að eignast hluti í opinberum orkuveitum.".

Og þessi markaðsvæðing hefur ekki verið rædd á vettvangi stjórnmálanna, eða lögð í dóm kjósenda.

Það er eins og Ísland sé einræðisríki, eða gjörspillt Afríkuríki eins og Nígería, það dugar að kaupa stjórnmálamenn, og síðan hafa þjóðirnar ekkert meir með málin að gera.

 

Þess vegna sendir Ragnar Ingólfsson baráttukveðjur til þeirra þingmanna sem standa vaktina fyrir hann og börn hans.

Standa vaktina fyrir okkur öll.

Vegna þess að þessi vakt skiptir öllu máli.

 

Það skiptir nefnilega öllu að það sé varist þó ósigurinn sé næsta vís.

Þess vegna minnast Norðmenn baráttu sinnar gegn hernámi Þjóðverja með stolti, þeir tóku á móti, og þeir gáfust aldrei upp.

Þess vegna fara Danir alltaf að tala um veðrið þegar sama efni kemur til tals, en minnast reyndar á að þeir björguðu gyðingum frá útrýmingu, og mega virkilega vera stoltir af.

Þó eitthvað annað en meðvirknin og undirlægjuhátturinn.

 

Miðflokksmenn andæfa og seinna meir munum við vera stolt af þeirra andófi. 

Það voru ekki allir keyptir, það gáfust ekki allir upp.

Sem og við munum minnast þeirra sjálfstæðu manna sem beittu sér innan sinna félagasamtaka eða í sveitarstjórnum til að mótmæla markaðsvæðingunni og afsali forræðis okkar yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

 

Sú minning mun verða sterkari en smán þeirra sem sviku.

Sem seldu.

Eða þeirra sem ekki þorðu.

 

Það kemur nefnilega dagur eftir þennan dag.

Þeir úthrópuðu munu hrópa.

Sigur, sigur, sigur.

 

Því það lætur engin þjóð selja sig.

Þegar hún fattar hvað er að gerast þá spyrnir hún á móti.

 

Og spyrnir þeim burt sem seldu.

Það eitt er víst.

Kveðja að austan.


mbl.is Sendir Miðflokksmönnum baráttukveðjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flottur pistill, Ómar, og tímabært að fjalla um þetta líka út frá hagsmunum sveitarfélaganna, fólksins og verkalýðsfélaganna. Sigmundur Davíð vék líka að því í þingræðum þennan föstudag hve mikið Austfirðingar ættu undir því að missa ekki raforku Fljótsdalsvirkjunar úr landi til hæstbjóðenda, valda þannig fjöldaatvinnuleysi þar eystra, ekki bara starfsmanna Fjarðaáls, heldur í ótal tengdum og þjónustustörfum.

Jón Valur Jensson, 25.5.2019 kl. 04:23

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Jón Þór Þorvaldsson er varamaður og vekur athygli sem stór góður "landsliðsmaður" Og ekki lýkur þingforseti fundinum,en hlýtur að flauta af kl.9,00 

Helga Kristjánsdóttir, 25.5.2019 kl. 08:51

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

 Þingfundur virðist hafa staðið yfir til kl. 10.26, Guðjón evrókrati Brjánsson (á forsetastóli) gaf sig ekki fyrr en þá.

Jón Valur Jensson, 25.5.2019 kl. 10:54

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Margir eru haldnir þeim mis­skiln­ingi, að Miðflokks­menn hafi komið í veg fyrir, að önnur mál væru rædd í þing­saln­um þessa daga og nætur. Þeir bjóða ekki aðeins stjórnarsinnum að fá orðið, jafnvel fram fyrir sig á mælenda­skránni, heldur hafa þeir bent þingforseta á, að vel megi gera hlé á umræðunni og taka önnur brýn mál fyrir (eins og fjármála­áætlun ríkis­stjórn­arinnar og 10 ára heilbrigðis­áætlun). Það er ekki á ábyrgð Miðflokksins, að þessar tillögur hans mæta bara þögninni.

En vel má fresta orkupakkaumræðunni fáeina daga, jafnvel fram í þarnæstu viku (þingfundir verða 3., 4. og 5. júní) og albezt þó, ef málinu (sem er alls ekki brýnt) yrði frestað til haustsins, þá væri hægt að vinna það mun betur og fá t.d. svör lögspekinga við nýjum spurningum sem hafa vaknað um gildi hins dularfulla "fyrirvara", sem Guðlaugur Þór játaði í gær að væri fólginn íóbirtri reglugerð á skrifborði Þórdísar Kolbrúnar í ráðuneytinu!

Jón Valur Jensson, 25.5.2019 kl. 11:33

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Jón og Helga.

Þetta mál er allt orðið hálf súrelaískt, eina sem vantar er að meina Miðflokksmönnum um vatn og brauð líkt og gert er við trega kardínála í páfakjöri. 

En fyrst þeir gefa sig ekki, þá verða menn að leita sátta á einhvern hátt. 

Málþóf er hluti af leikreglunum, og sá sem er í stjórn í dag, getur þurft að nota þetta vopn seinna þegar hann er í stjórnarandstöðu.

Þess vegna eiga menn að fara varlega í kúgun og yfirgang, það kemur alltaf í bakið fyrr eða síðar á fólki.

Ekki nema þessi svik séu það vel launuð með framtíðarbitlingum og öðru, að það ætli sér að hætta á þingi, og jafnvel leggja niður flokka sína í kjölfarið.

Enda hvað höfum við að gera við löggjafarþing, ef það er aðeins sjálfsafgreiðslustofnun fyrir regluveldi ESB??

Í stærra samhengi er þetta nefnilega prófmál á sjálfstæði þjóðarinnar, ef það má ekki virkja ákvæði EES samningsins um ágreining af ótta við harkaleg viðbrögð gagnaðilans, þá er ljóst að EES samningurinn er ekki lengur á milli tveggja sjálfstæðra aðila.

Og þá er eins gott að viðurkenna það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.5.2019 kl. 13:28

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar.

Það hefur komið fram í þessari Orkupakka 3 umdræðu um að við íslendingar verði að sýna hollustu og stuðning við vinaþjóðir okkar varðandi þennan orkupakka 3. Norðmenn eru þegar búnir að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með 8 fyrirvörum og hefur sú ákvörðun norska þingsins verði kærð til stjórnskipulagsdómstól Noregs.

Þá má einnig benda á að ESB hefur ekki haft neina ástæðu til að svara  Noregi um að þeir fyrirvarar sem þeir settu hafi nokkura þýðingu fyrir upptöku þeirra tilskipana sem eru í Orkupakka 3 í 16 mánuði.

Er ekki þögn ESB fólgin í því að ESB telur að þeir fyrirvarar séu einungis til heimbrúks, eins og fram hefur komið í málflutningi Miðflokksmanna í ræðum sínum á Alþingi undan farnar nætur og daga um fyrirvara íslenskra stjórnvalda um þennan Orkupakka 3.

Má ekki segja að best sé að hafna þessum Orkupakka 3, og senda hann til baka til sameiginlegrar nefndar EFTA ríkjanna og fá þar úr skorið hvort þessir fyrirvarar sem Noregur og Ísland hafa sett fyrir þessari innleiðingu í lög sinna ríka.

Má þá ekki á sama hátt segja að með því að hafna Orkupakkanum þá værum við að sýna frændum okkar og vinum í Noregi HOLLUSTUSTUÐNING. Því þá geta þeir fengið svör frá ESB um sína fyrirvara sem þeir hafa ekki fengið frá bandalagingu í 16 mánuði.

Einnig verður að segja að við séum að sýna HOLLUSTU til norðmanna með HÖFNUN pakkans, því þá gefst tækifæri á að dómsniðurstaða um lögmæti aflÉttingar á þeim stjórnskipulegum fyrirvörum sem norksa þingið aflétti gangvart þessum Orkupakka 3  verði komin fram. En niðurstöðu  er vænst 23. sepetember 2019.

Eggert Guðmundsson, 25.5.2019 kl. 15:17

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Athyglisverð pæling um hvernig við sýnum Norðmönnum sem mestu hollustuna, það er fyrir þá sem telja slíka hollustu rök í málinu.

Auðvita vitum við að tilvísun í hana er málflutningur þeirra sem treysta málinu ekki á eigin forsendum, og þurfa því ytri skýringar á stuðningi sínum.

En gott og vel, þá liggja bara öll vötn til Dýrafjarðar og gildir því einu hver rökin eru fyrir frestun málsins.

Varðandi fyrirvarana og heimabrúkið, þá ættu öllum heilvita að vera ljóst, að til þess að fyrirvara hafi lögformlegt gildi, þá þurfa þeir að koma fram í lagatexta viðkomandi tilskipunar, annað er kaos óreiðunnar, bæði ókleyft að fara eftir viðkomandi reglugerð, sem og að dómsstólar geta ekki skorið úr um ágreining út frá lagatextanum.

Hvar byrja réttaráhrif fyrirvarana og hvar enda þau, hvar gildir hinn samevrópski lagatexti og hvar taka fyrirvarar þjóðþinga við. 

Og til hvers að setja sameiginlegar reglur, ef einstök aðildarríki komast upp með að fara aðeins eftir því sem hentar þeim, og geta sett einhliða fyrirvara um annað??

Þetta er rökhugsun sem gengur ekki upp á neinn hátt, en ef til er skýrt dómafordæmi um hvernig einhliða fyrirvara halda. Og reglur um hvernig frá þeim er gengið svo enginn vafi ríki um að þeir séu til staðar og gildir, þá skal ég viðurkenna að einhver vitglóra er í þessum málflutningi, en allt sem er vitað er einmitt þvert á móti, og engin dæmi um gagnsemi fyrirvara dregin uppúr hatti töframannsins.

Sem ætti eiginlega að segja allt sem segja þarf.

Ég held eiginlega að skömm þeirra sem láta blekkjast af svona málflutningi, sé mun meiri en skömm þeirra sem reyna að blekkja með honum.

Þó menn séu flokkshollir þá á að vera takmörk fyrir öllu sem þeir kjósa að trúa.

Eða það finnst mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.5.2019 kl. 15:56

8 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar- mér sýnist við vera tala sama rómi varðandi þessa "lagalegu fyrirvara" Auðvitað þurfa þeir að vera fastbundnir í samningum á milli aðila.

En önnur pæling er varðandi þessa fyrirvara Noregs og Íslands. Nú þurfa EFTA ríkin að innleiða samhljóma þessa tilskipun ESB þ.e. Orkupakka 3.

En þegar Noregur með átta fyrirvara  og Ísland með sinn eina og Liechtenstein engan- þá er ekki samhljómur í innleiðingu þessara ríkja inn í sín landslög.

Hefur þú skoðun á hvernig ESB muni taka á þessu ósamræmi EFTA ríkjanna í innleiðingunni og mögulega senda þetta aftur til baka til Noregs og Íslands, eins og Hollendingar gerðu í ICESAVE deilunni með fyrirvara íslendinga.

Eggert Guðmundsson, 25.5.2019 kl. 17:21

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Ég þekki ekki norsku fyrirvarana en mér finnst ákaflega líklegt ESB láti gott heita með íslenska fyrirvarann að sinni. 

Regluverkið sem slíkt er hugsuð fyrir hindrunarlaus viðskipti, og á meðan enginn vill leggja sæstreng þá eru engin viðskipti yfir landamæri.  En þegar einkafyrirtæki vilja leggja í þessa framkvæmd, jafnvel að undirlægi stjórnvalda þar sem hinn endinn á að koma á land, þá verður látið reyna á þennan fyrirvara og mér finnst líklegra að dæmt verði eftir lagatextanum en yfirlýsingu, því annað er atlaga að regluverkinu sem fyrirtækin á hinum innra markaði hafa til hliðsjónar í ákvarðanatöku sinni.

En í stærra samhengi, hvort ESB leyfi EES ríkjum að samþykkja regluverk með einhliða fyrirvörum er ekki gott að segja, það á ennþá að heita lýðræði og því kannski ekki klókt að ögra almenningi viðkomandi ríkja um of, en hins vegar er það ekki viðunandi að regluverkið virki ekki.

Hvert er til dæmis fordæmið þegar kemur að því samþykkja pakka númer 4 og 5??

Og hver eru skilaboðin til fyrirtækja á hinum innri markaði ef þau geta ekki treyst regluverkinu, heldur þurfi að setja sig inní framkvæmd þess í einstökum löndum??  Var samræmingin, ein regla, einn markaður, ekki hugsað til að koma í veg fyrir slíkan ruglanda??

Hinsvegar er þetta ekki alveg sambærilegt og þegar Hollendingar höfnuðu sem betur fer fyrirvörum Alþingis við Svavars samninginn, því þar var um undirritaðan samning að ræða.

Allavega má taka undir með gömlu brýnunum í Bachman Turner Overdrive, You ain´t see nothing yet.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.5.2019 kl. 17:54

10 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar.

Já satt segir þú. Það verður spennandi að sjá fyrirvarann sem íslensk stjórnvöld setja við 4 og 5 orkupakka eftir að hafa innleitt orkupakka 3.

Ég tel að þú muni umræðan á Alþingi ekki snúa um fyrirvara, heldur muni umræðan snúast um hverning við gætum losnað sem léttast undan þessu samningssambandi eins og bretar hafa reynt undanfarin ár.

Eggert Guðmundsson, 25.5.2019 kl. 21:09

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Eigum við ekki að segja Eggert að stríðið um EES hefjist um leið og Miðflokkurinn þarf að fara að sofa.

Ég græt það ekki, ég hef haft skömm á þessum samningi frá því að hann var skálkaskjól illmenna upp við Kárahnjúka.

Stríði um hann verður þriðja sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar, sú fyrsta endaði með fullveldinu, önnur með stofnun lýðveldisins og sú þriðja var að endurheimta aftur forræðið yfir eigin málum úr klóm yfirþjóðlegs regluverks.

Þessi barátta verður ekki umflúin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.5.2019 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 76
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 1635
  • Frá upphafi: 1321527

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1393
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband